Erla Doris Halldórsdóttir - verkefnalýsing

Kyngervi í íslensku heilbrigðiskerfi 1760-1880
Leiðbeinandi: Már Jónsson
Viðfangsefni rannsóknar minnar felur í sér athugun á því hvernig tvær heilbrigðisstéttir mótast með tilliti til kyns. Önnur séttin, læknastétt var eingöngu skipuð körlum og ljósmóðurstétt eða yfirsetukvennastétt var skipuð bæði konum og körlum. Báðar stéttirnar eiga sér langa sögu.

Læknastétt átti síðar eftir að verða blönduð konum og körlum en ljósmóðurstétt eingöngu skipuð konum þegar líða tók á 20. öld. Til skoðunar í rannsókn minni eru árin 1760 til 1880. Árið 1760 miðast við stofnun landlæknisembættisins á Íslandi og koma Bjarna Pálssonar landlæknis til Ísland, en eitt af hlutverkum hans var að kenna konum yfirsetukvennafræði og körlum læknisfræði. Endapunktur rannsóknarinnar er árið 1880. Lög um skipun á læknishéruðum á Íslandi gengu í gildi 15. október 1875 og fyrstu yfirsetukvennalög á Íslandi sem gengu í gildi 1. ágúst 1876. Þegar fyrrgreind lög, um skipun á læknishéruðum gengu í gildi árið 1875, fengu læknar óskoað vald til að beita fæðingartöngum ef þær aðstæður komu upp í fæðingu sem kröfðust slíkarar aðgerðar. Þegar yfirsetukvennalög gengu í gildi árið 1876, gat engin kona verið skipuð yfirsetukona nema að hún hefði verið við nám og gengist undir próf, annað hvort á hinni konunglegu fæðingarstonfun í Kaupmannahöfn eða hjá landlækni í Reykjavík, héraðslækni í Stykkishólmi, Ísafirði, Akureyri eða Eskifirði. Ein undantekning var gerð á þessum síðastnefndu lögum. Samkvæmt 9. grein gat sýslunefnd, með ráði læknis sett til bráðabirgða yfirsetukonu, ef ekki fékkst lærð yfirsetukona. Í ljósi þessarar undanþágu eru dæmi þess að ólærðir karlar í yfirsetukvennafræðum, hafi verið settir sem yfirsetumenn.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is