Ísland í síðari heimsstyrjöld – eru öll kurl komin til grafar?

Í Hamri 202, laugardaginn 21. maí kl. 9.00-10.30.

Síðari heimsstyrjöld og áhrif hennar á íslenskt samfélag hefur löngum verið sérstakt áhugaefni meðal sagnfræðinga. Styrjöldin hafði mikil áhrif á fjölmarga þætti íslensks samfélags og breytingarnar á samfélaginu urðu á margan hátt varanlegar.  Út hafa komið allmörg sagnfræðirit og greinar þar sem heimsstyrjöldin er í forgrunni með einum eða öðrum hætti. Margar þeirra byggja á heimildum sem varðveittar eru í skjalasöfnum.

Á málstofunni verður rætt um þau gögn, er varða síðari heimsstyrjöld og hernámið. Einkum þau sem varðveitt eru í Þjóðskjalasafni Íslands og hvernig þau nýtast til nýrra rannsókna. Sérstaklega verður fjallað um gögn er varða hið svokallað Ástand og hins vegar um handtökur ritstjóra Þjóðviljans 1941.

Samkvæmt lögum eru viðkvæm gögn lokuð í 80 ár frá tilurð þeirra. Gögn er varða viðkvæm mál frá fyrri hluta styrjaldaráranna eru því opin almenningi til skoðunar. Þó fræðimenn hafi áður fengið heimild til að rannsaka þessi gögn með sérstöku leyfi, hafa ýmsar takmarkanir verið á notkun gagnanna, einkum vegna persónuverndarsjónarmiða.

Yfirskrift málstofunar vísar til þess að í Þjóðskjalasafni Íslands er varðveitt gríðarlegt magn skjala, sem snerta þetta viðburðaríka tímabil í sögu landsins með ólíkum hætti. Skjalaskrár vísa ekki nema að hluta þessara gagna og því líklegt að ekki séu öll kurl komin til grafar þegar leitað er gagna um styrjaldarárin. Í fyrirlestrunum verður meðal annars farið yfir það flækjustig sem er fólgið í leit að gögnum í skjalasöfnum og hvernig skjalasöfn geta brugðist við kröfu fræðimanna til að gera gögn aðgengilegri en nú er.

 

Fyrirlestrar

  • Unnar Rafn Ingvarsson. „Leitin að stríðsgögnunum“
  • Benedikt Eyþórsson. „Ástandið í Þjóðskjalasafni Íslands“
  • Skafti Ingimarsson. „Andstaðan við hernámið – Fangelsun ritstjórnar Þjóðviljans 1941 í ljósi nýrra heimilda“

Málstofustjóri: Unnar Rafn Ingvarsson.

Útdrættir

Unnar Rafn Ingvarsson, fagstjóri Þjóðskjalasafni Íslands.

Fjallað verður um átak við endurskráningu og miðlun gagna frá tímum síðari heimsstyrjaldar sem varðveitt eru í Þjóðskjalasafni Íslands. Gríðarlegt magn skjala eru varðveitt frá þeim tíma og í skjalasöfnum flestallra opinberra aðila á Íslandi eru gögn sem varða styrjöldina og afleiðingar hennar. Nú eru ríflega 80 ár frá upphafi heimstyrjaldarinnar. Lög um opinber skjalasöfn kveða á um að sá tími þurfi að vera liðinn uns almenningur fær aðgang að viðkvæmum persónugögnum og því mun aðgengi almennings að þessum heimildum nú verða mun rýmra en verið hefur.  

Rætt verður um tengsl ólíkra skjalasafna og hversu flókin leit að einstökum gögnum getur verið og jafnframt hversu mikilvægt það er að taka þessi skjalasöfn til endurskráningar og miðlunar.  Fjallað verður sérstaklega um gögn sem tengjast ótta Íslendinga við njósnir fyrir stríð og viðbrögð við þeim og rætt um heimildir sem ekki hafa komið fyrir almennings sjónir. 

Benedikt Eyþórsson, fagstjóri Þjóðskjalasafni Íslands.

Skjöl um samskipti íslenskra kvenna og erlendra hermanna á árum seinni heimstyjaldar er að finna í hinum ýmsu skjalasöfnum sem varðveitt eru í Þjóðskjalasafni. Má þar m.a. nefna skjöl frá dóms- og kirkjumálaráðuneyti, forsætisráðuneyti og utanríkisráðuneyti, Barnaverndarráð Íslands, Sakadómi Reykjavíkur, Vinnuhælinu á Kleppjárnsreykjum og Ungmennaeftirliti ríkisins sem Jóhanna Knudsen veitti forstöðu. 

Skjalasafn Jóhönnu Knudsen var afhent Þjóðskjalasafni til varðveislu haustið 1961 gegn því skilyrði að það yrði lokað og innsiglað næstu 50 árin. Skjalabögglarnir voru skilmerkilega geymdir og ekki opnaðir fyrr en árið 2011. Kom þá í ljós að hér var ekki um að ræða einkaskjalasafn Jóhönnu heldur í raun opinbert skjalasafn Ungmennaeftirlits ríkisins. Í framhaldi af því að skjölin urðu aðgengileg vaknaði áhugi á að rannsaka þau og hefur í sjö tilvikum verið veittur rannsóknaraðgangur að skjölunum ásamt öðrum gögnum sem tengjast ástandinu. 

Hefur það leitt til þess að umtalsverð þekking á þessum skjölum hefur byggst upp í safninu og mikilvæg og áhugaverð skjöl hafa komið í leitirnar sem áður voru ekki kunn. Í erindinu verður gerð grein fyrir þeim skjölum sem varðveitt eru og tengjast ástandinu. Farið verður yfir stöðu rannsókna og bent á heimildir sem gætu varpað nýju ljósi á málin. 

Skafti Ingimarsson, sagnfræðingur.

Handtökur og fangelsun ritstjóra og blaðamanna Þjóðviljans vorið 1941 er meðal þekktustu atburða stríðsáranna á Íslandi. Í fyrirlestrinum fjallar Skafti Ingimarsson sagnfræðingur um þessa sögufrægu atburði út frá nýjum frumheimildum sem hafa fundist í íslenskum og erlendum skjalasöfnum og bréfum úr einkaskjalasöfnum Einars Olgeirssonar, fyrrverandi alþingismanns, og Sigurðar Guðmundssonar, fyrrverandi blaðamanns. Heimildirnar varpa nýju ljósi á samskipti íslenskra og breskra stjórnvalda vegna málsins og þá togstreitu sem einkenndi sambúð Íslendinga og setuliðsins á stríðsárunum.