Header Paragraph

Varði doktorsritgerð um handritasöfnun Jóns Sigurðssonar

Image
""

Bragi Þorgrímur Ólafsson hefur varið doktorsritgerð í sagnfræði við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber titilinn „Í útlendra höndum. Jón Sigurðsson og handritasöfnun á Íslandi 1840-1880.“ Andmælendur við vörnina voru dr. Guðmundur Hálfdanarson, prófessor við Háskóla Íslands, og dr. Simon Halink, sérfræðingur við Frísnesku akademíuna í Hollandi. Doktorsritgerðin var unnin undir leiðsögn dr. Más Jónssonar, prófessors við Háskóla Íslands. Einnig voru í doktorsnefnd dr. Margrét Eggertsdóttir, rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, og dr. Sigurður Gylfi Magnússon, prófessor við Háskóla Íslands.

Steinunn Kristjánsdóttir, forseti Sagnfræði- og heimspekideildar, stjórnaði athöfninni sem fór fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands 25. febrúar síðastliðinn. (Smellið hér til að skoða myndir frá vörninni).

Um rannsóknina

Í doktorsritgerð sinni fjallar Bragi um handritasöfnun Jóns Sigurðssonar forseta. Markmið rannsóknarinnar er þríþætt. Í fyrsta lagi að varpa ljósi á tilgang söfnunarinnar og þá hvata er lágu þar að baki, í öðru lagi að skoða þær deilur er spruttu í kjölfar hennar og loks að kanna viðbrögð við þeim eins og þau birtust á opinberum vettvangi, í bréfaskiptum Jóns Sigurðssonar og samferðarmanna hans, og í aðbúnaði varðveislustofnana á Íslandi.

Stuðst er við ævisögulega nálgun (e. biographical approach) og til greiningar er notast við kenningar Pierre Bourdieu um menningarlegt auðmagn (e. cultural capital), hið svokallaða þriggja þrepa líkans Miroslavs Hroch um þróun þjóðernishreyfinga (e. three-phase model of national movements), líkan Joeps Leerssen um ræktun menningar (e. cultivation of culture) og kenningar um atbeini (e. agency).

Heimildir ritgerðarinnar samanstanda af bréfasöfnum Jóns og samferðamanna hans, skjalasöfnum Alþingis, Hins íslenska bókmenntafélags, Landsbókasafns og Forngripasafns, fundargerðabókum Kvöldfélagsins og annarra félaga, Alþingistíðindum, ferðabókum og frásögnum erlendra aðila er komu hingað til lands á átjándu og nítjándu öld, greinum, ræðum og ritverkum Jóns og blöðum og tímaritum er komu út á rannsóknartímabili ritgerðarinnar sem miðast við tímabilið 1840–1880.

Um doktorinn

Bragi Þorgrímur Ólafsson er með BA-próf í sagnfræði frá Háskóla Íslands og MA-próf í opinberri stjórnsýslu og stefnumótun frá sama skóla. Hann starfar sem fagstjóri handritasafns við Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn.

Image
""