Útgáfa og miðlun

Image
""

Á vegum Sagnfræðistofnunar koma út þrjár ritraðir. Sagnfræðirannsóknir - Studia historica er röð fræðirita sem Sagnfræðistofnun hefur gefið út síðan 1972, nú síðast í samvinnu við Háskólaútgáfuna. Ritstjóri er Már Jónsson. Ritsafn Sagnfræðistofnunar er ritröð styttri sagnfræðiverka sem hefur komið út síðan 1979. Ritstjóri er Guðmundur Jónsson. Í Heimildasafni Sagnfræðistofnunar eru gefnar út ritheimildir af ýmsum toga um íslenska sögu, t.d. bréf, dagbækur, sjálfsævisögur og dómasöfn. Ritstjóri er Anna Agnarsdóttir.

Miðstöð einsögurannsókna, sem heyrir undir Sagnfræðistofnun, gefur út ritröðina Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar.

Auk þess gefur Sagnfræðistofnun út stakar bækur utan ritraða. Háskólaútgáfan annast útgáfu og sölu flestra rita Sagnfræðistofnunar en einnig eru ritin til sölu í vefverslun Forlagsins og helstu bókabúðum.

Á Söguslóðum - Vef um íslenska sagnfræði, er miðlað alls konar rafrænu efni um íslenska sögu og sagnfræði. Þar er að finna upplýsingar um heimildir, ritaskrár, gagnasöfn, vefsíður, rannsóknaverkefni o.fl.

Sagnfræðistofnun hleypti nýlega af stokkunum hlaðvarpinu Baðstofan í umsjón þriggja nemenda í BA-námi, Steinunnar Sigþrúðardóttur Jónsdóttur, Þórhildar Elísabetar Þórsdóttur og Bergdísar Klöru Marshall. Hlaðvarpið er liður í átaki Sagnfræðistofnunar til að skapa nýstárlegan vettvang fyrir miðlun sagnfræði til almennings með áherslu á lifandi og aðgengilega umfjöllun.

 Á Facebook-síðu Sagnfræðistofnunar er að finna fréttir af starfi stofnunarinnar.