Alþjóðlegt málþing: Minningin um 1918 og fullveldið

Alþjóðlegt málþing: Minningin um 1918 og fullveldið: Upplausn heimsvelda, stofnun nýrra ríkja og arfleifð fyrri heimsstyrjaldar. Fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands, föstudaginn 23. Nóvember 2018, kl. 13.00-17.00.

 Í tilefni þess að hundrað ár eru liðin frá lokum fyrri heimsstyrjaldar verður haldið alþjóðlegt málþing föstudaginn 23. nóvember 2018. Annars vegar verður fjallað um það ofbeldi sem ófriðurinn leysti úr læðingi og hugmyndir um fullveldi, ríkisborgararétt og ríkjamyndun eftir fall heimsvelda. Hins vegar verður sjónum beint að áhrifum stríðsins á fullveldi Íslands og aðskilnaðinn við Danmörku.  Rannsóknarsetrið EDDA og Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands standa að málþinginu í samvinnu við sendiráð Frakklands og Þýskalands í Reykjavík. Tveir heimsþekktir erlendir fræðimenn munu flytja þar erindi: Robert Gerwarth, prófessor í nútímasögu við University College Dublin (UCD), ræðir upplausn heimsvelda í lok stríðsins, sem leiddi til þess að ný sjálfstæð ríki komu til sögunnar. Þar verður áhersla lögð á að víkka út sjónarhornið með því að fjalla um hringrás ofbeldis sem hófst fyrir styrjöldina og lauk ekki fyrr en fimm árum eftir hana. Annette Becker, prófessor í nútímasögu við Parísarháskóla – Ouest Nanterre La Défense, fjallar um aldarlangt minni um stríðið og hina dauðu og víkur að þáttum eins og sorg, flóttamönnum, friðarhyggju og fórnfýsi sem hún tengir við mótun evrópskra sjálfsmynda.

 Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, heldur inngangserindi á málþinginu um arfleifð ófriðarins og hlutverk sagnfræðinga og þjóðhöfðingja í að viðhalda minningunni um hann. Ragnheiður Kristjánsdóttir, dósent í sagnfræði við HÍ, ræðir þróun þegnréttar og takmarkanir á kosningarétti á alþjóðavísu eftir að lög voru sett sem veittu konum víðtæk stjórnmálaréttindi eftir fyrri heimsstyrjöld. Þar verður hugað að mismunandi skilyrðum sem stjórnvöld í ólíkum ríkjum settu til að ákveða hverjir skyldu teljast fullgildir borgarar. Valur Ingimundarson, prófessor í samtímasögu við HÍ, fjallar um áhrif ófriðarins á sjálfstæðisbaráttu og viðurkenningu nýrra ríkja, þar sem áhersla verður lögð á pólitísk og lagaleg álitamál sem fylgja aðskilnaði frá „móðurríkinu“. Sveinn M. Jóhannesson, nýdoktor við Institute of Historical Research, School of Advanced Study við University of London, beinir sjónum að áhrifum fyrri heimsstyrjaldar á ríkisþróun í Bandaríkjunum, þar sem færð verða rök fyrir því að stríðsárin hafi haft í för með sér viðamiklar breytingar á ríkisvaldinu, einkum á sviði neyðarstjórnunar og eftirlits með borgurunum. Ragnhildur Helgadóttir, prófessor í lögfræði við Háskólann í Reykjavík, fjallar um fullveldishugtakið í íslenskri orðræðu á fyrstu tveimur áratugum 20. aldar og veltir síðan fyrir sér hugsanlegum áhrifum stjórnmálumræðu þess tíma á lagatúlkun í samtímanum, einkum í tengslum við Evrópusamvinnuna. Guðmundur Hálfdanarson, prófessor í sagnfræði við HÍ, fjallar um breytingar sem urðu á afstöðu manna til fullveldis Íslands á stríðsárunun. Sumir töldu hugmyndina fráleita, en aðrir að hún endurspeglaði óskoraðan rétt. Gunnar Þór Bjarnason, sagnfræðingur, skoðar aðdraganda þess að Ísland varð fullvalda ríki árið 1918 og spyr hvort þeim áfanga hefði verið unnt að ná án fyrri heimsstyrjaldar. Anna Agnarsdóttir, prófessor emerítus í sagnfræði við HÍ, stjórnar málþinginu, en það verður haldið í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins kl. 13.00–17.00. Það fer fram á ensku og er opið öllum meðan húsrúm leyfir.

Dagskrá málþingsins má finna hér.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is