Fullveldi Íslands í 100 ár: Hugsjón og reynd

Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, Sögufélag og Háskólinn í Reykjavík efna til fundaraðar í nóvember með yfirskriftinni Fullveldi Íslands í 100 ár: Hugsjón og reynd. Tilgangur fundanna er að taka til umræðu fullveldishugmyndina í íslenskum stjórnmálum, þýðingu fullveldis fyrir samfélagsþróun á Íslandi og spurninguna um hvort þrengt hafi verið að fullveldi Íslands á síðustu áratugum.

Fundaröðin tengist útgáfu bókarinnar Frjálst og fullvalda ríki: Ísland 1918–2018 sem kom út 8. nóvember 2018. Sögufélag gefur bókina út í samstarfi við Afmælisnefnd aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands. Í henni eru 10 greinar eftir 13 höfunda, lögfræðinga, sagnfræðinga og stjórnmálafræðinga sem skoða fullveldið frá ólíkum fræðilegum sjónarhornum.
 
Fundirnir eru þrír og eru haldnir í Norræna húsinu dagana 14., 21. og 26. nóvember kl. 17.00–18.15. Fjórir fræðimenn og stjórnmálamenn flytja stutttar framsögur þar sem fengist er við mikilvægar spurningar um fullveldið í hugsjón og reynd. Á eftir eru almennar umræður.

Allir velkomnir.
 

Dagskráin er sem hér segir:

14. nóvember Fullveldið í reynd: Hvaða gagn hafa Íslendingar haft af fullveldinu?
Höfðu Íslendingar burði til að annast þær skyldur og verkefni sem fullvalda ríkjum var ætlað að sinna? Hefðu Íslendingar ef til vill verið betur settir með því að vera áfram í dönsku ríkisheildinni? Hvaða áhrif hafði fullveldi á stjórnmál og samfélagsþróun á Íslandi?

Þátttakendur: Guðmundur Jónsson prófessor í sagnfræði, Skúli Magnússon héraðsdómari, Rósa Björk Brynjólfsdóttir alþingismaður og Gunnar Helgi Kristinsson prófessor í stjórnmálafræði. Fundarstjóri: Stefanía Óskarsdóttir, dósent í stjórnmálafræði.

21. nóvember Fullveldi: Hvað er það?
Er til ein kjarnamerking hugtaksins fullveldi eða eru skoðanir skiptar um inntak þess? Hefur fullveldishugtakið breyst síðan 1918? Er skilningur Íslendinga á fullveldishugtakinu frábrugðinn því sem gerist í nágrannalöndum?

Þátttakendur: Guðmundur Hálfdanarson, prófessor í sagnfræði, Ragnhildur Helgadóttir prófessor í lögum, Birgir Ármannsson alþingismaður og Magnús K. Hannesson lögfræðingur. Fundarstjóri: Eiríkur Bergmann Einarsson, prófessor í stjórnmálafræði

26. nóvember Fullveldið í hættu?
Hefur fullveldi Íslands einhvern tíma verið verulega skert síðan 1918? Er hætta á að Ísland glati fullveldinu í hendur ESB? Hvaða áhrif hefur það á fullveldið ef hluti valdheimilda ríkisins er framseldur annað?

Þátttakendur: Silja Bára Ómarsdóttir dósent í stjórnmálafræði, Finnur Magnússon lögmaður og aðjúnkt í lögfræði, Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir alþingismaður. Fundarstjóri: Guðmundur Magnússon, blaðamaður

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is