Landnám og þróun byggðar

Í Hamri 202, laugardaginn 21. maí kl. 13.30-15.00.

Í þessari málstofu verður umfjöllunarefnið hvernig landið byggðist og hvernig byggð þróaðist í landinu.  Tekið verður mið af örnefnum, landkostum, fornleifafræði og landnytjum og vissulega notast við ritaðar heimildir eins og t.d. fornbréf, sögur og Landnámabók. Hvað geta fornleifaheimildir og ritheimildir sagt nýtt um þróun landnáms þegar þær eru lagðar saman? Hvað gefa 15. aldar heimildir um hálfkirkjur og bænhús til kynna um stéttagerð landnámsaldar? Hvað segja forn garðlög um landhelgun og landamerki? Hvernig myndaðist kjarni byggðar og skipulag og hvað er hægt að segja um þróun byggðar í landinu? Má sjá merki um pólítísk áhrifasvæði og hugmyndir manna um yfirráð lands?  Um landnám hófu menn að rita snemma á ritöld. Frá 13. og 14. öld eru varðveittar lýsingar á landnámi (byggðar á eldri texta frá 12.öld) þ.e. í varðveittum gerðum Landnámu og einnig eru landnámslýsingar í fjölmörgum Íslendingasögum sem eru frá 13.og 14.öld og jafnvel síðar.  Þessi vitneskja um landnám og landnámsmörk eru að mestu samhljóða en þó má sjá athyglisverð frávik milli gerða Landnámu.  Þessi munur getur gefið vísbendingar um þróun byggðar og samfélags.  Er hægt að sjá merki um hagsmuni 13. og 14. aldar manna í þessum landnámsmörkum?  Farið verður víða um landið í leit að svörum, um landnám Ingólfs á suðvesturhorninu, Hrunamannahrepp, Eyjafjörð og víðar. Leitað verður svara við ýmsum álitamálum og settar fram tilgátur og ný sjónarhorn.

Fyrirlesarar:

  • Auður Ingvarsdóttir.Landnámsfrásagnir Melabókar
  • Árni Daníel Júlíusson. „Landnám og byggðaþróun í Eyjafirði ca. 870 til 1400“
  • Helgi Skúli Kjartansson. „Landnám í Hrunamannahreppi“
  • Helgi Þorláksson. „Landnáma og „landnám Ingólfs““

Málstofustjóri: Axel Kristinsson.

Útdrættir

Landnámsfrásagnir Melabókar 

Frásagnir af landnámum er samkenni í öllum gerðum Landnámu en slíkar landnámsfrásagnir má líka sjá í fjölmörgum Íslendinga sögum.  Þar er oftast um verulegan samhljóm að ræða og samræmda þekkingu.  Það er forvitninlegt að  skoða þá kafla þar sem landnámsmörk einnar gerðar Landnámu þ.e. Melabókar hafa auðsýnilega verið annars konar en í hinum gerðunum.   Fræðimenn gera nær ávallt ráð fyrir breytingum Sturlu Þórðarsonar í hagsmunaskyni, vegna áhrifa frá einhverri sögu eða jafnvel vegna betri staðþekkingar.  Oft er þetta þó nokkuð óljóst en fyrst og fremst er gengið út frá því sem „staðreynd“ að hinn svo kallaði „fornlegi texti“ Melabókar hljóti að votta um eldri texta.  Landnámsfrásagnir Sturlubókar þurfi því að útskýra sem breytingar.  Nú hef ég um langt skeið efast um þennan meinta upprunaleika Melabókar.  Það er jafnan haft á orði þegar rætt er um forn rit eins og Landnámu að hún geti sagt ýmislegt  hugarfar og hagsmuni ritarans og samtíðar hans.  Hér hafa menn gjarnan nefnt Sturlu Þórðarson og hans hagsmuni, Melabók ætti að vera undir sömu sök seld.  Hún var sett saman á 14.öld og þau brot sem varðveitt eru teljast vanalega frá öndverðri 15.öld.  Sjáum við engin merki um hagsmuni þar eða hneigð?   Hér verður því sjónum beint að verklagi Melabókarritarans og hugsanlegri hneigð.   

Landnám og byggðaþróun í Eyjafirði ca. 870 til 1400. 

Á undanförnum árum hefur rannsóknum í því sem má ef til vill kalla þverfaglega umhverfissögu fleygt fram hér á landi. Svo mikið hefur gerst að kannski má tala um gjörbreytingu á nær öllum sviðum. Rannsóknir á ritheimildum um byggðasögu hafa haldist í hendur við stór fornleifafræðiverkefni, og að auki hafa vistfræðivísindi af ýmsu tagi, líffræðileg og jarðfræðileg, leikið æ stærra hlutverk í rannsóknum á mannvist. Nú er svo komið að unnt er að leggja fram rökstuddar hugmyndir um framgang landnáms og byggðaþróun á öllu tímabilinu 870 til 1400, byggðar á blöndu af rannsóknum á ritheimildum, fornleifarannsóknum og fornvistfræðirannsóknum. Í þessu erindi er hugmyndin að fjalla um hvað slíkar vísbendingar hafa að segja um framgang landnáms og þróun byggðar í nokkrum sveitum Eyjafjarðar. Héraðið hefur lengi fengið umtalsverða athygli fræðimanna, og þar hefur til að mynda verið unnin fornleifaskráning í öllum fornu hreppunum. Nýtt, stórt verkefni í þverfaglegum umhverfisvísindum hefur verið nú styrkt af RANNÍS og mun á næstu árum bæta umtalsvert við þá mynd sem þegar er komin fram af byggðaþróun á miðöldum þar.

Landnám í Hrunamannahreppi 

Landnámslýsing Hrunamannahrepps er torskilin vegna týndra örnefna (Másstaðir, Selslækur) og landnámsmörk óvænt: skýrari skil við Litlu-Laxá en sjálfa Hvítá. Lýsingin ber ekki með sér að landnámsmenn séu lesnir út örnefnum eða landnámsmörk úr sóknaskipan; hún gæti þess vegna geymt gamlar minningar. Þó líklega ekki minningar um allra fyrstu byggð; gegn því mælir a.m.k. fornbærinn í Hvítárholti. En gegnum landnámslýsinguna má, með stuðningi af bæjanöfnum (eins og „Seljum“ í miðri sveit) og kirkjuskipan (eins og bænhúsi sem þjónað var frá kirkju handan Hvítár), grilla í byggðarstig þar sem byggðin var enn ekki samfelld um allan hreppinn heldur breiddist hún út frá nokkrum miðstöðvum, sumum innan sveitar, öðrum, að því er virðist, utan Hvítár þar sem byggð hefur þá verið eldri og höfðingdómur þróast fyrr. Væntanlega gerist þetta þannig að svæðum, sem áður voru nýtt frá höfuðbólunum, sé skipulega skipt niður í sjálfstæðar bújarðir. Ágiskanir um slíkt ferli í Hrunamannahreppi styðjast ekki við afgerandi vitnisburð en styrkjast af samanburði við önnur svæði. Vaxandi byggð hefur nýtt náttúruauðlindir í æ staðbundnari einingum. 

Landnáma og „landnám Ingólfs“ 

Frá um 1970 hafa fræðimenn almennt gagnrýnt Landnámu sem heimild um landnám og elstu byggð. Fimmtíu árum síðar virðist staðan sú að fræðimenn líta almennt svo á að Landnáma vitni fyrst og fremst um ritunartíma sinn, á 13. öld og um 1300 og þar með um skoðanir fólks á þessum tíma um landnámið. Það hljóti allt að vera ótraust um landámið en geti verið forvitnilegt um hugmyndir13. aldar manna. Engu að síður er algengt enn á okkar tímum að verða vitni að allmikilli trú á vitnisburð Landnámu um elstu tíð, svo sem í nýlegum héraðssöguritum og árbókum Ferðafélags Íslands. Þaðan berst slíkur fróðleikur í bæklinga fyrir ferðamenn og á upplýsingaskilti. Vandinn er sá að þeir sem vilja nýta Landnámu um elstu tíð þurfa að gera það með frambærilegum rökum, kanna aldur gerða, reyna að átta sig á Frumlandnámu um 1130, hvort efnið hafi verið þar, líta á ættartölur, mannanöfn, nýta fornleifarannsóknir, nýta örnefnarannsóknir, kanna náttúrukosti, landamerki/landnámsmörk ofl. Það er hægara sagt en gert og spurningar vakna um hvort þetta sé of mikil krafa og þeim sem semja árbækur og rita héraðssögur væri þess vegna ráðlegt að forðast vitnisburð Landnámu, sniðganga hann. Reynslan í hálfa öld bendir til að það geri þeir ekki sem „standa utan fræðanna“ heldur segi eitthvað á þá leið að „almennt“ geti vel verið að vitnisburður Landnámu sé sannur þrátt fyrir gagnrýni fræðimanna, þeir hafi ekki sýnt fram á hið gagnstæða. Þetta um „almennt“ stenst sjálfsagt ekki. En skiljanlegt er að mörgum þyki skrýtið að gengið sé þegjandi og hljóðalaust fram hjá Landnámu, málið sé ekki einu sinn rætt. Hérna skal því haldið fram að það geti verið tilraunar virði að kanna amk. hvort sía megi úr eitthvert efni Landnámu með rökunum sem nefnd voru og sýna að ekki verði færð fram bein rök fyrir að það sé tilbúningur. Því sem „ekki stóðst próf“ væri þá hafnað en ekki þar með sagt að allt hitt sé „satt“. Það þarf möo. meiri umræðu og meiri röksemdafærslu um einstök atriði í Landnámu og koma á samtali milli þeirra sem aðhyllast ólík sjónarmið. Með þetta í huga verður litið nánar á það sem nefnt hefur verið „landnám Ingólfs“.