Ólafur Arnar Sveinsson - verkefnalýsing

Sköpun sjálfsmyndar íslenskra innflytjenda í N-Ameríku
Leiðbeinandi: Guðmundur Hálfdanarson
Þegar vesturferðir Íslendinga áttu sér stað á tímabilinu 1870–1914 stóð fólk frammi fyrir miklum samfélagslegum breytingum. Líkt og aðrir innflytjendur í N-Ameríku urðu íslenskir vesturfarar að skapa sér sjálfsmynd í „nýja“ heiminum og skilgreina sig á nýjan hátt. Rannsókninni er ætlað að varpa ljósi á þessa sjálfsmyndarsköpun íslenskra innflytjenda í N-Ameríku á tímabilinu 1870–1930 og hvernig sú sjálfsmynd breyttist í tímans rás með nýjum kynslóðum og breyttum áherslum. Þannig er meginmarkmiðið að kanna hvernig innflytjendahópar og afkomendur þeirra skilgreina sjálfa sig, bæði gagnvart gamla og nýja landinu. Verkefnið er lagt upp sem rannsókn á sviði hugmyndasögu, þar sem hugmyndir fræðimanna um sjálfsmyndir, þjóðerni, sögu og minni og þjóðrækni verða lagðar til grundvallar. Þá leika persónulegar heimildir, þ.e. sendibréf og dagbækur, stórt hlutverk. Þar sem vesturferðir til N-Ameríku á 19. og 20. öld voru ekki séríslenskt fyrirbæri, þá er mikilvægt að setja rannsóknarefnið í alþjóðlegt samhengi. Því er mikilvægur hluti verkefnisins að kanna sjálfsmyndir annarra þjóðfélagshópa í N-Ameríku sem fluttu vestur á sama tímabili og þannig greina á dýpri og yfirgripsmeiri hátt sjálfsmyndarsköpun Íslendinga í N-Ameríku.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is