Saga

Sagnfræðistofnun var komið á fót með reglugerð menntamálaráðuneytis 13. apríl árið 1971 og var þá nefnd „rannsóknastofnun í sagnfræði“. Stofnunin hóf þó ekki starfsemi fyrr en í janúar 1972. Árið 1983 var nafni hennar breytt í Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands. Hlutverk Sagnfræðistofnunar hefur frá upphafi verið að annast grundvallarrannsóknir í sagnfræði, gangast fyrir ráðstefnum, námskeiðum og fyrirlestrum, og sjá um útgáfustarfsemi.

Í tilefni af 50 ára afmæli Sagnfræðistofnunar 2021 var haldin sýning í Þjóðarbókhlöðu þar sem stiklað var á stóru um starfsemi og starfsfólk hennar. Hér má nálgast sýningarskrána. Jafnframt fékk Sagnfræðistofnun Jakob Snævar Ólafsson sagnfræðinema til að skrifa um sögu stofnunarinnar sem meistararitgerð og nefnist hún „Í hringiðu sagnfræðinnar. Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands og íslensk sagnfræði 1971-2021“. Ritgerðina, lítillega stytta og lagfærða, er að finna hér.