Sagnfræðistofnun er rannsóknastofnun innan Hugvísindastofnunar með aðsetur í Árnagarði. Meginviðfangsefni hennar allt frá stofnun 1971 hefur verið að efla rannsóknir í sagnfræði og síðar einnig í hagnýtri menningarmiðlun.

Stofnunin gengst fyrir útgáfu, ráðstefnum, fyrirlestrum og hvers kyns annarri starfsemi sem stutt getur rannsóknir og kennslu á starfssviði hennar. Einnig annast stofnunin þjónusturannsóknir fyrir opinbera aðila eða einkaaðila. Stofnunin leggur áherslu á tengsl rannsókna og kennslu, samskipti við alþjóðlegt háskólasamfélag og virka þátttöku í íslensku þjóðlífi.

Innan Sagnfræðistofnunar er öflugt fræðasamfélag kennara og framhaldsnema. Doktorsnemar eru á þriðja tug og fá þeir þjálfun og reynslu í vísindalegum vinnubrögðum.

Norrænt þing sagnfræðinga 2025

Dagana 13.–15. ágúst 2025 verður 31. þing norrænna sagnfræðinga haldið í Reykjavík. Kallað verður eftir fyrirlestrum á haustmánuðum 2023.

Aðstandendur þingsins eru Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, Sagnfræðingafélagið og Þjóðskjalasafn Íslands í samvinnu við Félag íslenskra safna og safnamanna, Félag sögukennara og ReykjavíkurAkademíuna.

Nánari upplýsingar verða veittar þegar nær dregur.

 

Image
Reykjavík

Sýningin Heimsins hnoss: Lúinn kistill, silfurskeið og nærbuxur (með gati)

Opnuð hefur verið sýning í Þjóðminjasafninu á vegum rannssóknarverkefnisins Heimsins hnoss: Söfn efnismenningar, menningararfur og merking. Sýningin nefnist Lúinn kistill, silfurskeið og nærbuxur (með gati) og hún mun standa í Bogasal safnsins til 17. september 2023. Sigurður Gylfi Magnússon, prófessor í menningarsögu við Deild heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði, segir frá sýningunni og rannsókninni.