Ársskýrsla 1999
Um Sagnfræðistofnun. Samkvæmt reglugerð skal Sagnfræðistofnun m.a. annast rannsóknir, gangast fyrir ráðstefnum, námskeiðum, rannsóknaræfingum og fyrirlestrum og standa fyrir útgáfu.
Stjórnarskipan og starfsmenn. Stjórnina skipuðu framan af ári Helgi Þorláksson, sem gegndi starfi forstöðumanns, Loftur Guttormsson og fulltrúi stúdenta, Björn Ingi Hrafnsson. Hann lét af störfum síðsumars og við tók Guðrún Harðardóttir. Starfsmenn stofnunarinnar voru Rósa Magnúsdóttir á vormisseri og Eggert Þór Aðalsteinsson á haustmisseri. Þau hafa séð um sölu ljósritaðra kennslugagna og auk þess sá Rósa um skráningu aðfenginna rita sem varðveitt eru í Guðnastofu.
Gistifræðimenn og fyrirgreiðsla. Agneta Ney sem var gistifræðimaður við stofnunina 1998 kom aftur á haustmánuðum og nýtur fyrirgreiðslu sem gistifræðimaður stofnunarinnar veturinn 1999-2000.
Hrefna Róbertsdóttir sem stundar doktorsnám í Lundi nýtur fyrirgreiðslu sem gistifræðimaður í þrjá mánuði, desember –febrúar 1999-2000.
Jesse L. Byock hefur notið nokkurrar fyrirgreiðslu stofnunarinnar vegna tölvupósts.
Húsnæðismál og Hugvísindastofnun. Stofnunin hafði til ráðstöfunar herbergi við suðurgafl á þriðju hæð Árnagarðs þar sem var allgott vinnupláss fyrir þrjá og vel nýtanlegt fyrir fjóra. Við umskipti sem urðu með tilkomu Hugvísindastofnunar lét Sagnfræðistofnun af hendi þetta húsnæði sitt en fékk í staðinn herbergið Hafnir í Húnaþingi í Nýja Garði sem gæti td. nýst vel tveimur doktorsnemum en þar er núna einn. Í öðru lagi var útbúið í Nýja Garði sameiginlegt vinnupláss fyrir átta manns sem doktorsnemum í sagnfræði stóð til boða að umtalsverðu leyti og í þriðja lagi var gert ráð fyrir að sagnfræðin fengi að nýta af öðru sameiginlegu húsnæði í Nýja Garði og sú hefur orðið raunin. Doktorsnemum leist ekki á vinnuplássið þegar til kom en mál þeirra voru leyst á annan hátt, fimm doktorsnemar í sagnfræði nýta sér núna húsakynni Hugvísindastofnunar í Nýja Garði og von er til að þarna myndist örvandi samfélag fyrir þá. Í ljósi þess að umrætt húsnæði í Árnagarði var illa nýtt í upphafi árs virðist þetta viðunandi lausn.
Ekki hefur annað komið til tals en sagnfræðin nýti Guðnastofu í Árnagarði um ókomin ár, hvað sem húsnæðismálum líður að öðru leyti. Í stofunni hefur verið komið fyrir tveimur nýjum skápum til að taka við auknum bókakosti sem veldur skerðingu á vinnuaðstöðu. Hefur verið bent á það þegar rætt hefur verið um hlutdeild Sagnfræðistofnunar í sameiginlegu húsnæði Hugvísindastofnunar að Guðnastofa nýtist illa sem vinnupláss fræðimanna og æ verr eftir því sem bókakostur eykst.
Forstöðumaður situr í stjórn Hugvísindastofnunar sem réð sér framkvæmdastjóra á miðju ári. Verkefni hans hefur ma. verið að sinna húnæðismálum, framhaldsnámi og Hugvísindaþingi sem haldið var á sl. hausti og var vel sótt. Stefnt er að þverfaglegri samvinnu og hefur verið skipulögð málstofa í miðaldafræðum. Um samvinnu að öðru leyti er flest óráðið, enn sem komið er, en nokkur umræða hafin.
Fjármál. Framlag til Sagnfræðistofnunar var vanabundin upphæð, 1, 4 milljónir.
Allt fé stofnunarinnar fór sem fyrr um hendur bókhalds skólans (fjármálasviðs). Tekið hefur verið í notkun nýtt bókhaldskerfi og á miðju hausti fékk forstöðumaður sérstakt tölvuforrit sem gerir honum kleift að fylgjast með stöðu fjármála á eigin tölvu. Byrjunarörðugleikar hafa verið allmiklir hjá bókhaldi vegna þessara umskipta en færslur hafa verið að komast í rétt horf í desember og janúar. Virðist sem allt bókhald ætti að geta orðið miklu nákvæmara og skilvirkara ef vel tekst til og forstöðumenn, eða þeir sem sjá um fjármál stofnunarinnar, skrá jafnan rétta efnislykla á reikninga. Starfsmenn bókhalds hafa ekki farið fram á það en fagna hugmyndinni og virðist ráðlegt að huga frekar að þessu.
Útgáfumál. Ný rit. Skömmu fyrir áramót komu út tvær bækur á vegum stofnunarinnar. Önnur þeirra er Æska og saga. Söguvitund íslenskra unglinga í evrópskum samanburði og er 15. bindið í ritröðinni Sagnfræðirannsóknir. Höfundar eru Gunnar Karlsson og Bragi Guðmundsson og Gunnar er jafnframt ritstjóri ritraðarinnar. Fyrirheit hefur borist um 300.000 króna styrk til þessarar útgáfu frá Rannsóknarsjóði Háskólans á Akureyri. Hitt ritið er Ræður Hjálmars á Bjargi eftir Magnús Stephensen í útgáfu Arnar Hrafnkelssonar sem ritar inngang og birtir athugasemdir og skýringar. Þetta er fyrsta bindið í nýrri ritröð sem nefnist Heimildasafn Sagnfræðistofnunar og er Anna Agnarsdóttir ritstjóri.
Doktorsritgerðir kennara. Á árinu fékkst 300.000 króna styrkur af Gjöf Jóns Sigurðssonar til að gefa út doktorsritgerð Önnu Agnarsdóttur sem yrði fyrsta ritið í ritröð sem hefur vinutitilinn Doktorsritgerðir sagnfræðikennara á ensku. Athuga má um að birta þarna ennfremur annars konar viðamiklar ritgerðir íslenskra sagnfræðinga á heimstungum en hefur ekki verið rætt.
Erindi frá Norðurslóðaráðstefnu. Stjórn Sagnfræðistofnunar hafði samþykkt að eiga þátt í útgáfu erinda frá Norðurslóðaráðstefnu svonefndri sem haldin var 1998 að forgöngu Inga Sigurðssonar með aðild stofnunarinnar. Ætlunin var að framlag stofnunarinnar til útgáfunnar yrði einungis fólgið í vinnuframlagi Inga við ritstjórn, eins og fram kom í síðustu ársskýrslu, fyrir árið 1998, enda stóð til að Stofnun Vilhjálms Stefánssonar hefði einkum veg og vanda af útgáfunni með tilstyrk utanríkisráðuneytis og Sagnfræðistofnunar. Mál hafa skipast þannig að Sagnfræðistofnun hefur tekið að sér ábyrgð á undirbúningi útgáfunnar sem birtist í því að hún hefur fengið sérstakt viðfangsnúmer í bókhaldi Sagnfræðistofnunar. Ingi Sigurðsson hefur umsjón með fjárreiðum í samráði við forstöðumann. Háskólaútgáfan tekur að sér prentvinnu en á þessu stigi er hugmyndin að allar stofnanirnar þrjár, Sagnfræðistofnun, Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og ráðuneytið teljist útgefendur. Til útgáfunnar hefur safnast 1,1 milljón og til viðbótar er fyrirheit um 50.000 danskar krónur frá Norrænu ráðherranefndinni. Alls verða í ritinu 60 erindi, auk inngangs- og ávarpsorða, allt á ensku, og hefur Jón Skaptason yfirfarið málfar og lesið prófarkir.
Hefti fyrir heimsþingið. Stofnunin mun gefa út hefti með framlögum þátttakenda á hringborðsfundi um efnið Voyages and Exploration in the North Atlantic sem haldinn verður að frumkvæði Landsnefndar íslenskra sagnfræðinga á heimsþingi sagnfræðinga í Ósló í ár. Nánar um þingið aftar.
Verslunarsaga. Fyrirhuguð útgáfa rits um sögu íslenskrar utanlandsverslunar 900-2002 hefur þróast þannig að um verkefnið er á þessu stigi fjallað undir liðnum rannsóknarverkefni.
Grænlandsrit. Til stóð að stofnunin gæfi út rit með vinnutitlinum Grænland á miðöldum með ýmsum greinum og erindum á ensku þar sem uppistaða yrðu erindi frá þingi Sagnfræðingafélags á Grænlandi 1996. Um þetta var getið í síðustu ársskýrslu. Hugmyndin var að tengja útkomu ritsins hátíðarhöldum vegna 1000 ára afmælis landafunda enda skyldi líka fjallað um siglingar til Vesturheims. Forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins hafnaði beiðni um styrkveitingu en skrifstofa Landafundanefndar veitti vilyrði um 1,3 milljónir í lok mars en tók það síðan aftur ekki löngu síðar. Framkvæmdastjóri nefndarinnar vildi þó halda málinu vakandi og bað um frekari gögn sem send voru í byrjun maí en það bar ekki árangur. Reynt var að vekja áhuga forsvarsmanna einkafyrirtækis eins á útgáfunni en tókst ekki. Samið hafði verið við tvo sagnfræðinga um að annast ritstjórn verksins og semja rækilegan inngang en þar sem ekki var eðlilegt að halda þeim lengur í óvissu um framhaldið var horfið frá fyrirætlunum enda tími líka orðinn naumur.
Minningarfyrirlestur Jóns Sigurðssonar, koma Evu Österberg. Stjórn stofnunarinnar bauð Evu Österberg, prófessor í sagnfræði við Lundarháskóla í Svíþjóð, að koma til Íslands og flytja Minningarfyrirlestur Jóns Sigurðssonar og halda málstofu. Hún þá boðið og með henni í för var Catharina Stenqvist, dósent í guðfræði. Österberg hélt málstofu á vegum Sagnfræðistofnunar 8. október með kennurum, nemum og gestum um efnið Häxa, hora og bondhustru. Kvinnor under 1600-talet. Daginn eftir flutti hún minningarfyrirlesturinn í Hátíðarsal og nefndist hann Trust and kinship – premodern man in perspective. Á undan fyrirlestrinum minntist Guðmundur Hálfdanarson Jóns Sigurðssonar og naut við það aðstoðar Sigríðar Matthíasdóttur. Málstofan var vel sótt og fyrirlesturinn allþokkalega. Reynt var að vekja ahygli fjölmiðla á komu Österberg og tvö dagblöð áttu viðtöl við hana. Rektor veitti nokkurn styrk vegna komu hennar og sænski sendiherrann bauð til hádegisverðar.
Rannsóknarverkefni. Saga íslenskrar utanlandsverslunar 900-2002. Sjá ársskýrslu fyrir 1998. Sami undirbúningshópur starfaði áfram að verkefninu á vegum stofnunarinnar og í hlut þess kom forverkefnisstyrkur frá Rannís, 400.000 krónur. Hópurinn hélt marga fundi á árinu 1999. Í lok apríl hélt hann dagsfund í Skíðaskálanum í Hveragerði til að leggja á ráðin um verkefnið og ákveða rannsóknir. Hópurinn hélt kyningarfund á vegum Sagnfræðingafélags 11. maí en félagið gekk til samstarfs við hópinn um fyrirlestraröð sem nefndist Hvað er hagsaga? og var haldin í haust sem leið. Hópurinn réð sér starfsmann, Magnús Svein Helgason sagnfræðinema, og hélt vinnufund svonefndan í nafni Sagnfræðistofnunar í Norræna húsinu 23. október. Sérstakur kynningarblöðungur var prentaður og dreift til um 100 aðila í íslensku viðskiptalífi ásamt boði um að sækja fundinn og móttöku í kjölfar hans. Þessi fundur fékk rækilega kynningu í Morgunblaðinu. Hópurinn vinnur að því að færa sér vinnufundinn og kynninguna sem best í nyt við fjáröflun og nýtur til þess tilstyrks Margrétar S. Björnsdóttur, framkvæmdastjóra samskipta- og þróunarsviðs. 1. nóvember var sótt til Rannís um styrk til verkefnisins.
Reykholtsverkefni. Sagnfræðistofnun á formlega aðild að þverfaglegu verkefni sem tengist fornleifauppgrefti í Reykholti. Aðildin hefur einkum verið fólgin í þátttöku forstöðumanns í undirbúningsnefnd með fulltrúum Þjóðminjasafns og Snorrastofu. Þjóðminjasafn lagði fé til undirbúnings og NOSH og Rannís veittu forverkefnisstyrki. Guðrún Sveinbjarnardóttir er framkvæmdastjóri. Haldinn var fjölmennur þverfaglegur vinnufundur í Reykholti dagana 20. og 21. ágúst 1999 með þátttöku erlendra gesta þar sem verkefnið var skýrt og skilgreint. Boðið var um 40 manns, þar af voru sjö erlendir gestir. Stefnt er að frekari samvinnu við erlenda fræðimenn. Sagnfræðistofnun á aðild að styrkumsókn sem send var Rannís 1. nóvember sl. og tengist afmörkuðum verkþætti. Verkefnisstjóri þessa þáttar er Guðrún Gísladóttir í jarð-og landfræðiskor og aðrir þátttakendur Svavar Sigmundsson Örnefnastofnun og Widgren og Janson, landfræðingar við Stokkhólmsháskóla. Ætlunin er að ráða stúdent í könnunarvinnu, fáist fé. Vonir standa til að fleiri en forstöðumaður geti komið að þessu verkefni í nafni Sagnfræðistofnunar. Stofnunin sótti um tvo styrki vegna þessa verkefnis til Nýsköpunarsjóðs en fékk ekki.
Ráðstefnur. Íslandssaga við árþúsundamót. Sagnfræðistofnun átti aðild að ráðstefnunni Íslensk sagnfræði við árþúsundamót. Sýn sagnfræðinga á Íslandssöguna. Ráðstefnan var haldin í Reykholti dagana 6. og 7. nóvember 1999. Alls fluttu 11 sagnfræðingar erindi og jafnmargir veittu umsagnir. Erindin munu birtast í tímaritinu Sögu á þessu ári. Stofnunin lagði fram 100.000 krónur til ráðstefnunnar og miðlaði til hennar 120.000 króna styrk frá rektor.
Landsnefnd íslenskra sagnfræðinga. Forstöðumaður hefur verið formaður nefndarinnar undanfarin tvö ár og er hugmyndin að nýr forstöðumaður taki þar jafnan við formennsku, telji menn ekki annan hátt heppilegri. Aðrir sem eiga aðild að nefndinni eru Sagnfræðingafélag og Þjóðskjalasafn. Sem fyrr hafði nefndin einkum tvennt á sinni könnu, nítjánda heimsþing sagnfræðinga sem haldið verður í Ósló í ár og norræna sagnfræðingaþingið sem haldið verður í Árósum næsta ár, 2001.
Á heimsþinginu er sá háttur á hafður að fólki er boðið að tala en fátt íslenskra sagnfræðinga mun vera í útvalningunni fyrir hina formlegu dagskrá. Að frumkvæði Landsnefndar íslenskra sagnfræðinga stjórnar Anna Agnarsdóttir hringborðsfundi um efnið Voyages and Exploration in the North Atlantic from the Middle Ages to the XVIIth Century. Frá upphafi var gert ráð fyrir að sá sem þetta ritar tæki þátt í starfinu með henni en ekki leyfðist að fleiri Íslendingar yrðu meðal formlegra þátttakenda á þessum fundi. Anna hefur náð sambandi við ýmsa sagnfræðinga víða um heim sem gefa kost á þátttöku. Þá er þess að geta að þremur doktorsnemum í sagnfræði hefur verið boðið að kynna rannsóknir sínar á heimsþinginu en verða sjálfir að kosta för sína.
Á undirbúningsfundi í Árósum í maí 1998 fyrir norræna þingið 2001 voru valin þrjú aðalefni, heilsdagsefni svonefnd, samkvæmt tillögum frá hópum sem myndast höfðu um hvert efni. Hópunum var falinn frekari undirbúningur og kom í ljós að engir Íslendingar voru í þeim. Landsnefndin taldi þetta óviðunandi, kvartaði við Árósamenn og tilnefndi ákveðna einstaklinga til þátttöku í undirbúningshópunum. Ráðstefnustjórnin kom nöfnunum á framfæri við einstaka hópstjóra en þóttist ekki geta gert betur. Forstöðumaður stóð í bréfaskiptum við forsvarsmann hópsins sem undirbýr miðaldaefnið, Norden og Europa i middelalderen, og lauk svo að Agnes S. Arnórsdóttir og Sverrir Jakobsson voru tekin inn í hópinn og sóttu undirbúningsfund í Kaupmannahöfn 14.-15. maí 1999. Guðmundur Jónsson sem Landsnefnd tilnefndi var strax tekinn inn í hópinn sem undirbýr velferðarefnið, Tryghed, lighed og frihed – vision og realitet i nordisk velfærdspolitik og mun sækja undirbúningsfund. Landsnefndin mælti með Sigurði Gylfa Magnússyni til að vera með í hópnum um aðferðarfræðiefnið, Fortidens spor, nutidens öjne – mod en ny historie? en við því var aldrei brugðist. Hins vegar hefur Sigurður Gylfi tengst hópnum eftir öðrum leiðum og hefur sótt um að taka þátt í einu þemaefnanna sem skipað er undir aðalefnið. Íslendingar koma nokkuð við sögu í undirbúningi hálfsdagsefna svonefndra, sjá ársskýrslu fyrir 1998, og þar hefur mönnum gefist nokkur kostur á að tilkynna þátttöku í einstökum efnum.
Söguþing. Forstöðumaður situr í nefnd með Sigurði Gylfa Magnússyni og Ragnheiði Kristjánsdóttur frá Sagnfræðingafélagi og Guðmundi J. Guðmundssyni frá Sögufélagi til að leggja á ráðin um hvort halda eigi annað söguþing í líkingu við það sem haldið var 1997 og hvenær þá. Hugmynd nefndarinnar er sú að haldið verði þing árið 2002, umfangsminna og að nokkru tengt afmæli Sögufélags. Þessar hugmyndir voru kynntar á opnum fundi í Lögbergi 2. desember 1999 og rætt um hugsanleg viðfangsefni. Nefndin stefnir að því að skila fyrstu tillögum til umbjóðenda sinna á næstunni.
Íslandssaga í greinum. Með bréfi dagsettu 1. október 1999 bauð Gunnar Karlsson stjórn Sagnfræðistofnunar til afnota þann hluta ritaskrár sinnar um íslenska sögu sem hann nefnir Íslandssögu í greinum. Þetta er samkvæmt bréfi Gunnars "efnisflokkað safn greina um Íslandssögu í tímaritum, íslenskum og erlendum, og helstu greinasöfnum, svo sem afmælisritum frá upphafi tímaritaútgáfu", líklega alls um 10.000 færslur sem liggja fyrir í gagnagrunni. Hugmynd Gunnars er sú að stofnunin geri safnið aðgengilegt öllum sem vilja "á Alneti í gegnum heimasíðu sína". Til tals hefur komið að heimspekideild komi sér upp netþjóni sem Sagnfræðistofnun fengi aðild að. Í trausti þess að ekki reynist flókið og kostnaðarsamt að gera skrána aðgengilega þiggur stjórn Sagnfræðistofnunar þetta boð Gunnars með þökkum. Er þarft að gera skrána sem flestum nothæfa enda er skráning í Greini Landsbókasafns-Háskólabókasafns mun takmarkaðri en í umræddri skrá.
Hvatningarverðlaun Rannsóknarráðs. Óskað var eftir ábendingum um unga vísindamenn sem þættu koma til geina til að hljóta þessi verðlaun. Stjórn Sagnfræðistofnunar ákvað að benda á þá Má Jónsson og Val Ingimundarson og forstöðumaður sendi Rannís greinargerðir um þá ásamt lífsferilsskýrslum sem þeir sömdu. Er ánægjulegt að geta þess að Valur hlaut verðlaunin.
Skýrslan var lögð fram á ársfundi Sagnfræðistofnunar 28. janúar 2000 og samþykkt. Nýja stjórn skipa Loftur Guttormsson, Guðmundur Jónsson og Guðrún Harðardóttir.