Ársskýrsla 2001

Skýrsla forstöðumanns fyrir árið 2001

Stjórn og starfsmenn 

Stjórnina skipuðu á árinu Loftur Guttormsson sem gegndi starfi forstöðumanns, Guðmundur Jónsson dósent og Karólína Stefánsdóttir fulltrúi stúdenta. Starfsmenn stofunarinnar voru Valur Freyr Steinarsson á vormisseri og Jóna Lilja Makar á haustmisseri. Höfðu þau einkum milligöngu um fjölritun kennslugagna og sölu þeirra í Guðnastofu.

Starfsreglur 

Á fundi stjórnar Hugvísindastofnunar 22. jan. sl. voru samþykktar starfsreglur fyrir Sagnfræðistofnun í samræmi við reglur Hugvísindastofnunar (sbr. einkum 4. og 5. gr.) sem voru samþykktar á deildarfundi heimspekideildar í apríl sl. og formlega settar af háskólaráði í sumar leið. Áður höfðu drög að starfsreglunum verið kynnt föstum kennurum í sagnfræðiskor um leið og leitað var eftir athugasemdum frá þeim.

Hugvísindastofnun 

Forstöðumaður sat í stjórn Hugvísindastofnunar allt árið að undanskildu tímabilinu frá ágúst til miðs október þegar Guðmundur Jónsson leysti hann af. Reglur Hugvísindastofnunar (sbr. 6 gr.) kveða á um að forstöðumenn einstakra stofnana skipi stjórn hennar.

Fjárveiting til Hugvísindastofnunar nam 13.000 þús. kr. Gekk tæpur helmingur fjárveitingarinnar til stofnananna fimm sem eiga aðild að henni; fékk hver þeirra jafnan hlut, 1.240 þús. kr. , sömu upphæð og árið 2000. Fjárhagur Hugvísindastofnunar var áfram mjög þröngur; bitnar þetta ekki hvað síst á þróun framhaldsnáms við deildina. Rannsóknaamningur milli HÍ og stjórnvalda, sem beðið hafði verið eftir lengi að gengið yrði frá, var loks undirritaður laust fyrir síðustu áramót.

Húsnæði og vinnuaðstaða 

Sagnfræðistofnun hefur umráð yfir herberginu Hafnir í Húnaþingi á 3. hæð í Nýja Garði. Herbergið nýtti einn doktorsnemi í sagnfræði, auk annars starfsmanns. Tveir aðrir doktorsnemar í sagnfræði nutu vinnuaðstöðu í húsakynnum Hugvísindastofnunar á vormisseri, en þrír á haustmisseri. Aðstaðan felur m.a. í sér aðgang að bókastofu, með vísi að tímrita- og handbókakosti sem einkum er ætluð stúdentum í framhaldsnámi.

Hugvísindastofnun fékk styrk úr Tækjakaupasjóði til tölvukaupa; andvirði einnar skrifstofutölvu, um 140 þús. kr., kom í hlut Sagnfræðistofnunar. Í stað venjulegrar tölvu var ákveðið var að kaupa fartölvu að upphæð um 195 þús. kr. Mismuninn greiðir Sagnfræðistofnun. Þá var keypt vandað hljóðupptökutæki með vilyrði frá Hugvísindastofnun um að sótt yrði um styrk til kaupanna úr tækjakaupasjóði HÍ. Hefur Sagmnfræðistofnun afnot af þessu tæki til jafns við aðrar stofnanir í deildinni.

Gistifræðimenn, styrkþegar og fyrirgreiðsla 

Jesse L. Byock, bandarískur prófessor, naut áfram nokkurrar fyrirgreiðslu vegna tölvupósts. Hrefna Róbertsdóttir, sem vinnur að doktorsritgerð við Lundarháskóla, hafði allt árið vinnuaðstöðu í Hugvísindastofnun í Nýja Garði. Sama er að segja um Pál Björnsson sagnfræðing sem naut áfram rannsóknarstöðustyrks Rannís. Vinnuaðstöðu beggja fylgdi tölvuenging, sími o.þ.h. sem Sagnfræðistofnun greiddi fyrir.

Fjármál

Auk framlags Hugvísindastofnunar (1.240 þús. kr.) hafði Sagnfræðistofnun einkum tekjur af sölu kennsluefnis og bókaleifa í Guðnastofu. Aðrar tekjur voru styrkir (150 þús.).

Helstu útgjaldaliðir voru laun til höfunda/starfsmanna og rannsóknastyrkir til fastra kennara. Stjórnin samþykkti að hafa styrkupphæð til kennara óbreytta frá fyrra ári, kr. 35 þús.

Af hálfu stjórnar Sagnfræðistofnunar var þrýst fast á að hreinsa til í fjármála-samskiptum stofnunarinnar og Háskólaútgáfunnar. Þetta varðar bæði uppgjör fyrir þann lagerkostnað sem Háskólaútgáfan hafði lagt einhliða á útgáfubækur stofnunarinnar og uppgjör fyrir þau rit, sem Háskólaútgáfan hefur gefið út undanfarin ár í samvinnu við stofnunina, og önnur eldri sem hún hefur séð um sölu á.

Hvað álagðan lagerkostnað varðar, þá féllst stjórn Sagnfræðistofnunar ekki á að greiða hann lengra aftur en frá og með árinu 1999. (Árið 1999 hafði stjórn Háskólaútgáfunnar ákveðið upp á sitt eindæmi að reikna sér slíkan kostnað til tekna allt frá árinu 1996 þegar hún tók við bókabigðum Sagnfræðistofnunar.Um þessa gjaldtöku fékk stjórn Sagnfræðistofnunar fyrst að vita síðla árs 2000). Tókst 15. jan. sl. samkomulag við Háskólaútgáfuna um uppgjör lagerkostnaðar varðandi tímabilið fyrir 2001 á þeim nótum að stofnunin greiddi pr. hverja útgáfubók (með lágmarkslager) kr. 2500 fyrir hvort ár um sig, 1999 og 2000, að viðbættum kr. 2000 pr. útgáfubók v/ kostnaðar við flutning og yfirtöku Háskólaútgáfunnar á bókalager stofnunarinnar á sínum tíma. Útgjöld stofnunarinnar skv. þessu samkomulagi nema alls kr. 266 þús. (sem er meira en helmingi lægri upphæð en upphaflega gjaldtaka Háskólaútgáfu nam). Hvað varðar tímabilið frá og með 2001, þá á lagerkostnaður að reiknast á nýjum grundvelli; bókabirgðir útgáfunnar eru nú að verulegu leyti á hendi Dreifingarmiðstöðv-arinnar sem sér um dreifingu útgáfubóka til bóksala. Liggur fyrir stjórn Sagnfræðistofnunar að glöggva sig á þeim kostnaði við vörslu bókabirgða sem þetta nýja fyrirkomulag hefur í för með sér.

Hvað viðvíkur fjárhagsstöðu Sagnfræðistofnunar gagnvart þeirri bókaútgáfu og bóksölu sem Háskólaútgáfan annast fyrir hana, þá var um miðjan jan. sl. samið um að hún yrði nú í fyrsta skipti gerð upp á því sem kalla mætti eðlilegan viðskiptagrundvöll. Þetta innifelur að Sagnfræðistofnun gerir nú að fullu upp kostnað við útgáfu þeirra bóka sem komið hafa út á síðustu þremur árum og voru með lengri eða styttri skuldahala við áramótin 2000/2001. Þetta varðar ritin Æska og saga, Ræður Hjálmars á Bjargi og Dulsmál og Voyages and Explorations (bráðabirgðaútgáfu). Aftur á móti færist kostnaður við útgáfu bókanna Landsins forbetran og Voyages and Explorations (önnur útgáfa) á yfirstandandi ár (2002).

Í viðurvist Guðmundar meðstjórnanda hét Jörunddur Guðmundsson deildarstjóri Háskólaútgáfunnar forstöðumanni að uppgjör eftir þessum nótum, ásamt yfirliti yfir birgðir einstakra bóka, mundi liggja fyrir í tæka tíð fyrir ársfund sem þá hafði verið tímasettur 25. janúar. Þrátt fyrir mikinn eftirrekstur hefur deildarstjórinn ekki lagt fram slíkt uppgjör þegar gengið var frá þessari skýrslu (31. jan. kl. 16.00). Sú skýring er gefin að Dreifingarmiðstöðin hafi ekki enn lokið desemberuppgjöri við útgáfuna. Þetta er ástæðulaust að draga í efa, en á hinn bóginn hefði mátt vænta bráðabirgðauppgjörs af hendi Háskólaútgáfunnar. Undir þessum kringumstæðum getur forstöðumaður ekki gert annað en að heita félögum í Sagnfræðistofnun að þeim verði látin í té greinargerð fyrir margumtöluðu uppgjöri þegar það kemur fram.

Í framhaldi af þessu uppgjöri þarf stjórn Sagnfræðistofnunar að taka til rækilegrar athugunar sölu- og dreifingarmál bóka sinna, sem Háskólaútgáfan annast. Í samvinnu við útgáfuna þarf að vinna á markvissan hátt að sölu bókabirgða. Þegar ljóst er orðið hverju hún skilar, þarf að taka ákvörðun um hvaða titla borgar sig að geyma á lager eða ráðlegast muni á hinn bóginn að taka úr umferð. Þetta er rekstrarhagfræðilegt reikningsdæmi sem gefa þarf rækilega gaum á næstunni.

Enn hefur ekki verið ráðið til lykta í stjórninni hversu launa skuli starf forstöðumanns. Undanfarin fjögur ár hafa prófessorar gegnt starfi forstöðumanns; þegar kjaranefnd úrskurðaði fyrst um laun prófessora (í júlí 1998), var kveðið svo á að "ekki komi til frekari greiðslna [umfram greiðslu fyrir fullt starf], nema kjaranefnd úrskurði um það sérstaklega". Þetta var túlkað svo af fjármálayfirvöldum HÍ að ekki væri heimilt að umbuna prófessorum sérstaklega fyrir starf forstöðumanns í rannsóknarstofnun. Svo mikið er víst að þeir tveir prófessorar, sem hafa síðan gegnt þessu starfi í Sagnfræðistofnun, hafa ekki fengið neitt greitt fyrir það síðan úrskurðurinn féll í júlí 1998. Ákvæðum þess úrskurðar var breytt frá og með 1. ágúst 2000 þannig að heimilað var að greiða prófessorum í flokki I-IV fyrir yfirvinnu við kennslu, stjórnun og rannsóknir misjafnlega marga tíma á mánuð (frá 30 tímum í.fl. I til 8 tíma í fl. IV). Þess heimild var svo enn rýmkuð með úrskurði kjaranefndar í desember 2001. Ekki er óeðlilegt að rætt verði um það á þessum ársfundi hvernig fara skuli með þessa heimild í reynd og þá um leið hverju umbun skuli nema árlega fyrir starf forstöðu-manns, hvort sem hann er í starfi lektors, dósents eða prófessors í sagnfræðiskor.

Sem fyrr fór allt fé stofnunarinnar um hendur bókhalds skólans (fjármálasviðs). Forstöðumaður afgreiðir reikninga í hendur starfsmanns Hugvísindastofnunar (Þórdísar Gísladóttur) sem lætur þá ganga til gjaldkera og bókhalds. Tölvuforritið Navision Financial á að gefa þessum aðilum öllum yfirlit yfir hreyfingar á reikningsnúmerum stofnunarinnar; er nú hægt að kalla fram á skjáinn mynd af þeim reikningum sem búið er að samþykkja og afgreiða.

Heimasíða

Hlíf Arnlaugsdóttir sá um að uppfæra heimasíðuna eftir beiðni forstöðumanns. Heimasíðan birtir starfsreglur stofnunarinnar, yfirlit yfir útgáfurit og rannsóknaverkefni á vegum hennar sem og yfirlit yfir rannsóknarverkefni einstakra kennara. Þetta síðastnefnda þarfnast nú uppfærslu

Útgáfumál

Tvö ný rit komu út á vegum stofnunarinnar:

1) Voyages and Explorations in the North Atlantic from the Middle Ages to the XVIIth Century (146 bls.).Um er að ræða aðra útgáfu ritsins sem birtist í fyrra í bráðabirgðagerð undir ritstjórn Önnu Agnarsdóttur – sjö erindi sem voru kynnt (sem hringborðsefni) á Heimsþingi sagnfræðinga í Ósló í ágúst 2000. Þessi önnur útgáfa inniheldur "An afterword" eftir Nicholas Channy sem var "commentator" á hringborðsfundinum í Ósló. Þessi útgáfa er ritstjóra og útgefanda í alla staði til sóma.

2) Landsins forbetran. Innréttingarnar og verkþekking í vefsmiðjum átjándu aldar (280 bls.) eftir Hrefnu Róbertsdóttur cand. mag. Þetta er 16. bindi í ritröðinni Sagnfræðirannsóknir – Studia historica – sem Gunnar Karlsson ritstýrir. Ritið kom út um mitt ár og var tengt 250 ára afmæli Innréttinga Skúla Magnússonar sem minnst var með dagskrá og sýningu á vegum borgarinnar í Árbæjarsafni í júlí. Við þetta tækifæri flutti Hrefna erindi og forstöðumaður afhenti borgarstjóra fyrsta eintakið af bókinni, en borgin hafði áður veitt styrk til útgáfunnar. Bókin hefur hlotið góðar viðtökur enda er hún í alla staði vandað rannsóknarrit, búið mörgum myndum (þar af nokkrum í lit) sem hafa fæstar birst áður. Lagt var í allmikinn kostnað vegna myndaöflunar.

Auk ofangreindra bóka var unnið að útgáfu á riti eftir Sveinbjörn Rafnsson, Sögugerð Landnámabókar. Um íslenska sagnaritun á 12. og 13. öld, í Ritsafni Sagnfræðistofnunar sem Guðmundur Hálfdanarson ritstýrir. Ritið er í prentun og telst útgefið 2001.

Ritið Aspects of Arctic and Sub-Arctic History.Procedings of the International Congress of the Arctic and Sub-Arctic Region, Reykjavík, 18–21 June 1998 sem Háskólaútgáfan gaf út í samvinnu við Sagnfræðistofnun, utanríkisráðuneytið og Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, kom út snemma á árinu (merkt 2000) undir ritstjórn Inga Sigurðssonar og Jóns Skaptasonar. Þetta er stórt rit (623 bls.) og vandað að allri gerð; það geymir yfir 60 fyrirlestra sem fluttir voru á fjölþjóðlegri ráðstefnu í Reykjavík um sögu norðurslóða. Sagnfræðistofnun styrkti útgáfuna með 200 þús. kr. framlagi, en helmingur upphæðarinnar er enn ógreiddur.

Rannsóknarverkefni 

Hér á eftir verður einvörðungu gerð grein fyrir þeim rannsóknarverkefnum sem stofnunin sjálf á formlega aðild að. Ótalin eru öll þau verkefni sem kennarar í sagnfræðiskor sinna án þess að stofnunin eigi þar beinan hlut að máli.

Saga íslenskrar utanlandsverslunar 900–2002

Að verkinu vinna Anna Agnarsdóttir, Gísli Gunnarsson, Guðmundur Jónsson, Halldór Bjarnason og Helgi Þorláksson, verslunarsöguhópurinn svonefndur. Birgir Þór Runólfsson, dósent í viðskipta-og hagfræðideild, kom til samstarfs við hópinn á árinu sem fulltrúi sjóðs sem nefnist Rannsóknaframlag bankanna. Verkefnið nýtur styrks frá sjóðnum. Rætt hefur verið um að fá sagnfræðing til vinnu þegar handrit liggja fyrir, einkum til að samræma texta og ganga frá skrám, en það er háð fjárveitingum. Gert er ráð fyrir að á vormisseri 2002 vinni allir höfundarnir kappsamlega að skriftum.

Áætlun miðast við það að væntanlegt rit um efnið verði tvö bindi, 400 síður hvort, í svipuðu broti og Saga sveitastjórnar en þó með mun minna lesmáli. 600 síður eru ætlaðar í texta, 15% í ofanálag fyrir myndir og myndrit eða 90 síður og aðrar 90 síður í skrár eða alls 800 síður að hámarki. Skipting síðufjölda milli höfunda hefur verið ákveðin í aðalatriðum.

Fjáröflun var ekki stunduð af sama kappi árið 2001 sem árið 2000 enda árangur viðunandi. Mikið munar um styrki frá Rannsóknarsjóði Háskóla Íslands til að launa aðstoðarmenn. Einnig hafði verkefnið nokkurt gagn af fé frá Aðstoðarmannasjóði Háskóla Íslands. Um vinnu einstakra þátttakenda er þetta helst að segja:

Anna Agnarsdóttir: 1. Réð Pétur G. Kristjánsson BA sem aðstoðarmann, hann leitaði skjala í Þjóðskjalasafni, fyrst og fremst í dönsku stjórnardeildunum og í sýslumannssöfnunum. 2. Dvaldist í rannsóknarleyfi í júlí í Kaupmannahöfn og fann enn skjöl sem snerta Íslandsverslunina. 3. Sótti ráðstefnu hjá Association for the History of the Northern Seas í Liverpool í ágústmánuði og kynnti þar niðurstöður rannsókna sinna um verslunina milli Liverpool og Íslands á tímum Napóleonsstyrjalda; heiti fyrirlesturs: The Liverpudlian-Iceland Trade 1809-1817: An Assessment.

Gísli Gunnarsson: 1) Leonardus J.W. Ingason MA var tvisvar í Hollandi og kannaði um útgáfu á verki Marie Simon Thomas.. Hann kannaði líka gögn bæði um löglega verslun Hollendinga við danska einokunarkaupmenn og launverslun. Leonardus naut framlags sem Gísli hlaut frá Rannsóknarsjóði HÍ. Hann hefur skilað rækilegri skýrslu um fyrri ferðina og vænst er annarrar skýrslu frá Leonardusi. 2) Gísli kannaði þý.-dö.-ísl. verslunartengsl á 18. öld.

Guðmundur Jónsson: 1) Dvaldist í Kaupmannahöfn á bilinu febrúar-apríl og kannaði skjalasöfn, m.a. utanríkisráðuneytisins eftir 1908 og danska sendiráðsins á Íslandi (í Rigsarkivet) og skrapp til að skoða Erhvervsarkivet í Árósum. Skýrði frá forvitnilegum myndasöfnum Dansk-islandsk handelsforening (myndamót) og í billedarkiv í Kgl. bibliotek. 2) Árni Helgason hóf störf sem aðstoðarmaður 1. maí og safnaði efni um verslunarlöggjöf og sló inn í gagnagrunn. Þá tók hann upp viðtöl á band við 20 heildsala um innflutningsverslun. Ennfremur lauk hann BA ritgerð um aukið frjálsræði í verslun á níunda áratugnum (um gjaldeyrismál, vaxtamál og bankamál).

Halldór Bjarnason: 1) Sinnti eingöngu framhaldsskólakennslu veturinn 2000-2001. Lét af þessu starfi sumarið 2001. 2) Haustið 2001 vann Nikulás Ægisson BA við danskar verslunarskýrslur (‘statistisk tabelværk’) frá 1840-70, tók saman innflutnings-og útflutningstölur undir leiðsögn Halldórs. Fyrir þessa vinnu var greitt af sameiginlegu fé verkefnisins. 3) Í nóvember 2001 dvaldist Halldór sex daga í Public Record Office í Lundúnum fyrir framlag af sameiginlegu fé verkefnisins; hann safnaði einkum tölum um verslun milli Íslands og Bretlands á árabilinu 1820-70 og nokkuð fyrir tímann 1874-1900 og tók ljósrit. Árangur var góður samkvæmt allrækilegri skýrslu hans. Í sömu ferð fór Halldór til Glasgow til að taka við staðfestingu á doktorsgráðu. 4) Halldór hlaut rannsóknarstöðustyrk Rannís í ár, 2002.

Helgi Þorláksson: 1) Vann í tengslum við námskeið á MA stigi að könnun um ensk-þý.-norsk-ísl. verslunarsamskipti 1300-1500 og ritaði um rækilega grein (28 bls.) sem birtist í afmælisriti Sigurðar Líndals, Líndælu. 2) Nýtti styrk frá Rannsóknarsjóði HÍ: Viðar Pálsson BA safnaði efni um þýska kaupmenn á 16. öld og hefur skilað gögnum. Þorsteinn Tyggvi Másson, MA í sagnfræði í Höfn, leitaði skjala í Rigsarkivet í Höfn um Íslandsverslun Þjóðverja á 16. öld og skilaði skýrslu. 3) Þá hefur Helgi unnið að því að semja almenna sögu 16. aldar og gert þar grein fyrir utanlandsverslun.

Reykholtsverkefni 

Reykholtsverkefnið er fjölfaglegt og var hleypt af stokkum 1999 og með því er stefnt að þverfaglegri niðurstöðu. Verkefninu er skipt í þrjá verkþætti sem eru: a) Fornleifrannsóknir; b) Mannvistarlandslag; c) Miðstöðin Reykholt.

Viðfangsefni í hverjum hinna þriggja verkþátta eru þverfagleg (interdisciplinary), þátttakendur glíma við sömu meginspurningar, en tengslin milli þáttanna eru fjölfagleg (multidisciplinary), þeim er settur heldur rúmur rammi eða almenn heildarmarkmið:

Að varpa ljósi á valdasamþjöppun á þjóðveldistíma, tilurð pólitískra og kirkjulegra miðstöðva og tengsl þessa við landsnytjar, byggðarþróun og bókmenntasköpun. Reykholt í tíð Snorra Sturlusonar er kjarninn í rannsókninni og kannaðar verða norrænar og vesturevrópskar hliðstæður. Áformað er að gera þetta með því að sameina rannsóknir á sviði hugvísinda, félagsvísinda og raunvísinda.

Stefnt er að útgáfu rits um allar meginniðurstöður og er markmiðið þverfagleg heildarniðurstaða.

Yfir verkefninu er sérstök stjórn, formaður hennar er Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður, en aðrir í stjórn þau Bergur Þorgeirsson frá Snorrastofu, Guðrún Gísladóttir, sem fulltrúi Raunvísindastofnunar, Guðrún Sveinbjarnardóttir, Haukur Jóhannesson, jarðfræðingur á Orkustofnun, fulltrúi Náttúrufræðistofnunar, og Helgi Þorláksson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, fulltrúi Sagnfræðistofnunar.

a. Fornleifarannsóknir

Uppgröftur: Guðrún Sveinbjarnardóttir stjórnar þessum rannsóknum á vegum Þjóðminjasafns. Sumarið 2001 var grafið upp lítið hús með hellulögðu gólfi og holu í því miðju.

Tengd fornleifaverkefni. Sumarið 2001 gerði Brynja Birgisdóttir, nemandi í fornleifafræði í Þrándheimi, forkönnun við Hvítá og í tengslum við hana og tók saman skýrsluna Reykholt i Borgarfjördur. Delprosjekt: Hvítárvellir. Forprosjekt 2001.

Fornleifaskráning. Árið 2001 stundaði Þóra Pétursdóttir, nemandi í sagnfræði og landafræði, fornleifaskráningu, einkum á fornum eignarjörðum Reykholtsstaðar og í seljalöndum staðarins. Verkinu stjórnaði Orri Vésteinsson en Helgi Þorláksson átti frumkvæði að umsókn í Nýsköpunarsjóð. Þóra hefur lokið við skýrsluna Fornleifaskráning í Borgarfirði, norðan Skarðsheiðar, IV. Jarðir í Reykholtsdal og um neðanverða Hálsasveit. (Fornleifastofnun Íslands 2002).

Landscapes circum Landnám. Viking settlements in the North-Atlantic and its human and ecological consequences. Guðrún Sveinbjarnardóttir á aðild að þessu verkefni. Það hlaut styrk árið 2001 frá Leverhulme Trust í Englandi, tæplega 1.25 millj. punda í fimm ár og er í nánum tengslum við Reykholtsverkefnið.

b. Mannvistarlandslag

Breytingar á landi af völdum manna. Mannvistarlandslag er ‘cultural landscape’, líka nefnt menningarlandslag eða byggðarlandslag og er viðfangsefnið hvernig maðurinn hefur nýtt umhverfi sitt og breytt því.

Farið var af stað með verkefnið vorið 2000 og Tryggvi Már Ingvarsson, nemandi í sagnfræði og landafræði, ráðinn starfsmaður. Hann samdi áfangaskýrslu um athuganir sínar og upp úr þessari könnun sinni samdi hann BS ritgerðina Leiðir tveggja alda í nágrenni Reykholts í Borgarfirði (lokið við í janúar 2001. Leiðbeinendur voru Ingibjörg Jónsdóttir, dósent í landafræð (í fjarveru Guðrúnar Gísladóttur) og Helgi Þorláksson.

Rannsakað verður gróðurfar í Reykholtsdal og seljalöndum Reykholts frá því rétt fyrir landnám til nútíma. Mun verða unnið að doktorsverkefni við Háskóla Íslands og meistaraprófsverkefni við Edinborgarháskóla í tengslum við þetta og er Helgi Þorláksson meðleiðbeinandi í hinu fyrrnefnda vegna ritaðra heimilda.

c. Miðstöðin Reykholt 

a. Kirkjumiðstöð. Þegar kanna skal hver var tilgangurinn með hinum elstu og stærstu stöðum, er sýnt að Reykholt er kjörinn fulltrúi. Heppilegt er einnig að hinn mikilvægi staður, Stafholt í sama héraði, býður upp á samanburðarefni. Snorri Sturluson náði báðum stöðum undir sig um svipað leyti og hafði um hríð fasta búsetu í Stafholti. Sigríður Júlíusdóttir lauk árið 2001 BA ritgerð um Stafholt sem nefnist Staður í Stafholti.

Um uppruna og mikilvægi staðanna í Stafholti og Reykholti verður haldinn vinnufundur í Reykholti árið 2002 með þátttöku Magnúsar Stefánssonar, prófessors frá Björgvin, Jóns Viðars Sigurðssonar, försteamanuensis í Ósló, Orra Vésteinssonar, Helga Þorlákssonar og þriggja stúdenta, auk annarra. Kristnihátíðarsjóður hefur veitt 1,3 milljóna króna styrk til þessa verkefnis og mun honum m.a. varið til undirbúningsvinnu stúdentanna og samantektar rannsóknarskýrslna. Verkefnisstjóri er Helgi Þorláksson.

b. Valdamiðstöð. Valdasamþjöppun á Íslandi á 12. og 13. öld er merkileg. Hvað olli henni? Fyrrnefnd BS ritgerð Tryggva Más Ingvarssonar sýnir að Reykholt lá vel við samgöngum og legan gat því skipt máli pólitískt. Veittu staðirnir virðingu sem tryggði pólitískt fylgi? Um mikilvægi félagslegs heiðurs (virðingar) fyrir Snorra Sturluson er fjallað í nýrri BA ritgerð Viðars Pálssonar. Um þessi atriði og önnur skyld er fjallað í nýrri bók, Sæmdarmenn. Um heiður á þjóðveldisöld (2001).Hugvísindastofnun gaf út.

c. Miðstöð bókmenningar. Snorri Sturluson er frægur rithöfundur og Reykholtsverkefnið gefur færi á að hittast og ræða saman um verkin með hliðsjón af ævi og búsetu Snorra, viðfangsefnum hans, sögulegum kringumstæðum, bókmenntalegu umhverfi og erlendum hliðstæðum.

Þessum undirverkþætti hefur verið skipuð samnorræn stjórn. Styrkur fékkst frá NORFA til að halda vinnufund á útmánuðum 2001 í Reykholti um umrædd efni og fleiri tengd. Þennan fund sóttu innlendir og erlendir fræðimenn.

Í framhaldi af þessum fundi fékkst svo frá NORFA-styrkur til þessa verkefnis að upphæð 280.000 n.kr. (3,2 millj. ísl. kr.) árlega næstu þrjú til fimm ár. Komið verður á fót alþjóðlegu samstarfsneti (tengslaneti, ‘netverk’), haldin málþing og námskeið og gefin út rit um ofangreind efni.

Íslenskur gagnagrunnur um fólksfjölda 

Í framhaldi af nokkrum undirbúningi árið 2000 var sótt sl. sumar um forverkefnisstyrk til Vísindasjóðs til þess að halda áfram undirbúningi að því að koma á fót íslenskum gagnagrunni um fólksfjölda. Veittur var styrkur að upphæð kr. 400 þús. sem á einkum að nýtast til að skýra markmið ogmöguleika með uppbyggingu slíks gagnagrunns og ganga úr skugga um hvaða aðilar hafa áhuga á að ganga til samstarfs um verkefnið og þá á hvaða forsendum. Að umsókninni stóðu Guðmundur Jónsson, Loftur Guttormsson, Magnús S. Magnússon á Hagstofu Íslands og Ólöf Garðarsdóttur, doktorsnemi við háskólann í Umeå.

Í nóvember sl. var haldinn kynningarfundur um verkefnið; til hans var boðað fulltrúum allmargra stofnana innan HÍ og utan, tveggja félaga og fyrirtækis Friðriks Skúlasonar. Kynnt voru vísindaleg markmið með stofnun og starfrækslu gagnagrunns um fólksfjölda, m.a. með hliðsjón af slíkum gagnagrunnum erlendis, einkum í Svíþjóð (Umea) og við háskólann í Minnesota í Bandaríkjunum (Minnesota Population Center). Undirtektir þátttakenda við þetta áform voru yfirleitt jákvæðar, en athygli beindist einkum að því að hvaða marki unnt yrði að nýta þau gögn sem þegar hafa verið tölvutekin í einhverri mynd (t.d. hjá Hagstofu Íslands, Friðriki H. Skúlasyni, Daniel E. Vasey) og hvers konar gögn (manntals- eða prestsþjónustugögn) ættu að hafa forgang ef af framkvæmdum yrði. Líklegt er að auk Hagstofunnar muni Þjóðskjalasafn Íslands og Friðrik H. Skúlason fús til að leggja tölvuunnin gögn af mörkum í umræddan gagnagrunn.

Til þess að skýra nánar markmið, aðferðir og möguleika með gerð gagnagrunnsins verður haldin ráðstefna í apríl nk. með fjórum erlendum sérfræðingum frá Skandinavíu og Bandaríkjunum. Í maí er síðan áformað að halda fund með þeim innlendu aðilum sem hafa sýnt áhuga á samstarfi, ákveða form samstarfsins og næstu skref að því marki að koma gagnagrunni um fólksfjölda á laggirnar. Mikilvægur þáttur í þessu er að gera áætlun um fjármögnun og starfrækslu gagnagrunnsins til langs tíma.

Þing með aðild Sagnfræðistofnunar eða Landsnefndar íslenskra sagnfræðinga 

Forstöðumaður fór með formennsku í landsnefndinni í samræmi við þá skipan sem mótast hefur undanfarin ár. Auk Sagnfræðistofnunar eiga Sagnfræðingafélag Íslands og Þjóðskjala-safn Íslands aðild að nefndinni.

Norræna sagnfræðingaþingið í Árósum 2001 

Vel þótti takast til um þátttöku íslenskra sagnfræðinga í dagskrá 24. norræna sagnfræðinga-þingsins í Árósum 9.–13. ágúst. Auk nokkurra kennara í sagnfræðiskor og annarra fræðimanna tóku þrír doktorsnemar þátt í formlegri dagskrá þingsins; var Landsnefndin þeim innan handar um að útvega ferðastyrk. Þátttakendur frá Íslandi á þinginu voru á annan tug. Í lok Árósarþingsins var boðað er til næsta þings norrænna sagnfræðinga árið 2005 í Stokkhólmi.

Liður í samstarfi norrænna sagnfræðinga er útgáfa tímaritsins Scandinavian Journal of History. Helgi Þorláksson hefur setið í ritnefnd tímaritsins síðan 1998.

Annað íslenska söguþingið

Undirbúningi Söguþings var haldið áfram samkvæmt áætlun. Snemma í febrúar var bráðabirgðadagskrá birt eftir að kallað hafði verið eftir uppástungum um efni frá fræðasamfélaginu. Lögð var lokahönd á fræðilegu dagskrána í október. Tæplega 90 manns verða með framsögu á þinginu og þrem erlendum gestum boðið að taka þátt í ráðstefnunni. Þeir eru Jürgen Kocka, forseti Alþjóðasamtaka sagnfræðinga, Sue Bennet, forseti Evrópusamtaka sögukennara, og Knut Kjeldstadli, prófessor í sagnfræði við Oslóarháskóla. Kocka mun flytja Minningarfyrirlestur Jóns Sigurðssonar á ráðstefnunni.

Fjáröflun hófst í nóvember. Í undirbúningsnefnd sátu þeir sömu og fyrr nema Kristjana Kristinsdóttir sem lét af störfum. Sverrir Jakobsson doktorsnemi var ráðinn

framkvæmdastjóri ráðstefnunnar, í hlutastarfi frá 1. nóvember. Vefsíða Íslenska söguþingsins var opnuð í nóvember.

Lokauppgjör Íslenska söguþingsins 1997 var lagt fram af þingstjórn í mars sl. Sýndi það jákvæða niðurstöðu að upphæð kr. 300.084. Stjórn Sagnfræðistofnunar og Sagnfræðingafélagsins ákváðu í sameiningu að verða við beiðni þremenninganna í þingstjórninni, Önnu Agnarsdóttur, Eggerts Þórs Bernharðssonar og Hrefnu Róbertsdóttur, um að þeim yrði greitt aukalega fyrir þá miklu vinnu sem þau höfðu lagt af mörkum við undirbúning og framkvæmd þingsins. Aukagreiðslan til þeirra nam alls kr. 270 þús. Afgangurinn, liðlega 30 þús kr., rann sem rekstarfé til að standa undir frumkostnaði við undirbúning Annars íslenska söguþingsins.

Hugvísindaþing 2001 

Ásamt öðrum rannsóknastofnunum í deildinn átti Sagnfræðistofnun aðild að Hugvísindaþingi sem haldið var í byrjun nóvember í samvinnu við Guðfræðistofnun. Nokkrir félagar í Sagnfræðistofnun fluttu fyrirlestur á þinginu sem þótti takast vel um flest.

Heimsþing sagnfræðinga í Sydney 2005

Það liggur fyrir Landsnefndinni að undirbúa þátttöku íslenskra sagnfræðinga í heimsþinginu í Sydney árið 2005. Boðað hefur verið til aðalfundar (assemblée générale) heimssamtakanna CISH/ICHS í Amsterdam 2. og 3. september nk. Þar verður gengið frá vali allra efna fyrir Sydneyjarþingið. Vilji landsnefndin koma á framfæri uppástungu um eitthvert eða einhver efni, þarf það að gerast á næstu mánuðum.

Sagnfræðistofnun hefur þegar greitt árgjald 2002 fyrir aðild Landsnefndar að Heimssamtökunum (um 42 þús. kr.). Sagnfræðingafélag Íslands greiddi árgjaldið 2001 og Þjóðskjalasafnið fyrir árin þrjú 1998–2000.

Minningarfyrirlestur Jóns Sigurðssonar

Stjórn stofnunarinnar bauð Ole Feldbæk, prófessor í sagnfræði við Kaupmannahafnarháskóla, að flytja Minningarfyrirlestur Jóns Sigurðssonar og halda málstofu á vegum stofnunarinnar. Minningarfyrirlesturinn var haldinn laugard. 13. október í st. 101 í Odda og kallaðist: "Kongens Köbenhavn: Handelens hovedstad 1710–1814". Daginn áður hélt Feldbæk málstofu með kennurum, framhaldsnemum og gestum um efnið "Dansk og norsk nationalidentitet 1740–1814". Báðar samkomurnar voru vel sóttar og Ole Feldbæk sannkallaður aufúsugestur.

Skýrslan var samþykkt á ársfundi stofnunarinar 1. febr. 2002. Nýja stjórn skipa Guðmundur Jónsson dósent, forstöðumaður, og Gunnar Karlsson prófessor, meðstjórnandi. Annan meðstjórnanda munu framhaldsnemar senn kjósa úr sínum röðum.