Ársskýrsla 2005

Lögð fram á ársfundi 17. febrúar 2006.

Stjórn og starfsmenn 

Ársfundur Sagnfræðistofnunar 2005 var haldinn 18. febrúar 2005. Stjórn stofnunarinnar hafði þá hálfnað kjörtímabil sitt, og sátu í henni Gunnar Karlsson forstöðumaður, Már Jónsson, fulltrúi starfsmanna og Valur Freyr Steinarsson fulltrúi stúdenta.

Formlegt starf stjórnarinnar var með minnsta móti á árinu 2005, einkum af því að forstöðumaður dvaldist erlendis hálft árið, vegna rannsóknarleyfis og óvenjulangs sumarleyfis í framhaldi af því. Á meðan réðu stjórnarmenn ráðum sínum um tölvupóst, og Már Jónsson gegndi þeim forstöðumannsstörfum sem ekki var unnt að sinna með fjarskiptum. Þó hélt stjórnin sex fundi á árinu.

Aðild að Hugvísindastofnun hefur verið með sama hætti og að undanförnu. Hugvísindastofnun veitti Sagnfræðistofnun 1.250 þúsund króna af fjárveitingu sinni auk 1.095.932 króna sem eru „mótframlag vegna utanaðkomandi styrkja“. Heildarhlutur stofnunarinnar í fjárveitingunni til Hugvísindastofnunar var því 2.345.932.

Stjórn Sagnfræðistofnunar hefur ekki haft afskipti af því á árinu hvernig húsnæði á vegum Hugvísindastofnunar í Nýja garði hefur verið ráðstafað. Mun þar allt vera nokkurn veginn með sama hætti og fyrr, og er greint frá því í ársskýrslu um árið 2003. Sjálf ræður stofnunin yfir vinnuplássi í Guðnastofu í Árnagarði. Sala ljósrita til sagnfræðinema hefur farið fram í stofunni eins og áður. Sagnfræðinemar sem standa að útgáfu tímaritsins Sagna hafa innhlaup þar og aðgang að síma frá tíð fyrri stjórnar. Á árinu 2004 var Hrefnu Karlsdóttur sagnfræðingi úthlutað vinnuplássi í Guðnastofu til að vinna að rannsóknarverkefni um sögu rækjuiðnaðar, en hún mun nú hafa lokið því starfi og skilað lykli að stofunni. Framkvæmdastjóri norræna sagnfræðiþingsins í Reykjavík 2007, Einar Hreinsson, hefur fengið vinnuaðstöðu í stofunni en notað hana lítið fram til þessa. 
Vefsíðan Söguslóðir, sem stofnunin á meginaðild að, hefur verið í umsjá Guðmundar Jónssonar eins og áður, en Íris Ellenberger og Hugrún Ösp Reynisdóttir hafa annast daglegan rekstur hennar undir verkstjórn Guðmundar.

Um ljósritun námsefnis til kennslu og sölu þess í Guðnastofu sá Jón Skafti Gestsson á vormisseri en Kristbjörn H. Björnsson og Andri Steinn Snæbjörnsson á haustmisseri. Gutenberg ljósritaði á árinu 2005, en nú á vormisseri 2006 hafa viðskipti stofnunarinnar verið færð til Pixel prentþjónustu, sem selur vinnuna á lægra verði.

Samkvæmt starfsreglum Sagnfræðistofnunar eiga aðild að henni, auk kennara, styrkþega og sérfræðinga, „framhaldsnemar í sagnfræði sem þess óska.“ Stjórn stofnunarinnar hefur ekki séð ástæðu til að leita sérstaklega eftir því við framhaldsnema hverjir óski eftir aðild, en boð um ársfund er sent öllum framhaldsnemum.

Í framhaldi af umræðum sem urðu um framkvæmdastjórn stofnunarinnar á ársfundi 2005 skrifaði forstöðumaður Háskólarektor 23. mars og fór fram á styrk af þróunarfé til að ráða akademískan starfsmann í fulla vinnu í tvö til þrjú ár til að stýra stofnuninni og afla henni verkefna, í þeim vændum að hún gæti sjálf staðið undir launum framkvæmdastjóra af aflafé sínu eftir það. Fráfarandi rektor lét málið bíða vegna þess að hann taldi sig eiga of stuttan tíma eftir í starfi til að taka ákvörðun svo langt fram í tímann, en núverandi rektor hefur ekki svarað erindinu.

Til að uppfæra heimasíðu stofnunarinnar hefur verið ráðinn Jón Sigurður Friðriksson. Hann hefur lokið því verki, en beðið er eftir því að Reiknistofnun úthluti stofnuninni svæði á Solo Web-umhverfi. 
Mikil nauðsyn er á að gera átak í að skipuleggja skjalasafn stofnunarinnar. Í stjórninni komst til tals að tengja það verk kennslu í skjalfræði við sagnfræðiskor, en ekki hefur orðið úr framkvæmdum enn.

Bókasafn 

Vefsíðan Söguslóðir hefur gefið bókaútgefendum kost á að senda stofnuninni nýjar bækur sem verði kynntar á vefsíðunni. Bækurnar renna síðan inn í bókasafn stofnunarinnar í Guðnastofu. Fram að þessu hafa nokkrir en of fáir útgefendur notað sér þetta tilboð. Undir árslok 2005 kannaði forstöðumaður hvaða bækur væri helst ástæða til að kaupa í Guðnastofu. En bækurnar voru ekki keyptar fyrr en á árinu 2006, og sá Valur Freyr Steinarsson um framkvæmdina. Voru keyptar bækur fyrir um 280.000 krónur, en útgjöldin koma auðvitað ekki fram á reikningum ársins 2005. Hugrún Ösp Reynisdóttir hefur nú skráð bókaaðföngin, og er ekkert því til fyrirstöðu að skrá um bókasafnið, í excel-kerfi, verði send starfsmönnum stofnunarinnar, svo að þeir geti haft hana aðgengilega í tölvum sínum.

Útgáfumál 

Aðeins ein bók kom út á vegum stofnunarinnar á árinu, Báran rís og hnígur, um Íslendingafélag í Norður-Dakóta á árunum 1938–77 eftir Bergstein Jónsson. Ritstjórn annaðist Gunnar Karlsson. Háskólasjóður veitti 100.000 króna styrk til útgáfunnar, sem mun vera nokkurn veginn fyrir kostnaði. Ástæða þess að útgáfan varð svona lítil var annars vegar sú að útgáfustarfsemin var með mesta móti á árinu 2004, og komu þá út tvær bækur í Ritsafni Sagnfræðistofnunar. Hins vegar hefur undirbúningsvinna við næstu útgáfubækur reynst tímafrekari og flóknari en ætlað hafði verið. En þessi bókaútgáfa er nú á döfinni:

  • Í ritröðinni Sagnfræðirannsóknum er áformuð útgáfa á bók um sögu verkamannafélagsins Dagsbrúnar fram til 1930 eftir Þorleif Friðriksson sagnfræðing, væntanlega í samvinnu við arftaka Dagsbrúnar, Eflingu stéttarfélag. Viðræður standa yfir við Eflingu um aðild hennar að útgáfunni, og er eindregið gert ráð fyrir að bókin komi út á þessu ári, enda aldarafmæli Dagsbrúnar á árinu. Eftir að Gunnar Karlsson hefur komið bókinni út ætlar hann að láta af ritstjórn Sagnfræðirannsókna, og hefur Helgi Þorláksson verið ráðinn til að taka við ritröðinni.
  • Í Ritsafni Sagnfræðistofnunar, sem Guðmundur Jónsson stýrir, er áformað að gefa út á árinu bók eftir Aðalgeir Kristjánsson fyrrum skjalavörð um bókaútgáfu Íslendinga í Kaupmannahöfn á 18. öld.
  • Eins og nefnt var í ársskýrslu í fyrra er ætlunin að doktorsritgerð Þórs Whitehead, Iceland in the Second World War, verði gefin út í nýrri rit röð doktorsritegerða á ensku, sem Valur Ingimundarson ritstýrir.
  • Áformað var að gefa út eina MA-ritgerð óendurbætta og fjölfaldaða á allra ódýrasta hátt, og gæti það orðið upphaf að nýrri ritröð. Fulltrúi stúdenta í stjórn Sagnfræðistofnunar, Valur Freyr Steinarsson, tók verkið að sér, en ekki hefur orðið af útgáfu enn.

Aflað var upplýsinga um lagerstöðu útgáfubóka stofnunarinnar hjá Háskólaútgáfu og rætt um að efna til mikillar bókaútsölu. Ekki hefur orðið af framkvæmdum.

Forstöðumaður hefur hreyft þeirri hugmynd við forstöðumenn annarra stofnana sem hafa að hlutverki að rækta íslenska þjóðmenningu að þær taki sameiginlega að sér að kosta prentun norrænu fornmálsorðabókarinnar, Ordbog over det norrøne prosasprog, sem Árnanefnd í Kaupmannahöfn hefur gefið út, en prentun bókarinnar hefur nú verið stöðvuð vegna fjárskorts. Málið er á umræðustigi.

Minningarfyrirlestur Jóns Sigurðssonar 

Stofnunin bauð Lindu Colley, prófessor í Princeton University í Bandaríkjunum, að halda minningarfyrirlestur Jóns Sigurðssonar á árinu. Hún tók boðinu en afboðaði sig síðar vegna heilsubrests. Þá var brasilíska sagnfræðingnum Patriciu Pires Boulhosa, sem er búsett í Bretlandi, boðið í staðinn, og dvaldist hún á Íslandi frá 27. október til 4. nóvember. Minningarfyrirlesturinn hélt hún laugardaginn 29. október með titlinum Gamli sáttmáli: Fact or Fabrication, og sóttu hann yfir 50 manns. Síðan hélt hún málstofu undir titlinum The Writing of Medieval Icelandic History: a Critical Assessment með aðildarfólki Sagnfræðistofnunar og boðsgestum mánduaginn 31. október. Eftir málstofuna var að venju boðið upp á léttar veitingar í kennarastofu í Árnagarði. Þá var öllum kennurum sagnfræðiskorar gefinn kostur á að hitta Boulhosa yfir mat, ýmist á veitingarhúsum eða í heimahúsum stjórnarmanna Sagnfræðistofnunar.

Í ár mun breski sagnfræðingurinn Liz Stanley, forstöðumaður Women’s Studies í University of Manchester, halda minningarfyrirlestur Jóns Sigurðssonar.

Rannsóknir 

Mesta og helsta starf Sagnfræðistofnunar er auðvitað rannsóknarstarf þeirra sem vinna við hana. Frá rannsóknum einstaklinga er aðeins sagt lauslega:

Anna Agnarsdóttir hélt áfram að vinna að útgáfu á The Journals and Letters of Sir Joseph Banks: Iceland and the North Atlantic 1800-1820, ritun kafla í sögu íslenskrar utanlandsverslunar og IX. bindi Sögu Íslands. Hún tók þátt í starfi vinnuhópsins Europe and the World sem er hluti af Evrópuverkefninu CLIOHRES.net Network of Excellence.

Eggert Þór Bernharðsson hefur einkum unnið að tveimur rannsóknaverkefnum á árinu: 
a) Sagan til fólksins. Margmiðlun og sagnfræði. Kannaðir eru margvíslegir möguleikar á miðlun sögulegs efnis og mismunandi framsetningu eftir miðlum. Fjallað er um samspil ólíkra miðla og mögulega samtvinnun efnis í margmiðlun. b) Mótun dægurtónlistar á Íslandi 1940–1963. Hugað er að þróun dægurtónlistar frá hernámi Íslands fram að svokölluðu "bítlaæði".

Gísli Gunnarsson gaf út greinina „Spáð áfram í píramída. Tilraun til að reikna út mannfjölda Íslands 1660–1735 eftir tveim óskyldum aðferðum“ í ritinu Manntalið 1703, einnig grein um einokunarverslun og mannamun í Íslandsklukku Halldórs Laxness í afmælisrit Arnórs Hannibalssonar. Þá hélt hann áfram rannsóknum í verslunarsöguverkefni sem kemur aftur við sögu hér á eftir.

Guðmundur Jónsson hélt áfram rannsóknum á verslunarsögu 20. aldar og birti m.a. grein um þátttöku Íslands í alþjóðlegu efnahagssamstarfi eftir stríð í tímaritinu Scandinavian Economic History Review. Þá birtist grein eftir hann er nefnist „Hvers kyns velferðarkerfi? Ísland í spegli hinna kvenvænu velferðarkerfa á Norðurlöndum“ er kom út í ritinu Fléttur II. Kynjafræði - Kortlagningar.

Guðmundur Hálfdanarson hóf stjórn á öndvegisnetinu CLIOHRESnet sem styrkt er af 6. rammaáætlun ESB. Innan verkefnisins starfa 180 fræðimenn og doktorsnemar í 45 evrópskum háskólum. Að auki situr hann í stjórnarnefnd evrópsks rannsókarverkefnis sem styrkt er af ESF (European Science Foundation). Á árinu birti hann grein í Sögu um sölu Skálholtsjarða, aðra um kosningarétt kvenna og afmörkun borgararéttar í rit sem gefið var út af tilefni 90 ára afmælis kosningaréttar kvenna, og loks grein um náttúrusýn og nýtingu fallvatna á Íslandi. Unnur Birna Karlsdóttir var meðhöfundur að síðustu greininni.

Gunnar Karlsson varði rannsóknarleyfi sínu á vormisseri meðal annars í London til að kynna sér útlend fræði í tengslum við rannsókn á tilfinningarétti í sögu Íslendinga. Hann andmælti doktorsritgerð Sverris Jakobssonar og gaf andmælin út í Sögu. Þá komu út eftir hann tvær greinar um barnfóstur á Íslandi á miðöldum, ein í yfirlitsriti um „social institutions“ í þjóðveldi Íslendinga, önnur í alfræðiriti um þingstaði að fornu.

Helgi Þorláksson tekur þátt í alþjóðlegri samvinnu um fæðardeilur í framhaldi af alþjóðlegu þingi um efnið í Árósum 2003 og norræna sagnfræðingaþinginu í Stokkhólmi 2004. Hann tekur sem fyrr þátt í hinu þverfaglega Reykholtsverkefni og vinnur ásamt fjórum öðrum að sögu íslenskrar utanlandsverslunar. Útgáfa er í undirbúningi.

Ingi Sigurðsson vinnur að rannsóknum á áhrifum fjölþjóðlegra hugmyndastefna á Íslendinga 1830–1918. Í tengslum við það verkefni vinnur hann jafnframt að rannsóknum á upplýsingunni. 
Kristjana Kristinsdóttir stendur að samstarfsverkefni með Dönum, Færeyingum og Grænlendingum um rannsókn á skjalagerð í hjálendum Dana og útgáfu rits um hana. Einnig vinnur hún að rannsókn á stjórnsýslusögu og skjalagerð á 16. og 17. öld.

Már Jónsson hélt áfram athugunum á réttarheimildum miðalda, og í samvinnu við Harald Bernharðsson og Magnús Lyngdal Magnússon gaf hann út Járnsíðu og kristinrétt Árna Þorlákssonar á vegum Sögufélags. Einnig gaf hann út prestastefnudóma Brynjólfs biskups Sveinssonar í ritröðinni Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar.

Orri Vésteinsson hélt meðal annars áfram rannsóknum sínum á landnámi, sögu íslenska sóknakerfisins og stjórnaði uppgröftum í Sveigakoti í Mývatnssveit og á nokkrum stöðum á Krókdal. 
Sveinbjörn Rafnsson hefur árinu unnið að rannsóknum á fornri sagnaritun frá miðöldum. Út kom eftir hann bókin Ólafs sögur Tryggvasonar. Um gerðir þeirra, heimildir og höfunda. Enn fremur birti hann grein um Vatnsdæla sögu og Kristni sögu í tímaritinu Sögu.

Valur Ingimundarson hélt meðal annars áfram rannsóknum sínum á: (a) íslenskum utanríkismálum og samskiptum Íslands og Bandaríkjanna frá lokum kalda stríðsins, (b) „stjórnmálum minninga“ og stríðsglæpum og (c) þjóðarímyndum, alþjóðastofnunum og „friðaruppbyggingu“ á alþjóðlegum verndarsvæðum.

Þór Whitehead vann við fimmta bindið í ritverkinu Ísland í síðari heimsstyrjöld, en jafnframt að ritgerð um þróun íslenskrar hlutleysisstefnu 1918-1945, sem birt verður í næsta vorhefti Sögu. Þá samdi hann fyrirlesturinn ,,Hlutleysi, sérhagsmunir eða virk þátttaka? Hlutverk Íslendinga í síðari heimsstyrjöld“ og flutti á vegum Hugvísindadeildar í tilefni af því að 60 ár voru liðin frá lokum heimsstyrjaldarinnar.

Þá var haldið áfram við samstarfsverkefni sem stofnunin eða einstakir starfsmenn eiga aðild að: 
Í Reykholtsverkefni, þar sem Helgi Þorláksson er fulltrúi stofnunarinnar, var opnuð sýning um verkefnið í Þjóðminjasafni í lok janúar. Uppgröftur hélt áfram í Reykholti og í Kjarardal. Samnorrænt málþing var haldið í október með heitinu Snorris-Edda – i europæisk og islandsk kultur. 
Í sögu íslenskrar utanlandsverslunar, sem er einnig í umsjá Helga Þorlákssonar, var Sumarliði Ísleifsson ráðinn verkefnisstjóri og hélt fundi með höfundum á haustmánuðum. Tveggja milljóna króna styrkur fékkst frá ríkisstjórninni.

Fjögur hundruð ára afmæli Brynjólfs biskups Sveinssonar var haldið hátíðlegt með sýningu í Þjóðarbókhlöðu sem var opnuð 14. september. Í sýningarskrá voru þrjár fræðilegar greinar, og allmikil dagskrá fór fram í tengslum við opnun sýningarinnar, bæði í Þjóðarbók¬hlöðunni og daginn eftir í Skálholti.

Stofnunin er bakhjarl að Mosfellsverkefni um fornleifar og breytingar vegna mannvistar í Mosfellssveit sem prófessor Jesse Byock stýrir. Stofnunin mun aldrei hafa haft annan atbeina að þessu verkefni en óskað hefur verið eftir, og var það ekki gert á árinu 2005. En rannsóknir héldu áfram í Mosfellssveit,og var bæði haldið áfram uppgrefti á Hrísbrú og könnuð steinahleðsla með skipslagi á Borg, austar í dalnum.

Á árinu 2004 hafði Guðmundur Jónsson frumkvæði að því að Sagnfræðistofnun gengist fyrir skipulegri söfnun munnlegra heimilda, í samvinnu við aðra aðila, og tók að sér að stýra því verki af hálfu stofnunarinnar. Nú hefur fengist 2 millj. króna fjárveiting til verksins og samstarf tekist við Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum, Kennaraháskóla Íslands og Landsbókasafn-Háskólabókasafn um verkefnið.

Í ársskýrslu síðasta árs voru nefnd fleiri verkefni sem stofnunin hafði komið að á einhvern hátt. Rannsóknarstofnun KHÍ er meginaðili að ritinu Almenningsfræðsla á Íslandi 1880–2007, en Guðmundur Hálfdanarson situr í ritstjórn fyrir hönd Sagnfræðistofnunar. Utanríkisráðuneytið vinnur að því í samvinnu við rússnesk stjórnvöld að gefa út rit um samskipti Íslands við Sovétríkin og Rússland. Valur Ingimundarson er fulltrúi stofnunarinnar í því. Stofnunin er bakhjarl Erasmus-verkefnisins PHOENIX – European Thematic Network on Health and Social Welfare Policy, sem Ólöf Garðarsdóttir tekur þátt í. Stjórn Sagnfræðistofnunar kann engar sérstakar fréttir að segja af þessum verkefnum að sinni.

Á árinu gerðist stofnunin bakhjarl að nýju verkefni um norræna landbúnaðarsögu, Rural History of Northern Europe, þar sem Árni Daníel Júlíusson er fulltrúi Íslendinga. Ekki hefur stofnunin skuldbundið sig til að leggja neitt fram til verkefnisins.

Íslandssaga í greinum 

Ritaskráin Íslandssaga í greinum, sem er vistuð á Söguslóðum, nær ekki til rita sem voru gefin út eftir 2000. Ákveðið var að uppfæra skrána til nútímans og Hugrún Ösp Reynisdóttir ráðin til þess verks. Hún lauk því að mestu leyti á árinu 2005, en Gunnar Karlsson vinnur nú að því að fara yfir færslur hennar og lagfæra flokkun þeirra. Að því búnu verða viðbætur Hugrúnar færðar inn í skrána á Söguslóðum.

Sagnfræðiþing 

Stofnunin á aðild að þriðja íslenska söguþinginu, ásamt Sagnfræðingafélagi Íslands og Sögufélagi. Már Jónsson er fulltrúi stofnunarinna í undirbúningsnefnd þingsins, og hefur verið ákveðið að halda það í maí í ár.

Landnefnd íslenskra sagnfræðinga er að undirbúa norrænt sagnfræðiþing í Reykjavík í ágúst 2007. Hefur Einar Hreinsson verið ráðinn framkvæmdastjóri þingsins og samið við hann um laun fyrir þá vinnu.

Fjárhagur 

Yfirlit um fjárhag ársins 2005, sem er lagt fram á þessum fundi ásamt ársskýrslunni, bendir til þess að reksturinn sé nokkurn veginn í jafnvægi. Niðurstöðutölur yfirlitsins eru þær að tekjur hafi verið 5.135 þúsund krónur en útgjöld 4.734 þúsund. Mismunurinn, 401 þúsund, kemur ekki nákvæmlega heim við lækkun á skuld stofnunarinnar samkvæmt heildaryfirlitinu, sem nemur 373 þúsundum. Skekkjan, 28 þúsund, breytir engu sem skiptir máli um fjárhag stofnunarinnar, enda er ekki verið að birta reikninga í yfirlitinu, heldur gefa yfirlit um fjárhag.

Yfirlitið gefur þó engan veginn endanlega mynd af fjárhag stofnunarinnar, einkum vegna þess að Háskólaútgáfan hefur ekki skilað neinu uppgjöri, hvorki fyrir árið 2004 né 2005, þrátt fyrir margendurtekin tilmæli um það. Ekkert mun hafa verið greitt fyrir framleiðslu bókanna Alþýðumenning á Íslandi 1830–1930 (2003), Sagnfræði á 20. öld (2004), Fiskurinn sem munkunum þótti bestur (2004) og Báran rís og hnígur (2005), og óvíst er hvort eitthvað hefur verið greitt fyrir Framtíð handan hafs (2003). Á hinn bóginn hefur engu verið skilað inn fyrir sölu á útgáfubókum stofnunarinnar á þessum árum.

Dæmt eftir tölunum einum hefur fjárhagur stofnunarinnar batnað talsvert á árinu. Það stafar ekki af góðri fjármálastjórn heldur seinlæti stjórnarinnar. Bókakaup í Guðnastofu, sem voru orðin tímabær og ákveðið var snemma árs 2005 að leggja í, komust þannig ekki í verk fyrr en á árinu 2006. Að rekstrartölur eru ekki ennþá hagstæðari stafar meðal annars af því að allmikill halli varð á sölu ljósrita á árinu vegna misskilnings um verðlagningu þeirra. En nú er unnið að því að vinna hann upp, bæði með skiptum við ódýrari prentþjónustu og hærri álagningu.