Bíbí í Berlín – Fötlunarfræði og einsaga: Aðferðafræðilegar pælingar

Bíbí hét fullu nafni Bjargey Kristjánsdóttir (1927–1999) en hún var kennd við kotbæ foreldra sinna sem hét Berlín. Hún þótti bráðgert barn en veiktist á fyrsta ári og var síðar merkt sem ,,fáviti“ af fölskyldu sinni og sveitungum. Bíbí var höfð sem hornreka á heimilinu framan af og var falin fyrir gestum og gangandi. Sjálfsævisaga hennar ber þó vott um góða greind og innsæi í líf sitt og aðstæður. Í sögu sinni lýsir Bíbí meðal annars hvernig hún fann lífi sínu farveg í garðrækt og brúðusafni sem hún ánafnaði Þjóðminjasafni Íslands eftir sinn dag. Sjálfsævisaga Bíbíar er afar umfangsmikil en hún telur alls 120 þúsund orð. Bíbí skrifaði sjálfsævisögu sína í einrúmi, hélt henni leyndri fyrir fjölskyldu sinni og samferðafólki og fáir vissu af tilvist hennar.

Í þessu þriggja ára rannsóknarverkefni verður sjálfsævisaga Bíbíar og hinar mörgu hliðar á lífi hennar könnuð. Meginmarkmið rannóknarinnar er að greina þá flóknu og samtvinnuðu sögulegu, menningarlegu og félagslegu þætti sem höfðu áhrif á líf Bíbíar og skópu samfélagsleg viðhorf í garð fatlaðs fólks. Rannsóknin tengir saman tvö fræðasvið, fötlunarfræði og einsögu í þeim tilgangi að skapa nýja gagnrýna hugsun og umræðu um fatlað fólk í sögu og samfélagi. Til þess að auka enn frekar skilning á sjálfsævisögu Bíbíar og yfirfæra á reynslu fatlaðra kvenna í nútímanum felst hluti rannsóknarinnar í samvinnurannsókn sem felur í sér að hópur fatlaðra kvenna verður fenginn til að greina sögu Bibíar.

Ekki er vitað til að sjálfsævisögur sambærilegar Bíbíar finnist á Íslandi og þær eru fátíðar í alþjóðlegu samhengi. Fyrirlestrar okkar þriggja munu fjalla um rannsóknina sem er framundan.

Fyrirlestrar

  •  Guðrún V. Stefánsdóttir prófessor í fötlunarfræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. „Bíbí í Berlín – sjálfsævisaga sem andsaga“
  • Sólveig Ólafsdóttir doktorsnemi í sagnfræði við Hugvísindasvið Háskóla Íslands. „Hverju tóku presturinn og læknirinn eftir hjá litlu stelpunni?“
  • Sigurður Gylfi Magnússon prófessor í menningarsögu við Hugvísindasvið Háskóla Íslands. „Ein saga, ein manneskja – Mikilvægi einsögulegra rannsókna fyrir fötlunarfræðirannsóknir“

Málstofustjóri

Sigurður Gylfi Magnússon, prófessor í menningarsögu við Háskóla Íslands.

Útdrættir

„Bíbí í Berlín – sjálfsævisaga sem andsaga“

Bíbí bjó í kotbænum Berlín á Höfðaströnd ásamt foreldrum sínum og bróður fyrstu 30 árin í lífi sínu en eftir það flutti hún á elliheimilið (héraðshælið) á Blöndósi og bjó þar í 17. ár. Þaðan flutti hún í sjálfstæða búsetu á Blöndósi en endaði síðan ævina á héraðshælinu en þar dvaldi hún síðustu árin í lífi sínu. Sjálfsævisaga Bíbíar er einstök heimild um aðstæður fatlaðs fólks bæði hér á landi og í alþjóðlegu samhengi en afar fá dæmi eru um sambærilegar heimildir. Í erindinu verður fjallað stuttlega um

aðdraganda og aðferðafræði rannsóknarinnar á sjálfsævisögu Bíbar í Berlín. Síðan verður sjónum beint að helstu tímamótum í lífi hennar, garðræktinni og brúðusafninu. Auk þess verður greint frá með hvaða hætti sjálfævisaga hennar birtist sem andsaga við ríkjandi opinbera stefnu og hugmyndir um fatlað fólk í samfélaginu fyrr og nú. Þá verður leistast við að setja sjálfsævisögu Bíbíar í samhengi við femínískar kenningar um samtvinnun og greina með hvaða hætti fötlun, kyn og stéttarstaða samtvinnast í lífi hennar.

„Hverju tóku presturinn og læknirinn eftir hjá litlu stelpunni?“

Það er einkar áhugavert að rýna í hvað yfirvöld skráðu hjá sér um Bíbí í opinberar samtímaheimildir. Hér verður staldrað við þær „yrðingar“ sem sóknarpresturinn og héraðslæknirinn notuðu um Bíbí. Einnig verður hugað að því hvað ekki var ritað í heimildir og hvernig stéttarmunurinn kristallast í því sem áttu að vera hlutlægar heimildir.

Hér er lögð áhersla á rannsóknaraðferð sem kennd er við smáatriði, útsjónarsemi og þolinmæði, á ensku nefnd „Slow Researce Methology.“ Frá þeim rannsóknarsjónarhóli er rýnt í það sem nefnt hefur verið á ensku „Slow Violence“; þ.e. ofbeldi sem liggur undir yfirborðinu og stendur yfir í langan tíma, jafnvel alla ævi viðkomandi einstaklinga.

„Ein saga, ein manneskja – Mikilvægi einsögulegra rannsókna fyrir fötlunarfræðirannsóknir“

Í fyrri verkum mínum kynnti ég til leiks fræðilegan ramma sem kallast einvæðing sögunnar (e. „singularization of History“) með því að gagnrýna hvernig félags-, menningar- og einsögufræðingar hafa iðkað fræðimennsku sína síðustu tvo eða þrjá áratugina. Ég lagði sérstaklega áherslu á einn þátt sem er sameiginlegur fræðilegri stefnumörkun allra einsögufræðinga, þ.e. tengslin milli hins smáa og stóra. Einsögufræðinga leggja áherslu á mikilvægi þess að setja litlar einingar rannsókna í stærra samhengi. Ég hafna þessari rannsóknarleið og hef bent á eðlislægar mótsagnir hennar. Ég hvet sagnfræðinga til að klippa naflastrenginn sem bindur þá við það sem stundum er kallað „stórar söguleg spurning“.

Áskorun greinar minnar verður að íhuga hvort þessi rannsóknaráhersla útiloki sögulega greiningu sem beinist aðeins að einni manneskju, aðeins að einni sögu. Áherslan verður á að kanna hvort og hvernig hægt er að vinna með eina sjálfsævisögu sem byggir á lífi manneskju sem var að stærstum hluta hornreka í íslensku samfélagi. Spurningin er: hvað viðmiðum er best að beita við slíka greiningu og hvernig er hægt að tengja einsögu og fötlunarfræði til að ná því markmiði?