Header Paragraph

Bók um ástarsamband Kristrúnar Jónsdóttur og Baldvins Einarssonar

Image

Út er komin bókin Ég er þinn elskari. Bréf Baldvins Einarssonar til Kristrúnar Jónsdóttur 1825-1832. Erla Hulda Halldórsdóttir, prófessor í sagnfræði við Deild heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði HÍ, ritar ítarlegan inngang um sögu Kristrúnar og Baldvins og bjó bréf hans til prentunar með skýringum og nútímastafsetningu. 

Baldvin og Kristrún voru trúlofuð þegar hann fór utan til náms í Kaupmannahöfn sumarið 1826. Þar sveik hann hana í tryggðum og við tók flókið bréfasamband ástar, blekkinga og fyrirgefningar þar til hann dó árið 1833. Erla Hulda rekur þessa ástarsögu í gegnum bréfin sem hann skrifaði henni á tímabilinu 1825–1832 og setur þau í samhengi við rannsóknir á ást og sendibréfum fyrri tíma. Bréf Kristrúnar til Baldvins eru glötuð og því er hennar sjónarhorn og tilfinningar aðeins bergmál í bréfum hans, bréfum annarra, örfáum kvæðum og sögum um ást þeirra.

Háskólaútgáfan gefur út og Snæfríð Þorsteins braut um og hannaði bókina.

Erla Hulda Halldórsdóttir er prófessor í sagnfræði við Deild heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði við Háskóla Íslands. Hún er sérfræðingur í kvenna- og kynjasögu á nítjándu og tuttugustu öld en hefur einnig sinnt rannsóknum á sendibréfum, sagnaritun kvenna og sagnfræðilegum ævisögum. Erla Hulda hefur birt fjölda greina um rannsóknir sínar hér á landi og erlendis. Bók hennar Nútímans konur. Menntun kvenna og mótun kyngervis á Íslandi 1850–1903 kom út árið 2011. Hún er jafnframt einn höfunda bókarinnar Konur sem kjósa. Aldarsaga sem kom út árið 2020.

Image