Erla Hulda Halldórsdóttir

Erla Hulda Halldórsdóttir, prófessor í sagnfræði við Deild heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði, hefur hlotið verðlaun konunglegu Gústafs Adolfs akademíunnar í sænskri alþýðumenningu. Verðlaunin hlýtur Erla Hulda úr verðlaunasjóði Torsten Janckes fyrir rannsóknir sínar á kynjasögu og á sviði skriftarkunnáttu þar sem hún hefur á nýstárlegan hátt nýtt sendibréf sem mikilvæga heimild ævisagna frá 19. öld. Verðlaunin verða afhent í Uppsalahöll 6. nóvember næstkomandi og er verðlaunaféð 70.000 sænskar krónur.

Erla Hulda Halldórsdóttir er sérfræðingur í kvenna- og kynjasögu á nítjándu og tuttugustu öld en hefur einnig sinnt rannsóknum á sendibréfum, sagnaritun kvenna og sagnfræðilegum ævisögum. Erla Hulda hefur birt fjölda greina um rannsóknir sínar hér á landi og erlendis. Hún er höfundur bókanna Nútímans konur. Menntun kvenna og mótun kyngervis á Íslandi 1850–1903, Ég er þinn elskari. Bréf Baldvins Einarssonar til Kristrúnar Jónsdóttur 1825-1832 og Strá fyrir straumi. Ævi Sigríðar Pálsdóttur 1809-1871. Hún er jafnframt einn höfunda bókarinnar Konur sem kjósa. Aldarsaga sem kom út árið 2020.

Share