Frá goðaveldi til konungsvalds: Afstaða Íslendinga til Noregskonungs og stjórnmálabarátta Sturlungaaldar (tvöföld málstofa)
Í Hamri 201, föstudaginn 20. maí kl. 9.00-12.15.
Tímabilið frá landnámi Íslands til falls goðaveldisins hefur lengi verið vinsælt viðfangsefni meðal fræðimanna. Eitt helsta einkenni þessa tímabils er að þá var enginn þjóðhöfðingi á Íslandi. Þetta er merkileg staðreynd, ekki síst í ljósi þess að konungsvald var þá orðið útbreytt stjórnarform á meginlandi Evrópu, þar með talið á Norðurlöndum. Í þessu samhengi hefur því verið haldið fram að Noregskonunga hafi snemma dreymt um að ná yfirráðum yfir þeim löndum sem byggð voru úr Noregi. Þessi stefna hafi fengið byr í seglin þegar erkibiskupsstóll var settur í Niðarósi árið 1153 og náð hámarki þegar Íslendingar gengu Noregskonungi á hönd með gerð Gamla sáttmála árin 1262–64.
Í málstofunni verður fjallað um afstöðu Íslendinga til konungsvalds á goðaveldissöld og áhersla lögð á samskiptin við Hákon Hákonarson Noregskonung (1217–1263). Viðhorf íslensku valdastéttarinnar til norska konungsvaldsins verða skoðuð, samband hennar við Hákon gamla kannað og því velt upp hvort Noregskonungur hafi eflt ófrið í landinu af ráðnum hug til að brjóta Íslendinga undir vald sitt eða ná völdum á Íslandi til að friða landið. Þá verður sett fram ný kenning um ástæður þess að Íslendingar gengu Noregskonungi á hönd með Gamla sáttmála árið 1262–64.
Fyrirlestrar:
- Auður Ingvarsdóttir. „Viðhorf til konungsvalds í Landnámu og öðrum miðaldatextum“
- Guðrún Ása Grímsdóttir. „Málin lögð í konungsdóm“
- Helgi Skúli Kjartansson. „Stilla til friðar eða ná friði? Rýnt í orðalagið „ná friði og íslenskum lögum“ í Gamla sáttmála“
- Skafti Ingimarsson. „„Þá var mikill vetur“: Samalas-eldgosið árið 1257 og fall íslenska goðaveldisins“
- Sverrir Jakobsson. „Innleiðing konungsvalds á Íslandi 1247–1281“
- Úlfar Bragason: „„Gerðist hann þá hirðmaðr Magnúss konungs“: Um afstöðu Sturlu sagnaritara til konungsvaldsins“
Málstofustjóri: Skafti Ingimarsson og Gunnvör Sigríður Karlsdóttir.
Útdrættir
Afstaðan til konungsvalds í Landnámabók
Er hægt að greina ákveðna afstöðu til konungsvaldsins í Landnámabók? Sá konungur sem oftast kemur þar fyrir er Haraldur hárfagri. Ýmsir hafa talið sig greina ákveðna hneigð og söguskoðun í þessu riti og þá helst að landnámsmönnum sé lýst sem stórættuðum höfðingjum sem flýja ofríki konungs. Klausurnar um „ofríki“ konungs hafa þótt lýsandi fyrir þessa hneigð og álit sagnaritarans á konungsvaldinu. Jafnframt hafa menn bent á orð Ara fróða í Íslendingabók um upphaf landaura og að landnámið hafi þannig verið með vitund og jafnvel ráði Haralds konungs. Ennfremur er vitnað í klausu í Landnámabók Hauks þar sem Haraldur kemur fram sem sáttasemjari landnámsmanna .. Þarna hafa menn því séð greinilegan afstöðumun. Ef ástæður þeirra sem flytja til Íslands eru skoðaðar kemur það í ljós að í öllum gerðum er að finna missætti landnámsmanna og óvinskap við konung og jarla og aðra höfðingja. Þar má á nokkrum stöðum sjá notað orðalagið „ofríki“. Það er þó ekki hægt að segja að „ofríki Haralds“ sé áberandi skýring á flutningi landnámsmannanna. Landnámsmennirnir sem fara af landi brott vegna óvinsamlegra samskipta við konung eru heldur ekki allir sérstaklega ættstórir. Afstaðan til konungs er flókin og margbrotin. Aftur á móti er þessi söguskoðun fullmótuð í ýmsum yngri sagnaritum.
Málin lögð í konungs dóm
Í Sturlungu eru nokkur dæmi um að á úrslitastundum bjóða eða leggja stríðandi höfðingjar á Íslandi öll sín mál í dóm Hákonar Hákonarsonar Noregskonungs.Í erindinu verða þessi dæmi dregin fram og sýnt að sköpum skipti hvort hinn stríðandi höfðingi var hirðmaður konungs og með konungs bréf upp á völd sín ellegar að höfðinginn var í einskonar sjálfstæðisbaráttu gegn konungsmanni. Einna skýrast dæmi þessa eru sett fram í orðaskiptum Hrafns Oddssonar og Þorgils Böðvarssonar skarða þar sem konungsmaðurinn Þorgils skarði býður mál þeirra á konungs dóm, en Hrafn vill að Þorgils gangi á vald þeirra Sturlu Þórðarsonar og láti þá um að skapa og skera um málin. Hér mætast ólík sjónarmið, annarsvegar sjálfstektarréttur íslensks bændahöfðingja og hinsvegar konungs dómur, af þessu verður reynt að ráða í mismunandi afstöðu fyrirmanna Íslendinga til norska konungsvaldsins.
„Þá var mikill vetur“: Samalas-eldgosið árið 1257 og fall íslenska goðaveldisins.
Árið 1257 gaus eldfjallið Samalas á eyjunni Lombok í Indónesíu einu stærsta sprengigosi sem orðið hefur á sögulegum tíma. Eldgosið olli miklum hörmungum í nágrenni eldfjallsins og hafði í för með sér kólnandi veðurfar um allan heim um nokkurra ára skeið, þar á meðal í Evrópu. Í fyrirlestrinum verður fjallað um eldgosið og hvaða afleiðingar það hafði á Íslandi. Sýnt verður fram á að mikil harðindi gengu yfir landið árin 1258–1261 og að heimildir benda til þess að legið hafi við hungursneyð meðal landsmanna. Þá verður sett fram sú tilgáta að harðindin og hallærið sem af þeim leiddi hafi verið ein meginástæða þess að Íslendingar gengu Hákoni Hákonarsyni Noregskonungi á hönd með Gamla sáttmála árin 1262–1264. Tilgangur skipaákvæðis sáttmálans – þess efnis að sex skip skyldu sigla milli Noregs og Íslands næstu tvö sumur – hafi verið að tryggja að vistir og varningur bærust landsmönnum, sem voru hjálparþurfi.
Stilla til friðar eða ná friði? Rýnt í orðalagið „ná friði og íslenskum lögum“ í Gamla sáttmála
Textinn, sem oftast er kallaður Gamli sáttmáli og tengdur árinu 1262, er að vísu enginn sáttmáli eða samningur heldur hyllingarskjal eða skilmálaskrá, og aðeins til í ungum handritum, en mun þó til orðinn á Alþingi 1262, við aðstæður sem best er lýst í Hákonar sögu. Í skjalinu setja áhrifamenn í umdæmi Gissurar jarls skilmála fyrir skattgreiðslu til Noregskonunga, m.a. að „hér í mót skal konungur láta oss ná friði og íslenskum lögum“. Hefur það löngum verið túlkað sem krafa um að konungur bindi enda á þrálátan innanlandsófrið og ábyrgist að hann blossi ekki upp aftur. Því verði hafi menn viljað selja sjálfstæði landsins, svo langþreyttir sem þeir voru á styrjöld Sturlungaaldar. Í sama texta vilja menn sætta sig við jarlinn „meðan hann heldur … frið við oss“. Væntanlega er hugsunin sú sama gagnvart konungi: menn séu ekki að kalla eftir neinni friðargæslu heldur aðeins „friðsamlegri sambúð“: frábiðja sér ófrið af konungs hálfu og vilja þá um leið eiga friðland í Noregi. Að lesa aðra og víðtækari merkingu í þessi orð er vissulega hefðbundin sögutúlkun en verður að teljast ógætileg þegar viðurhlutaminni útlegging blasir við. Að „ná … íslenskum lögum“ ber væntanlega að skilja á hliðstæðan hátt.
Innleiðing konungsvalds á Íslandi 1247-1281
Ríkjandi söguskoðun á Ísland er að Íslendingar hafi gengið undir yfirráð Noregskonungs frekar skyndilega árið 1262, en stundum bent á að ferlið hafi tekið a.m.k. þrjú ár (1262-1264). Í þessum fyrirlestri er ætlunin að benda á að þetta ferli hafi í raun verið mun langvinnara og hafi hafist ekki síðar en 1220. Bent verður á heimildir sem gefa til að kynna að stór hluti Íslands hafi verið komin undir forræði Noregskonungs árið 1247 og að samskipti Noregskonungs við Íslendinga í kjölfarið hafi einkum snúist um að ákveða með hvaða hætti völdum konungs á Íslandi og tekjum hans af landinu yrði háttað. Mikilvæg tímamót í því efni er samþykkt Skagfirðinga og Eyfirðinga um skattgreiðslur til konungs árið 1256. Eftir 1264 var búið að staðfesta trúnað Íslendinga við Noregskonunga og árlegar skattgreiðslur til konungs en skömmu síðar hófst nýr kafli í innlimunarferlinu, þegar Noregskonungur hófst handa við að samræma lög í ríkinu og komst Noregur að því leyti í fremstu röð evrópskra konungsríkja á dögum Magnúss lagabætis. Á Íslandi olli þessi samræming löggjafar nokkrum vandræðum þar sem hún var ekki hluti af þeim skilmálum sem Íslendingar undirgengust fyrir 1264. Andstaða við lögbækurnar Járnsíðu og Jónsbókar snerust m.a. um það hver ætti að hafa löggjafarvald á landinu og fékkst að lokum viðurkennt að það væri konungur. Í því ljósi má skilja Gamla sáttmála og aðrar samþykktir Íslendinga gagnvart konungsvaldi á síðari hluta miðalda.
„Gerðist hann þá hirðmaðr Magnúss konungs“: Um afstöðu Sturlu sagnaritara til konungsvaldsins.
Svokallaður „Sturlu þáttr“ sem líklega hefur verið hnýtt aftan við Þorgils sögu skarða í öðru aðalhandriti Sturlungu, Reykjarfjarðarbók, lýsir því þegar Sturla Þórðarson gekk á fund Magnúsar konungs lagabætis 1263 og baðst náðar hans. Fyrir milligöngu Gauts Jónssonar á Meli og drottningar og vegna frásagnarlistar sinnar og skáldskapar kemst Sturla í kærleika við konung sem gerir hann að sagnaritara sínum. Sturla hafði ekki áður verið í Noregi en var einn þeirra forsvarsmanna Íslendinga sem játuðu Noregskonungi skatti á alþingi 1262.
Í erindinu verður fjallað um konungshugsjón Sturlu á þessum tímamótum og þátturinn ber vitni um.