Hástéttir, sérfræðiþekking og ríkisvald á nítjándu og tuttugustu öld
Hamri 204, föstudaginn 20. maí kl. 10.45-12.15.
Viðfangsefni málstofunnar lýtur að samspili hástétta, sérfræðiþekkingar og nútímaríkisins á nítjándu og tuttugustu öld. Hugmyndasmiðir á borð við Max Weber og Michel Foucault hafa bent á að þróun nútímaríkisins var nátengd tilkomu fagstétta sem byggðu völd sín á formlegri menntun. Ríkið einokaði réttinn til að lögmæta starfsgreinar í samfélaginu og beitti sér jafnframt með beinum hætti fyrir formlegri menntun og fagstéttarmótun á afmörkuðum sviðum. Stjórnendur lögðu grundvöllinn að nýjum stéttum sérfræðinga til þess að tryggja vald sitt í sessi. Hástéttir nýttu sér að sama skapi formlega menntun og afmörkun fagstétta til að viðhalda völdum sínum, auði og stöðu milli kynslóða og beittu sér fyrir útþenslu valdsviðs hins opinbera sem þjónaði einnig hagsmunum þeirra. Erindin í málstofunni eiga það sameiginlegt að beina sjónum að tilkomu slíkra fagstétta — þar á meðal lögfræðinga, presta og verkfræðinga — sem gegndu lykilstöðum innan nútímaríkisins. Þessar valdastéttir nutu samfélagslegra yfirburða í krafti formlegrar menntunar og sérfræðiþekkingar en einkenndust jafnframt af einsleitum félagslegum bakgrunni þar sem flestir voru úr efri lögum þjóðfélagsins. Hóparnir voru nátengdir innbyrgðis í gegnum ættarvensl og hjónabönd auk þess sem meðlimir þeirra gengu í sömu skólanna. Sjónarhornið er alþjóðlegt og fjallað verður um hvernig þróunin tók á sig ólíka mynd í Frakklandi og Bandaríkjunum sem og Þýskalandi og Íslandi. Fjallað verður um hvernig fagstéttavæðing gerði rótgrónum valdastéttum kleift að viðhalda yfirburðastöðu sinni í gegnum byltingakenndar þjóðfélagsbreytingar auk þess sem spurt verður um áhrif lýðræðisþróunar og aukins aðgengis að menntun á uppbyggingu, sjálfsmyndir og áhrifavald stéttanna.
Fyrirlestrar
- Dr. Sveinn Máni Jóhannesson, nýdoktor í sögu Bandaríkjanna við Edinborgar-háskóla. „Tæknipólitík, verkfræðingar og þróun ríkisvalds í Bandaríkjunum á nítjándu öld“
- Dr.Hrafnkell Lárusson, doktor í sagnfræði og sérfræðingur við Þjóðskjalasafn Íslands. „Feðraveldi og framfaraþrá: Um hnignun íslenska dyggðasamfélagsins undir lok 19.aldar“
Útdrættir
Tæknipólitík, verkfræðingar og þróun ríkisvalds í Bandaríkjunum á nítjándu öld
Á fyrri hluta nítjándu aldar var náið samspil milli bandaríska alríkisins og vísinda- og tækniþróunar sem birtist ekki síst í vaxandi áhrifum verkfræðinga á ríkismótun. Bandaríska alríkið menntaði fleiri verk- og tæknifræðinga en nokkurt annað ríki á tímabilinu. Starf hernaðarakademíunnar við West Point var umfangsmeira en bæði franska fjöltækniskólans, École Polytechnique, sem stofnaður var á tímum frönsku byltingarinnar, og prússnesku stríðsakademíunnar, Kriegsakademie, sem var sett á fót í upphafi Napóleon styrjaldanna. Í þessu fólst undraverður viðsnúningur. Áður hafði skortur á verk- og tækniþekkingu leitt til þess að norður-amerísku byltingarleiðtogarnir leituðu aðstoðar Frakklands, sem var miðstöð tæknilegrar menntunar á upplýsingaöld, í sjálfstæðisstríði sínu gegn breska heimsveldinu. Í kjölfar stríðsins litu leiðtogar alríkisins á slíka þekkingu sem forsendu sjálfstæðis og leituðust við að tryggja öryggi og farsæld hins nýja ríkis með því að móta stofnanaumgjörð utan um vísinda- og tækniþekkingu. Þeir söfnuðu fræðiritum og kennslubókum, komu upp bókasöfnum og tilraunastofum, og réðu vísindamenn og verkfræðinga frá Frakklandi – þar sem franska byltingin hafði fleytt verkfræðingum á borð við Lazare Carnot og Gaspard Monge til æðstu metorða – til starfa við West Point. Verkfræðingarnir sem útskrifuðust frá West Point urðu í kjölfarið afar áhrifamiklir innan bandaríska alríkisins, einkum í hernum og stjórnsýslunni, sem og innan stjórnkerfa einstakra ríkja. Í erindinu verður notast við hugtakið tæknipólitík (e. technopolitics) til að varpa ljósi á áhrif verkfræðinga á bandaríska ríkisþróun og ástæður þess að hið nýstofnað ríki lagði áherslu á formlega menntun í vísindum og tæknifræðum.
Feðraveldi og framfaraþrá: Um hnignun íslenska dyggðasamfélagsins undir lok 19. aldar
Íslenskt samfélag við upphaf síðasta fjórðungs 19. aldar var sveitasamfélag sem hafði þróast hægt frá upphafi aldar, hvort sem litið var til búsetu, atvinnuhátta, menntunar eða menningar. Almennt siðferði og félagsgerð þess einkenndist af lúthersku stigveldi (feðraveldi) og lærðum dyggðum sem landsmönnum var ætlað að temja sér og halda að öðrum. Siðferðilegt uppeldi skyldi vara alla ævina og lykilmenn við að leiða það voru þeir sem hæst stóðu í samfélagsstigveldinu – prestar, embættismenn og húsbændur. Í doktorsritgerð minni í sagnfræði set ég fram hugtakið dyggðasamfélag um ráðandi siðferðisviðmið 19. aldar. Dyggðasamfélagið var siðferðislegi hluti íslenska sveitasamfélagsins á 19. öld, forvera íslenska nútímasamfélagsins sem var að byrja að myndast undir lok aldarinnar.
Til að skýra forsendur dyggðasamfélagsins og hnignun þess undir lok 19. aldar verður í erindinu stuðst við notkun Pierre Bourdieu á hugtakinu doxa sem hann beitti í rannsóknum á for-kapitalískum samfélögum. Doxa er samstæða grundvallarskoðana og -trúar á hvernig samfélagið eigi að vera – hvað sé samþykkt og viðurkennd hegðun og framkoma. Doxa vísar þannig til félagslegra venja og samskiptahátta sem eru sjálfgefnar. Í erindum verður rætt um hnignun íslenska dyggðasamfélagsins, breytt siðferðisleg viðmið við aldamót, forsendur þessara breytinga og áhrif þeirra á félagsgerð og valdaafstæður.