Heimildafjöll átjándu aldarinnar
Í Hamri 203, laugardaginn 21.maí kl. 13.30-15.00
Átjánda öldin er heimildarík og á undanförnum árum hefur sífellt meira af gögnum um samfélag 18. aldar verið gerðar aðgengilegri notenum með útgáfu eða birtingu á vef. Efni málstofunnar eru þrír ríkulegir heimildaflokkar frá 18. öldinni og rannsóknir byggðar á þeim, skjöl Landsnefndarinnar fyrri 1770–1771, manntölin 1729, 1735, 1753 og 1762 og skjöl Yfirréttarins frá 1690–1800. Þjóðskjalasafn vinnur nú skipulega að því að birta bæði prentútgáfur þessara heimilda og vefbirtingu skjalanna.
Fyrirlestrar
- Kristrún Halla Helgadóttir. „Skráning manntala á 18. öld í ljósi víðtækrar upplýsingasöfnunar danskra stjórnvalda“
- Jóhanna Þ.Guðmundsdóttir. „Hrossakaup og önnur viðskipti Landsnefndarinnar fyrri á Íslandi 1770–1771“
- Ragnhildur Hólmgeirsdóttir. „Stöðumunur einstaklinga gagnvart Yfirréttinum“
Útdrættir
Hrossakaup og önnur viðskipti Landsnefndarinnar fyrri á Íslandi 1770–1771
Í erindinu verður útgáfa á skjölum Landsnefndarinnar fyrri kynnt — sex binda heimildaútgáfa sem nú er lang á veg komin, og sannarlega má teljast mikil fróðleiksnáma um átjándu öldina. Ferðir nefndarinnar um Ísland verða raktar ítarlega eftir varðveittum reikningum og kvittunum þar sem tilfærð eru kaup á hrossum og margs konar vörum og þjónustu þetta eina og hálfa ár sem nefndin dvaldi á landinu. Hvers konar þjónustu keypti nefndin á meðan hún var hér og hvaða fólk var það sem einkum þjónustaði hana? Þannig er aukið við þekkinguna á nefndinni sjálfri og samskiptum hennar við landsmenn en jafnframt vakin athygli á lítið notuðum heimildum frá þessum tíma sem eru reikningar Jarðabókarsjóðs í rentukammeri. Þá verður nefndin einnig sett í samhengi við annað viðreisnarstarf á Íslandi á síðari hluta átjándu aldar sem greitt var fyrir út konungssjóði.
Skráning manntala á 18. öld í ljósi víðtækrar upplýsingasöfnunar danskra stjórnvalda
Þegar einveldi komst á í Danmörku áttu sér stað nokkrar veigamiklar breytingar í stjórnsýslunni. Stjórnkerfið var líkt og pýramídalagað og samfara auknu konungsvaldi hertu Danir tökin hér á landi. Stjórnvöld beindu áhuga sínum í ríkari mæli að hvers kyns viðreisnarhugmyndum sem auka áttu framleiðni og gera þjóðina sjálfbærari. Miðstýring jókst til mikilla muna sem hafði í för með sér tilskipanir um nákvæma skráningu og inngrip í daglegt líf þegnanna. Í bréfum embættismanna kemur fram hversu erfitt reyndist að stýra svo fjarlægum hluta danska ríkisins sem var auk þess stór og ógreiðfær. Manntöl voru fremur skráð hér á landi á átjándu öld en t.d. í Noregi eða Danmörku og er ljóst að fjarlægð landsins við Danmörku skipti sköpum. Manntölin 1729, 1735, 1753 og 1762 eiga sér afar ólíkan aðdraganda en eiga það þó sameiginlegt að tilurð þeirra fléttast inní stjórnsýslu átjándu aldar. Manntölin eru lýsandi dæmi um víðtæka upplýsingasöfnun danskra stjórnvalda en voru jafnframt notuð sem stjórntæki gagnvart almenningi. Þetta eru einstakar heimildir en svo ólíkar að nauðsynlegt er að átta sig á úr hvaða jarðvegi þær spretta. Ljóst er að fyrirætlanir stjórnvalda að baki hvers manntals höfðu áhrif á skráninguna og þar með heimildagildið.
Stöðumunur einstaklinga gagnvart Yfirréttinum
Á seinni hluta 18. aldar tók yfirrétturinn fyrir fjölbreytt dómsmál, jafnt hreinræktuð sakamál sem misferli embættismanna, eignadeilur og verslunarmál. Leið dómsmála á þetta dómsstig var löng og ströng. Upphaflega fór fram rannsókn og dómur í héraði, þaðan var málum áfrýjað undir lögmannsdóm og loks var hægt að áfrýja til yfirréttar. Í skjölum yfirréttarins má sjá heildaryfirlit þessara dómsmála frá A til Ö og í þessum gögnum endurspeglast sá munur sem gerður var á Íslendingum vegna stéttar, stöðu og kyns. Þessi munur birtist fyrst í yfirheyrslum í héraði, þar sem vægi vitna byggðist ekki á hversu mikið þau gætu upplýst um málið heldur virðingarstöðu þeirra í samfélaginu. Aftastar í þessari virðingarröð voru vinnukonur, en börn, ómagar og dæmdir sakamenn voru ekki tæk vitni. Önnur birtingarmynd þessa stöðumunar er aðgengi fólks að lögfræðiaðstoð. Sakborningum var úthlutaður verjandi fyrir héraðsdómi en það var afar mismunandi hversu alvarlega þessir verjendur tóku hlutverk sitt. Enn flóknara var að standa á sínu gagnvart efri dómsstigum en það krafðist í senn fjármuna, tíma og menntunar. Því vakna ýmsar spurningar þegar alþýðufólk, sem jafnvel gat ekki skrifað nafnið sitt, rekur mál fyrir yfirréttinum. Hverjir stóðu á bak við þetta fólk og hvaða hag höfðu þeir að því?