Heimsins hnoss: Söfn efnismenningar, menningararfur og merking: Seinni málstofa: Efnismenningararfur (tvöföld málstofa)

Hamri 203, laugardaginn 21. maí kl. 9.00-12.15.

Íslenskum menningararfi hefur verið safnað saman á fjölda minjasafna víðs vegar um landið. Þessi söfn eiga það sameiginlegt að vera söfn efnismenningar sem vista, varðveita og sýna hluti fortíðar. Á þennan hátt móta þau og endurspegla íslenskan menningararf.

Í öndvegisverkefninu Heimisins hnoss er tekist á við þennan veruleika. Hvernig birtist fortíðin okkur í efnismenningarsöfnun dagsins í dag? Hvaða safna- og söfnunarstefnu hefur verið haldið uppi og hvernig endurspeglar hún birtingarmynd íslensks menningararfs? Þessi málstofa mun fjalla um söfn og sýningar sem bæði rannsóknar- og birtingarferli og hvernig þessi fyrirbæri—söfn og sýningar—móta menningararf og samfélagsvitund í gegnum þá hluti sem er safnað og settir á sýningu. Á hvaða hátt móta sýningar samfélagsvitund nútímans og hvers vel endurspegla þeir hlutir sem eru til sýnis efnisveruleika fortíðar?

Fyrirlestrar:

  • Þóra Pétursdóttir. „Miðlun á mannöld: Hugmyndir um menningararf og hlutverk minjasafna“
  • Ólöf G. Sigfúsdóttir. „„Grúsk í rykugum geymslum“: umfang, skipulag og viðhorf til rannsóknarstarfs á íslenskum söfnum“
  • Kristján Mímisson. „Hefur þjóð orðið til? Efnimenning, menningararfur og vitundarsköpun“
  • Anna Lísa Rúnarsdóttir. „Um menningu, mannúð og minjavörslu í upphafi 20. aldar“
  • Anna Heiða Baldursdóttir. „Hversdagslegir hlutir. Efnismenning í safnkosti Þjóðminjasafnsins“
  • Sigurjón Baldur Hafsteinsson. „Vandinn við varðveislu torfhúsa“
  • Þorgerður Þórhallsdóttir. „Silfur og skúfhólkar“

Málstofustjóri: Davíð Ólafsson

Útdrættir

Miðlun á mannöld: Hugmyndir um menningararf og hlutverk minjasafna 

Í hugum flestra eru menningarminjasöfn fyrst og fremst tengd miðlun fortíðar. Á sama tíma er mikilvægi söfnunar og varðveislu skilgreint með skírskotun til framtíðar: Líkt og við eiga komandi kynslóðir rétt á því að njóta tengsla við fortíð sína til þess meða annars að móta eigin sjálfsmynd. Þessi tengsl fortíðar og framtíðar eru oft greinileg í umræðu um menningararf og loftslagsbreytingar. Birtingarmyndin er þó fremur einhliða og snýr nær eingöngu að því að meta þá hættu sem steðjar að menningararfi og mótun aðgerða í formi björgunar, varðveislu og söfnunar. Slíkar aðgerðir eru gríðarlega mikilvægar. Á sama tíma má spyrja hvort áskoranir mannaldar kalli einnig á endurskoðun hugmynda um menningararf og hlutverk minjasafna? Hvað er menningararfur í dag? Og hvernig geta söfnin sinnt samfélagslegri ábyrgð sinni í ljósi loftslagsbreytinga, í formi miðlunar og hvatningar til aðgerða? Í erindinu verður leitast við að svara þessum spurningum. Erindið byggir meðal annars á farandsýningunni ARV sem höfundur vann að í samstarfi við listamanninn Joar Nango og Bjørnar Olsen, prófessor í fornleifafræði við Heimskautaháskólann í Tromsø í Noregi. 

„Grúsk í rykugum geymslum“: umfang, skipulag og viðhorf til rannsóknarstarfs á íslenskum söfnum. 

Rannsóknir eru eitt af skilgreindum burðarhlutverkum safna, til jafns við söfnun, skráningu, varðveislu, fræðslu og miðlun. Af þessum hlutverkum eru rannsóknir sennilega óskilgreindasti þátturinn í faglegu starfi safna og oft sá starfsþáttur sem söfn hafa minnsta burði til að sinna. Þannig verður rannsóknarstarf á söfnum gjarnan ósýnilegt og erfitt að greina það í opinberri orðræðu safnanna sjálfra. Á sama tíma eru söfn sannarlega vettvangur rannsókna, þar sem þekkingarsköpun og -miðlun einkennist af aðferðum og ferlum sem að mörgu leyti eru sambærilegar við það sem gerist innan akademíunnar, þótt leiðir miðlunar séu afar ólíkar. Þessi óræða staða rannsókna inn á söfnum getur leitt til þess að starfsfólkið sjálft verði óvisst um hvenær vinna þeirra telst rannsókn og hvenær ekki, auk þess stefnumótun og stjórnsýsluleg umgjörð rannsókna er óljós. En hvað þýðir hugtakið „rannsókn“ í samhengi safna? Hverjir stunda rannsóknir á söfnum og með hvaða aðferðum? Á hvaða hátt eru safnarannsóknir frábrugnar öðrum rannsóknarsviðum? Í erindinu verður saga og þróun safna sem rannsóknarstofnana stuttlega rakin, en megináhersla verður lögð á að varpa ljósi á rannsóknarþáttinn eins og hann birtist í íslensku safnastarfi. Kynntar verða niðurstöður könnunar á umfangi og skipulagi rannsókna í viðurkenndum söfnum hér á landi, og rýnt verður í viðhorf safnastarfsfólks hér á landi til rannsóknarþáttarins.   

Hefur þjóð orðið til? Efnimenning, menningararfur og vitundarsköpun 

Árið 2004 voru sýningar Þjóðminjasafns Íslands enduropnaðar í glæsilegum og mikið endurbættum húsakynnum við Suðurgötu. Einkum var mikið lagt í nýja grunnsýningu og henni gefinn titillinn Þjóð verður til: Menning og samfélag í 1200 ár. Samhliða henni kom út mikið ritverk, Hlutavelta tímans: Menningararfur á Þjóðminjasafni og var hvoru tveggja ætlað að endurspegla íslenska menningarsögu frá landnámi til nútíma frá ólíkum sjónarhornum. 

Í þessu erindi verður lagt út frá því að hlutir fortíðar séu vitundarskapandi enda byggja hugmyndir eins og þjóðminjasafn og minjavernd alfarið á þeirri forsendu. En hvernig tengjast þættir líkt og efnismenning, menningararfur og vitundarsköpun? Hvernig og hvaða hlutir verða að menningararfi en umfram allt hvernig lýsir sá menningararfur tilurð þjóðar? Í erindinu á ekki að rýna í grunnsýningu Þjóðminjasafns Íslands eða þá þjóðarsköpun sem þar er lýst, heldur verður leitast við að greina samhengi þessara meginhugtaka – efnismenning, menningararfur og vitundarsköpun – með grunnsýningu Þjóðminjasafns Íslands að leiðarljósi. Reynt verður að leita svara við því á hvaða hátt menningarminja-söfn eins og Þjóðminjasafn Íslands endurspegla og móta menningarsögu og þjóðartilurð. Hvaða þjóð hefur orðið þar til, ef nokkur? 

Um menningu, mannúð og minjavörslu í upphafi 20. aldar 

Lög um verndun fornmenja, fyrsta löggjöfin í minjavörslu á Íslandi var sett á Alþingi í upphafi tuttugustu aldar. Matthías Þórðarson var fyrsti þjóðminjavörðurinn og hafði hann skýrar hugmyndir um mótun laganna, sem hann fylgdi eftir í starfi sínu á Þjóðminjasafninu á árunum 1908-1947. Í þessu erindi er fjallað um lögin og þá þætti sem höfðu áhrif á þróun mála við setningu þeirra. Straumar og stefnur vísinda, stjórnmála og samfélaga í Evrópu skapaði aðstæður fyrir aðkomu stjórnvalda að minjavörslu. Hugmyndir um íslenska þjóð voru sömuleiðis í gerjun á þessum tíma og gegndi efnismenning fortíðarinnar hlutverki í þeirri umræðu. Hlutum, sem safngripum, er gefin merking, en hvernig eru þeir nýttir í ráðandi orðræðu um samfélagsleg gildi? Greint er frá áherslum Matthíasar, söfnun hans, viðhorfum og stefnu. Að lokum er varpað upp spurningum um tilgang afskipta stjórnvalda af þekkingu um fortíðina, tengsl hennar við valdið til þess að skilgreina ímynd Íslands og stöðu þess meðal annarra þjóða.   

Hversdagslegir hlutir. Efnismenning í safnkosti Þjóðminjasafnsins. 

Safnkosti Þjóðminjasafnsins hefur oft verið lýst sem þjóðargersemum, eða hið minnsta einhverjum hluta hans. Gersemar og þarfaþing er sem dæmi heiti á afmælisriti safnsins frá árinu 1993, þar sem fjallað er um safngripi af ýmsu tagi.  Út frá titlinum mætti ætla að hversdagslegir hlutir séu ekki dýrgripir, heldur séu einmitt fremur „þarfaþing“ sem þeir vissulega voru. Út frá þessari ef til vill ósjálfráðu flokkun má velta því fyrir sér hvernig munasafn Þjóðminjasafn Íslands sé uppbyggt. Eru þar fleiri eða færri gersemar en þarflegir gripir; hvað getur talist „eðlilegt“ hlutfall þar á milli?  

Fyrirlestur þessi mun skoða þá hversdagslegu muni sem varðveittir eru frá 19. öld og greina hvaða sess þeir hafa innan veggja safnsins. Rætt verður um hvernig safngripirnir ríma saman við dánarbúsuppskriftir frá sama tíma. Út frá þeim samanburði verður svo gerð tilraun til að skilgreina hvers konar safnkost sé að finna á safninu. Aðferðinni sem verður beitt í þessari umfjöllun er að draga fram í dagsljósið algengustu munina og kanna hvaðan þeir koma og hvert hlutverk þeirra hefur verið innan safnsins. Með því móti er hægt að varpa betra ljósi á þá efnismenningu sem hægt er að verða áskynja í einu af höfuðsöfnum landsins. 

Vandinn við varðveislu torfhúsa 

Sumum hlutum er erfitt að safna. Suma hluti er líka erfitt að sýna. Í þessu erindi verður fjallað um erfiðleika við að safna og sýna íslenskan arkitektúr, torfhús. Efnisleiki og umfang torfhúsa er með þeim hætti að erfitt hefur verið fyrir söfn að gera þau að hluta að safnkosti safna. Lífrænni skel þeirra og innihald, torf og mold, er vandasamt að koma fyrir til varðveislu, sem og steinum og jafnvel timburverki. Umfangi efnanna er jafnframt vandasamt að búa um á söfnum, en ummál og rúmmál torfhúsa er svo mikið að vöxtum að það er nánast óhugsandi að varðveita það. Væri því komið til varðveislu, myndi torfið og moldin umbreytast og verða annað en það sem til stóð að varðveita. Þessi vandi er hluti af því að örfá torfhús hafa varðveist í landinu. Þau torfhús sem varðveist hafa eru í langflestum tilfellum hluti af safnkosti menningarminjasafna og standa flest þeirra á þeim stöðum sem þau voru reist á.  Einnig eru til endurbyggðir bæir og standa þeir á útisvæðum safna. Þetta eru fyrirferðamikil og reisuleg hús og ein besta leiðin til að gera fólki ljóst eiginleika þeirra. Söfn hafa einnig brugðið á það ráð að sýna torfhús inni í sýningarrýmum þeirra og hefur það verið gert að minnsta kosti með tvennskonar hætti; að smíða sviðsmyndum úr slíkum húsum eða með endurreisn timburverks húsa. Endureisnin er alltaf á baðstofum tiltekinna torfhúsa, en viðirnir hafa verið teknir niður og þeir fluttir til endurbyggingar í sýningarsölum safna víða um land. Stóran hluta af húsunum vantar  hins vegar í slíkum framsetningum. Í erindinu verður fjallað um þennan vanda sem söfn standa frammi fyrir og er sérstaklega vikið að dæmum um varðveislu á baðstofum.   

Silfur og skúfhólkar 

Í þessu erindi verður fjallað um söfnun Matthíasar Þórðarsonar (1877–1961) á efnislegum minjum í starfi hans sem þjóðminjavörður á Þjóðminjasafni Íslands á árunum 1908–1947. Sjónum verður sérstaklega beint að söfnun Matthíasar á búningasilfri af íslenska kvenbúningnum og þá helst skúfhólkum. Niðurstöður rannsóknarinnar á söfnun Matthíasar sýna að gripir tengdir búningum og búningasilfri eru einkum úr eigu efnameira fólks úr efri lögum þjóðfélagsins. Af þeim 8563 gripum sem Matthías safnaði á langri starfsævi eru skúfhólkar 753 talsins og þar með langalgengustu gripirnir, eða 8,8% af heildartölunni. Einnig safnaði Matthías töluverðum fjölda af hnöppum, millum, beltispörum, stokkabeltum, koffrum, reimanálum, nælum, sprotabeltum og fleira kvensilfri. Fatnaði var safnað í mun minna mæli og eru það helst flíkur af kvenbúningnum en lítið er til af karlmannsfatnaði. Sett verður fram tilgáta um ástæður þess að búningasilfri var safnað í jafn miklum mæli og raun ber vitni. Enn fremur verður rýnt í tíðarandann á dögum Matthíasar í sögulegu samhengi í því skyni að henda reiður á þeirri birtingarmynd af fortíðinni sem söfnun hans dregur upp.