Header Paragraph

Íslenska velferðarsamfélagið: Saga af umdeildri hugmynd

Image
Guðmundur Jónsson

Velferðarsamfélagið er lykilhugmynd í stjórnmálum Norðurlanda, merkimiði á þjóðfélagsgerð landanna og jafnframt mikilvægur partur af skilgreiningu þjóðanna á sjálfum sér – sjálfsímynd þeirra. En hvernig hefur hugmyndin um velferðarsamfélag horft við Íslendingum? Í ár eru 75 ár frá því að lögin um almannatryggingar gengu í gildi en þau lögðu hornsteininn að velferðarsamfélagi samtímans. Það er því vel við hæfi á þessum tímamótum að skyggnast á bak við hugmyndir Íslendinga um velferðarsamfélagið og skoða hvernig þær hafa breyst á lýðveldistímanum.

Í þessum fyrirlestri fjallar Guðmundur Jónsson prófessor um þetta umdeilda hugtak, ólíkar merkingar sem einstaklingar, stjórnmálaflokkar og samtök hafa lagt í það og hvaða gildi og markmið hafa legið þar til grundvallar.

Fyrirlesturinn er á vegum Sagnfræðistofnunar Háskóla Íslands og verður í stofu 101 á Háskólatogi þriðjudaginn 27. september kl. 16.00–17.00

Verið öll velkomin.

Guðmundur Jónsson er prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands. Hann hefur lengi stundað rannsóknir á sögu velferðarsamfélagsins og skrifað ýmis rit um það efni, m.a. „The Icelandic welfare state in the twentieth century“ (2001); „Hjálp til sjálfshjálpar. Borgaralegar rætur velferðarríkisins á Íslandi“ (2008); „Páll Briem og nýja félagsmálapólitíkin um aldamótin 1900“ (2019), og „The evolving concept of the welfare state in Icelandic politics“ (2019).

Image
Guðmundur Jónsson