Header Paragraph

Konur sem kjósa hlaut Fjöruverðlaunin

Image
Nemendur við HÍ aðalbyggingu

Bókin „Konur sem kjósa: Aldarsaga“ eftir sagnfræðingana Erlu Huldu Halldórsdóttur, Kristínu Svövu Tómasdóttur, Ragnheiði Kristjánsdóttur og Þorgerði H. Þorvaldsdóttur hlýtur Fjöruverðlaunin – bókmenntaverðlaun kvenna (sís og trans) og trans, kynsegin og intersex fólks á Íslandi í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis. Tilkynnt var um það á verðlaunaafhendingu í Höfða í dag.

Bókin var ein þriggja sem tilnefndar voru til verðlaunanna að þessu sinni í umræddum flokki en auk þess voru veitt verðlaun í flokki barna- og unglingabókmennta og fagurbókmennta. 

„Konur sem kjósa“ byggist á ítarlegum og áralöngum rannsóknum kvennanna fjögurra á sviði kvenna- og kynjasögu og stjórnmála- og menningarsögu. Þær Erla Hulda og Ragnheiður eru báðar prófessorar í sagnfræði við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands, Kristín Svava er sagnfræðingur, skáld og ritstjóri og hlaut reyndar líka Fjöruverðlaunin í flokki fagurbókmennta í dag fyrir ljóðabálkinn Hetjusögur, og Þorgerður var sjálfstætt starfandi kynja- og sagnfræðingur hjá ReykjavíkurAkademíunni en hún lést í fyrra.

Í bókinni er fjallað um íslenska kvenkjósendur í eina öld og er sjónum beint að einu kosningaári á hverju áratug þar sem fjallað er um kvennablöð og kvennaframboð, kvennafrí og kvennaverkföll, um baráttu kvenna fyrir hlutdeild í stjórn landsins og frelsi til að ráða menntun sinni og atvinnu, barneignum og ástarsamböndum. Áður ósagðar sögur kvenna njóta sín í lifandi texta og bókina prýðir fjöldi mynda af konum í leik og starfi.

„Höfundar skyggnast bak við mýtuna um að íslenskar konur séu fegurstar og sjálfstæðastar allra kvenna og taka til umfjöllunar hvernig lagalegt og félagslegt jafnrétti kynjanna þróaðist á Íslandi. Fjallað er um hvernig konur sigruðust á þeim hindrunum sem blöstu við, til dæmis baráttuna um launajafnrétti, lífeyri eða aðgengi að salernisaðstöðu á vinnustöðum. Í þessari mikilvægu bók um sögu íslenskra kvenna stígur fram margradda kór sem er vissulega ekki sammála um allt, en er þó samstíga í baráttunni fyrir iðkun borgararéttinda,“ sagði m.a. í umsögn dómnefndar þegar tilkynnt var um tilnefningar til Fjöruverðlaunanna. Þess má geta að bókin var einnig tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Fjöruverðlaunin hafa verið afhent allt frá árinu 2007 og þeim var lengst af ætlað að vekja athygli á og hampa bókum kvenna. Ákveðið var í fyrra að útvíkka verðlaunin þannig að þau ná einnig til bóka eftir trans, kynsegin og intersex fólk. 

Image
Nemendur við HÍ aðalbyggingu