Kvenna(ó)samstaða
Í Hamri 201, föstudaginn 20. maí kl. 13.30-15.00.
Í málstofunni verða flutt fjögur erindi, innblásin af nýlegum lokaritgerðum í sagnfræði, sem varpa ljósi á hvernig konur sköpuðu sér rými og mynduðu samstöðu í þeim tilgangi að hafa áhrif og leyfa rödd þeirra að hljóma á 20. öld. Á sama tíma voru konur svo sannarlega ekki einsleitur hópur með sömu skoðanir og því verður einnig skoðað að hvaða leiti þær voru ósammála.
Fyrsta erindið fjallar um sjónarhorn kvennahreyfingarinnar og einstaka kvenréttindakvenna á viðbrögð ríkisins við ástandinu. Á millistríðsárunum hafði verið kallað eftir siðferðiseftirliti og kvenlögreglu, ekki var brugðist við þeirri kröfu fyrr en samskipti íslenskra stúlkna og erlendra hermanna vöktu ugg með valdhöfum. Í þessu erindi verður sjónum beint að því hvernig konur innan hreyfingarinnar litu á fyrstu lögreglukonu Íslands og störf hennar.
Næsta erindi beinir sjónum að almannarýminu. Þegar konur fengu nóg af því að heyra eingöngu karlmannsraddir í Ríkisútvarpinu tóku þær sig saman um að skapa sitt rými á dagskránni. Fjallað verður um ákveðna samstöðu innan kvennahreyfingarinnar gagnvart útvarpinu sem leiddi af sér vikulegan dagskrálið um málefni kvenna á árunum 1945-1954. Hver voru þau málefni og hvernig nýttu konur þennan miðil?
Þriðja erindið færir okkur á stjórnmálasviðið og umfjöllunarefnið er Kvenfélag sósíalista. Var félagið saumaklúbbur, áróðurstæki eða stjórnmálaafl? Voru konurnar sem störfuðu þar líka hluti af Sósíalistaflokknum og unnu þar samhliða körlunum? Hvernig tóku þær þátt í stjórn- og félagsmálum? Hverjar voru leiðir sósíalískra kvenna til stjórnmálaþátttöku og áhrifa í samfélaginu?
Að lokum er fjallað um Samtök um Kvennalista. Hreyfingin sem átti uppruna sinn að rekja til Rauðsokkahreyfingarinnar vék frá þeim sjónarmiðum að kvennabarátta væri stéttabarátta og grundvallaði hugmyndafræði sína á sameiginlegum reynsluheimi kvenna. Ætlunin var að sameina konur þvert á ríkjandi pólitískan skala og mynda stefnumál út frá kvenlægum sjónarhóli. Eftir því sem árum leið kom þó í ljós að unnt var að mynda andstæðar skoðanir út frá þeim grunni.
Tilgangurinn með málstofunni er að greina rýmið og þær leiðir sem stóðu konum almennt til boða til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og þau vandamál sem spruttu óhjákvæmilega upp með kröfunni um samstöðu fyrir svo fjölmennan og fjölbreytilegan hóp.
Fyrirlesarar
- Agnes Jónasdóttir. „Kvennahreyfingin og ungmennaeftirlitið“
- Arnheiður Steinþórsdóttir. „Krafan um kvennaþætti“
- Rakel Adolphsdóttir. „Félagi kona. Um Kvenfélag sósíalista og stjórnmálaþátttöku sósíalískra kvenna“
- Björn Reynir Halldórsson. „Öll mál eru kvennamál“
Málstofustjóri: Ása Ester Sigurðardóttir
Útdrættir
Kvennahreyfingin og ungmennaeftirlit
Á stríðsárunnum varð óvægin umræða um siðferði ungra kvenna í samskiptum við þá hermenn sem komu til Íslands vegna hernáms þess. Þessi umræða varð til þess að ríkið brást við með lagasetningu og lögreglueftirliti með ungmennum. Á millistríðsárunum hafði kvennahreyfingin kallað eftir stofnun kvenlögreglu embættis en ekki var brugðist við þeirri kröfu fyrr en samskipti íslenskra stúlkna og erlendra hermanna vöktu ugg með valdhöfum.
Í þessu erindi verður sjónum beint að því hvernig konur innan kvennahreyfingar stríðsáranna litu á fyrstu lögreglukonu Íslands og störf hennar í tengslum við ástandið. Markmið erindisins er að velta upp spurningum sem geta nýst okkur við rannsóknir á þeim viðhorfum sem kvenréttindakonur höfðu um ýmis málefni og hvort hægt sé að eigna heilli hreyfingu sama viðhorfið á ákveðnu málefni. Í þessu tilfelli verður kastljósinu beint að viðhorfum til ungmennaeftirlitsins og lögreglukonunnar sem sá um það. Er raunhæft, eftirsóknarvert, eða gagnlegt að leita eftir einni sameiginlegri skoðun hjá hreyfingunni allri? Lögðu allar þær konur sem störfuðu að kvenréttindum sömu merkinguna í hugmyndina um kvenlögregluþjón? Uppfyllti Jóhanna Knudsen ef til vill ákveðnar væntingar þessara kvenna en aðrar ekki? Voru kvenréttindakonur einhvern tímann nógu sammála um störf ungmennaeftirlitsins og Jóhönnu Knudsen til að hægt sé að tala um eitt viðhorf kvennahreyfingarinnar til málaflokksins? Var rými til að gagnrýna störf ungmennaeftirlitsins?
Krafan um kvennaþætti
Rými kvenna og radda þeirra á almannasviðinu var afar takmarkað um miðja 20. öld. Ríkisútvarpið var einn angi þessa sviðs og því töldu konur mikilvægt að raddir þeirra fengju þar að heyrast en leið þeirra að hljóðnemanum var þó ekki greið. Árið 1945 hóf göngu sína vikulegur dagskrárliður í útvarpinu sem var í umsjón forystukvenna í Kvenréttindafélagi Íslands og Kvenfélagasambandi Íslands og var tilkoma þáttanna afrakstur baráttu þeirra fyrir plássi í dagskránni. Grundvöllurinn fyrir þáttunum var ákveðin samstaða kvenna þvert á stöðu þeirra og afstöðu innan kvennahreyfingarinnar. Að sama skapi má rekja lok þeirra árið 1954, að vissu leyti, til þess að ólík sjónarmið voru uppi á meðal kvenna um tilgang þáttanna og nauðsyn – í bland við afstöðu útvarpsráðs til þeirra.
En hvers vegna þurfti samstöðu og baráttu kvenna – kvennahreyfingarinnar – til þess að koma konum á dagskrá? Var þessi samstaða lykilatriði í því að halda þáttunum og í senn röddum kvenna á sínum stað í útvarpinu? Hvers vegna þótti konum mikilvægt að fá rými í útvarpinu, hvernig nýttu þær það og með hvaða hætti brugðust þær við þegar útvarpsráð ákvað að fella þættina niður? Í erindinu verður fjallað um þessa samstöðu kvenna gagnvart útvarpsráði og í senn lagt mat á ólíka aðkomu Kvenréttindafélagsins og Kvenfélagasambandsins að Ríkisútvarpinu á árunum 1945-1954.
Sammála um að vera ósammála – Um Kvennasamstöðu og ágreiningsmál innan Kvennalista 1983–1999.
Árið 1982 var stofnað til Kvennaframboðs með það að markmiði að sameina konur á bak málefni sem voru konum sérstakt hugðarefni en féllu í gleymsku hjá öllum flokkum á hinu íslenska rófi stjórnmála. Ári seinna voru samtök um Kvennalista stofnuð til að bjóða fram til Alþingis með sama markmið.
Grundvallarhugmyndafræðin snerist um að taka fyrir sameiginlega reynslu kvenna og búa til úr henni kvennapólitískar stefnur í öllum málum sem voru á dagskrá Alþingis auk þeirra mála sem sem Kvennalistinn hafði sérstaklega fram að færa. Hugmyndin var sú að konur áttu að geta sameinast að hinum kvennapólitísku málum og í krafti samstöðunnar komið þeim áleiðis.
Eftir því sem að árin liðu reyndi þó á samstöðuna. Stór og flókin mál voru tekin fyrir og á sama tíma var ör þróun á hugmyndastraumum feminismans innanlands og utan. Ágreiningur um EES gróf undan hugmyndinni um samstöðu og nýir straumar byggðu frekar á einstaklingshyggju. Á endanum fann kvennapólitíkin sér farveg á vinstri væng íslenskra stjórnmála.
Erindið rekur sögu Kvennalistans út frá þessum hugmyndum um samstöðu og hvernig helstu ágreiningsmal vörpuðu ljósi á hana. Það byggir á yfirstandandi doktorsrannsókn flytjanda við Háskóla Íslands.
Félagi kona. Um Kvenfélag sósíalista og stjórnmálaþátttöku sósíalískra kvenna.
Kvenfélag Sósíalistaflokksins var stofnað 30. mars 1939 og voru meðlimir þess þær konur sem voru löglegir félagar í Sósíalistafélagi Reykjavíkur. Helsta ástæða stofnunar þess var sú að það var eina leið sósíalískra kvenna til að eiga fulltrúa í Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur. Starf kvenfélagsins hófst ekki af alvöru fyrr en það var endurvakið árið 1943. Í kosningabaráttunni árið 1946 var félagið endurnefnt „Kvenfélag sósíalista“ og ekki var lengur skilyrði að vera félagi í flokknum. En hvert var eðli félagsins? Var það saumaklúbbur, áróðurstæki eða stjórnmálaafl? Hvert var markmið þess? Voru konurnar sem störfuðu þar líka hluti af Sósíalistaflokknum og unnu einnig þar en þá samhliða körlunum?
Konur voru meðal stofnenda Sósíalistaflokksins árið 1938 eins og undanfara hans, Kommúnistaflokks Íslands, og sátu í miðstjórn hans. Þær skrifuðu og gáfu út blöð ásamt því að halda fræðsluerindi um sósíalismann. Þær voru kjörnar bæjarfulltrúar og ein þeirra var kosin þriðja þingkona Íslendinga. Engu að síður hefur þeim ekki verið gefinn mikill gaumur þegar kemur að söguritun enda ekki álitnar hugsjónasmiðir hreyfingarinnar hér á landi. Með athugun á skjalasafni Kvenfélags sósíalista verður ljósi varpað á það hvernig sósíalískar konur tóku þátt í stjórn- og félagsmálum og hverjar leiðir þeirra voru til stjórnmálaþátttöku og áhrifa í samfélaginu.