Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands efnir til málstofu um félags- og hagsögu á vormisseri 2026. Fyrirlestrarnir verða haldnir í stofu 304 í Árnagarði annan hvorn þriðjudag kl. 16:00-17:00, frá og með 27. janúar til og með 24. mars.
Málstofa í félags- og hagsögu í Háskóla Íslands er umræðuvettvangur fyrir hvers konar viðfangsefni í félags- og hagsögu á hvaða tímabili sem er. Málstofan er með óformlegu sniði þar sem fólki gefst tækifæri til að kynna rannsóknir sínar, verk í vinnslu jafnt sem útgefin verk, prófa nýjar hugmyndir og kenningar eða taka fyrri rannsóknir til gagnrýnnar skoðunar. Á eftir framsögum verður gefinn góður tími til fyrirspurna og almennra umræðna. Málstofan er á vegum kennara í sagnfræði og viðskiptafræði í Háskóla Íslands og umsjón nú á vormisseri hafa Erla Hulda Halldórsdóttir, prófessor í sagnfræði (ehh@hi.is), Ragnheiður Kristjánsdóttir, prófessor í sagnfræði (ragnhk@hi.is) og Sveinn Agnarsson, prófessor í viðskiptafræði (sveinnag@hi.is).
Dagskrá:
- 27. janúar. Guðmundur Jónsson, prófessor emeritus við Háskóla Íslands. Íslenskir matarhættir í þúsund ár: seigla hefðarinnar.
- 10. febrúar. Emil Gunnlaugsson, doktorsnemi í sagnfræði við Háskólann í Lundi. Ísland, einokunarverslun og norðlæg jaðarsvæði ríkis Danakonungs á átjándu öld.
- 24. febrúar. Sveinn Máni Jóhannesson, nýdoktor í sagnfræði og stundakennari við Háskóla Íslands. Ójöfnuður og félagslegar forsendur hins sanna lýðveldis: Íslenskir málfræðingar og byltingarárið 1848 í Kaupmannahöfn.
- 10. mars. Ragnhildur Björt Björnsdóttir, meistaranemi í sagnfræði við Háskóla Íslands. Kossar, klapp og kinnhestar - Alls konar snerting í íslenskum heimildum á 19. og 20. öld.
- 24. mars. Sigríður Hjördís Jörundsdóttir, sagnfræðingur á Þjóðskjalasafn Íslands. Að aga með sársauka og skömm: vægari refsingar í íslensku samfélagi 1700–1900.