Fjársjóður í fyrningum. Vannýttar heimildir úr skjalasöfnum fyrirtækja frá 19. og 20. öld
Í Hamri 204, föstudaginn 20. maí kl. 13.30-15.00.
Í daglegu amstri verður til ógrynni rafrænna skjala um hversdagslíf okkar. Kortafærslur í bókhaldi verslana, vörupantanir, innkaupakvittanir og skjöl af ýmsum toga, sem vitna um okkar persónulegu hagi og einkalíf. Þetta eru skjöl sem við viljum ekki að komist í almenna dreifingu.
Á Þjóðskjalasafni Íslands er nýlega lokið skráningu á ríflega 300 skjalasöfnum fyrirtækja og verslana frá 19. og 20. öld, svonefndu Hagsögusafni. Skjalasöfnin eru alls staðar að af landinu og úr fjölbreyttum rekstri og möguleikar til rannsókna því margir.
Í þessari málstofu verður Hagsögusafn Þjóðskjalasafns kynnt til sögunnar, tilurð þess og umfang. Þá verður fjallað um skráningu og rannsókn á yfir 1000 ómerktum skjalabókum úr safnkostinum. Að lokum verður fjallað um varðveislu fyrirtækjasafna á Íslandi, notkun þeirra til sagnfræðirannsókna og þá möguleika sem felast í heimildum af þessum toga.
Fyrirlestrar
- Jón Torfi Arason. „1000 verslunarbækur af óljósum uppruna“
- Gunnar Örn Hannesson. „Hagsögusafn í tíma og rúmi“
- Guðmundur Jónsson. „Tækifærin í fyrirtækjasögunni“
Málstofustjóri: Gunnar Örn Hannesson.
Útdrættir
1000 verslunarbækur af óljósum uppruna.
Í hagsögusafni Þjóðskjalasafns Íslands opnast dyr inn í atvinnusögu og hversdagslíf Íslendinga frá um 1800 og fram undir miðja 20. öld. Allt frá rúsínukaupum vinnufólks á Djúpavogi til vélbátaútgerðar á Ísafirði. Heimildir úr hagsögusafni geta verið hráefni í fjölskrúðugar rannsóknir.
Við endurskoðun og skráningu hagsögusafns komu í ljós um 1000 verslunarbækur af óljósum uppruna. Í erindinu er greint frá rannsókn skjalavarða Þjóðskjalasafns á uppruna óvissubókanna og ein þeirra lesin ofan í kjölinn. Það verður grennslast fyrir um ódæmigerðan atvinnurekstur í reykvísku 19. aldar samfélagi og farið á stefnumót með þjóðþekktum listamönnum.
Hagsögusafn í tíma og rúmi.
Hagsögusafn, er safnheiti yfir fjölda sjálfstæðra skjalasafna í Þjóðskjalasafni Íslands. Safnið sjálft, og hugmyndafræðin á bakvið það, er arfur frá gamalli tíð. Fyrir mönnum vakti, að koma upp séríslensku skjalasafni um atvinnulífið í landinu, að danskri fyrirmynd.
Innan Hagsögusafns eru á fjórða hundrað skjalasafna, er snerta atvinnu- og hagsögu Íslands, á um 200 ára tímabili. Fjallað verður um hvaðan þessi söfn eru af landinu, tegund þeirra eftir starfsemi, atvinnugreinum og tímabilum.
Mörg spennandi verkefni og viðfangsefni í skjölum og skjalabókum Hagsögusafns bíða úrlausnar, enda geyma þessar heimildir mikla þekkingu um marga þætti íslensks samfélags á fyrri tíð.
Tækifærin í fyrirtækjasögunni
Skjalasöfn fyrirtækja eru vannýtt en arðgæf auðlind ef vel er að málum staðið. Í fyrsta lagi þarf að tryggja aðgang slíkum söfnum og búa vel að gögnum þeirra. Í öðru lagi þarf að nýta fjölbreytta möguleika þeirra en í því efni hafa áhugamenn um sögu og sagnfræði verið daufir til framtaks. Í erindinu er fjallað um fyrirtækjasögu/viðskiptasögu og tekin dæmi af sagnfræðingum, íslenskum og erlendum, sem hafa skrifað verk á þessu sviði og hvernig þeir hafa nýtt sér skjalasöfn fyrirtækja. Rætt er um hvernig aðgangi að og varðveislu á fyrirtækjasöfnum er háttað hér á landi. Þá er hugað að þeim margvíslegu möguleikum sem skjöl fyrirtækja bjóða upp í sagnfræðilegum rannsóknum, ekki aðeins varðandi sögu fyrirtækjanna sjálfra og rekstrarumhverfi þeirra heldur einnig heilu atvinugreinarnar, stjórnarhætti í fyrirtækjum, eigendur fyrirtækjanna, kaup og kjör launafólks, og tengsl stjórnmála og viðskiptalífs, svo nokkuð sé nefnt.