Málstofa um Skaftárelda

Í Hamri 202, föstudaginn 20. maí kl. 15.15-16.45.

Skaftáreldar voru „einn hinna þýðingarmestu viðburða í sögu Íslands á seinni öldum“, eins og Þorvaldur Thoroddsen komst að orði í útgáfu á eldriti séra Jóns Steingrímssonar árið 1907. Það rit hefur verið prentað nokkrum sinnum síðan og árið 1984 kom út sérlega vandað greinasafn um eldana og móðuharðindin sem fylgdu í kjölfarið. Þar voru einnig gefin út ýmis skjöl og lýsingar úr samtímanum. Jarðfræðingar og aðrir náttúruvísindamenn hafa á síðustu árum aukið ýmsu við um gosið og afleiðingar þess en sagnfræðingar legið á liði sínu. Í málstofunni verða teknir saman þræðir um nýjustu rannsóknir á eldunum sem slíkum en jafnframt kynntar þrjár ferskar athuganir á fornleifum og textum.

Fyrirlestrar

 

  • Þorvaldur Þórðarson, prófessor í jarðfræði. „Framvinda Skaftárelda og áhrif gossins á Íslandi“
  • Jón Kristinn Einarsson, BA í sagnfræði. „Neyðaraðstoð sumarið 1784 og séra Jón Steingrímsson“
  • Sveinbjörn Rafnsson, prófessor emeritus í sagnfræði. „Um eldgosin á Íslandi 1783–1785“
  • Már Jónsson, prófessor í sagnfræði. „Mannlíf í Meðallandi eftir gos“
 

Útdrættir

Framvinda Skaftárelda og áhrif gossins á Íslandi.

Skaftáreldar er eitt mesta flæðigos Íslands á sögulegum tíma og stóðu umbrotin sem tengjast gosinu í rétt rúm tvö ár, frá miðjum maí 1783 til 26. maí 1785. Sjálfir Skaftáreldar hófust 8. júní með stuttum sprengifasa og síðan hraunrennsli og náðu fyrstu hraun niður á láglendi fimm dögum eftir að gosið hófst. Gosið gekk á með hrinum, þar sem hver hrina byrjaði á sprengigosi og á eftir fylgdi aukning á hraunrennsli. Þegar upp var staðið voru hrinurnar 10-11. Í öflugustu hrinunum náðu kvikustrókarnir 800 m til 1400 m hæð og gosmökkurinn allt að 15 km m. Af þessum sökum barst fín aska og brennisteinssýruagnir um allt land með tilskildum afleiðingum, sem við þekkjum sem Móðuharðindin. Hér verður gerð grein fyrir framvindu Skaftárelda og áhrifum þeirra í einstökum landshlutum. 

Neyðaraðstoð sumarið 1784 og séra Jón Steingrímsson.

Sumarið 1784 fól Lauritz Thodal stiftamtmaður séra Jóni Steingrímssyni á Prestsbakka að flytja innsiglaðan böggul með 600 ríkisdölum til sýslumanns í Vík í Mýrdal, sem átti að nýta féð til að reisa við búskap í Vestur-Skaftafellssýslu. Á ferð sinni lét séra Jón undan þrýstingi sveitunga sinna, rauf innsigli og deildi út fé. Eftirmál urðu allnokkur og til þessa hafa fræðimenn stuðst við frásögn séra Jóns í frægri sjálfsævisögu. Hér verður atburðarásin rakin nánar eftir varðveittum samtímaheimildum og atvikið nýtt til greiningar á framkvæmd fyrstu neyðarhjálparinnar með hliðsjón af stjórnmálasögu Íslands á síðari helmingi 18. aldar, þar sem ráðandi þáttur var togstreita milli fulltrúa miðstjórnarinnar í Kaupmannahöfn og innfæddra embættismanna. 

Um eldgosin á Íslandi 1783–1785.

Frásagnirnar um eldgosin á Íslandi 1783-1785 krefjast mismunandi varúðar og gagnrýni. Gosið fyrir Reykjanesi kemur fram bæði í frásögnum fjögurra skipstjóra og íslenskra embættismanna. Gosið í Lakagígum kemur best fram í frásögnum Jóns Steingrímssonar en þær eru ekki frá sama tíma og því sviðsettar á mismunandi hátt. Auk þeirra eru til ágæt þingsvitni að norðan og ekki síður skýrslur Lievogs stjarnfræðings á Álftanesi. Gosið í Vatnajökli kemur bæði fram í frásögnum Jóns og Öræfinga. Áhrifum í stóru og smáu á lífverur má velta fyrir sér af þessum frásögnum. Í smáu ekki síst af loft- og efnamengun, hungri og einkennum eitrunar í mannfólki og búfénaði, fugladauða, hvarfi músa og fjallagrasa o.s.frv. Í stóru hefur einkum verið litið til veðurfarsbreytinga og jafnvel jarðsögulegra atburða erlendis eins og Þorvaldur Thoroddsen gerði á sínum tíma. 

 

Mannlíf í Meðallandi eftir gos.

Á fyrstu vikum Skaftárelda eyddust nærri þrjátíu jarðir í Vestur-Skaftafellssýslu, flestar í Meðallandi: Hólmasel, Hólmar, Botnar, Efrifljótar og Syðrifljótar, Hnausar, Hraun, Strandarholt, Slýjar, Efri-Steinsmýri og Syðri-Steinsmýri. Neðri hluti sveitarinnar slapp og þar bjuggu 148 manns í ársbyrjun 1785, ríflega þriðjungur miðað við það sem áður hafði verið. Fimm árum síðar voru íbúarnir 174 og áratug eftir það 259. Í erindinu verður lagt mat á endurhæfingu samfélagsins eftir áfallið með tilstyrk varðveittra gagna í opinberum skýrslum um neyðaraðstoð og búfjáreign, en ekki síður í prestsþjónustubók og dánarbúum, þar sem greina má einstaklingsframtak jafnt sem hópefli.