Menning fátæktar: Þættir af sérkennilegu fólki

Í Hamri 201, föstudaginn 20. maí kl. 15.15-16.45.

Þessi málstofa tengist sameiginlegri rannsókn við öndvegisverkefnið Fötlun fyrir tíma fötlunar (e. „Disability before disability“) við Háskóla Íslands sem dr. Hanna Björg Sigurjónsdóttir stjórnar. Í málstofunni verður fjallað um fólk sem var á einhvern hátt hornreka í samfélögum fyrri tíðar og hvernig það bæði náði að þrauka Þorran og Góuna og um leið að hafa áhrif á samtíð sína með margvíslegum hætti. Hópurinn hefur leita fanga í jafn fjölbreyttum heimildum og þjóðlegum fróðleik (þættir af sérkennilegu fólki), í blöðum og tímaritum frá 19. og 20. öld, í Alþingisbókum Íslands (Acta comitiorum generalium Islandiæ) í ritröð sem Sögufélag gaf út í 17 bindum 1912–1914 og 1991 og safnað saman öllum þeim textum sem tengjast: 1) mannlýsingum; 2) einstaklingum með líkamlegar eða andlegar skerðingar í sem víðustum skilningi; 3) úrskurðum og meðferð yfirvalda á ómögum og fátæklingum. Farið með sama hætti yfir Fornbréfasafnið, Annála frá 1400–1800 og dánarbúsuppskriftir og allt þetta efni greint með fjölbreyttum hætti. Hugmyndin er að gera tilraun til að skilja það sem við nefnum „menningu fátæktar“, hvernig Íslendingar gerðu ráð fyrir að fætækt þrifist hér á landi í einni eða annarri mynd.

Fyrirlesara munu gera grein fyrir rannsóknum sínum en við búumst við að á sama tíma og Söguþingið fer fram verði komin út bók hópsins sem nefnist Þættir af sérkennilegu fólki sem verður gefin út í ritröðinni Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar hjá Háskólaútgáfunni.

Fyrirlestrar

  • Sólveig Ólafsdóttir doktorsnemi í sagnfræði. „Lífsþræðir Jóns Gissurarsonar og Sólveigar Eiríksdóttur  tvinnaðir saman. Samanburður á yrðingum úr opinberum samtímaheimildum um tvo jaðarsetta einstaklinga á 19. öld“
  • Anna Heiða Baldursdóttir doktorsnemi í sagnfæði. „Efnismenning á jaðrinum. Dánarbúsuppskriftir til frásagnar um fátæk vinnuhjú“
  • Marín Árnadóttir MA-nemi í sagnfræði. „„Í góðlátlegu gamni“: Einelti og ofbeldi í sögum af sérkennilegu fólki“
  • Daníel Guðmundur Daníelsson BA í sagnfræði. „Á vonarvöl. Félagsleg frávik í Annálum og Alþingisbókum Íslands“
  • Atli Þór Kristinsson. „Furður og framandi lönd: Erlendar fréttir og kynjasögur á 17. og 18. öld.“

Málstofustjóri: Sigurður Gylfi Magnússon, prófessor í menningarsögu við Háskóla Íslands.

Útdrættir

„Furður og framandi lönd: Erlendar fréttir og kynjasögur á 17. og 18. öld.“

Það er þekkt fyrirbæri innan sálfræðinnar að athygli okkar mannfólksins beinist að því sem sker sig á einhvern hátt úr. Það er í hinu óvenjulega þar sem við teljum mikilvægar upplýsingar liggja, hvort sem um er að ræða merki um eitthvað eftirsóknarvert, áhugavert, eða annað til að varast. Sömuleiðis þyrstir okkur í fréttir frá útlöndum og við hrífumst af frásögnum af óvenjulegum fyrirbærum ýmis konar, atburðum eða fólki.

Hvernig var þessu hins vegar farið á 17. og 18. öld á Íslandi? Í erindinu verður reynt að svara spurningunum: Hvaða erlendu fregnir og furðusögur leituðu Íslendingar í á 17. og 18. öld? Hvað stóð þeim til boða? Það verður aðallega leitað fanga í íslenskum annálum frá 17. og 18. öld auk ferðasagna. Þá verður einnig rætt hvernig íslenskir fræðimenn undir áhrifum vísindahyggju upplýsingarinnar afskrifuðu erlent efni og kynjasögur snemma á tuttugustu öld og skáru það jafnvel burt úr heimildaútgáfum. Færð verða rök fyrir því að þetta efni geti einmitt svarað

spurningum um hugarfar og það hvers konar efni vakti áhuga manna á tímabilinu sem um ræðir.

„Efnismenning á jaðrinum. Dánarbúsuppskriftir til frásagnar um fátæk vinnuhjú.“

Dánarbúsuppskriftir einstaklinga frá 19. öld eru heimildir um efnisveruleika þess tíma. Skjölin innihalda dánarbú eftir fólk af öllum stigum samfélagsins, frá ómögum til stórefnaðra embættismanna. Þar að auki eru greinagóðar lýsingar á eigum þeirra, sem voru allt á milli gífurlegra verðmætra jarða eða reiðtygja til mölétinna sokka eða rotinnar skruddu. Upplýsingarnar gefa innsýn í hversdagslíf einstaklinga og þar að auki meiri vitneskju um fólk á jaðrinum sem að öllu jöfnu skildi ekki mikið eftir sig af heimildum.

Hér í þessum fyrirlestri verður sjónum beint að hópi sem stóð höllum fæti innan samfélagsins – vinnuhjúum sem áttu efnislega minna en aðrir í sömu stöðu. Um er að ræða fólk sem var á barmi þess að vera öreigar. Oft náði þessi hópur að halda sjó og vinna sig út úr fátækt sinni en aðrir komust í þann krappan og lentu á stundum á vergangi. Eigur þeirra verða skoðaðar og velt upp hvað þær geta sagt okkur um einstaklingana og stöðu þeirra í samfélaginu. Hvað gefur efnismenning dánarbúsuppskriftanna til kynna um þennan hóp? Með notkun þessara heimilda gefst tækifæri á að skyggnast betur í daglegt líf þeirra bágstöddu og hvernig þeim reiddi af í lifandi lífi.

„Lífsþræðir Jóns Gissurarsonar og Sólveigar Eiríksdóttur tvinnaðir saman. Samanburður á yrðingum úr opinberum samtímaheimildum um tvo jaðarsetta einstaklinga á 19. öld.“

Þau Sólveig Eiríksdóttir úr Eyjafirði (1780–1768) og Jón Gissurarson úr Reykjavík (1810–1880) áttu það sammerkt að vera málhölt, nokkuð öldruð og aðhlátursefni samferðafólks síns og næstu kynslóða. Að öðru leyti var líf þeirra æði ólíkt.

Í erindinu verða lífþræðir Jóns og Sólveigar spunnir upp úr tiltækum opinberum heimildum. Sem dæmi um heimildir er liggja til grundvallar eru kirkjubækur, sóknarmannatöl, gerðabækur hreppsnefnda, dánarbúsuppskriftir svo fátt eitt sé talið. Ummæli yfirvalda um einstaklinga, hinar svokölluðu „yrðingar“, eru orðræðugreind og sett í samhengi við samfélag það sem þau spretta úr hverju sinni. Hér er lögð áhersla á rannsóknaraðferð sem kennd er við smáatriði, útsjónarsemi og þolinmæði, á ensku nefnd „Slow Researce Methology.“ Frá þeim rannsóknarsjónarhóli er rýnt í það sem nefnt hefur verið á ensku „Slow Violence“; þ.e. ofbeldi sem liggur undir yfirborðinu og stendur yfir í langan tíma, jafnvel alla ævi viðkomandi einstaklinga.

„„Í góðlátlegu gamni“: Einelti og ofbeldi í sögum af sérkennilegu fólki.“

Sögur af sérkennilegu fólki er ríkur þáttur íslenskra bókmennta í því sem nefnt hefur verið „þjóðlegur fróðleikur“. Um er að ræða margs konar sagnaþætti sem birtust í bókum, blöðum og tímaritum á Íslandi í lok 19. aldar og fram eftir 20. öld. Ýmsar þessara sagna af sérkennilegu fólki eru gamansögur af einstaklingum sem voru með líkamlegar, andlegar og vitsmunalegar skerðingar. Í þeim má finna ýmis dæmi sem benda til þess að fólkið hafi sætt illri meðferð á ævi sinni og þurft að þola ofbeldi, einelti og áreiti af hálfu samferðamanna sinna – oft á tíðum undir formerkjum gríns og gamans.

Í erindinu verða slíkar sögur teknar til skoðunar og dregin fram það sem kalla má menning ofbeldis og eineltis sem virðist hafa viðgengist gagnvart jaðarsettum einstaklingum í íslensku samfélagi á fyrri tíð. Ljósi verður beint að aðstæðum þessa fólks og ákveðnir þættir í frásögnunum kannaðir, eins og hverjar birtingarmyndir ofbeldisins eru, hverjir beittu því og undir hvaða kringumstæðum það átti sér stað.

„Á vonarvöl. Félagsleg frávik í Annálum og Alþingisbókum Íslands.“

Í gerðarbókum Alþingis við Öxará frá árunum 1570–1800 og íslenskum annálum frá árunum 1400–1800 er að finna upplýsingar um tugi þúsunda einstaklinga sem þá lifðu og hrærðust á Íslandi. Frá árinu 2018 hafa þessar grundvallar heimildir Íslandssögunnar verið til rannsóknar þar sem einstaklingar sem greina mátti sem félagsleg frávik voru skrásettir. Markmiðið var að draga fram einstaklinga þess tíma sem pössuðu á einhvern hátt ekki inn í ríkjandi samfélagsgerð Íslands, þá helst á 17. og 18. öld.

Meðal þess sem var skoðað sérstaklega voru yfir tvöhundruð mannlýsingar á burtstroknum Íslendingum í Alþingisbókunum. Tilgangurinn með því var að varpa ljósi á þau viðhorf sem viðhöfðust um einstaklinga sem höfðu ákveðið útlit, klæðaburð og hátta- og geðslag. Hæfni eða starfsgeta var einnig tilgreind ásamt neyslu á t.d. tóbaki og brennivíni. Í upphafi 18. aldar fór að bera á mikið gildishlaðnari mannlýsingum en áður. Þá er karl einn sagður „sjaldkvæmur til kirkju“, kona er sögð „kallmannleg í framgöngu“ og piltur uppvís að þjófnaði er „hrekkvís Guðs orða“, „sýgur pening“ og „vætir sæng um nætur“. Fjölmörg önnur dæmi er að finna í Alþingisbókum Íslands og samhliða rannsókninni á Annálunum hefur skapast mikilvægur vitnisburður um íslenska samfélagsgerð sem fjallað verður um út frá þeim einstaklingum sem skáru sig úr.