Header Paragraph

Ný bók um norræna menn í Austurvegi

Image

Út er komið ritið The Making of the Eastern Vikings. Rus and Varangians in the Middle Ages hjá bókaforlaginu Brepols í Turnhout í Belgíu. Ritstjórar eru Sverrir Jakobsson, prófessor í miðaldasögu við Deild heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði HÍ, Þórir Jónsson Hraundal, lektor við Mála- og menningardeild HÍ og Daria Segal, doktorsnemi í sagnfræði við HÍ og stundakennari, en bókin er afrakstur rannsóknarverkefnisins Legends of the Eastern Vikings sem styrkt var af Rannsóknasjóði.

Í bókinni er að finna ellefu greinar um norræna menn og ýmis tengsl þeirra í Austurvegi eftir sagnfræðinga, bókmenntafræðinga, málvísindamenn og fornleifafræðinga frá Íslandi, Danmörku, Noregi, Þýskalandi, Englandi, Bandaríkjunum, Ísrael, Rússlandi og Úkraínu. Í inngangi eru forsendur verksins skýrðar en því er ætlað að setja rannsóknir á norrænum mönnum í Austurvegi í nýtt samhengi með hliðsjón af kenningum um menningarlegt minni. Frásagnir um Rus og væringja eru greindar með hliðsjón af því umhverfi sem þær urðu til í en einnig er orðræðan um norræna menn í Austurvegi í nútímanum greind og notkun hennar í margvíslegum pólitískum og fræðilegum tilgangi.

Áður hefur komið út verkið The Varangians. In God´s Holy Fire (2020), á vegum sama rannsóknaverkefnis.

The Making of the Eastern Vikings. Rus and Varangians in the Middle Ages er fáanleg í Bóksölu stúdenta.

Image

Daria Segal, Sverrir Jakobsson og Þórir Jónsson Hraundal, ritstjórar bókarinnar The Making of the Eastern Viking. Rus and Varangians in the Middle Ages.