Nýr sjóður við HÍ styrkir rannsóknir í sagnfræði
Nýr sjóður, Sagnfræðisjóður Aðalgeirs Kristjánssonar, hefur verið stofnaður undir hatti Styrktarsjóða Háskóla Íslands. Sjóðurinn er kenndur við Aðalgeir Kristjánsson og byggist á gjöf hans til Háskóla Íslands.
Sjóðurinn hefur það markmið, samkvæmt erfðaskrá Aðalgeirs, að rannsaka hina sérstöku og sjálfsprottnu alþýðumenningu í Þingeyjarsýslu sem þar varð til á síðari hluta 19. aldar og upphafi þeirrar tuttugustu, rætur hennar, einkenni, vöxt hennar og viðgang.
Aðalgeir Kristjánsson (f. 30. maí 1924, d. 18. júlí 2021) lauk kandídatsprófi í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands árið 1953, stundaði framhaldsnám við Óslóarháskóla 1954–55 og vann við rannsóknir og útgáfustörf í Kaupmannahöfn veturna 1955–58. Árið 1974 varði hann doktorsritgerð sína „Brynjólfur Pétursson, ævi og störf“ við Háskóla Íslands.
Þriggja manna stjórn sjóðsins hefur verið skipuð. Stjórnina skipa þau Guðmundur Hálfdánarson prófessor, Ragnheiður Kristjánsdóttir prófessor og Kristján Árnason, prófessor emeritus, en hann er fulltrúi ættingja í stjórninni.
Styrktarsjóðir á borð við Aðalgeirssjóð eru mikil lyftistöng fyrir Háskóla Íslands. Háskóli Íslands hefur notið mikils velvilja af hálfu fjölmargra einstaklinga á undanförnum árum en þessir aðilar hafa af miklum rausnarskap lagt fé í styrktarsjóði sem allir miða að því að efla vísindarannsóknir og afla nýrrar þekkingar, samfélaginu til heilla.
Styrktarsjóður Aðalgeirs Kristjánssonar er í umsjá og vörslu Styrktarsjóða Háskóla Íslands og fellur undir sjóði sem lúta yfirstjórn Háskóla Íslands. Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta og starfsfólk.
Stjórn sjóðsins ásamt rektor. Frá vinstri: Jón Atli Benediktsson, Ragnheiður Kristjánsdóttir, Kristján Árnason og Guðmundur Hálfdánarson. MYND/Kristinn Ingvarsson