Oddi á Rangárvöllum: Lærdómsmiðstöð á miðöldum

Í Hamri 204, föstudaginn 20. maí kl. 15.15-16.45.

Í Oddarannsókninni er áhersla lögð á ritmenningu í Odda og á tímabilið 1100 til 1400. Kannað verður hvort Sæmundur fróði í Odda (d. 1133) hafi lagt grunn að lærdómsmiðstöð í Odda og hún hafi stuðlað að ritmenningu. Rök finnast til að ætla að í Odda hafi setið allmargir lærdómsmenn samtímis og myndað þar samfélag. Þetta hafa ekki aðeins verið alþekktir, klerkmenntaðir goðar heldur einnig aðrir vígðir menn sem sinntu ekki stjórnsýslu að marki en voru einkum bundnir kirkjulegu starfi og kennslu. Enn fremur prestlingar og væntanlega fróðleiksmenn líka. Sæmundur fróði setti stað í Odda og staðurinn hefur verið forsendan fyrir slíku samfélagi lærðra manna, kennslu og ritmenningu.  En hvernig var þetta unnt, hverjar eru hinar efnahagslegu skýringar?  Hvernig tengjast hin veraldlega umsýsla goðanna í Odda, klerkleg menntun þeirra og aðkoma þeirra að ritmenningu? Oddi mun hafa verið allt í senn, valdamiðstöð, kirkjumiðstöð og lærdómsmiðstöð og þetta var vísast allt nátengt. Verkefnið verður m.a. fólgið í að skýra tengslin og forsendur fyrir hinni þríþættu miðstöð. Til þess þyrfti að gefa gaum umhverfi og náttúru í Odda og forsendum fyrir búskap. Nýta þarf jöfnum höndum  umhverfisrannsóknir og ritheimildir um búskapinn.  

Fyrirlestrar

  • Helgi Þorláksson. „Ritmenning í Odda, 1100 til 1300, forsendur og markmið“
  • Viðar Pálsson. „Staður og lærdómur í Odda“
  • Gunnar Á. Harðarson. „Arngrímur Brandsson, prestur í Odda, ábóti á Þingeyrum“
  • Kristborg Þórsdóttir. „Efnahagslegar undirstöður héraðsveldis Oddaverja“

Málstofustjóri: Sverrir Jakobsson.

 

Útdrættir

Ritmenning í Odda, 1100 til 1300, forsendur og markmið.

Farið verður orðum um hugtakið ritmenning og tilganginn með að styrkja rannsóknir á ritmenningu miðalda. Kynnt verða hugtökin lærdómssetur og lærdómsmiðstöð, og spurt hvort þau eigi við um Odda á bilinu 1100 til 1300. Í sama viðfangi verða dregin fram rök fyrir skólahaldi í Odda og ritstofu. Vikið verður að efnahagslegum forsendum og spurt hvort ritmenning, svo sem handritagerð og ritun, hafi verið dýr og kannski aðeins á færi auðugra manna og stofnana. Þá er komið að hluta ritmenningar sem má kalla bókmenntasköpun. Stiklað verður á helstu rökum fyrir að hún hafi verið stunduð í Odda á umræddum tíma og hvers konar verk muni hafa orðið til, hvers konar fræði hafi verið stunduð. Meginatriðið er að draga fram hverjar hafi verið forsendur bókmenntasköpunar, að ritverk voru samin og afrituð, og hvort hún hafi átt sér félagsleg markmið. Borið verður saman við Reykholt í tíð Snorra og við bókmenntaiðju Sturlunga almennt. Höfðingjum þjóðveldis, goðunum, var almennt hugstætt að auka félagslega virðingu sína eða verja hana. Skemmst er að minnast kirkjugoða 12. aldar sem hlutu sennilega nokkra upphefð af menntun sinni eða lærdómi og er þá Sæmundur fróði nærtækt dæmi enda líklega goði. Vitneskja um bókmenntastörf Snorra Sturlusonar er töluverð og virðist rakið að kanna hvort hún geti varpað ljósi á ritmenningu í Odda og á líklegan tilgang með bókmennatsköpun þar. Dregin verða inn tvö hugtök, merking og ímynd, í tengslum við lærdómsmiðstöðvar, sem voru jafnframt mikilvægir staðir. Spurt verður hvernig megi beita þeim gagnvart Reykholti í tíð Snorra  og Odda í tíð Jóns Loftssonar. Og hvort ritmenning hafi verið hluti af höfðingjamenningu og verið því glæsilegri sem höfðingjar voru auðugri og voldugri. Vakti slík ritmenning almennt aðdáun og virðingu? Í stuttu máli: Leitast verður við að leiða í ljós að bókmenntasköpun í Odda hafi haft félagslegan tilgang. 

Staður og lærdómur í Odda.

Staður var settur í Odda í upphafi tólftu aldar, mögulega í blábyrjun. Fræðimenn hefur lengi greint á um ástæður þess og áhrif að kirkjubændur á tólftu öld efndu til staða, bæði almennt og í einstaka tilfellum. Í þessu erindi verða álitamál um stofnun staðar í Odda reifuð stuttlega og þau sett í samhengi við ritmenningu og lærdóm í Odda á tólftu og þrettándu öld. 

Arngrímur Brandsson, prestur í Odda, ábóti á Þingeyrum.

Síra Arngríms Brandssonar, höfundar einnar gerðar Guðmundar sögu, er fyrst getið í þjónustu Jóns Halldórssonar Skálholtsbiskups sem sendi hann til Noregs árið 1327 þar sem hann að sögn sinnti ekki erindi biskups heldur lagði stund á orgelsmíð. Samt sem áður veitti biskup honum Odda á Rangárvöllum árið 1334 en þaðan hvarf hann árið 1341 og gekk í klaustur. Tíu árum síðar var hann orðinn ábóti á Þingeyrum. Þess vegna hefur sú ályktun verið dregin að hann hafi verið munkur í Þingeyraklaustri. Allt er þetta með nokkrum ólíkindum, en þó er ferill Arngríms vísast með enn meiri ólíkindum. Í erindinu verður farið skipulega yfir helstu heimildir um síra Arngrím. Meðal annars er varpað fram þeirri tilgátu að hann hafi verið af ætt Oddaverja og ný rök færð fyrir því að hann hafi gerst kanoki í klaustrinu í Þykkvabæ þar sem hann var settur í járn, ásamt Eysteini skáldi Ásgrímssyni, fyrir að láta hendur skipta í deilum við ábótann. Nokkrum árum síðar tók Ormur Ásláksson Hólabiskup hann upp á arma sína og gerði að lokum þennan sunnlenska aðstoðarmann sinn að ábóta Þingeyraklausturs. Því er óvíst hvort Oddaprestur hafi nokkru sinni verið munkur á Þingeyrum.   

Efnahagslegar undirstöður héraðsveldis Oddaverja

Fornleifarannsóknir sem fram hafa farið í Odda frá árinu 2020 hafa leitt í ljós mikilvægar upplýsingar um umfangsmikinn búskap á staðnum frá fyrstu áratugum búsetu og fram til um 1100. Snemma hefur verið búið stórbúi í Odda og undirstöður lagðar að héraðsveldi Oddaverja á tímabilinu 1100-1300. Í erindinu verður greint frá frumniðurstöðum úr fornleifahluta Oddarannsóknarinnar.