Opin málstofa: Farsóttir í sögulegu ljósi

Í Bratta Hátíðarsal laugardaginn 21. maí kl. 15.15-16.45.

Í ljósi tíðarandans verður opna málstofa Söguþingsins tileinkuð sögu farsótta. Undanfarin misseri hafa ýmis ný og gömul farsótta- og sóttvarnatengd hugtök orðið Íslendingum, eins og öðrum þjóðum heimsins, óvenjulega töm. Ekki aðeins læknar og heilbrigðisstarfsfólk heldur allur almenningur hefur velt fyrir sér fyrstu, annarri og þriðju bylgju farsóttarinnar, smitgát, sóttkví og einangrun, samkomubönnum, smitrakningu, sóttkvíða og smitskömm, sem og stórum spurningum á borð við jafnvægið milli sóttvarna og sjálfsákvörðunarréttar einstaklingsins.

Í þessari málstofu velta fjórir sagnfræðingar fyrir sér smitsjúkdómum í sögulegu samhengi og skoða áhrif þeirra á samfélagið hverju sinni. Erla Dóris Halldórsdóttir fjallar um hin óhugnanlega smitsjúkdóm holdsveiki í Noregi og á Íslandi og fyrstu einangrunarlögin. Gunnar Þór Bjarnarson tekur fyrir spænsku veikina, stöðu hennar innan sagnfræðinnar og baráttunni við heimildirnar. Kristín Svava Tómasdóttir fjallar um sóttvarnir á Íslandi við upphaf 20. aldar. Loks ræðir Ólöf Garðarsdóttir um glímuna við mislinga í Færeyjum og á Íslandi 1846.

 

Málstofan er styrkt af Heilbrigðismálaráðuneytinu

 

Málstofustjóri: Magnús Gottferðsson, prófessor í smitsjúkdómum

 

Fyrirlestrar:

  • Erla Dóris Halldórsdóttir. „Saga holdsveiki í Noregi og á Íslandi: Samanburðarrannsókn á holdsveiki í tveimur löndum“
  • Gunnar Þór Bjarnason. „Spænska veikin, sagnfræðin og samfélagið“
  • Kristín Svava Tómasdóttir. „Smitberar og sóttvarnir á Íslandi um og eftir aldamótin 1900“
  • Ólöf Garðarsdóttir. „Smitnæmir sjúkdómar í eyjasamfélögum. Ólíkar afleiðingar mislingafarsóttarinnar 1846 í Færeyjum og á Íslandi“

Útdrættir

Saga holdsveiki í Noregi og á Íslandi:  Samanburðarrannsókn á holdsveiki í tveimur löndum.

Vandfundin er hryllegri sjúkdómur en hin æviforna holdsveiki. Holdsveiki er smitsjúkdómur af völdum bakteríu og smitast á milli manna eins og kvef. Þó að búið sé að uppræta holdsveiki víðast hvar í heiminum er fólk enn að sýkast af þessum sjúkdómi. Á miðöldum var holdsveiki útbeiddur sjúkdómur um heim allan en frá lokum sextándu aldar voru Noregur og Ísland einu löndin í Vestur-Evrópu sem urðu fyrir miklum áföllum af völdum veikinnar, bæði hvað varðar örorku og manndauða. Saga holdsveikinnar í Noregi og á Íslandi er samofin í löndunum tveimur. Holdsveiki er talin hafa borist til Íslands frá Noregi og í báðum löndum var sjúkdómurinn upprættur mörgum öldum síðar. Í fyrirlestrinum verður fjallað um norska og íslenska holdsveikisjúklinga og einnig hver ávinningur sé að fjalla um sögu smitsjúkdóms í tveimur löndum.

 

Erla Dóris Halldórsdóttir er doktor í sagnfræði frá Háskóla Íslands 2016. Hún lauk BA.-prófi í sagnfræði árið 1996 og MA.-prófi í sagnfræði 2000. Erla Dóris er einnig hjúkrunarfræðingur, með sérmenntun í gjörgæsluhjúkrun.  

Rannsóknir Erlu Dórisar í sagnfræði hafa beinst að sögu heilbrigðisstétta, smitsjúkdóma, fæðingarhjálp og mæðradauða fyrr á öldum. Hún hefur skrifað grein um sögu barnsfarasóttar („Barnsfarasótt á Íslandi á nítjándu öld“) sem birtist í Sögu 2018, bók um holdsveiki á Íslandi (Holdsveiki á Íslandi), bók um holdsveiki í Noregi og á Íslandi (Óhreinu bornin hennar Evu: Holdsveiki í Noregi og á Íslandi) og nýjasta bók hennar er um sögu mislinga á Íslandi (Mislingar) kom út í lok nóvember 2021. Hún fékk styrk frá Starfslaunasjóði sjálfstætt starfandi fræðimanna (Rannís) og Hagþenki við samningu bókarinnar.   

Erla Dóris tók þátt í að hjúkra covid-19 veikum sem leituð á covid-19 göngudeild að Birkiborg á Landspítala í Fossvogi í síðustu bylgju faraldursins frá því í nóvember 2021 og fram í apríl 2022.  

Erla Dóris hefur nú hafi rannsókn á sögu berkla á Íslandi og stefnir á að sú rannsókn komi út á bók árið 2024.  

Spænska veikin, sagnfræðin og samfélagið

Þrátt fyrir að spænska veikin hafi verið skæðasti veirufaraldur mannkynssögunnar forðuðust sagnfræðingar hana lengi eins og heitan eldinn. Hvaða skýringar eru á því? Og hvað veldur vaxandi áhuga á síðari árum? Auk þess að svara þessum spurningum mun fyrirlesari ræða af hverju hann réðst í að skrifa bók um þetta viðfangsefni og segja frá glímunni við heimildirnar en rannsóknin veitti dýrmæta innsýn í líf fólks og íslenskt samfélag á þeim tíma sem spænska veikin geisaði.

Gunnar Þór Bjarnason er menntaður í sagnfræði og alþjóðastjórnmálum. Hann sinnti lengi kennslu en hefur í áratug starfað sem sjálfstætt starfandi sagnfræðingur. Síðasta bók hans, Spænska veikin, kom út fyrir jólin 2020.

Smitberar og sóttvarnir á Íslandi um og eftir aldamótin 1900.

Um aldamótin 1900 voru sett ný og ítarlegri lög um innri og ytri varnir gegn farsóttum og smitsjúkdómum á Íslandi. Í erindinu verður litið til baka og skoðað hvernig sóttvörnum var háttað hér á landi við upphaf nýrrar aldar, hvaða áhrif þær höfðu í lífi venjulegs fólks og hvers konar togstreita og ágreiningur kom upp við þær aðstæður. Tekin verða dæmi af umdeildum sóttvarnaraðgerðum, læknum sem voru ósammála, almennum borgurum sem þrýstu á um harðari sóttvarnir og öðrum sem óhlýðnuðust sóttvarnareglum. Einnig verður fjallað um hugmyndir manna um mál einkennalausra smitbera og ábyrgðarlausra smitbera og hvernig best þótti að bregðast við þeim.

Kristín Svava Tómasdóttir er sjálfstætt starfandi sagnfræðingur og annar ritstjóra tímaritsins Sögu. Hún útskrifaðist með MA-próf í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 2014. Kristín Svava er höfundur bókarinnar Stund klámsins. Klám á Íslandi á tímum kynlífsbyltingarinnar, sem hlaut Viðurkenningu Hagþenkis árið 2018, og meðhöfundur að bókinni Konur sem kjósa – aldarsaga, sem hlaut Fjöruverðlaunin í flokki fræðirita árið 2020. Hún vinnur nú að bókinni Farsótt. Hundrað ár í Þingholtsstræti 25 sem væntanleg er frá Sögufélagi haustið 2022.

Smitnæmir sjúkdómar í eyjasamfélögum. Ólíkar afleiðingar mislingafarsóttarinnar 1846 í Færeyjum og á Íslandi.

Image
""