Saga og útgáfa fræðitímarita. Pallborð

Í Hamri 203, föstudaginn 20. maí kl. 9.00-10.30.

Tímaritið Saga hefur komið út frá 1949 og hefur um áratuga skeið verið helsta fagtímarit sagnfræðinga á Íslandi. Það er eina fagtímaritið í heiminum sem er sérhæft á sviði Íslandssögu og birtir ritrýndar greinar sagnfræðinga og annarra fræðimanna um ólík svið og tímabil Íslandssögunnar. Saga birtir einnig styttri greinar af ýmsu tagi, ritdóma og ritfregnir, og er lifandi vettvangur fyrir umræðu um hugmyndir og aðferðir við ritun og miðlun sögu. Saga hefur ávallt höfðað bæði til leikra og lærðra og átt sér fleiri lesendur en mörg önnur fræðitímarit.

Rekstrarumhverfi Sögu er að mörgu leyti frábrugðið aðstæðum sambærilegra fræðitímarita á Íslandi og í nágrannalöndunum, þar sem Saga er gefin út af Sögufélagi, óháðum félagasamtökum, en ekki styrkt af til dæmis háskóla eða rannsóknarsjóðum. Rekstrarumhverfi vísindatímarita á Íslandi hefur jafnframt tekið stórtækum breytingum á undanförnum áratug. Vaxandi kröfur um opið aðgengi að niðurstöðum rannsókna, aukið vægi alþjóðlegra matskvarða á vægi tímarita í matskerfi opinberra háskóla og breyttar lestrarvenjur neytenda fræðilegs efnis með aukinni rafrænni útgáfu eru meðal helstu ástæðna þess að hefðbundin útgáfa fagtímarita á pappír stendur höllum fæti. Saga stendur því frammi fyrir ýmsum áskorunum sem takast þarf á við á komandi árum.

Ritstjórar og útgefendur Sögu vilja nota tækifærið á Söguþingi og efna til umræðu meðal sagnfræðinga um stöðu og framtíð tímaritsins, og útgáfu og starfsumhverfi fræðitímarita almennt. Frummælendur eru Guðmundur Hálfdanarson, Íris Ellenberger og Viðar Pálsson. Hvert þeirra flytur stutta framsögu og síðan taka þau þátt í pallborðsumræðum sem leiddar verða af ritstjórum Sögu.