Sagnfræði innan veggja Háskólans og utan

Í Hamri 201, laugardaginn 21. maí kl. 13.30-15.00.

Í málstofunni er litið yfir farinn veg í rannsóknum, kennslu og útgáfu sagnfræðirita í sagnfræði við Háskóla Íslands í tilefni af 50 ára afmæli Sagnfræðistofnunar í ár. Rannsóknir undir hatti Sagnfræðistofnunar eru bornar saman við sagnfræði sem stunduð er á öðrum vettvangi í samfélaginu og rætt um hvort mikill munur sé á „háskólasagnfræði“ og annarri sagnfræðiiðkun, þ. á m. alþýðlegri sagnfræði (e. popular history) sem svo er stundum kölluð. Ef svo er, í hverju er þessi munur er fólginn? Einnig er velt upp þeirri spurningu hvort háskólasagnfræðin á Íslandi sé á réttri leið eða hefur hún ef til vill lent í of þröngu fari?

Fyrirlestrar

  • Bragi Þorgrímur Ólafsson, fagstjóri handritasafns Landsbókasafns Íslands. „Stefnur og straumar í háskólakennslu í sagnfræði 1977-2017“
  • Jakob Snævar Ólafsson, meistaranemi í sagnfræði. „Til hvers er Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands? Rannsóknir Sagnfræðistofnunar og áhrif þeirra á íslenska sagnfræði“
  • Gunnar Þór Bjarnason, sagnfræðingur. „Ósýnileg sagnfræði?“
  • Þórunn Erlu- og Valdimarsdóttir, sagnfræðingur og rithöfundur. „Hugvísindin til atvinnuveganna = fjöldans“

Málstofustjóri: Guðmundur Jónsson, prófessor í sagnfræði.

Útdrættir

Stefnur og straumar í háskólakennslu í sagnfræði 1977-2017 

Efnisval, áherslur og aðferðir sagnfræðinga taka iðulega breytingum frá einni kynslóð til annarrar sem endurspeglast í rannsóknum þeirra og ritstörfum. Stefnur og kenningar koma og fara, sjónarhorn breytast og nýjar heimildir koma fram. Í þessu erindi verður fjallað um námsframboð í sagnfræði við Háskóla Íslands á tímabilinu 1977–2017 og dregin upp mynd af efnisvali og áherslum sem birtast í kennslu – og hvernig þær endurspegla stefnur og strauma í sagnfræðinni á hverjum tíma.

Til hvers er Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands? Rannsóknir Sagnfræðistofnunar og áhrif þeirra á íslenska sagnfræði 

Í erindinu er fjallað um rannsóknir sem Sagnfræðistofnun hefur staðið fyrir eða tekið þátt í frá upphafi. Rannsóknirnar eru settar í samhengi við þróun íslenskrar sagnfræði almennt með það að markmiði að svara þeirri spurningu hver áhrif þeirra á fræðigreinina hafa verið. Jafnframt er leitast við að svara þeirri spurningu hvert framlag Sagnfræðistofnunar hefur verið til sagnfræðirannsókna á Íslandi. 

Ósýnileg sagnfræði? 

Ég hef á undanförnum árum skrifað nokkrar sagnfræðibækur og reynt að höfða til breiðs lesendahóps. Eru slíkar bækur í eðli sínu frábrugðnar akademískum sagnfræðiritum að efni og fræðilegri nálgun? Eða er þetta fyrst og fremst spurning um stíl og frásagnaraðferð? Hvað telst nú á dögum vera alþýðleg sagnfræði? Sinnir háskólasagnfræðin hlutverki sínu vel eða er hún að miklu leyti ósýnileg almenningi? 

Hugvísindin til atvinnuveganna = fjöldans 

Hefur akademían skyldur við almenning í samfélagi lýðræðis? Oft er hamrað á því að raungreinar skili sér til atvinnuveganna. Eins vilja ávextir hugvísinda komast úr turninum. Aldir elítisma eru liðnar. Fólkið borgar fólkið fær. Sagnfræðistofnun skili kjarna framleiðslu nemenda og starfsmanna á vef í heillandi formi, sem streymt geti yfir í vefmiðla og veitur.