Header Paragraph

Sumarliði hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin

Image

Sumarliði R. Ísleifsson, lektor í hagnýtri menningarmiðlun við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands, hlýtur Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki fræðirita og bóka almenns eðlis árið 2020 fyrir bók sína Í fjarska norðursins: Ísland og Grænland – viðhorfasaga í þúsund ár. Sumarliði tók við verðlaununum við hátíðlega athöfn að Bessastöðum í kvöld.

Bók Sumarliða R. Ísleifsson kom út í haust á vegum Sögufélagsins. Í henni  er fjallað um ímyndir Íslands og Grænlands en Sumarliði hefur um langt skeið rannsakað þær og varði m.a. doktorsritgerð við Háskóla Íslands um efnið árið 2014. 

Þjóðirnar sem byggja eyjarnar tvær hafa lengi verið framandi í augum annarra og ímyndir þeirra voru oft svipaðar en margt hefur líka greint á milli. Í bókinni er leitað svara við því hvers vegna íbúum þessara landa hefur ýmist verið lýst sem verstu villimönnum eða fyrirmyndarfólki og af hverju Íslandi og Grænlandi hafi stundum verið lýst sem djöflaeyjum og stundum sem fjársjóðs- eða sælueyjum.

„Löndin í norðri, Ísland og Grænland, voru öldum saman sveipuð dularfullum og framandi bjarma í augum þeirra ferðalanga sem þangað lögðu leið sína. Í ritinu Í fjarska norðursins – Ísland og Grænland – viðhorfasaga í þúsund ár tekst Sumarliða R. Ísleifssyni að varpa ljósi á rúmlega þúsund ára viðhorfasögu gagnvart íbúum þessara eyja á afar aðgengilegan og skýran hátt. Athyglisvert og fróðlegt er að bera saman frásagnir, skoðanir og ályktanir þeirra mörgu fræðimanna, rithöfunda og landkönnuða sem koma við sögu og sjá hvaða breytingar verða á ímynd þessara fjarlægu eyja í tímans rás. Bókin er glæsilegt og eigulegt rit, fallega hönnuð og með ríkulegu myndefni,“ segir í umsögn lokadómnefndar um bókina.

Sumarliði hefur unnið að ritstörfum, heimildamyndagerð, rannsóknum, kennslu og sýningarhaldi um langt skeið, lengst af innan ReykjavíkurAkademíunnar (frá 1998-2012). Meðal verka hans má nefna Sögu Alþýðusambands Íslands (I-II, 2013); Iceland and Images of the North (ritstjóri og höfundur að hluta, 2011); Stjórnarráð Íslands 1964-2004 (ritstjóri og höfundur að hluta, I-III, 2004); og Ísland. Framandi land (1996). Auk fleiri bóka liggur eftir hann fjöldi greina í innlendum og erlendum tímaritum og bókum.

Þrjár bækur fræðimanna við Háskóla Íslands vour tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðirita og bóka almenns að þessu sinni. Auk bókar Sumarliða voru bækurnar Konur sem kjósa – aldarsaga eftir þær Erlu Huldu Halldórsdóttur og Ragnheiði Kristjánsdóttur, prófessora í sagnfræði við Sagnfræði- og heimspekideild, Kristínu Svövu Tómasdóttur, sagnfræðing, skáld  og ritstjóra, og Þorgerði H. Þorvaldsdóttur, sjálfstætt starfandi kynja- og sagnfræðing hjá ReykjavíkurAkademíunni, og Fuglinn sem gat ekki flogið eftir Gísla Pálsson, prófessor emeritus í mannfræði, einnig tilnefndar.

Háskóli Íslands óskar Sumarliða til hamingju með verðlaunin.

Image