Header Paragraph

Þættir af sérkennilegu fólki

Image

Út er komin bókin Þættir af sérkennilegu fólki, en hún er 28. útgáfan í ritröðinni Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar. Höfundar eru Anna Heiða Baldursdóttir, Atli Þór Kristinsson, Daníel Guðmundur Daníelsson, Marín Árnadóttir, Sólveig Ólafsdóttir og Sigurður Gylfi Magnússon. 

Þættir af sérkennilegu fólki fjallar um fólk sem var á einhvern hátt hornreka í samfélögum fyrri tíðar og hvernig það bæði náði að þreyja þorrann og góuna og um leið að hafa áhrif á samtíð sína með margvíslegum hætti. Höfundar bókarinnar leita fanga í jafn fjölbreyttum heimildum og þjóðlegum fróðleik (þættir af sérkennilegu fólki), í blöðum og tímaritum frá 19. og 20. öld, í Alþingisbókum Íslands (Acta comitiorum generalium Islandiæ) í ritröð sem Sögufélag gaf út í 17 bindum 1912–1914 og 1991 og safnað saman öllum þeim textum sem tengjast: 1) mannlýsingum; 2) einstaklingum með líkamlegar eða andlegar skerðingar í sem víðustum skilningi; 3) úrskurðum og meðferð yfirvalda á ómögum og fátæklingum. Farið er með sama hætti yfir Fornbréfasafnið, Annála frá 1400–1800 og dánarbúsuppskriftir og allt þetta efni greint með fjölbreyttum hætti. Hugmyndin er að gera tilraun til að skilja það sem við nefnum „menningu fátæktar“, hvernig Íslendingar gerðu ráð fyrir að fátækt þrifist á Íslandi í einni eða annarri mynd.

Ritröðin Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar er gefin út á vegum Háskólaútgáfunnar í samvinnu við ritstjórana Davíð Ólafsson og Sigurð Gylfa Magnússon og Miðstöð einsögurannsókna við Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands.

Smelltu hér til að skoða bókina á vef Háskólaútgáfunnar.

Image