Utan vistarbands: Vinnandi fólk á átjándu og nítjándu öld

Í Hamri 204, laugardaginn 21. maí kl. 10.45-12.15.

Rannsóknir á sögu vinnandi fólks hafa á undanförnum árum tekið miklum breytingum. Með nýjum áherslum, aðferðum, hugtökum og kenningum hafa margir sagnfræðingar horfið frá ýmsum viðteknum viðmiðum í atvinnusögu (e. labour history), svo sem um tilurð verkalýðsstéttar samhliða iðnvæðingu, sem lengi einkenndu þessa undirgrein sagnfræðinnar. Þess í stað hefur sjónum í auknum mæli verið beint að margslungnu sambandi vinnandi fólks fyrri tíma við vinnuveitendur sína og nærsamfélag, að samfélagslegum áhrifum (og áhrifaleysi) atvinnulöggjafar sem byggði með einum eða öðrum hætti á þvingun og sambandi (og sambandsleysi) hennar við daglegt líf og störf verkafólks, á hreyfanleika vinnandi fólks innan og á milli ólíkra atvinnu- og hagkerfa, að atbeina vinnandi fólks og tækifærum þeirra til undanbragða og andófs sem og sjálfsbjargarviðleitni þeirra í samfélagi þar sem flesta innviði skorti.

Það er einkum í rannsóknum á vistarbandi sem borið hefur á þessum breyttu áherslum hér á landi. Atvinnuumhverfi Íslendinga á fyrri tíð, áður en nútíminn hóf innreið sína að fullu á tuttugustu öld, var þó ekki bundið við búskap og vinnumennsku eingöngu. Þrátt fyrir að tilvist lausamanna á átjándu og nítjándu öld, sem ýmist unnu almenna verkamannavinnu eða sérhæfð störf af einhverju tagi, sé vel þekkt hafa sagnfræðingar lítið rannsakað líf þeirra og störf. Það sama má segja um kaupafólk, sem ferðaðist árlega hundruðum saman á milli landshluta til árstíðabundinna starfa, og tómthús- og þurrabúðarfólk sem bjó við verstöðvar og verslunarstaði um allt land og hafði viðurværi sitt af sjósókn. Í málstofunni verður sjónum beint að þessum hópum verkafólks, lífi þeirra, starfsumhverfi, kjörum og margslungnu og mótsagnakenndu sambandi þeirra við atvinnulöggjöf og nærsamfélag á átjándu og nítjándu öld. Erindin taka með einum eða öðrum hætti mið af fyrrgreindum áherslubreytingum í rannsóknum á sögu vinnandi fólks í því skyni að skoða líf og störf íslensks verkafólks fyrri alda í nýju ljósi.

Fyrirlestrar:

  • Vilhelm Vilhelmsson. Doktorspróf í sagnfræði frá Háskóla Íslands. Forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra. „Lausamennskubannið 1783: Tilurð, tilgangur og túlkun“
  • Þórunn Þorsteinsdóttir. Msc-próf í sagnfræði frá Edinborgarháskóla. Verkefnastjóri við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra. „Lausamenn í Akureyrarkaupstað á fyrri hluta nítjándu aldar“
  • Harpa Rún Ásmundsdóttir. MA-nemi í sagnfræði við Háskóla Íslands. „„Heiðraða hreppsnefnd Súðavíkurhrepps“: Atvinnulöggjöfin og brottrekstur þurrabúðarfólks úr Súðavíkurhreppi á síðari hluta nítjándu aldar“
  • Emil Gunnlaugsson. MA-nemi í sagnfræði við Háskóla Íslands. „Kaupavinna á nítjándu öld“

Málstofustjóri: Vilhelm Vilhelmsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra.

Útdrættir

Lausamennskubannið 1783: Tilurð, tilgangur og túlkun.

Með tilskipun um lausamenn árið 1783 var fyrirskipað að allir þeir sem náð höfðu 18 ára aldri skyldu ráða sig til ársvista hjá búandi fólki ellegar taka upp búskap á fullgildu jarðnæði. Jafnframt var mönnum bannað að vinna fyrir daglaun og tilgreindar strangar refsingar á borð við gapastokksrefsingu, sektir og tukthúsvist fyrir brotlega. Tilskipunin herti umtalsvert á eldri lagaákvæðum um vistarskyldu og lausamennsku en skýrði um leið betur út ýmsa óvissuþætti um framkvæmd og eftirfylgni. Að sama skapi olli ónákvæmt orðalag og óskýrt verklag nýjum vandamálum fyrir þá embættismenn sem fylgja áttu lögunum eftir. Á banninu við lausamennsku sem í lögunum fólst voru til að mynda nokkrar undantekningar sem sköpuðu svigrúm til mismunandi túlkunar á ákvæðum laganna og þar með tækifæri, fyrir þá sem lúta þurftu þessum lögum, til viðnáms og undanbragða, tækifæri sem voru óspart notuð.  

Þrátt fyrir að nokkur fjöldi sagnfræðinga hafi fjallað ítarlega um tilskipunina er ýmislegt um aðdraganda að lagasetningunni enn á huldu. Það sama á við um túlkun ákvæða hennar af dómstólum, þar sem minna hefur farið fyrir rannsóknum á því hvernig henni var beitt í framkvæmd í þau 80 ár sem tilskipunin var í gildi. Í erindinu verðum sjónum beint að þessum þáttum og fjallað annars vegar um samningu tilskipunarinnar og hins vegar um eftirfylgni með lausamennskubanninu og túlkun á nokkrum óskýrum ákvæðum þess fyrir dómstólum. Reifuð verða ýmis atriði sem þarfnast frekari rannsókna við um þennan fyrirferðamikla þátt í atvinnusögu Íslendinga. 

Lausamenn í Akureyrarkaupstað á fyrri hluta nítjándu aldar. 

Akureyrarkaupstaður var einn af sex fyrstu kaupstöðum Íslands, sem stofnaðir voru með konunglegri tilskipun um fríhöndlun árið 1787. Með breyttu verslunarfyrirkomulagi vonuðust dönsk stjórnvöld meðal annars til þess að koma fótum undir öfluga borgarastétt hér á landi. Danskur bragur var þó yfir kaupstaðnum, sérstaklega á fyrstu árum hans, enda skerti lagarammi gamla bændasamfélagins atvinnu- og ferðafrelsi íslenskrar alþýðu. Með lausamennskubanni árið 1783 var allt búlaust fólk skyldað til þess að gerast bændur eða ganga í vist, og lausamennska nánast algjörlega bönnuð. Höfðu landsmenn því fæstir tök á að verða sér úti um tilskilin leyfi til þess að geta sest að í kaupstöðum. Þegar nánar er að gáð virðist þó sem hentistefna hafi stundum ráðið meiru um það hvort lausamönnum hafi verið leyft að dvelja og starfa í Akureyrarkaupstað á tímum fríhöndlunarinnar. Í þessu erindi verður fjallað um lausamenn sem komu við sögu kaupstaðarins á fyrri hluta 19. aldar, störf þeirra og hlutverk í nærsamfélaginu. 

„Heiðraða hreppsnefnd Súðavíkurhrepps“: Atvinnulöggjöfin og brottrekstur þurrabúðarfólks úr Súðavíkurhreppi á síðari hluta nítjándu aldar. 

Í desember 1885 sendi hreppsnefnd Súðavíkurhrepps þrettán einstaklingum, níu körlum og fjórum konum, útburðarbréf þar sem þeim var gert að yfirgefa hreppinn ásamt fjölskyldum sínum á fardögum 1886. Í augum nefndarinnar höfðu allir þessara einstaklinga, sem flestir bjuggu í þurrabúðum og höfðu framfæri sitt að mestu leyti af fiskveiðum, gerst sekir um brot á lögum um lausamennsku sem höfðu verið í gildi frá 1863. Markmið erindisins verður að setja þessar aðgerðir í sögulegt samhengi með því að skoða lögmæti og forsendur þeirra, umræðu um stöðu þurrabúðarmanna og viðbrögð þeirra þrettán einstaklinga sem fengu bréf hreppsnefndarinnar við brottrekstrinum.  

Kaupavinna á nítjándu öld. 

Reglulegar langferðir milli landshluta í atvinnuskyni á Íslandi eiga sér rætur að rekja til að minnsta kosti til 16. aldar þegar bera tók á langferðum vermanna. Óvíst er hvort að kaupavinna hafi orðið til samhliða þessu. Sjálfsagt var vegur hennar þó ætíð minni en vertíðarinnar. Auk þess að líklegt er að kaupavinna hafi löngum verið stunduð af fólki í sínu nærumhverfi og ekki alltaf kallað á löng ferðalög fólks. Uppruni eða umfang kaupavinnu, eðli hennar o.fl. er því óljós. Þar veldur heimildarleysi, og það var ekki fyrr en með vaxandi skrifræði yfirvalda á Íslandi sem heimildir um ferðir almúgafólks milli staða í leit að vinnu verða til. Orsökin var ævarandi kvíði yfirvalda og auknir burðir til skrásetningar að kaupavinnufólk fór að skilja eftir sig fótspor í skjalasöfnum í formi reisupassa, eða vegabréfa, í byrjun 19. aldar. Vegabréfin eiga sér nokkuð langa sögu en notkun þeirra var sérstaklega fyrirskipuð með lagasetningu í lok 18. aldar. Útgáfa þeirra veitir einstaka innsýn á umferð fólks um landið á 19. öld.  

Í erindinu verður fjallað um kaupavinnu og byggir sjónarhornið að mestu á þessum reisupössum. Farið verður yfir sögu þeirra og heimildargildi. Gert verður grein fyrir grundvallarþáttum kaupavinnunnar eins og kjörum kaupavinnufólk og umræðu um hana í heimildum. Einnig verður töluleg samantekt á reisupössum kaupavinnufólks frá Reykjavíkurkaupstað og Gullbringusýslu kynnt og auk þess sem nokkrir úr hópi kaupavinnufólks verða kynntir til sögunnar.