Header Paragraph

Varði doktorsritgerð um sögu flotvörpunnar

Image

Sylvía Marsibil Bates hefur varið doktorsritgerð í sagnfræði við Deild heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði við Háskóla Íslands. Ritgerðin ber titilinn Net-works: The technological development and economic significance of the pelagic trawl og fjallar um tilurð flotvörpunnar, tæknilega þróun hennar og efnahagslega þýðingu, frá fimmta áratug til níunda áratugar 20. aldar.  

Doktorsritgerðin var unnin undir leiðsögn Guðmundar Jónssonar, prófessors í sagnfræði við Háskóla Íslands, en auk hans voru í doktorsnefnd þeir Haraldur Arnar Einarsson, sérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun og Ingo Heidbrink, prófessor við Old Dominion University í Bandaríkjunum.

Andmælendur við vörnina voru Ludvig Ahm Krag, prófessor við National Institute of Aquatic Resources við tækniháskólann í Danmörku og Martin Wilcox, lektor við University of Hull í Bretlandi. Sverrir Jakobsson, deildarforseti Íslensku- og menningardeildar, stjórnar athöfninni sem fór fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands, fimmtudaginn 8. maí. 

Um rannsóknina 

Í doktorsritgerð sinni fjallar Sylvía um tilurð flotvörpunnar, tæknilega þróun hennar og efnahagslega þýðingu, frá fimmta áratug til níunda áratugar 20. aldar. Sýnt er fram á að flotvarpan á uppruna sinn í Svíþjóð og Danmörku og rakin er áframhaldandi þróun hennar undir merkjum félagasamtaka og opinberra stofnana. Á þessum tíma komu nýir aðilar til sögunnar og breyting varð á áherslum og hvötum til áframhaldandi endurbóta á flotvörpunni. Enn fremur kannar Sylvía efnahagslega þýðingu flotvörpunni á 20. öld og í upphafi 21. aldar. Rannsóknin leiðir í ljós að fjölmargir þættir höfðu áhrif á þróun flotvörpunnar og notkun, þar á meðal framleiðni, aukin nýting á uppsjávarfiskimiðum og framleiðsla.

Um doktorinn

Sylvía lauk BA-prófi í fornleifafræði og klassískum fræðum í Bretlandi og MA-prófi í sjávarfornleifafræði við Syddansk háskólann. Hún starfaði hjá Síldarminjasafni Íslands en býr nú á Akureyri.

Image

Haraldur Arnar Einarsson, Sverrir Jakobsson, Martin Wilcox, Sylvía Marsibil Bates, Ludvig Ahm Krag, Ólöf Garðarsdóttir og Guðmundur Jónsson.