Header Paragraph

Vel heppnað málþing Sagnfræðistofnunar um miðlun sögunnar

Image

Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands stóð fyrir opnu málþingi um miðlun sögunnar í síðustu viku þar sem að rúmlega fjörutíu innlendir og erlendir sérfræðingar tóku til máls í pallborðsumræðum en að auki sótti mikill fjöldi gesta allt þingið og tók þátt í líflegum samræðum um sögu og sagnfræði í samfélaginu.

Það kom vel fram að það eru miklu fleiri sem taka þátt í fræðasamfélaginu heldur en bara fólkið sem sinnir kennslu og rannsóknum við háskóla landsins. Því var mikils virði að heyra frá þeim sem sinna miðlun á söfnum, stofnunum, í fjölmiðlum og bókaútgáfu, í skólum og á vettvangi almennt. Það er augljóst að víða er unnið frumlegt og frábært starf þar sem unnið er með söguna á ýmsan hátt, t.d. út frá þátttöku, leikjum, skynjun, hughrifum, upplifunum og áfram mætti telja.

Margar ögrandi spurningar voru lagðar fram á þinginu –til dæmis var spurt hvort að sagnfræðingar væru almennt að ná árangri í að miðla sínum fræðum og hvert hlutverk sagnfræðinnar (og hugvísindanna almennt) væri og ætti að vera í samfélaginu. Það var líka talað um nauðsyn þess að auka samstarf ólíkra aðila; þó að allir þátttakendur væru sammála um að áhugi á fortíðinni væri mikill, þá þurfum við öll að taka höndum saman um að halda þekkingu um fortíðina á lofti og setja hana í samhengi við málefni samtíðarinnar. Þarna skipta fjárframlög hins opinbera og úr einkageiranum gríðarlega miklu máli, enda eru miðlunarverkefni oft lengi í vinnslu og kostnaðarsöm.

Því má heldur ekki gleyma að fyrir utan erlenda ferðamenn þá eiga þau sem sækja í bækur, hlaðvörp, söfn og sýningar um sögu á Íslandi það mörg sameiginlegt að hafa verið í íslenska skólakerfinu – og því er nauðsynlegt að sporna við minnkaðri sögukennslu á öllum skólastigum og auka aðgengi unga fólksins okkar að spennandi efni um söguna. Hér er nú einnig búsettur töluverður fjöldi fólks með erlendan bakgrunn sem hefur bæði áhuga á sögu og getur komið með ný sjónarhorn á Íslandssöguna. Í því samhengi var einnig mikið rætt um að nú eru komnar fram á sviðið nýjar kynslóðir með spennandi færni og alls konar (samfélags)miðla sem hafa þarf í huga við framsetningu á fortíðinni.

Á þinginu var einnig horft til spennandi miðlunarverkefna erlendis frá en Thomas Cauvin, dósent í miðlunarsagnfræði/sögu fyrir almenning (e. public history) við Lúxemborgarháskóla hélt Minningarfyrirlestur Jóns Sigurðssonar þar sem hann ræddi til dæmis um þátttökurannsóknir og mikilvægi þess að eiga í samtali við samfélagið á öllum stigum rannsókna og miðlunar. Thomas Oldrup, ritstjóri 100 danmarkshistorier við Aarhus Universitetsforlag í Danmörku, sagði okkur frá ritröðinni sem hann ritstýrir en forlagið gefur út 100 bækur um Danmerkursögu sem uppfylla allar helstu fræðilegu kröfur um leið og sögunni er miðlað á aðgengilegan hátt. Sögufélag er með svipaða ritröð í bígerð og er mikils að vænta af þessum bókum, enda hefur dönsku bókunum verið mjög vel tekið. Við heyrðum einnig í þeim Anne Sørensen og Mette Frisk Jensen, sem kynntu hinn glæsilega söguvef, danmarkshistorien.dk, þar sem rannsóknir og miðlun haldast vel í hendur enda hefur vefurinn öðlast sess bæði í skólakerfinu og meðal almennings í Danmörku sem leitar þar gjarnan upplýsinga um sögulegt samhengi þess sem efst er á baugi í samfélaginu hverju sinni.

Að lokum má minnast á að eins og oft voru umræður í sal og í kaffihléum með eindæmum frjóar og skemmtilegar og það var einróma álit allra að það væri gott og gefandi að ræða þessi mál – og greina mátti mikinn vilja allra til að halda áfram að virkja og efla áhuga almennings á sögunni okkar.

Image

Pallborð um miðlun og Háskóla Íslands. F.v. Æsa Sigurjónsdóttir, prófessor í listfræði, Jón Jónsson þjóðfræðingur og verkefnisstjóri Rannsóknaseturs HÍ á Ströndum; Ólöf Garðarsdóttir prófessor og forseti Hugvísindasviðs, Sumarliði R. Ísleifsson, dósent í hagnýtri menningarmiðlun og Markús Þórhallsson, sagnfræðingur og fréttamaður. Ljósmynd: Ólafur J. Engilbertsson/Landsbókasafn Íslands-Háskólabókasafn.

Image

Gestir í Lóni – sal Landsbókasafns Íslands. Ljósmynd: Ólafur J. Engilbertsson/Landsbókasafn Íslands-Háskólabókasafn.

Image

Pallborð um söfn, skóla, félagsstarf og bókaútgáfu. Frá vinstri, Erla Hulda Halldórsdóttir, prófessor í sagnfræði, Ágústa Kristófersdóttir, sviðsstjóri hjá Þjóðminjasafni; Brynhildur Ingvarsdóttir sérfræðingur í miðlun, Þjóðskjalasafni Íslands; Egill Arnarsson, ritstjóri hjá Háskólaútgáfunni; Hrefna Róbertsdóttir, þjóðskjalavörður og forseti Sögufélags; Ólöf Dagný Óskarsdóttir, rekstrarstjóri Hins íslenska bókmenntafélags og Súsanna Margrét Gestsdóttir, lektor á menntavísindasviði. Ljósmynd: Símon H. Sverrisson/Þjóðskjalasafn Íslands.

Image

Gestir í sal Þjóðskjalasafns Íslands. Ljósmynd: Símon H. Sverrisson/Þjóðskjalasafn Íslands.

Image