Áhugi og þátttaka Íslendinga og annarra Norðurlandabúa í róttækum stjórnmálabreytingum erlendra ríkja

Hvað veldur því að fólk fær brennandi áhuga á stjórnmálabaráttu í öðrum löndum? Af hverju eru fólk tilbúið til að ferðast langar leiðir og taka þátt í hreyfingu, jafnvel stríði, fyrir fólk sem það hefur aldrei hitt? Í þessari málstofu verða skoðuð þrjú ólík mál sem vöktu mikinn áhuga hér á landi og annars staðar á Norðurlöndum í hugmyndafræðilegu samhengi.

Í tengslum við gríska sjálfstæðisstríðið 1820–1830 varð til fjölþjóðleg hreyfing svokallaðra fílhellenista sem studdu málstað Grikkja. Innan danska ríkisins, þ.m.t. á Íslandi, var þó nokkur umræða um stríðið og nokkrir Danir ferðuðust til Pelópsskaga í von um að geta lagt Grikkjum lið. Þessi fjölþjóðlegi stuðningur við Grikki átti sér ýmsar hugmyndafræðilegar ástæður og þar var stuðningur dönsku fílhellenistanna engin undantekning.

Rúmri öld síðar reið spænska borgarastyrjöldin yfir. Hún vakti mikla athygli og eldmóð langt út fyrir landsteinana og á Íslandi var mikil umræða um stríðið. Vitað er um a.m.k. þrjá Íslendinga sem ferðuðust til Spánar til að berjast með lýðveldissinnum. Margir töldu að ef fasistar sigruðu á Spáni ættu önnur lönd einnig í hættu að enda undir járnhæl slíkra öfgastjórnmálaafla.

Eftir að kommúnistar sigruðust á herjum þjóðernissinna í Kína árið 1949 fögnuðu íslenskir sósíalistar því ákaft. Skrifaðar voru bækur, félag var stofnað um samskipti landanna, Kínversk-íslenska menningarfélagið (KÍM), og nokkrir hinna áhugasömu fóru í sendiferðir til Kína. En hvernig passaði þessi atburður inn í heimsmynd Íslendinga á þessum tíma?

Markmiðið er að skoða hvað olli áhuga á þessum ólíku erlendu atburðum. Kannað verður hvort skyldar ástæður hafi verið að baki eða hvort um gerólíka atburði hafi verið að ræða. Reynt verður að rannsaka hvernig fjölþjóðlegir hugmyndastraumar í tengslum við þessa stóru erlendu atburði birtust hér á landi og annars staðar á Norðurlöndum. Síðast en ekki síst verður skoðað hvort þessir hugmyndastraumar hafi haft einhver séreinkenni hér á landi eða fyrst og fremst verið hluti stórra fjölþjóðlegra hreyfinga.

Fyrirlestrar

  • Arnór Gunnar Gunnarsson. „„Þessi mikla grimd Tyrkja gjegn kristnum“: Stuðningur innan danska ríkisins við sjálfstæði Grikkja 1820–1830 í hugmyndafræðilegu samhengi“
  • Ari Guðni Hauksson. „Íslenskir sjálboðaliðar í spænsku borgarastyrjöldinni 1936–1939 og ástæður fyrir þátttöku þeirra í styrjöld á erlendri grundu“
  • Friðrik Sigurbjörn Friðriksson. „„Gríðarlegur liðsstyrkur“: Kommúnistabyltingin í Kína árið 1949 séð frá Íslandi“

Málstofustjóri 

  • Nanna Kristjánsdóttir

Útdrættir

„Þessi mikla grimd Tyrkja gjegn kristnum“: Stuðningur innan danska ríkisins við sjálfstæði Grikkja 1820–1830 í hugmyndafræðilegu samhengi. 

Í tengslum við gríska sjálfstæðisstríðið 1820–1830 varð til fjölþjóðlegur stuðningur við málstað Grikkja, svonefndur fílhellenismi. Eins og víða um Evrópu voru margir innan danska ríkisins sem höfðu áhuga á þessari baráttu Grikkja fyrir sjálfstæði frá Ottómanaveldinu. Vitað er um nokkra sjálfboðaliða sem ferðuðust til Grikklands að leggja málstaðnum lið. Auk þess stóðu þó nokkrir Danir fyrir fyrirlestrum, samkomum og peningasöfnun til að vekja athygli á og styrkja Grikkina í sjálfstæðisbaráttu þeirra. Nokkrir Íslendingar sýndu málinu áhuga og var fjallað um atburðina í íslenskum ritum. Hér verður hinn danski fílhellenismi staðsettur innan þessarar fjölþjóðlegu hugmyndafræði. Einblínt verður á hvað olli þessum mikla áhuga á sjálfstæði Grikklands og hvers vegna gríska sjálfstæðisstríðið hlaut miklu jákvæðari viðtökur en aðrar suður-evrópskar byltingar á þessum sama tíma. Þar er ekki einungis um að ræða áhuga á Forn-Grikklandi heldur einnig flókið samspil hellenisma, trúarbragða, frjálslyndisstefnu og óríentalisma, svo nokkur dæmi séu nefnd. Erindið er byggt á MA-ritgerð höfundar frá árinu 2019. 

Íslenskir sjálboðaliðar í spænsku borgarastyrjöldinni 1936–1939 og ástæður fyrir þátttöku þeirra í styrjöld á erlendri grundu 

Í þessu erindi verður fjallað um þá Íslendinga sem vitað er að fóru og tóku þátt í spænsku borgarastyrjöldinni og hvers vegna þeir gerðu slíkt. Lögð verður áhersla á að setja þátttöku sjálfboðaliðanna í alþjóðlegt samhengi sem og aðstæður í heimalandi þeirra. Allir íslensku sjálfboðaliðarnir voru kommúnistar og töldu sig tilheyra alþjóðlegri verkalýðsstétt. Á fjórða áratuginum var andfasimsi einn grundvallarþáttur í starfi kommúnista. Óttinn við uppgang fasisma heima og á alþjóðavettvangi hvatti þá til að taka upp vopn. Það voru þó ekki einungis hugsjónir um betri heim sem ýtti þeim út í stríð, heldur komu þar líka við sögu ævintýramennska og karlmennskuhugmyndir. Tilviljanakenndar ástæður eins og staður og stundi virðast líka hafa skipt máli í sumum tilfellum. Spænska borgarstyrjöldin virðist fljótlega hafa orðið að baráttu góðs og ills í hugum margra án þess að tekið væri mið af staðbundnum aðstæðum á Spáni. Það átti einnig við um íslensku sjálfboðaliðanna en þeir litu svo á að þeir væru að berjast fyrir framtíð mannkynsins, frelsinu og lífinu, öllu hinu góða gegn hinum illa fasisma. 

Erindi þetta byggist að mestu leyti á BA-ritgerð undirritaðs frá árinu 2016 undir heitinu Fagur en fjarlægur sósíalismi. Viðhorf og tengsl íslenskra sósíalista við Alþýðulýðveldið Kína 1949–1971. Umfjöllunarefnið er annars vegar hver viðbrögð Íslendinga á vinstri væng stjórnmálanna voru við byltingunni sjálfri, Kína-Sovétdeilunni, menningarbyltingunni og bættum samskiptum við Bandaríkin snemma á 8. áratugnum. Hins vegar þau beinu tengsl sem Íslendingar tóku upp við Kínverja eftir byltinguna 1949. Hér ber að nefna stofnun Kínversk-íslenska menningarfélagsins, bein samskipti milli hins íslenska Sameiningarflokks alþýðu – Sósíalistaflokks og kínverska Kommúnistaflokksins, sem og upplifun Skúla Magnússonar sem bjó í Kína á árunum í kringum hið svonefnda „stóra stökk fram á við.“  

Í þessu erindi verður þannig bæði viðhorfum og tengslum íslenskrar vinstri hreyfingar til Kína á þessum árum gerð skil. Jafnframt verður rýnt í þá hvata sem lágu til grundvallar því að styðja bæði í orði og á borði við byltingu Kínverja og hvernig sá stuðningur varð flóknari með árunum er ný kynslóð sósíalista tók við hinni íslensku vinstri hreyfingu. Í stuttu máli: hvernig passaði Kína kommúnismans inn í heimsmynd íslenskrar vinstri hreyfingar á árunum fyrir byltinguna 1949 og fram til ársins 1971?