Ársskýrsla 2002

Lögð fyrir ársfund stofnunarinnar 7. febrúar 2003.

Stjórn og starfsmenn 

Ný stjórn var valin á ársfundi 2002 og tók Guðmundur Jónsson dósent við starfi forstöðumanns. Meðstjórnendur voru Gunnar Karlsson prófessor og Benedikt Eyþórsson fulltrúi stúdenta. Stjórnin hélt sjö fundi á starfsárinu. Starfsmenn stofnunarinnar voru Jóna Lilja Makar á vormisseri og Bragi Bergsson á haustmisseri og önnuðust þau fjölritun kennslugagna og sölu á þeim í Guðnastofu. Jóna Lilja tók einnig að sér að skrá og merkja nýlegar bækur í bókasafni og vann sem aðstoðarmaður forstöðumanns á 2. íslenska söguþinginu.

Forstöðumaður og Gísli Gunnarsson prófessor voru fulltrúar Sagnfræðistofnunar í Landsnefnd sagnfræðinga. Í febrúar óskaði menntamálarráðuneytið eftir því að Sagnfræðistofnun tilnefndi fulltrúa í stjórnarnefnd Þjóðskjalasafns Íslands til næstu fjögurra ára. Sveinbjörn Rafnsson prófessor var tilnefndur af hálfu stofnunarinnar og Már Jónsson varamaður.

Nýjar starfsreglur 

Sagnfræðistofnun starfaði eftir nýjum starfsreglum sem settar voru 22. janúar 2002. Litlar efnisbreytingar eru á þeim frá fyrri reglum, en þær hafa verið samræmdar reglum Hugvísindastofnunar. Í nýju reglunum er kveðið á um að framhaldsnemar í sagnfræði sem þess óska geti gerst aðilar að stofnuninni. Þá ber stofnuninni að birta félagatal sitt á hverju hausti og er það birt á heimasíðu hennar, auk þess sem það fylgir þessari skýrslu.

Hugvísindastofnun 

Forstöðumaður sat í stjórn Hugvísindastofnunar allt árið eins og reglur þeirrar stofnunar gera ráð fyrir. Umsvif Hugvísindastofnunar voru lítil á árinu, einkum vegna umskipta sem urðu á stjórn og stöðu hennar í deildinni og erfiðari fjárhags en mörg undanfarin ár.

Hugvísindastofnun fékk fjárveitingu að upphæð 13 millj. kr. árið 2002 og í hlut rannsóknastofa sem undir hana heyra komu 1.240 þús. kr. Þessi upphæð hefur verið óbreytt í þrjú ár og hefur rýrnað talsvert að raunvirði eða um 11% frá 2000 sé tekið tillit til verðlagsbreytinga 2000–2002.

Sagnfræðistofnun hefur notið nokkurs liðsinnis Hugvísindastofnunar í formi styrkja til ákveðinna verkefna. Ber þar helst að nefna umbrot á ráðstefnuriti Söguþings og vinnu við forritun gagnasafnsins Lokaritgerðir í sagnfræði.

Húsnæði og vinnuaðstaða 

Herbergi Sagnfræðistofnunar á 3. hæð í Nýja Garði, Hafnir í Húnaþingi, var nýtt sameiginlega af Sigríði Matthíasdóttur doktorsnema og Ellen Gunnarsdóttur, styrkþega Rannís. Tveir styrkþegar á vegum Sagnfræðistofnunar, Páll Björnsson og Halldór Bjarnason, nutu vinnuaðstöðu í húsakynnum Hugvísindastofnunar, en fyrri hluta árs hafði Halldór aðsetur í Guðnastofu. Auk þeirra höfðu þrír doktorsnemar í sagnfræði, Lára Magnúsardóttir, Ragnheiður Kristjánsdóttir og Sverrir Jakobsson, vinnuaðstöðu hjá Hugvísindastofnun.

Í Guðnastofu hafa þrengsli verið að aukast á undanförnum árum eftir því sem bókum fjölgar og ljósritunarsala verður umsvifameiri. Í lok ársins var annað skrifborðið fjarlægt til að rýma fyrir bókahillum svo að talsvert pláss hefur bæst við fyrir bækur í stofunni. Nýlega var bókum endurraðað og nýjum bókum og námsritgerðum komið fyrir í hillum.

Styrkþegar og fyrirgreiðsla 

Hrefna Róbertsdóttir, doktorsnemi við Lundarháskóla, hafði vinnuaðstöðu á Hugvísindastofnun í Nýja Garði fram í október. Páll Björnsson og Halldór Bjarnason, sem báðir eru styrkþegar Rannís á vegum Sagnfræðistofnunar, höfðu einnig aðstöðu í Hugvísindastofnun, eins og fyrr er getið og deila þeir herbergi með öðrum. Vinnuaðstöðu stykþega fylgir afnot af tölvu, síma o.þ.h. sem Sagnfræðistofnun greiðir fyrir. Jesse L. Byock hefur notið nokkurrar fyrirgreiðslu stofnunarinnar vegna tölvupósts.

Skuldaskil Sagnfræðistofnunar við Háskólaútgáfuna 

Fjármál Sagnfræðistofnunar hafa verið í ólestri um nokkurt skeið vegna ófullnægjandi upplýsinga, óeðlilegrar gjaldtöku Háskólaútgáfu fyrir bókalager og einkennilegra bókhaldsvinnubragða hennar gagnvart Sagnfræðistofnun. Eins og kunnugt er sér Háskólaútgáfa að mestu leyti um útgáfu og dreifingu á bókum Sagnfræðistofnunar. Fjárhagsleg skilagrein gagnvart Sagnfræðistofnun hefur verið ófullnægjandi í mörg ár, óvissa hefur verið með útgáfukostnað og sölutekjur af bókum skilað sér seint. Þá hefur Háskólaútgáfan valdið usla í fjárhag Sagnfræðistofnunar með því að færa fé heimildarlaust og án tilkynningar af reikningi hennar til greiðslu á skuldum og jafnvel dagsett færslurnar á fyrra ár.

Brýnt var að greiða úr þessari flækju sem var orðin býsna mikil og olli því að að reikningar Sagnfræðistofnunar gáfu í raun alranga mynd af fjárhagssstöðu hennar. Í janúar 2002 var lagerkostnaði komið á fastan grundvöll með samningi þáverandi forstöðumanns, Lofts Guttormssonar, við Háskólaútgáfu eins og greint er frá í ársskýrslu 2001. Síðsumars tókst forstöðumanni með hjálp Jóhannesar Finns Halldórssonar skrifstofustjóra fjárreiðusviðs að gera upp viðskipti Sagnfræðistofnunar við Háskólaútgáfu og fá upplýsingar um kostnað, tekjur og skuldir Sagnfræðistofnunar af bókaútgáfu sem Háskólaútgáfan hefur annast. Skal nú skýrt frá því helsta sem fólst í þessu uppgjöri.

Reikningur Sagnfræðistofnunar 2001 sýnir 624.574 kr. tekjuafgang í árslok, en í bókhaldi Háskólans er staðan hins vegar 458.000 kr. skv. fjárhagsyfirliti dags. 30. jan. 2002. Mismunurinn er ekki skýrður. Þegar forstöðumaður kannaði fjárhagsstöðu ársins 2001 á síðastliðnu sumri (24. ágúst) var allt önnur niðurstöðutala komin fram í bókhaldi Háskólans um Sagnfræðistofnun fyrir árið 2001 eða -2.162 þús. kr., og hefur sú tala ekki breyst síðan. Fjárhagsstaða Sagnfræðistofnunar hafði því versnað um 2.620 þús. (458+2162 þús. kr.) frá því staðan var tekin í lok janúar. Skýringin liggur að langmestu leyti í því að Háskólaútgáfan gjaldfærði á Sagnfræðistofnun háar fjárhæðir á árinu 2002 og bakfærði þær til ársins 2001 undir liðnum „millifært“ á útgjaldahlið. Þessar millifærslur voru flestar skráðar á síðasta dag ársins 2001.

Reikningar sem Háskólaútgáfan bakfærði til ársins 2001 námu samtals 2.739.485 kr. Á móti voru einnig bakfærðar tekjur í bókhaldi Háskólans að fjárhæð 119.485 kr., sem forstöðumaður kann ekki skýringu á. Í maí 2002 leiðrétti Háskólaútgáfan reikninga sína og lækkaði skuld agnfræðistofnunar um 1.037.072 kr. vegna þess ekki átti að telja með kostnað við útgáfu bókarinnar Aspects of Arctic and Sub-Arctic History, sem er óviðkomandi fjárhag Sagnfræðistofnunar. Eftir stóð að Háskólaútgáfan gjaldfærði á Sagnfræðistofnun 1.702.413 kr. sem skiptust eins og hér er sýnt:

Fjárhagsstaða Sagnfræðistofnunar 31.12 2001 

Staða í bókhaldi 31.12.01 (könnuð 1.2.2002):  458.000 
Reikningar frá Háskólaútgáfu 2002 bakfærðir til 2001:  - 2.739.485 
Bakfærðar tekjur: + 119.485 
Staða í bókhaldi 31.12.01 (könnuð 28.08.02):  -2.162.000

Reikningur Háskólaútgáfu var lækkaður 23.05.02 v/Aspects um 1.037.072 
Reikningur eftir leiðréttingu: 1.702.413 
sem skiptast á eftirfarandi verkefni: 

  • Æska og saga: 393.465
  • Ræður Hjálmars: 158.636
  • Landsins forbetran: 240.312
  • Lokauppgjör v. Menntun ást og sorg: 259.000 
  • Milliuppgjör vegna Æska og saga: 332.000 
  • Milliuppgjör vegna Ræður Hjálmars: 160.000
  • Lokauppgjör vegna Mannkynbætur: 159.000

Með þessari gjaldfærslu eiga allir reikningar Háskólaútgáfu frá fyrri árum að vera komnir fram og vera rétt færðir, þ.á m. álagning lagergjalds í samræmi við samninginn milli stofnananna frá janúar 2002. Er þess vænst að viðskipti við Háskólaútgáfu séu að komast á heilbrigðan grundvöll og veit nú Sagnfræðistofnun nokkurn veginn um fjárhagsstöðu sína gagnvart útgáfunni um fyrri ár. Einnig hefur Sagnfræðistofnun nú upplýsingar um fjárhagslega útkomu og lagerstöðu einstakra bóka.

Fjárhagur 2002 

Þótt ýmislegt hafi áunnist í viðskiptum við Háskólaútgáfu hefur veist erfitt að fá upplýsingar um fjárhagsleg viðskipti á árinu 2002. Þegar þetta er skrifað, 7. febrúar 2003, hefur Háskólaútgáfan ekki látið stofnuninni í té skilagrein fyrir viðskiptum síðasta árs. Reikningur Sagnfræðistofnunar 2002 er því lagður fram með fyrirvara um breytingar sem kunna að verða vegna viðskipta við Háskólaútgáfu.

Fjárhagsstaða Sagnfræðistofnunar í bókhaldi Háskólans er sýnd með 2.162.000 kr. halla í upphafi árs 2002 eins og greint er frá í kaflanum hér á undan. Í ársreikningi stofnunarinnar 2002 sem fylgir þessari skýrslu er miðað við þessa fjárhæð en frá henni verður að draga leiðréttingu sem Háskólaútgáfan gerði á gjaldfærslu sinni sem nam 1.037.072 kr. til lækkunar svo og inneign sem Sagnfræðistofnun telur sig eiga hjá Háskólaútgáfu 31.12.2001 skv. uppgjöri sem Jóhannes Finnur Halldórsson gerði fyrir stofnunina síðsumars 2002. Nemur inneignin 728.595 kr. Halli á rekstri Sagnfræðistofnunar í ársbyrjun 2002 er samkvæmt því 396.333 kr.

Vegna þessarar slæmu fjárhagsstöðu var gætt sparnaðar í rekstri stofnunarinnar á árinu. Enn var frestað bókakaupum fyrir bókasafnið, varlega farið í ný útgáfuverkefni og stjórnarkostnaði haldið í skefjum. Tekjur Sagnfræðistofnunar á árinu námu 3.352.522 kr. en gjöldin voru samtals 3.358.185 kr. Halli varð því af rekstri stofnunarinnar sem nam 154.769 kr. og hækkaði við það skuld Sagnfræðistofnunar úr rúmum 396 þús. kr. í 581.995 kr.

Aðaltekjur Sagnfræðistofnunar voru sem endranær fjárframlag Hugvísindastofnunar (1.240 þús. kr.), en aðrar helstu tekjur voru vegna sölu á ljósrituðu námsefni og bókum í Guðnastofu (232 þús. kr.). Á haustmisseri var farið að aðskilja þessar tekjur þannig að hægt væri að sjá hverjar væru tekjur af seldum bókum. Helstu útgjöld voru vegna útgáfu á ritum Sagnfræðistofnunar (675 þús. kr.), rannsóknafé kennara (374 þús. kr.) og stjórn og vinna á vegum stofnunarinnar (356 þús. kr.).

Rannsóknir starfsmanna 

Innan vébanda Sagnfræðistofnunar eru iðkaðar fjölþættar rannsóknir. Hér á eftir fer stutt lýsing á rannsóknum fastra kennara í sagnfræði og styrkþega á síðasta ári og hvað þeir eru að fást við um þessar mundir.

Anna Agnarsdóttir vinnur áfram að útgáfu á „The Correspondence of Sir Joseph Banks and Iceland 1772–1820“, Banks Archive Project (Royal Society og Natural History Museum). Útgefandi the Hakluyt Society. Þá er fyrirhuguð útgáfa á doktorsritgerð Önnu, „Great Britain and Iceland 1800–1820“. Anna tekur þátt í rannsóknarverkefninu Saga íslenskrar utanlandsverslunar 900–2002.

Eggert Þór Bernharðsson vinnur að tveim rannsóknarverkefnum. Annað nefnist Húsnæðisleysi í Reykjavík, London, Stokkhólmi og Kaupmannahöfn 1939–1970. Hitt er Miðlun og mismunandi framsetning sögulegs efnis.

Gísli Gunnarsson sinnir nokkrum verkefnum sem tengjast félagsgerð og hugmyndaheimi íslenska samfélagsins og einokunarversluninni á tímabilinu 1550–1830. Gísli sinnir rannsóknum á efnum sem tengjast í senn raunvísindum og hugvísindum, bæði aðferðafræðilegum vandamálum þessara tengsla og athugunum á áhrifum veðurfars á landi og í sjó á atvinnuvegi landsmanna. Hann fæst einnig við ýmis viðfangsefni sem tengjast sögu 20. aldar. Gísli tekur þátt í rannsóknarverkefninu Saga íslenskrar utanlandsverslunar 900–2002.

Guðmundur Hálfdanarson hefur aðallega fengist við rannsóknir á árinu 2002 sem snúast um ritun bókar um sögu Evrópu á 19. og 20. öld sem koma mun út árið 2003 á dönsku hjá forlaginu Samfundslitteratur í Kaupmannahöfn og sænsku hjá Historiska media í Lundi. Meðhöfundar að verkinu eru Henrik Jensen og Lennart Berntson, kennarar við háskólann í Roskilde. Einnig vinnur hann að ritstjórn ritgerðasafns um sögu þjóðernishópa (ethnicity) og kynþáttamismununar í Evrópu í sögulegu ljósi, sem koma mun út á árinu 2003 hjá háskólaforlaginu í Písa í ritröðinni Clioh’s Workshop. Verkið verður afrakstur samstarfs sem Guðmundur tekur þátt í með sagnfræðingum frá 
um 60 háskólum í Evrópu. Að síðustu mun Guðmundur halda áfram rannsóknum sínum á íslensku þjóðerni út frá ýmsum hliðum, m.a. í tengslum við samstarfsverkefni um sjálfbæra þróun sem stutt er af markáætlun RANNÍS um umhverfismál.

Guðmundur Jónsson tekur þátt í tveim norrænum rannsóknarverkefnum. Tryghed, lighed og frihed – vision og realitet i nordisk velfærdspolitik er samanburðarrannsókn á „norrænu samfélagsgerðinni“ og mótun velferðarríkisins á 20. öld. Í verkefninu Enhetliga grundvalar för nordiska historiska nationalräkenskaper, vinna sérfræðingar á sviði sögulegrar þjóðhagsreikningagerðar að samræmingu á aðferðum og hugtökum með það fyrir augum að gefa út samstætt safn sögulegra þjóðhagsreikninga. Á árinu 2002 var einkum unnið að undirbúningi gagnagrunns um þjóðhagsreikninga. Guðmundur vinnur einnig að verslunarsögu 20. aldar í verkefninu Saga íslenskrar utanlandsverslunar 900– 2002. Guðmundur vann ásamt  aðstoðarmanni að gerð gagnasafnsins Lokaritgerðir í sagnfræði.

Gunnar Karlsson vinnur sem fyrr að mótun yfirlitsþekkingar um sögu Íslendinga. Hann þokar smátt og smátt áfram tveimur langtímaverkefnum á þessu sviði: ritaskrá um íslenska sögu (Íslandssögu í greinum) og drögum að fræðilegum handbókum um Íslandssögu, á miðöldum og tímabilinu 1830–1940. Stefnt er að því að birta þessi verk á neti fremur en á prenti. Skemmri verkefni Gunnars eru flest sérrannsóknir sem þessi langtímaverkefni krefjast. Þannig er væntanleg eftir hann bók um goðavaldið á Íslandi að fornu og hlutdeild goða í miðaldamenningu Íslendinga. Þetta rit tengist fræðilegri handbók í íslenskri miðaldasögu, og allar helstu niðurstöður þess eiga að ganga inn í hana. Í ritinu er hins vegar of mikil frumrannsókn til þess að hún rúmist í yfirlitsriti.

Helgi Þorláksson stjórnar á vegum Sagnfræðistofnunar verkefninu Saga íslenskrar utanlandsverslunar 900–2002. Áformað er að semja tveggja binda verk um efnið og mun Helgi fjalla um tímabilið fram til 1600. Þá tekur Helgi þátt í hinu þverfaglega Reykholtsverkefni sem Þjóðminjasafn Íslands, Sagnfræðistofnun og Snorrastofa í Reykholti standa að. Fornleifauppgröftur er liður í verkefninu en annars eru ritmenning, búseta og menningarlandslag sett þar á oddinn; þáttur Helga varðar einkum rannsókn á fornum leiðum og miðstöðvarhlutverk Reykholts. Ennfremur vinnur Helgi að því að semja yfirlitssögu tímabilsins 1520–1690 sem birtast mun sem 6. b. Sögu Íslands (útgáfa væntanleg á næstu misserum). Langtímaverkefni er Fæð, blóðhefnd og ofbeldi 1100–1700. Verkefnið er fólgið í að kanna ofbeldismenningu miðalda, athuga í hverju hún var 
fólgin, hvernig á henni stóð og af hverju hún leið undir lok á 17. öld. Ingi Sigurðsson vinnur að rannsóknum á áhrifum fjölþjóðlegra hugmyndastefna á Íslendinga 1830−1918. Einnig vinnur hann að rannsóknum innan ramma rannsóknaverkefnisins „Alþýðumenntun, miðlun og menningarskil á Íslandi 1830−1930“, sem hann og Loftur Guttormsson prófessor stjórna. Í tengslum við áðurnefnd 
verkefni vinnur Ingi enn fremur að rannsóknum á upplýsingunni á Íslandi.

Már Jónsson undirbýr útgáfu á dómabók Markúsar Bergssonar sýslumanns Ísafjarðarsýslu frá árunum 1711-1729. Hann hefur verið að athuga útlit og hönnun íslenskra handrita frá miðöldum. Þá vinnur hann að nýrri útgáfu á Jónsbók, í fyrstu umferð á texta ritsins eins og hann var notaður við dóma frá lokum 14. aldar til upphafs 18. aldar.

Orri Vésteinsson vann að fjölmörgum fronleifarannsóknum á árinu 2002. Þar má nefna uppgröft á stórum skála frá 10.-11. öld á Hofstöðum og Sveigakoti í Mývatnssveit sem hófst 1992 hefur með árunum orðið mjög umfangsmikið, þverfaglegt og fjölþjóðlegt rannsóknarverkefni sem miðar að því að leita skilnings á landnáminu með áherslu á mótun samfélagsstofnana og gagnvirkum áhrifum manns og umhverfis. Verkefnið Fornleifarannsóknir í Þjórsárdal er hluti af stærri rannsókn, Vestnordisk byggeskikk i Vikingetid og middelalder, sem miðar að því að endurskoða fyrri hugmyndir um húsagerð á víkingaaöld og breytingar á henni á hámiðöldum. Þá vann Orri við fornleifarannsókn við Aðalstræti í Reykjavík. Um er að ræða björgunaruppgröft vegna fyrirhugaðra byggingaframkvæmda á lóðunum Aðalstræti 14-18. Af öðrum verkefnum Orra má nefna stjórn á fornleifarannsókn á verslunarstaðnum Gásum við Eyjafjörð ásamt Howell M. Roberts, fornleifarannsókn í Skálholti með umfangsmikilum uppgrefti á leifum staðarhúsa frá 18. öld, uppgröft á kirkjugrunnum í Reykholtskirku og loks verkefnið Sókn og þing, sem er athugun á félagsmótun á Íslandi á miðöldum sem miðar að því að skýra hvernig félagslegar einingar eins og sóknir og hreppar urðu til og hvaða ályktanir má af því draga um samfélagsskipan og þróun samfélagsstofnana í öndverðu. Síðastnefnda rannsóknin er hluti af fjölþjóðlegu verkefni.

Sveinbjörn Rafnsson stundaði rannsóknir tengdar latneskum heimskróníkum og 
íslenskum miðaldaannálum, ennfremur fornum Ólafs sögum Tryggvasonar og sagnaritum tengdum þeim. Dvaldist hann m.a. í Kaupmannahöfn um tveggja mánaða skeið í rannsóknaleyfi sínu við þá iðju. Þá vann hann einnig á árinu að bókfræðilegum greinum um sögulegar íslenskar miðaldaheimildir í hið mikla verk Repertorium fontium historiae medii aevi, sem út kemur í Róm. Snemma árs kom út bókin Sögugerð Landnámabókar. Um íslenska sagnaritun á 11. og 12. öld í Ritsafni Sagnfræðistofnunar.

Valur Ingimundarson vinnur aðallega að verkefnum sem tengjast samskiptum Bandaríkjanna og Evrópu eftir síðari heimsstyrjöld á sviði stjórnmála- og alþjóðasögu. Hann er nú að rannsaka utanríkisstefnu Íslands á 7. og 8. áratugnum og breytingar sem orðið hafa á henni eftir að kalda sstríðinu lauk, einkum með tilliti til samskipta við Bandaríkin, NATO og Evrópusambandið. Þá er Valur að kanna málefni stríðsglæpamanna og stríðsglæpadómstóla. Hann vinnur einnig að rannsókn á nýjum hugmyndum um alþjóðamál, stríðsrektur og friðargæslu á síðasta áratug með áherslu á Balkanskaga.

Þór Whitehead lauk á árinu við bókina Ísland í hers höndum, en í bókinni er leitast við að fjalla um marga helstu þætti í sögu Íslands í síðari heimsstyrjöld með því að birta og greina, einkum á grundvelli frumheimilda, um 500 valdar ljósmyndir. Í inngangsköflum gerði ég frekari grein fyrir þessum höfuðþáttum, svo og í allmörgum skýringaruppdráttum. Haldin var ljósmyndasýning í Borgarskjalasafni Reykjavíkur með yfirskriftinni Reykjavík í hers höndum sem Þór tók þátt í að undirbúa. Jafnframt því sem Þór vann við bókina um sumarið, stundaði hann rannsóknir í þýskum skjalasöfnum, m.a. til undirbúnings næsta bindis í ritröðinni Ísland í síðari heimsstyrjöld.

Halldór Bjarnason fæst einkum við rannsóknir á verslunarsögu en einnig lagði hann fram erindi á íslenska söguþinginu síðastliðið vor um héraðsskjalasöfnin í landinu og söfnunarstefnu þeirra. Verslunarsögurannsóknir Halldórs beinast að tímabilinu 1820–1914 og er hluti þeirra framlag hans til samvinnuverkefnis Sagnfræðistofnunar, Sögu íslenskrar utanlandsverslunar 900-2002. Afraksturinn mun birtast sem bókarkafli í fyrirhuguðu heildaryfirlitsritverki um verslunarsöguna. Aðstoðarmaður Halldórs er Nikulás Ægisson BA. Hinn hluti verslunarsögurannsókna er framhaldsrannsókn á völdum þáttum og er fyrsti liðurinn í þriggja ára rannsóknarverkefni sem unnið er með stuðningi Vísindasjóðs Rannsóknarráðs Íslands. Felst verkefnið í úttekt á fyrirstöðum í efnahagslífi Íslendinga á 19. öld með áherslu á utanlandsverslunina og ríkisréttartengsl Íslendinga við Dani. Jafnframt er stefnt að nánari þróun á vissri hagsögulegri rannsóknaraðferð sem notuð var í doktorsritgerð Halldórs.

Útgáfumál 

Þrjú rit komu út á vegum Sagnfræðistofnunar á árinu. Hið fyrsta er Sögugerð Landnámabókar. Um íslenska sagnaritun á 12. og 13. öld (202 bls.) eftir Sveinbjörn Rafnsson prófessor. Þettta er 35. ritið í Ritsafni Sagnfræðistofnunar. Útgáfa bókarinnar var í höndum Háskólaútgáfu og telst það til ársins 2001. Útgáfukostnaður verður gjaldfærður 2003.

Í október kom út ritið 2. íslenska söguþingið 30. maí – 1. júní 2002. Ráðstefnurit I–II (456+490 bls.) undir ritstjórn Erlu Huldu Halldórsdóttur og stóðu Sagnfræðistofnun, Sagnfræðingafélag Íslands og Sögufélag sameiginlega að útgáfunni. Ritið er gefið út af Háskólaútgáfunni og fjármagnað af Söguþingi.

Loks átti Sagnfræðistofnun, ásamt Hagfræðistofnun H.Í., aðild að útgáfu ritgerðasafnsins Frá kreppu til viðreisnar. Þættir um hagstjórn á Íslandi á árunum 1930 til 1960 sem Hið íslenska bókmenntafélag gaf út um jólaleytið. Sagnfræðistofnun bar engan kostnað af útgáfunni. Jónas H. Haralz ritstýrði verkinu sem á upptök sín í erindum á sameiginlegri málstofu sagnfræðiskorar og viðskipta- og hagfræðiskorar um hagstjórn á Íslandi á 20. öld sem haldið var árið 1999. Auk Jónasar eiga ritgerðir í því Bjarni Bragi Jónsson, Guðmundur Jónsson, Jóhannes Nordal, Magnús Sveinn Helgason, Valur Ingimundarson og Þórunn Klemensdóttir.

Á árinu var unnið að undirbúningi nokkurra rita. Í Ritsafni Sagnfræðistofnunar er áformað að gefa út bók Georg G. Iggers, Historiography in the Twentieth Century, í þýðingu Páls Björnssonar og Ólafs Rastrick. Fékkst 250 þús. kr. styrkur úr Þýðingarsjóði til verksins á árinu. Einnig er í undirbúningi þýðing Más Jónssonar o.fl. á riti Ezio Ornato, Lofræða um handritamergð. Í ritröðinni Sagnfræðirannsóknir er í bígerð rit eftir Helga Skúla Kjartansson og Steinþór Heiðarsson, Framtíð handan hafs. Vesturfarir af Íslandi 1870–1914 og var einnig sótt um útgáfustyrk til Menningarsjóðs 
án árangurs. Þá er í undirbúningi rit um menntun og menningu alþýðu á Íslandi í umsjá Inga Sigurðssonar og Lofts Guttormssonar. Í Heimildasafni Sagnfræðistofnunar er fyrirhugað að gefa út heimildarit um Íslandslýsingar í erlendum ritum í umsjá Önnu Agnarsdóttur og Helga Þorlákssonar. Már Jónsson og Skúli Ólafsson vinna að útgáfu bókarinnar Í nafni heilagrar guðdómsins þrenningar. Prestastefnur Jóns biskups Vídalíns. Sótt var um styrk til Menningarsjóðs en fékkst ekki.

Forstöðumaður hélt fund með ritstjórum ritraðanna þriggja 10. desember þar sem gefið var yfirlit um útgáfumálin, bæði áform um útgáfu og fjárhagslega útkomu einstakra bóka á liðnum árum. Enn fremur var leitast við að samhæfa útgáfustarfið og voru menn sammála um að gera þyrfti markvissar fjárhagsáætlanir um einstök verk.

Ráðstefnur, fundir og málstofur 

Dagana 12.–13. apríl 2002 var haldinn vinnu- og ráðgjafarfundur á vegum Sagnfræðistofnunar um gagnagrunn um fólksfjölda. Það voru forstöðumaður, Loftur Guttormsson, Magnús S. Magnússon og Ólöf Garðarsdóttir, sem stóðu fyrir þessum fundi. Markmið hans var að móta tillögur um stofnun gagnagrunns um fólksfjölda og fá ráð hjá erlendum sérfræðingum á þessu sviði. Boðið var fjölmörgum fræðimönnum sem áhuga hafa á verkefninu, Friðriki Skúlasyni og fjórum erlendum sérfræðingum, þeim Suzanne Ander-Peciva og Pär Vikström frá Demografiska databasen í Umeå í Svíþjóð, Gunnari Thorvaldsen forstöðumanni The Demographic Database í Troms¢ og Daniel E. 
Vasey, prófessor í mannfræði við Divine Word College í Epworth, Iowa í Bandaríkjunum, auk íslenskra fræðimanna sem áhuga hafa haft á þessu verkefni. Erlendu gestirnir miðluðu reynslu sinni af rekstri gagnagrunna um fólksfjölda og ræddu með öðrum þátttakendum um markmið, umfang, hönnun, heimildagrundvöll, staðsetningu, fjármögnun og aðgengi að gagnagrunni af þessu tagi. Ennfremur var rætt um möguleika á samstarfi við þær stofnanir sem erlendu gestirnir eru fulltrúar fyrir og lýstu þeir yfir áhuga sínum á að stuðla að samvinnu við Íslendinga í þessu verkefni. Kostnaður af fundinum var borinn af forverkefnistyrk frá Rannís.

Viðamesta verkefni Sagnfræðistofnunar á síðasta ári var 2. íslenska söguþingið sem haldið var 30. maí til 1. júní. Sagnfræðingafélag og Sögufélag stóðu að þinginu með Sagnfræðistofnun. Þingið var svipað í sniðum og 1997 en dagskráin jafnvel enn umfangsmeiri þrátt fyrir að nú stæði þingið einum degi styttra. Rúmlega 250 gestir sóttu ráðstefnuna, auk þeirra sem sóttu opna dagskrá á laugardeginum. Málstofur voru alls 21 og á þeim var flutt 81 erindi. Þrem erlendum gestum var boðið sérstaklega til að taka þátt í störfum ráðstefnunnar: Jürgen Kocka prófessor við Freie Universität í Berlín og forseta Alþjóðasamtaka sagnfræðinga (International Committee of Historical Sciences), Sue Bennett, fyrrv. formanni Evrópusamtaka sögukennara (EUROCLIO) og Knut 
Kjeldstadli, prófessor í sagnfræði við Oslóarháskóla. Í sérstakri skýrslu sem lögð er fram á ársfundi er nánari grein gerð fyrir Söguþinginu, framkvæmd og fjármálum þess.

Sagnfræðistofnun sló tvær flugur í einu höggi og bauð einum gesta Söguþings, Jürgen Kocka, að flytja Minningarfyrirlestur Jóns Sigurðssonar þetta árið. Fyrirlesturinn var fluttur í hátíðasal Háskólans á föstudeginum og bar yfirskriftina „History of Work in the West: Approaches, Findings and Open Questions“. Fyrirlesturinn var vel sóttur, en jafnframt tók Kocka þátt í pallborðsumræðum við setningu Söguþings. Koma Jürgen Kocka vakti nokkra athygli, m.a. var viðtal við hann í Morgunblaðinu 31. maí og í tímaritinu Sögu 2002:2 er einnig ítarlegt viðtal við hann.

Þann 26. ágúst hélt Dr. Birgit Kirkebæk, prófessor í sagnfræði við Oslóarháskóla, fyrirlestur í boði Sagnfræðistofnunar. Fyrirlesturinn nefndist „Fra galesten til gen. Handicaphistoriske erfaringer og nutidige betragtninger. Attituder til – og behandling af – mennesker med mentale handicap.“ Fyrirlesturinn var haldinn í Odda 201 og var mjög vel sóttur. Undirbúningur fyrir Norræna sagnfræðingaþingið í Stokkhólmi 2004 hófst af fullum krafti á árinu. Forstöðumaður var boðaður á fund undirbúningsnefndar í Stokkhólmi 23. maí þar sem gengið var frá heilsdags- og hálfsdagsefnum. Nokkrar tillögur að efnum komu frá íslenskum sagnfræðingum, en aðeins ein hlaut náð fyrir augum nefndarinnar, tillaga Helga Þorlákssonar og félaga um fæðardeilur á miðöldum. Landsnefnd sagnfræðinga kom nokkrum sinnum saman til að ræða um aðild Íslendinga og leggja á ráðin um hvernig hægt væri að gera hlut þeirra sem mestan. Hún auglýsti þingið og dagskrá þess nokkrum sinnum, hvatti fræðimenn til þátttöku og átti í bréfaskiptum við 
skipuleggjendur einstakra málstofa í því skyni að koma íslenskum sagnfræðingum að. Þrátt fyrir þetta stefnir í heldur dræma þátttöku Íslendinga á ráðstefnunni ef fer fram sem horfir. Í Landsnefnd sagnfræðinga sitja nú forstöðumaður og Gísli Gunnarsson af hálfu Sagnfræðistofnunar, Lára Magnúsardóttir og Unnur Birna Karlsdóttir f.h. Sagnfræðingafélagsins og Eiríkur Guðmundsson og Kristjana Kristinsdóttir f.h. Þjóðskjalasafnsins.

Rannsóknarverkefni 

Sagnfræðistofnun á beina aðild að tveim rannsóknarverkefnum. Hér á eftir er yfirlit yfir framvindu þeira á árinu 2002.

Reykholtsverkefnið. Ársskýrsla 2002, lögð fyrir stjórn Sagnfræðistofnunar Háskóla Íslands 
Helgi Þorláksson hefur setið í stjórn verkefnisins sem fulltrúi Sagnfræðistofnunar. Reykholtsverkefnið er þrískipt: 1. Fornleifarannsóknir. 2. Mannvist og umhverfi. 3.
Miðstöðin Reykholt.

1. Fornleifarannsóknir voru árið 2002 fólgnar í uppgrefti bæjarstæðis og kirkjustæðis. Á bæjarstæðinu beindist athyglin aðallega að nyrðra húsinu þar sem er hellulagt gólf með holu sem er steinlögð í botninn. Líklegt er að húsið hafi verið baðhús, því að í áttina að því liggur leiðsla sem mun hafa leitt gufu eða vatn inn í það frá hvernum Skriflu. Þetta er fjórða leiðslan sem finnst í Reykholti og sýnir stórhug í nýtingun hveraorku. Minjarnar eru taldar vera frá tíma Snorra Sturlusonar. Forkönnun fór fram á auðu kirkjustæði í kirkjugarðinum með styrk frá Kristnihátíðarsjóði og komu í ljós fjögur byggingarskeið og gamall kirkjugarðsveggur. Undir gömlu trékirkjunni á staðnum fannst smiðja. Guðrún Harðardóttir tók saman skýrslu um lýsingar á kirkjubyggingum í Reykholti eftir rituðum heimildum, Gerðir horfinna Reykholtskirkna. Þóra Pétursdóttir tók saman skýrslunaFornleifaskráning í Borgarfirði, norðan Skarðsheiðar, IV. Jarðir í Reykholtsdal og um neðanverða Hálsasveit.

2. Mannvist og umhverfi. Í þessum verkþætti er einkum fengist við umhverfisbreytingar frá því fyrir landnám til nútíma og þá sér í lagi breytingar á vistkerfi, en einnig breytingar á ásýnd lands fyrir tilstuðlan manna. Björg Gunnarsdóttir landfræðingur undirbýr doktorsritgerð við Háskóla Íslands undir leiðsögn Guðrúnar Gísladóttur (meðleiðbeinandi Helgi Þorláksson) um gróðurfarsbreytingar frá landnámi til nútíma. Verkefnið hlaut styrk frá Rannsóknarnámssjóði ofl. Á árinu 2002 var lokið að mestu við yfirferð yfir rit sem spanna tímabilið fram til 1400 og hluta af gögnum frá 17. öld. Sumarið 2002 voru Guðrún og Björg eina viku í vettvangsvinnu á svæðinu til að skoða staði sem fjallað er um í fornritunum, eyðibýli, landslag og gróðurfar og nutu leiðsagnar staðkunnugra.. Einnig var farið í ferð með Stefan Brink frá Uppsalaháskóla til að skoða örnefni svæðisins, ma. í ljósi valdakerfis. 
Egill Erlendsson landfræðingur undirbýr doktorsritgerð við háskólann í Aberdeen þar sem dr. Kevin Edwards er aðalleiðbeinandi hans og Guðrún Gísladóttir meðleiðbeinandi.. Egill mun koma að greiningu á frjókornum frá þremur sýnatökustöðum á Reykholtssvæðinu sem hann valdi sl. sumar. Gróðurfarsrannsóknirnar Egils eru styrktar af verkefninu Landscapes circum Landnám, um vistfræðilegar afleiðingar landnámsins, en það nýtur fjár frá Leverhulme Trust á Englandi. 
Guðrún Gísladóttir og Ingibjörg Jónsdóttir landfræðingar fóru með hóp nemenda að Signýjarstöðum þar sem rústirnar voru mældar upp með aðstoð Bjarna Einarssonar fornleifafræðings og umhverfið skoðað með heimamönnum. Til varð skýrslanSignýjarstaðir og nágrenni á 19. öldinni og verður hún gefin út bráðlega.

3. Miðstöðin Reykholt. Í þessum verkþætti er einkum fengist við þrennt, a. kirkjumiðstöð, b. valdamiðstöð og c. miðstöð bókmenningar.

a. Haldinn var alþjóðlegur vinnufundur í Reykholti 3. október um kirkjumiðstöðvar. Kristnihátíðarsjóður veitti 1,3 milljóna styrk til þessa verkefnis. Benedikt Eyþórsson sagnfræðinemi lauk vorið 2002 við BA ritgerð um stærstu staði og helstu bændakirkjur í Borgarfirði með höfuðáherslu á Reykholt. Hann samdi síðan ritgerðina Íslensk kirkjusaga 1000-1300 – staða rannsókna sem send var ýmist á íslensku eða ensku til þátttakenda á vinnufundinum. Auk Benedikts og Helga Þorlákssonar fluttu inngangserindi á fundinum Orri Vésteinsson, Magnús Stefánsson, Helgi Skúli Kjartansson, Hjalti Hugason, Haki Antonsson, Stefan Brink, Dagfinn Skre og Jón Viðar Sigurðsson. Þátttakendur voru um 25.

b. Um mörg af þeim álitamálum sem heyra undir þáttinn valdamiðstöð er fjallað í bókinniSæmdarmenn. Um heiður á þjóðveldisöld sem kom út í ársbyrjun 2002 á vegum Hugvísindastofnunar. Þar eiga efni ma. Sverrir Jakobsson og Helgi Þorláksson sem tekið 
hafa beinan þátt í Reykholtsverkefninu.

c. Norfa styrkir þáttinn um bókmenningu með myndarlegu framlagi, 280.000 nkr. árlega í 3-5 ár. Stjórn þessa undirverkefnis hélt fund um mánaðamótin janúar/febrúar og gerir ráð fyrir árlegu málþingi næstu þrjú ár, hið fyrsta var haldið í októberbyrjun 2002.

Ennfremur er gert ráð fyrr rannsóknarnámskeiðum og færi hið fyrsta fram 2003. Dagana 4.-6. október var haldið málþingið Magtens udtryk í Reykholti um ‘klaustur, kirkjur og veraldleg lærdómssetur - þróun valdakerfis og ritmenningar á Íslandi á miðöldum’. Erindi fluttu Guðrún Sveinbjarnardóttir, Sverrir Tómasson, Sverre Bagge, Guðrún Nordal, Herman Bengtsson, Helgi Þorláksson, Orri Vésteinsson, Lars Wollin, Gottskálk Þ. Jensson og Eldbjörg Haug. Þátttakendur voru um 40.

Birna Bjarnadóttir doktorsnemi var um hríð starfsmaður verkefnisins í hálfu starfi og deildi vinnutíma jafnt milli Reykholtsverkefnis og Snorrastofu. Nokkur áhersla var lögð á kynningu verkefnisins, ma. var haldinn kynningarfundur í Reykholti 21.febrúar, opinn öllum, og ennfremur prentaður 12 blaðsíðna bæklingur um verkefnið til almennrar dreifingar og fjölrituð var ensk gerð hans.

Saga íslenskrar utanlandsverslunar 900-2002 
Árskýrsla fyrir árið 2002, lögð fyrir stjórn Sagnfræðistofnunar

Að verkefninu vinna sem höfundar Anna Agnarsdóttir, Gísli Gunnarsson, Guðmundur Jónsson, Halldór Bjarnason og Helgi Þorláksson og með þeim í stjórn þess er Birgir Þór Runólfsson. Allmargir aðstoðarmenn hafa verið kallaðir til.

Af störfum einstakra þátttakenda er þaðað segja að Halldór Bjarnason fjallar um tímann 1820-1913 og vann fyrir verkefnisfé, einkum við að kanna „vöruflæði“ (innflutning og útflutning ofl.), en hlaut á árinu rannsóknarstöðustyrk frá Rannís, ma. til að sinna þætti sínum í verslunarsöguverkefninu. Hann naut þessa styrkjar á síðari hluta árs og sinnti þá einkum stofnanaskipulagi (um lög, reglur, venjur, fyrirtæki, efnahagsleg og pólitísk tengsl, stjórnkerfi). Hann fékk inni á Guðnastofu (421 í Árnagarði) en flutti sig um set yfir í Nýja Garð. Í júní dvaldist Halldór í Kaupmannahöfn við heimildaleit.

Snemma árs var ákveðið að styrkja sem best aðstoðarmann Halldórs, Nikulás Ægisson, af verkefnisfé og bjóða honum fastráðningu. Hann kaus að vinna í tímavinnu fyrir verkefnið og hefur ma. fengist við að afla gagna um ‘einstaklingsverslun’ (verslun einstakra viðskiptavina eftir ákveðnum kennimörkum).

Aðstoðarmenn Helga Þorlákssonar í könnun verslunarsögu fyrir 1602 voru Viðar Pálsson og Þorsteinn Tryggvi Másson og unnu fyrir fé úr Ransóknarsjóði Háskóla Íslands. Viðar lauk við ýmsar uppskriftir, svo sem úr handritum á Landsbókasafni. Þorsteinn Tryggvi kannaði gögn um Íslandsverslun Þjóðverja á 16. öld, og tók upp úr þeim vitneskju, bæði á Rigsarkivet í Kaupmannahöfn og á Þjóðskjalasafni.

Leó Ingason var aðstoðarmaður Gísla Gunnarssonar við könnun á verslunarsögu 1602–1787.

Að öðru leyti um starfið á árinu 2002 er þess helst að geta að hópurinn stóð fyrir fundi í Norræna húsinu 6. nóvember til þess að minnast þess að 400 ár voru liðin frá upphafi verslunareinokunar. Fundurinn fór fram undir heitinu Einokun í aldanna rás og var dagskrá þannig að viðskiptaráðherra flutti fyrst ávarp og að loknu ávarpi Helga Þorlákssonar fluttu þau erindi Gísli Gunnarsson, Anna Agnarsdóttir og Halldór Bjarnason um einokun í verslunarsögu Íslands. Eftir að boðið hafði verið upp á kaffi og meðlæti, stjórnuðu Birgir Þór Runólfsson og Guðmundur Jónsson pallborðsumræðum undir heitinu, „Einokun eða samkeppni: Hvaða leið hafa Íslendingar farið á 
undanförnum árum?“ Þátttakendur voru Andrés Magnússon, Edda Rós Karlsdóttir, Jóhannes Gunnarsson og Jóhannes í Bónus. Fjölmörgum var boðið sérstaklega til fundarins og var aðsókn allgóð.

Heimasíða 

Í árslok var gengist fyrir breytingum á heimasíðu Sagnfræðistofnunar með það fyrir augum að breyta útliti og endurnýja efnið sem þar er að finna, sumt úrelt. Í samráði við Valgerði Guðnadóttur á skrifstofu heimspekideildar, sem séð hefur um breytingarnar ásamt forstöðumanni, var ákveðið að fresta útlitsbreytingum þar til Háskólinn hefur tekið í gagnið nýtt vefforrit fyrir Háskólann, en það stendur fyrir dyrum. Efni á heimasíðunni hefur verið endurnýjað að undanförnu og er þar m.a. að finna kynningu á nýlegum bókum Sagnfræðistofnunar.

Gagnasafn um lokaritgerðir 

Á árinu vann forstöðumaður að myndun rafræns gagnasafns um lokaritgerðir í sagnfræði með aðstoð Ingu Þóru Ingvarsdóttur sagnfræðinema. Upplýsingar voru fengnar úr Gegni, tölvukerfi Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og voru skráðar í gagnasafnið um 660 lokaritgerðir í sagnfræði við Háskóla Íslands frá 1952 til 2001. Í gagnasafninu er hægt að leita að höfundum, titlum og efnisorðum, en auk þess eru ritgerðirnar flokkaðar eftir tímabilum og efni því að hægt er að sjá hvað hefur verið skrifað á viðkomandi tímabili eða efnissviði. Gagnasafnið var opnað 1. febrúar 2003 á slóðinnihttp://www.hugvis.hi.is/ritgerdir/ og er vistað á vefþjóni Hugvísindastofnunar. Örvar Kárason forritaði gagnasafnið og hannaði útlit, en vinna hans var borguð af Hugvísindastofnun. Viðhald og uppfærsla gagnasafnsins mun hins vegar hvíla á Sagnfræðistofnun.

Starfið framundan 

Þótt fjárhagur Sagnfræðistofnunar sé ekki góður má búast við betri tíð á næstunni sem gefur færi á meiri umsvifum í starfseminni. Kúfurinn af skuld við Háskólaútgáfu hefur verið greiddur, en áfram verður að gæta aðhalds í útgáfumálum. Þá þarf Sagnfræðistofnun að hugleiða hvort fara eigi nýjar fjáröflunarleiðir til að standa undir útgáfu eða öðrum verkefnum. Búast má við að hagur Sagnfræðistofnunar vænkist eitthvað ef af áformum Háskólans verður um að greiða rannsóknastofnunum mótframlag gegn styrkjum sem þær afla sér.

Meðal verkefna sem Sagnfræðistofnun mun sinna á árinu 2003 eru: • Ráð er fyrir gert að a.m.k. tvö rit komi út á vegum Sagnfræðistofnunar, þ.e. bók Iggers og bók Helga Skúla Kjartanssonar og Steinþórs Heiðarssonar. 
• Sagnfræðistofnun ásamt Landsnefnd sagnfræðinga þarf að taka afstöðu til þess á árinu hvort Ísland eigi að bjóðast til þess að halda norræna sagnfræðingaþingið 2007. Er hún þegar farin að huga að þeim málum. 
• Sagnfræðistofnun hefur áhuga á að stofna Vefgátt um sagnfræði á Íslandi á Netinu sem yrði upplýsingaveita um m.a. rannsóknir, söfn, heimildir, fundi og ráðstefnur á sviði sagnfræðinnar. 
• Brýnt er að bókakostur Sagnfræðistofnunar verði bættur og bókaskráin verði tölvuvædd. Nauðsynlegt er að hafa samvinnu við Landsbókasafn – Háskólabókasafn um það mál.

Félagar í Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands 

Kennarar í fullu starfi (13): 
Anna Agnarsdóttir, dósent 
Eggert Þór Bernharðsson, aðjunkt 
Gísi Gunnarsson, prófessor 
Guðmundur Hálfdanarson, prófessor 
Guðmundur Jónsson, dósent 
Gunnar Karlsson, prófessor 
Helgi Þorláksson, prófessor 
Ingi Sigurðsson, prófessor 
Már Jónsson, dósent 
Orri Vésteinsson, lektor 
Sveinbjörn Rafnsson, prófessor 
Valur Ingimundarson, dósent 
Þór Whitehead, prófessor

Stundakennarar (3): 

Auður Ólafsdóttir, D.E.A. 
Kristjana Kristinsdóttir, cand mag. 
Sigurður Gylfi Magnússon Ph.D.

Sérfræðingar og styrkþegar (2): 

Halldór Bjarnason, Ph.D. 
Páll Björnsson, Ph.D.

Doktorsnemar (5): 

Lára Magnúsardóttir 
Ragnheiður Kristjánsdóttir 
Sigríður Matthíasdóttir 
Sverrir Jakobsson 
Unnur Birna Karlsdóttir

MA-nemar (5): 

Benedikt Eyþórsson 
Guðný Hallgrímsdóttir 
Aðalheiður Steingrímsdóttir 
Sigríður Júlíusdóttir 
Sigríður Hjördís Jörundsdóttir 
Alls eru 28 félagar í Sagnfræðistofnun

Bækur Sagnfræðistofnunar. Lagerstaða 31.12.2002 

Frá endurskoðun til valtýsku: 113 
Alaskaför Jóns Ólafssonar 1874: 33 
Kommúnistahreyfingin á Íslandi 1921-1934: 52 
Lífshættir í Reykjavík 1930-1940: 136 
Iðnbylting hugarfarsins: 17 
Frá goðoðum til ríkja: 227 
Íslensk togaraútgerð 1945-1970: 106 
Þjóðskjalasafn Íslands. Ágrip af sögu þess…:246 
Sauðasalan til Bretlands: 170 
Förandingar i kvinnors villkor under medeltiden: 243 
Keflavíkurflugvöllur 1947-1951: 320 
Alþýðuflokkurinn og stjórn hinna vinnandi stétta: 307 
Klæðaburður íslenskra karla á 16., 17 og 18. öld: 114 
Efnamenn og eignir þeirra: 162 
Réttvísin gegn Ólafi Friðrikssyni: 416 
Kaþólskt trúboð á Íslandi: 256 
Kilderne til den tidlige middelalderens historie: 56 
Levestandarden I Norden: 61 
Iðnbyltingin á Íslandi: 303 
Ósigur Oddaverja: 261 
Sjókonur á Íslandi: 177 
Síbería. Atvinnubótavinna á kreppuárunum: 324 
Gamlar götur og goðavald: 133 
Reykjavíkurfélög: 388 
Jafnaðarmannafélagið á Akureyri: 572 
Því dæmist rétt að vera: 252 
Landhelgi Íslands: 422 
Að læra af sögu. Greinasafn um sögunám: 447 
Aldamótakonur og íslensk listvakning: 551 
Umbylting við Patreksfjörð: 105 
Páll Jónsson Skálholtsbiskup: 440 
Lifandi saga: 569 
Vesturfaraskrá: 228 
Konur og vígamenn: 130 
Menntun, ást og sorg: 158 
Menntun, ást og sorg. Kilja: 259 
Æska og saga: 123 
Æska og saga kilja: 234 
Ræður Hjálmars á Bjargi: 379 
Mannkynbætur: 375 
Landins forbetran: 37 
Landins forbetran kilja: 85 
Sögugerð Landnámubókar: 267 
Dulsmál: 228 
Hvalveiðar við Ísland: 147 
Eignarhald á afréttum: 0 
Baráttan við heimildirnar: 1 
Bernska ungdómur og uppeldi: 0 
Íslensk sagnfræði frá miðri 19. öld:158 
Ísland á bresku yfirráðasvæði: 2