Ársskýrsla 2003
Lögð fyrir ársfund 20. febrúar 2004.
Stjórn, starfsmenn og félagar
Stjórn stofnunarinnar var valin á ársfundi 2002 og skipa hana Guðmundur Jónsson dósent, forstöðumaður en meðstjórnendur eru Gunnar Karlsson prófessor og Benedikt Eyþórsson, fulltrúi stúdenta. Stjórnin hélt sjö fundi á starfsárinu. Tveir nemendur önnuðust fjölritun kennslugagna og sölu fjölrita og bóka í Guðnastofu, Bragi Bergsson á vormisseri og Hrafnkell Lárusson á haustmisseri.
Forstöðumaður og Gísli Gunnarsson prófessor voru fulltrúar Sagnfræðistofnunar í Landsnefnd sagnfræðinga. Af störfum Landsnefndar 2003 er tíðindalítið og ber helst að nefna viðleitni til að auka þátttöku íslenskra sagnfræðinga í norræna sagnfræðingaþinginu sem haldið verður í Stokkhólmi í ágúst 2004. Helgi Þorláksson tilkynnti að hann vildi hætta sem fulltrúi Íslands í ritnefnd Scandinavian Journal of History og ákvað Landsnefnd þá að fá Guðmund Hálfdanarson til að leysa Helga af hólmi.
Félagar í Sagnfræðistofnun eru nú 38 alls, þar af 13 fastir kennarar, 2 stundakennarar, 3 sérfræðingar og styrkþegar, 6 doktorsnemar og 14 MA- nemar (sjá fylgiskjal 1).
Hugvísindastofnun
Forstöðumaður sat í stjórn Hugvísindastofnunar allt árið eins og reglur þeirrar stofnunar gera ráð fyrir. Starfsemi Hugvísindastofnunar færðist í aukana á árinu bæði með ráðstefnuhaldi og útgáfustarfi.
Hugvísindastofnun fékk fjárveitingu frá Háskólanum árið 2003 sem nam 15,4 mill. kr., þar af 13 millj. kr. fasta fjárveitingu frá heimspekideild og 2,4 millj. kr. sem svokallað mótframlag frá Háskólanum. Í hlut hverrar rannsóknastofu komu 1.240 þús. kr. en að auki fengu þær mótframlag vegna rannsókna samkvæmt rannsóknasamningi H.Í. við menntamálaráðuneytið. Stofnanir fá 60% mótframlag vegna erlend ra styrkja, 40% vegna innlendra styrkja og 5% vegna sértekna (þ.m.t. styrkir frá ráðuneytum og opinberum rannsóknasjóðum). Í hlut Sagnfræðistofnunar komu 404 þús. kr., sem var hæsta framlag sem stofur innan heimspekideildar fengu, og munar talsvert um þessa nýju tekjulind í fjárhag stofnunarinnar. Fjáröflun af þessu tagi mun án efa verða æ mikilvægari fyrir Sagnfræðistofnun í framtíðinni.
Hugvísindastofnun stóð straum af vinnu við forritun gagnasafnsins Lokaritgerðir í sagnfræði og nam kostnaður tæpum 100 þús. kr.
Styrkþegar, doktorsnemar og vinnuaðstaða
Herbergi Sagnfræðistofnunar á 3. hæð í Nýja Garði, Hafnir í Húnaþingi, var nýtt af Sigríði Matthíasdóttur doktorsnema og Ellen Gunnarsdóttur, styrkþega Rannís. Bára Baldursdóttir kom í pláss Ellenar á miðju ári. Auk þeirra höfðu fjórir doktorsnemar í sagnfræði, Lára Magnúsardóttir, Ragnheiður Kristjánsdóttir, Sverrir Jakobsson og Unnur Birna Karlsdóttir, vinnuaðstöðu hjá Hugvísindastofnun.
Þrír styrkþegar Rannís á sviði sagnfræði, Halldór Bjarnason, Páll Björnsson og Sigrún Pálsdóttir, nutu aðstöðu í húsakynnum Hugvísindastofnunar, Halldór og Páll á vegum Sagnfræðistofnunar og Sigrún á vegum Hugvísindastofnunar. Páll hvarf á miðju ári á annan vettvang. Guðni Th. Jóhannesson, sem nýlega hefur lokið við doktorsritgerð sína, naut einnig aðstöðu Sagnfræðistofnunar. Vinnuaðstöðu styrkþega fylgir afnot af tölvu, síma o.þ.h. sem Sagnfræðistofnun greiðir fyrir. Jesse L. Byock hefur notið nokkurrar fyrirgreiðslu stofnunarinnar vegna tölvupósts.
Bókasafn
Gerð var gangskör að því að fylla í skörðin í bókasafni stofnunarinnar í Guðnastofu, en lítið hefur verið um bókakaup undanfarin ár vegna fjárskorts. Á árinu voru keypt allmörg íslensk sagnfræðirit sem út komu á árunum 2000–2002 og nokkur frá árinu 2003. Keyptar voru bækur fyrir alls 213 þús. kr. Örn Hrafnkelsson yfirmaður handritadeildar Lbs.-Hbs. færði Sagnfræðistofnun kassa af gömlum kennslubókum í Íslandssögu. Orri Vésteinsson gaf safninu 1. og 2. bindi af Annálum 1400–1800 og Eggert Þór Bernharðsson gaf safninu ráðstefnurit frá norræna sagnfræðingaþinginu í Osló 1994. Eru þeim færðar bestu þakkir fyrir þessar gjafir.
Undirbúningur að tölvuvæðingu bókasafnsins hófst á árinu og var leitað ráða hjá Sigrúnu Klöru Hannesdóttur landsbókaverði, Þorsteini Hallgrímssyni aðstoðarlandsbókaverði og fleirum hvernig best væri að standa að henni. Rætt var um möguleika á að tengjast bókasafnskerfi Landsbókasafnsins (Gegni). Á næstunni þarf að ákveða með hvaða hætti tölvuvæðingin verður og hvort hún kalli á breytingar á skipulagi bókasafnsins.
Rannsóknir starfsmanna
Fjölbreyttar rannsóknir eru stundaðar innan vébanda Sagnfræðistofnunar. Hér á eftir er stuttlega lýst þeim rannsóknum sem fastir kennarar í sagnfræði og styrkþegar hafa sinnt á umliðnu ári og hvaða verkefnum þeir vinna að um þessar mundir.
Anna Agnarsdóttir flutti ársfyrirlestur The Hakluyt Society í London í júní og annan við háskólann í Kiel. Hún vinnur að eftirtöldum rannsóknarverkefnum: a) The Banks Iceland Correspondence, b) tímabilið 1780–1780 í Sögu íslenskrar utanlandsverslunar, c) tímabilið 1780–1830 í Sögu Íslands (Þjóðhátíðarútgáfu) og d) útgáfa á doktorsritgerð endurbættri. Auk þess vinnur Anna að útgáfu sjálfsævisögu Klemensar Jónssonar og undirbúningi með Helga Þorlákssyni að næsta riti í Heimildasafni Sagnfræðistofnunar.
Eggert Þór Bernharðsson vann að samanburðarrannsókn á húsnæðisleysi í Reykjavík, London, Stokkhólmi og Kaupmannahöfn 1940–1970. Hann rannasakaði einnig miðlun sögu á söfnum og sýningum og skrifaði grein í hausthefti Sögu 2003. Hann mun halda áfram með rannsókn á húsnæðisleysi og miðlun sögu á árinu 2004.
Gísli Gunnarsson birti grein í hausthefti Sögu er bar heitið „Söguleg hagfræði. Þankar um hagfræðikenningar og íslenska þéttbýlisþróun“. Hann vann að rannsóknum á mannfjölda 17. og 18. aldar og verslunarsögu. Þá kannaði Gísli alþjóðaverslun og valdaskipti á Indlandshafi á 15. og 16. öld og flutti um það erindi í hádegisfyrirlestraröð Sagnfræðingafélags Íslands. Hann heldur áfram að vinna að verslunarsögu Íslands fyrir 1800, þ.m.t. athugunum á mörkuðum íslensku skreiðarinnar fyrr á tímum.
Guðmundur Hálfdanarson var einn af þrem höfundum (ásamt Henrik Jensen og Lennart Berntson) Europa 1800–2000 sem út kom á vegum Hróarskelduháskóla. Hann vann að ritstjórn ritgerðasafnsins Race and Ethnicity in Historical Perspective sem kom út í lok ársins hjá háskólaforlagi Pisaháskóla, Edizioni Plus. Guðmundur átti aðild að og var annar aðalstjórnandi umsóknar um styrk til öndvegisnets (Network of Excellence) í 6. rammaáætlun ESB.
Guðmundur Jónsson stóð fyrir ráðstefnu hér í Háskólanum í norræna rannsóknarverkefninu „Enhetliga grundvalar för nordiska historiska nationalräkenskaper“ með þátttöku innlendra og erlendra fræðimanna. Ásamt Sveini Agnarssyni kynnti Guðmundur niðurstöður rannsóknar á rótum hagvaxtar 1870-1945 á ráðstefnunni, og í árslok bjó hann erindi ráðstefnunnar til prentunar. Guðmundur flutti erindi í Svíþjóð sem nefndist “The transition from agrarian to service economy. Or, what happened to industrial capitalism inIceland?” Hann hélt áfram með rannsókn sína á verslunarsögu 20. aldar, kannaði einkum endalok dönsku verslunarinnar á Íslandi og starfshætti innflutningsfyrirtækja. Á árinu 2004 verður Guðmundur í rannsóknaleyfi og stefnir að því að ljúka þessari rannsókn.
Gunnar Karlsson vinnur sem fyrr að endurnýjun yfirlitsþekkingar um sögu Íslendinga. Hann hefur lengi þokað áleiðis tveimur langtímaverkefnum á þessu sviði: ritaskrá um íslenska sögu (Íslandssögu í greinum) og drögum að fræðilegum handbókum um Íslandssögu, á miðöldum og tímabilinu 1830–1940. Á ritaskrána verður nú settur endapunktur við árið 2000 og Sagnfræðistofnun falið að vista hana og halda henni áfram, ef ástæða þykir til. Um Íslandssögu miðalda er væntanlegt á árinu 2004 bókin Goðamenning, fræðirit á millistigi milli sérrannsóknar og yfirlitsrits. Handrit að annarri bók svipaðs eðlis, um samfélagsgerð Íslendinga á miðöldum, var stykkjað út úr miðaldasögusafninu á árinu 2003 og bíður nú lokafrágangs. Á árinu 2004 hyggst Gunnar vinna hluta af efninu um 19. öld upp í handrit að bindi í Sögu Íslands.
Helgi Þorláksson vann að lokafrágangi á yfirlitssögu Íslands 1520–1685 sem birtist í Sögu Íslands VI (útg. 2003) og VII (væntanlegt 2004). Auk þess sinnti hann athugunum á fæðardeilum og tók þátt í rannsóknarverkefnunum Reykholtsverkefni og Saga íslenskrar utanlandsverslunar 900-2002. Á árinu 2004 vinnur Helgi að Sögu Íslands VII og Reykholtsverkefni og ennfremur Sögu íslenskrar utanlandsverslunar 900-2002. Mun njóta rannsóknamisseris í Münster í Þýsklandi frá 1. mars og einkum gefa gaum að hegðunarmynstrum miðaldamanna (meginreglum, helgisiðum) í tengslum við fæðardeilur. Mun fjalla um sömu efni á Norræna sagnfræðingaþinginu í ágúst næstkomandi.
Ingi Sigurðsson vann að samningu ritgerða í bókina Alþýðumenning á Íslandi 1830– 1930. Ritað mál, menntun og félagshreyfingar og að ritstjórn hennar ásamt Lofti Guttormssyni prófessor. Hann vinnur að rannsóknum á áhrifum fjölþjóðlegra hugmyndastefna á Íslendinga 1830–1918. Í tengslum við það verkefni vinnur hann jafnframt að rannsóknum á upplýsingunni á Íslandi.
Már Jónsson gaf út þýðingu sína og Bjargar Birgisdóttur á bók ítalska fræðimannsins Ezio Ornato, Lofræða um handritamergð. Hugleiðingar um bóksögu miðalda. Ritið var gefið út í Ritsafni Sagnfræðistofnunar. Þar er að finna ítarlegan inngang sem byggist meðal annars á athugunum Más á íslenskum skinnhandritum. Á þessu ári áformar Már útgáfu á lestrarútgáfu af Jónsbók í ritröðinni Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar, en sinnir að öðru leyti rannsókn á brottrekstri mára frá Spáni árin 1609–1614 sem hann hóf í rannsóknaleyfi í Sevilla á vormisseri 2003.
Orri Vésteinsson vann að ýmsum fornleifarannsóknum á árinu 2003. Auk verkefnisstjórnar tók hann þátt í uppgrefti í Skálholti í júní og stjórnaði uppgrefti í Sveigakoti í Mývatnssveit í júlí og ágúst. Seinna verkefnið er hluti af umfangsmiklum rannsóknum í Mývatnssveit undir heitinu Landnám og menningarlandslag sem hlotið hefur öndvegisstyrk Rannís. Sem hluta af því stjórnaði hann líka minniháttar athugun á fornum rústum í Saltvík í Reykjahverfi. Einnig gerði hann minniháttar uppgröft á meintum krikjugarði á Rauðuskriðu í Aðaldal. Auk eigin vettvangsrannsókna var Orri verkefnisstjóri fyrir fornleifarannsókn á Gásum í Eyjafirði. Hann hélt áfram að vinna að verkefninu „Sókn og þing - athugun á félagsmótun á Íslandi á miðöldum“ og hóf vinnu við nýtt verkefni: „Kirkjur og bænhús í samfélagi miðalda“ sem felst í skráningu kirkju- og bænhúsminja.
Sveinbjörn Rafnsson fékkst einkum við rannsóknir á hinni fornu sagnaritun um Ólaf konung Tryggvason, en varðveisla hennar er afar fjölbreytileg og flókin enda má hún heita meðal miðlægra viðfangsefna íslenskra sagnaritara á miðöldum. Stefnt er að útgáfu einefnisrits (mónógrafíu) um efnið 2004 eða 2005. Þá hefur hann einnig unnið að greinum um heimildir til íslenskrar miðaldasögu og bókfræði rannsókna þeirra í ritið Repertorium fontium historiae medii aevi sem gefið er út í Róm.
Valur Ingimundarson vann að verkefnum sem tengjast samskiptum Bandaríkjanna og Evrópu eftir síðari heimsstyrjöld á sviði stjórnmála- og alþjóðasögu. Árið 2003 rannskaði hann m.a. evrópska samtímasögu með áherslu á Balkanskaga og NATO, íslenska utanríkisstefnu og öryggismál og samskiptin við Bandaríkin og áhrif hnattvæðingar á stríðsátök og uppbyggingu að þeim loknum. Hann tekur þátt í alþjóðlegum rannsóknaverkefnum um hnattvæðingu, öryggismál og evrópska sjálfsmynd.
Þór Whitehead vann fyrra hluta árs að gagnasöfnun og átti viðtöl við menn í Þýskalandi vegna heimildakvikmyndar, sem hann vinnur að um árás þýsks kafbáts á m/s Goðafoss 1944. Í Montpellier í Frakklandi dvaldi ha nn fram á vor við að skrifa 5. bindið í ritröðinni Ísland í síðari heimsstyrjöld samkvæmt samstarfssamningi heimspekideildar og Paul Valery-háskólans. Þá hélt hann aftur til Þýskalands og vann að gagnasöfnun fyrir ofangreint rit í skjalasöfnum og flutti fyrirlestur um samskipti Íslendinga og Þjóðverja á millistríðsárunum 1918-1939 í boði norrænu deildar Ludwigs Alberts- háskóla í Freiburg í júlí. Síðari hluta árs vann Þór að ritun áðurnefndrar bókar hér heima, en samdi jafnframt og flutti fyrirlestur um ævi og störf Thors Thors sendiherra á vegum Háskóla Íslands, Íslenskameríska félagsins og Thors Thors sjóðsins.
Guðni Th. Jóhannesson fékk aðstöðu hjá Sagnfræðistofnun í ágúst 2003 að lokinni ritun á doktorsritgerð í sagnfræði við Queen Mary, University of London. Aðalrannsóknarverkefni hans nefnist „Þorskastríðin. Fiskveiðideilur Íslendinga við erlendar þjóðir 1948–1976.“ Auk þess vinnur Guðni að ritun nokkurra kafla í þriggja binda verki um síldarsögu Íslands sem væntanlegt er 2004. Guðni hefur flutt nokkra fyrirlestra og samið fræðigreinar sem fjalla að meira eða minna leyti um landhelgismál og fiskveiðideilur Íslendinga. Á árinu 2004 verður rannsóknum á þorskastríðum og landhelgismálum haldið áfram. Tvær greinar um þau efni verða birtar í erlendum fagtímaritum og tvö erindi verða flutt á ráðstefnum. Guðni mun skrifa stutt rit fyrir Institutt for Forsvarsstudier í Noregi um afstöðu Norðmanna í þorskastríðunum eftir seinni heimsstyrjöld.
Halldór Bjarnason fékkst einkum við verslunarsögu Íslands á tímabilinu 1820–1914 og mun halda því áfram á árinu 2004. Er stefnt að ritun yfirlitskafla í ritverk um sögu íslenskrar utanlandsverslunar 900-2000 sem unnið er að á vegum Sagnfræðistofnunar. Nátengdar þessu eru rannsóknir Halldórs á efnahagslífi Íslendinga á 19. öld og fyrirstöðum þess. Fluttur var fyrirlestur um þilskipaútgerð Íslendinga á 19. öld og fjallaði hann um forsendur og fyrirstöður þessa útgerðarforms með dæmi af Vestfjörðum; grein um þetta birtist síðar á því ári. Einnig hafa rannsóknir Halldórs beinst að ýmsum aðferðafræðilegum álitamálum við ritun yfirlitssögu. Flutti hann erindi á hugvísindaþingi 2003 um yfirlitsrit í Íslandssögu og grein um þetta efni bíður birtingar.
Páll Björnsson hefur undanfarin ár einkum fengist við rannsóknir á íslenskum líberalisma á 19. öld. Hann hefur aðallega einbeitt sér að hugmyndaheimi Jóns Sigurðssonar og þá sér í lagi tengslum hans við tengda hugmyndastrauma á meginlandi Evrópu. Þessum rannsóknum hefur hann haldið áfram. Einnig hefur Páll hafið rannsóknir á viðtökum eða því framhaldslífi sem Jón Sigurðsson öðlaðist þegar hann varð ein helsta þjóðhetja Íslendinga á 20. öld.
Sigrún Pálsdóttir vinnur að tveim meginverkefnum. Í fyrsta lagi eru verkefni sem tengjast doktorsritgerð hennar, „Icelandic Culture in Victorian Thought“, og fjallar um þátt íslenskrar menningar í mótun hugmynda í Bretlandi á síðari hluta 19. aldar. Í öðru lagi 5 vinnur Sigrún að rannsókn á því hvernig þessi áhrif íslenskrar menningar í Bretlandi hafði á mótun íslenskrar yfirstéttar á sama tíma, þess hóps sem hvað mest fylgdist með umræðunni um menningarstig í íslensku samfélagi á síðari hluta 19. aldar. Rannsókn þessi beinist að einum afmörkuðum hópi íslenskrar yfirstéttar, fjölskyldu Péturs Péturssonar biskups.
Rannsóknar- og samstarfsverkefni Sagnfræðistofnunar
Sagnfræðistofnun á aðild að nokkrum rannsóknar- og samstarfsverkefnum. Hér á eftir er gerð grein fyrir þeim.
Reykholtsverkefnið. Verkefnið er þríþætt:
1. Fornleifarannsóknir: Uppgrefti bæjarstæðis er að mestu lokið en sl. sumar var þó leitast við að varpa frekara ljósi á ætlaðar gufu- og vatnsleiðslur sem tengjast íveruhúsum á bæjarstæðinu. Líklegast þykir að leiðslan sem liggur að litlu hellulögðu húsi á bæjarstæðinu hafi tengst gufuleiðslu við hverinn Skriflu. Komið var á samvinnu við Orkuveitu Reykjavíkur um frekari könnun á nýtingu hveraorkunnar í Reykholti á miðöldum. Fram var haldið uppgrefti hins forna kirkjustæðis í Reykholti. Komið var niður á leifar frá 17. öld og vonir bundnar við að undir þeim sé að finna kirkjuleifar frá miðöldum. Verkinu verður fram haldið 2004. Kristnihátíðarsjóður styrkir þennan uppgröft.
2 Mannvistarlandslag. Annars vegar var unnið að könnun ritheimilda og örnefna í örnefnaskrám vegna gróins og ógróins lands og voru upplýsingar settar í gagnagrunn. Á grundvelli þessara upplýsinga á að greina gróðurbreytingar svæðisbundið og fyrir tvö tímabil, landnáms- og söguöld og 1150–1264. Hins vegar var sýnataka í Reykholtsdal og nágrenni. Hafin er samvinna milli þeirra sem standa að Reykholtsverkefninu og hinu breska verkefni Landscapes circum landnam. Þátttakendur í hinu síðarnefnda tóku sýni til greiningar. Á þessum sýnum á að byggja greiningu á gróður- og loftslagsbreytingum fyrir tímabilið frá því rétt fyrir landnám og til 1500.
3. Miðstöðin Reykholt. Tveir sagnfræðinemar vinna að MA ritgerðum um kirkjumiðstöðina Reykholt, annar í tengslum við verkefnið Landscapes circum landnam. Haldin var ráðstefna 9.–12. október undir heitinu Lærdomscentre i middelalderen. Islandske og nordiske centre for skriftkultur i europæisk perspektiv. Fluttir voru 13 fyrirlestrar og að lokum voru pallborðsumræður. Auk Íslendinga voru þátttakendur frá Noregi, Svíþjóð og Danmörku. NORFA styrkti þessa ráðstefnu og starfið undir þessum lið.
Saga íslenskrar utanlandsverslunar 900–2000. Vinnu var fram haldið á árinu 2003 og er þess helst að geta að Leó Ingason kannaði skjöl í Hollandi fyrir fé verkefnsins. Sú könnun snertir einkum verkþátt Gísla Gunnarssonar. Guðmundur Jónsson réð Karl Jóhann Garðarsson til aðstoðar við rannsókn á starfsemi innflutningsfyrirtækja fyrir fé frá Rannsóknarsjóði Háskóla Íslands. Halldór Bjarnason naut aðstoðar Nikulásar Ægissonar við heimildakönnun og var sú vinna greidd af fé verkefnisins. Helgi Þorláksson naut aðstoðar Þorsteins Tryggva Mássonar fram á árið 2003 við skjalaleit. Sú vinna er greidd af fé frá Rannsóknarsjóði Háskóla Íslands.
Hugvísindastofnun hefur í hyggju að halda upp á fjögur hundruð ára afmæli Brynjólfs Sveinssonar 2005 og taka nokkur félög og stofnanir þátt í þessu verkefni, þar á meðal Sagnfræðistofnun. Helgi Þorláksson var kjörinn fulltrúi af hálfu Sagnfræðistofnunar í undirbúningsnefnd.
Sagnfræðistofnun ákvað nýlega að taka þátt í rannsóknarverkefni með Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur undir forystu Auðar Hauksdóttur. Það nefnist Ældre danskere i Island - 6 Mødet mellem dansk og islandsk sprog og kultur i 1900-tallet. Búið er að semja verkefnislýsingu og öflun fjár til verkefnisins er hafin.
Sagnfræðistofnun samþykkti að hafa samvinnu við svokallað Mosfellsverkefnisem Jesse Byock stýrir, en það er fólgið í könnun á menningarlandslagi og breytingum vegna búsetu og annarrar mannvistar í Mosfellssveit.
Sagnfræðistofnun á aðild að verkefninu Munnleg samtímasaga / rafrænar heimildir, en fyrrverandi forstöðumaður, Loftur Guttormsson, hafði samþykkt að ljá nafn stofnunarinnar við verkefnið. Fé fékkst úr tækjakaupasjóði Rannís til að kaupa upptökubúnað fyrir hljóð og mynd en enn vantar aðstöðu í Háskólanum til að koma upp stúdíói.
Sagnfræðistofnun á aðild að norrænu netsamstarfi er nefnist Det nordiska samarbetets historia: proklamationer, program och praktiker.
Útgáfumál
Þrjú rit komu út á vegum Sagnfræðistofnunar á starfsárinu. Í Ritsafni Sagnfræðistofnunar kom út bók Ezio Ornato, Lofræða um handritamergð. Hugleiðingar um bóksögu miðalda, í þýðingu Más Jónssonar og Bjargar Birgisdóttur. Bókin er nr. 36 í ritröðinni. Bók Helga Skúla Kjartanssonar og Steinþórs Heiðarssonar, Framtíð handan hafs. Vesturfarir frá Íslandi 1870-1914var gefin út sem 17. bindi ritraðarinnar Sagnfræðirannsóknir. Loks kom út ráðstefnuritið Nordic Historical National Accounts. Proceedings from Workshop VI, Reykjavik 19–20 September 2003 í ritstjórn Guðmundar Jónssonar. Þar eru birtar 13 greinar eftir innlenda og útlenda fræðimenn af ráðstefnu sem Sagnfræðistofnun og Hagfræðistofnun héldu í september síðastliðnum.
Öll ritin eru gefin út hjá Háskólaútgáfunni sem annast prentsmiðjuvinnu og dreifingu. Fjárhagsleg útkoma bókaútgáfunnar á starfsárinu var góð og kom þrennt til. Kostnaði var haldið í lágmarki eins og endranær. Í öðru lagi gekk vel að afla styrkja. Lofræða hlaut 150 þús. kr. styrk úr Þýðingarsjóði og Framtíðhandan hafs fékk 250 þús. kr, styrk frá utanríkisráðuneyti. Útgáfa Nordic Historical National Accounts var að öllu leyti fjármögnuð með utanaðkomandi peningum. Í þriðja lagi seldist Framtíð handan hafs afar vel og er upplag við áramót skv. upplýsingum Háskólaútgáfu aðeins 60 eintök. Yfirlit um lager í árslok, sölu einstakra bóka og kostnað við útgáfuverk á árinu 2003 er að finna í fylgiskjali 2.
Unnið er að undirbúningi nokkurra rita. Dregist hefur að gefa út bók Georg G. Iggers, Historiography in the Twentieth Century, í þýðingu Eiríks K. Björnssonar, Ólafs Rastrick og Páls Björnssonar, en þess má vænta að hún komi út fyrir næsta haust í Ritsafni Sagnfræðistofnunar. Á næstunni kemur út ritið Alþýðumenning á Íslandi 1830–1930. Ritað mál, menntun og félagshreyfingar í ritröðinni Sagnfræðirannsóknir. Ritstjórar eru Ingi Sigurðsson og Loftur Guttormsson. Í Heimildasafni Sagnfræðistofnunar er væntanlegt rit um Íslandslýsingar í erlendum ritum í umsjón Önnu Agnarsdóttur og Helga Þorlákssonar. Gunnar Karlsson hefur unnið að undirbúningi á kveri eftir Bergstein Jónsson um Íslendingafélagið Báruna í Norður-Dakóta í Bandaríkjunum, Báran rís og hnígur.
Guðmundur Hálfdanarson tilkynnti stjórn Sagnfræðistofnunar að hann óskaði eftir að láta af störfum sem ritstjóri Ritsafns Sagnfræðistofnunar. Stjórnin féllst á afsögn Guðmundar og fól Guðmundi Jónssyni að annast stjórn ritraðarinnar. 7
Ráðstefnur, fundir og málstofur
Fyrsta samkoman sem Sagnfræðistofnun stóð að á starfsárinu var málstofa með Robert McCaa, prófessor í sagnfræði við Minnesota-háskóla í Minneapolisþann 14. febrúar. Erindi McCaas nefndist „IPUMS-International: a global collaboratory to liberate the world’s census microdata and make them usable“. Í erindinu kynnti hann alþjóðlegt rannsóknarverkefni í fólksfjöldasögu, IPUMS-verkefnið, sem hefur verið starfrækt um alllangt skeið í Minnesota PopulationCenter við háskólann í Minneapolis.
Efnt var til málþings með Hagfræðistofnun 15. mars og var yfirskrift þess Frá kreppu til viðreisnar: Hvernig tókst til? Þar var fjallað um samnefnda bók er út kom fyrir síðustu jól, en hún hefur að geyma ritgerðir sjö höfunda um hagþróun og hagstjórn á Íslandi á árunum 1930–1960. Frummælendur á málþinginu voru Ásgeir Jónsson, hagfræðingur, og Helgi Skúli Kjartansson, sagnfræðingur en í pallboðsumræðum tóku þátt Arnór Sighvatsson, Guðmundur Jónsson, Jónas H. Haralz, Sigurður Snævarr og Þorvaldur Gylfason.
Dalia Ofer, prófessor í helfararfræðum (Holocaust stud ies) við HebrewUniversity í Ísrael, hélt fyrirlestur á vegum Sagnfræðistofnunar 19. september. Erindið bar heitið „Daily life in East European Ghettos: Class, Gender, and Authority“og fjallaði m.a. um hlutskipti kvenna og barna í gettóum Austur-Evrópu í seinni heimsstyrjöld. Ofer er þekkt á sínu sviði og hefur gefið út fjölda bóka og greina.
Norræn ráðstefna um sögulega þjóðhagsreikninga, Workshop on Nordic Historical National Accounts, var haldin í samvinnu við Hagfræðistofnun Íslands dagana 19.–20. september. Guðmundur Jónsson annaðist undirbúning og skipulag ráðstefnunnar af hálfu Sagnfræðistofnunar og hafði Karl Jóhann Garðarsson sagnfræðinema sér til aðstoðar. Þáttakendur voru 23 talsins, þar af 16 frá Norðurlöndum og 7 frá Íslandi. Sérstakur gestur ráðstefnunnar var Jan-Pieter Smits, einn af forsvarsmönnum Groningen Growth and Development Centre í Hollandi. Í tengslum við ráðstefnuna flutti Jan-Pieter Smits almennan fyrirlestur í boði Sagnfræðistofnunar 20. september um efnið „International differences in economic welfare during the twentieth century“. Í fyrirlestrinum fjallaði Smits um þróun lífskjara í heiminum á 20. öld og hvernig skýra má þann mikla mun sem er á tekjum milli heimssvæða.
Minningarfyrirlestur Jóns Sigurðssonar 2003 var haldinn 9. október og var að þessu sinni boðið einum fremsta sagnfræðingi í evrópskri samtímasögu, Alan Milward, prófessor
í sögu Evrópusamvinnu við Evrópuháskólann í Flórens. Fyrirlestruinn bar yfirskriftina „Globalization in Historical Perspective. Smaller Economies and the European Union“ og fjallaði hann um alþjóðavæðingu viðskipta og tækni og hlutverk Evrópusambandsins í því ferli. Milward ræddi einnig um tengsl Evrópusambandsins og minni ríkja, einkum samskipti Efnahagsbandalags Evrópu og Íslands á tímum þorskastríðanna á áttunda áratugnum. Góð mæting var á fyrirlesturinn og vakti hann nokkra athygli, m.a. varð hann tilefni til umfjöllunar í leiðara Morgunblaðsins. Daginn eftir var Alan Milward með málstofu sem bar yfirskriftina „National Motivations in Seeking European Community Membership, 1961–2003“. Í vorhefti tímaritsins Sögu 2004 mun birtast viðtal við Alan Milward.
Dr. Magnús Þ. Bernharðsson flutti fyrirlestur á vegum Sagnfræðistofnunar 13. október. Fyrirlesturinn nefndist „Að skapa 1001 nótt: Írak, Bandaríkin og uppbygging Bagdad 1950–1958“. Í fyrirlestrinum, sem var fjölsóttur, var fjallað um áform Íraka eftir síðari heimsstyrjöldina um að gera landið og höfuðborgina að „nútímaríki“ og „nútímaborg“.
Málþing um manntalið 1703 var haldið í húsakynnum Hagstofu Íslands 15. nóvember til að minnast 300 ára afmæli þess. Auk Sagnfræðistofnunar áttu Þjóðskjalasafn Íslands, Hagstofa Íslands, Félag um 18. aldar fræði og Sagnfræðingafélag Íslands aðild að málþinginu. Fyrirlestra fluttu John Hajnal, Lisa Dillon, Björk Ingimundardóttir, Eiríkur G. 8 Guðmundsson, Helgi Skúli Kjartansson, Loftur Guttormsson, Ólöf Garðarsdóttir, Kristrún Halla Helgadóttir og Gísli Gunnarsson.
Norræna sagnfræðingaþingið 2007
Stjórn Sagnfræðistofnunar skipaði í ársbyrjun 2003 tvo menn, Eggert Þór Bernharðsson og Helga Þorláksson, til að undirbúa ákvörðun um hvort Íslendingar héldu norræna sagnfræðingaþingið 2007. Þeir skiluðu skýrslu til stjórnar 9. janúar sl. þar sem þeir lögðu til að Íslendingar tækju að sér þinghaldið 2011 fremur en 2007. Voru rök þeirra m.a. þau að árið 2011 verður minnst aldarafmælis Háskóla Íslands og væri „vel til fundið að tengja eitt aðalefnanna sögu háskóla og sögu sagnfræði sem háskólagreinar“. Enn fremur töldu þeir að skörun yrði við næsta Íslenska söguþing.
Stjórn stofnunarinnar boðaði Eggert Þór, Helga og Önnu Agnarsdóttur deildarforseta á sinn fund 21. janúar sl. en ekki náðist í Helga. Á fundinum var málið ítarlega rætt og komust fundarmenn að sameiginlegri niðurstöðu um að mæla með því á ársfundi Sagnfræðistofnunar að Íslendingar bjóðist til að halda þingið 2007. Vógu þyngst þau rök að tímbært væri að Íslendingar tækju þetta verkefni að sér (þeir hafa aðeins einu sinni haldið þingið, árið 1987), slíkt þinghald yrði lyftistöng fyrir rannsóknir og efldi samstarf við Norðurlöndin. Á næsta fundi í stjórn Sagnfræðistofnunar var samþykkt einróma að bera það upp á ársfundi að Norræna sagnfræðingaþingið verði haldið hér á landi árið 2007.
Landnefnd sagnfræðinga hélt einnig fund um málið 28. janúar sl. og komst hún einhuga að þeirri niðurstöðu að fyrir sitt leyti væri nefndin hlynnt því að Norræna söguþingið verði haldið á Íslandi árið 2007.
Vefsetur um íslenska sagnfræði
Unnið var að undirbúningi vefseturs um íslenska sagnfræði á starfsárinu. Markmiðið með því er að að mæta vaxandi þörf fyrir miðlægt safn rafrænna gagna um íslenska sögu og sagnfræði og búa til vandað og öflugt upplýsingatæki bæði fyrir fræðimenn og áhugamenn um íslenska sögu.
Sagnfræðistofnun sótti um styrk úr kennslumálasjóði H.Í. og fékkst 300 þús. kr. styrkur. Jafnframt fékk forstöðumaður styrk úr Aðstoðarmannasjóði (kr. 80.000) til að kosta vinnu við hönnun vefsetursins og var Jón Sigurður Friðriksson sagnfræðinemi ráðinn til þess verks. Samið var við fyrirtækið Vefsýn um tæknilega aðstoð við uppsetningu vefsetursins og hefur fyrirtækið unnið náið með Jóni Sigurði undanfarna mánuði.
Stjórn Sagnfræðistofnunar samþykkti að leita samvinnu við félög og stofnanir um að vinna hugmyndinni brautargengi og móta útlit og inntak vefsetursins. Samráðsnefndin hélt tvo fundi á árinu en hún mun framvegis starfa sem ritnefnd vefsetursins, Sagnfræðistofnun til halds og trausts. Í ritnefndinni sitja:
Auður Styrkársdóttir, forstöðumaður Kvennasögusafns Íslands
Eggert Þór Bernharðsson, aðjunkt í sagnfræði við H.Í.
Eiríkur Guð mundsson, sviðsstjóri útgáfu- og upplýsingasviðs Þjóðskjalasafns
Gunnar Karlsson, prófessor í sagnfræði við H.Í.
Helgi Þorláksson, prófessor í sagnfræði við H.Í.
Már Jónsson, dósent í sagnfræði við H.Í.
Páll Björnsson, formaður Sagnfræðingafélags Íslands
Svanhildur Bogadóttir, borgarskjalavörður
Örn Hrafnkelsson, forstöðumaður handritadeildar Lbs./Hbs
Sagnfræðistofnun mun bera ábyrgð á og reka vefsetrið í framtíðinni. Umsjón með því fyrst um sinn hefur Guðmundur Jónsson en daglegan rekstur annast Hugrún Ösp Reynisdóttir og 9 Íris Ellenberger, MA-nemar í sagnfræði. Vefsetrið verður opnað á ársfundi Sagnfræðistofnunar 2004.
Fjárhagur og ársreikningur Sagnfræðistofnunar 2003
Ársreikningur Sagnfræðistofnunar er lagður fram í fylgiskjali 3. Þetta er bráðabirgðauppgjör þar sem ekki er búið að ganga frá fjárreiðum Sagnfræðistofnunar í bókhaldi Háskólans. Rekstrartekjur og -gjöld ársins munu ekki breytast mikið en meiri óvissa ríkir um fjárhagsstöðu í upphafi árs 2003 og þar með skuldastöðu stofnunarinnar.
Mikil umskipti urðu til hins betra í fjármálum Sagnfræðistofnunar á árinu 2003. Kemur þar einkum tvennt til. Fjárveiting til stofnunarinnar hækkaði um 400 þús. kr. eða um tæpan þriðjung frá fyrra ári sem stafaði eingöngu af mótframlagi vegna rannsókna. Fjárhagsleg viðskipti við Háskólaútgáfu hafa færst í eðlilegra horf og staðan orðin skýrari. Uppsöfnuð skuld vegna bókaútgáfu fyrri ára hefur verið greidd og nú stafar greiðslubyrðin eingöngu af útgáfu sem ráðist er í hverju sinni. Hagstæð niðurstaða bókaútgáfunnar stafar einnig af styrkjum sem tókst að afla (400 þús. kr.) en umfram allt óvenjumiklum tekjum af bóksölu sem námu rúmum 2 millj. kr. Söluhæstu bækurnar voru Vesturfaraskrá (466 þús. kr.) og Framtíð handan hafs (422 þús. kr.).
Afkoma Sagnfræðistofnunar á árinu var mjög hagstæð. Tekjur námu 6,275 millj. kr. en gjöld 4,993 millj. kr. og var því rekstrarafgangur sem nam 1,282 millj. kr. Fjárveiting til stofnunarinnar nam að þessu sinni 1,644 millj. kr. Stærsti rekstrarliðurinn var bókaútgáfan og námu tekjur af bókaútgáfu 2,2 millj. kr. en gjöld 1,7 millj. kr. og varð því 450 þús. kr. hagnaður af starfseminni. Ljósritun kennsluefnis var annar stærsti liðurinn en sala ljósritaðs námsefnis nam rúmum 2 millj. kr. og útgjöld voru 1,9 millj. kr., afgangur því 135 þús. kr. Af öðrum tekjuliðum ber að nefna styrk úr kennslumálasjóði vegna vefseturs að fjárhæð 225 þús. kr., en búið er að verja 117 þús. kr. af þeim styrk. Helstu útgjaldaliðir auk þess sem að ofan greinir voru rannsóknafé kennara (379 þús. kr) og þóknun til stjórnar (270 þús. kr.).
Fjárhagsstaða Sagnfræðistofnunar var í upphafi árs 2003 –1,356 millj. kr. skv. bókhaldi Háskólans 12. febrúar 2004 (-1,371 millj. kr. skv. reikningum 2002). Rekstrarafgangur á árinu gerir stofnuninni kleift að lækka hallann niður í 75 þús. kr. og má það teljast vel viðunandi.
Guðmundur Jónsson