Ársskýrsla 2004

Lögð fram á ársfundi 18. febrúar 2005.

Stjórn og starfsmenn

Ársfundur Sagnfræðistofnunar 2005 var haldinn 20. febrúar 2004. Þá voru kosnir í stjórn Gunnar Karlsson forstöðumaður og Már Jónsson. Stúdentar höfðu þá kosið Val Frey Steinarsson sem fulltrúa sinn í stjórn. Þessi stjórn starfaði óbreytt á árinu og hefur haldið sjö fundi.

Aðild að Hugvísindastofnun hefur verið með sama hætti og að undanförnu. Hugvísindastofnun skipti fjárveitingu fyrir árið 2004 milli aðildarstofnana sinna á fundi 17. febrúar 2004, og komu í hlut Sagnfræðistofnunar 2.100.000 krónur, þar af 1.500.000 í fjárveitingu frá deild og 600.000 í mótframlag.

Stjórn Sagnfræðistofnunar hefur ekki haft afskipti af því á árinu hvernig húsnæði á vegum Hugvísindastofnunar í Nýja garði hefur verið ráðstafað. Mun þar allt vera nokkurn veginn með sama hætti og á fyrra ári, og er greint frá því í ársskýrslu um árið 2003. Sjálf hefur stofnunin ráð á vinnuplássi fyrir einn eða tvo menn í Guðnastofu í Árnagarði. Sagnfræðinemar sem standa að útgáfu tímaritsins Sagna hafa innhlaup þar og aðgang að síma frá tíð fyrri stjórnar. Á árinu 2004 var Hrefnu Karlsdóttur sagnfræðingi úthlutað vinnuplássi í Guðnastofu til að vinna að rannsóknarverkefni um sögu rækjuiðnaðar. Gert er ráð fyrir að framkvæmdastjórar norræna sagnfræðiþingsins í Reykjavík 2007 hafi aðstöðu í stofunni.

Vefsíða Sagnfræðistofununar, Söguslóðir, sem var opnuð á ársfundi í fyrra, hefur verið í umsjá Guðmundar Jónssonar, en Íris Ellenberger og Hugrún Ösp Reynisdóttir hafa annast daglegan rekstur hennar undir verkstjórn Guðmundar.

Eins og að undanförnu hefur stofnunin annast ljósritun námsefnis til kennslu og látið selja það í Guðnastofu. Á vormisseri 2004 sá Svanur Pétursson sagnfræðinemi um það verk en á haustmisseri Hugrún Ösp Reynisdóttir. Eins og kemur fram í fjárhagsyfirliti er þetta orðinn sá liður í starfsemi stofnunarinnar sem hefur mesta peningaveltu.

Félagatal hefur ekki verið endurnýjað síðan á síðasta ársfundi þegar félagar töldust vera 37. Vafasamt verður að teljast að leggja mikla vinnu í sérstakt félagatal Sagnfræðistofnunar þar sem einfalt mál er að senda boð til allra sem eiga rétt á aðild að stofnuninni og geta gerst félagar hvenær sem er (kennara, styrkþega og framhaldsnema) en enginn véltækur póstlisti er til um félagsmenn eina.

Mesta og helsta starf Sagnfræðistofnunar er auðvitað rannsóknarstarf þeirra sem vinna við hana. Ekki er greint frá því starfi í þessari skýrslu, alls ekki frá rannsóknum einstaklinga og aðeins drepið á samvinnuverkefni sem eru á einhvern hátt á vegum stofnunarinnar.

Bókasafn

Á árunum 2002–03 var gert átak í að kaupa inn í bókasafn stofnunarinnar í Guðnastofu í Árnagarði. Því verki hefur ekki verið haldið áfram á árinu 2004, þótt safnið hafi eignast nokkrar bækur af ýmsum ástæðum og að sjálfsögðu haldið áfram áskrift tímarita. Nokkur útgjöld vegna bókakaupa fyrra árs hafa líka lent á stofnuninni á árinu 2004.

Á árinu var ráðist í að tölvuskrá bækur Guðnastofu, og unnu sagnfræðinemarnir Íris Ellenberger og Hugrún Ösp Reynisdóttir það verk, og kostaði það rúmlega 280 þús. kr. Bækurnar voru skráðar í excel-kerfi og er einungis eftir að ákveða hvernig skráin verður gerð aðgengileg þeim sem hafa aðgang að bókasafninu sjálfu.  

Útgáfumál

Í tveimur ritröðum stofnunarinnar, Sagnfræðirannsóknum, sem Gunnar Karlsson stýrir, og Ritsafni Sagnfræðistofnunar, í ritstjórn Guðmundar Jónssonar, komu út þrjár bækur á árinu:

Alþýðumenning á Íslandi 1830–1930. Ritað mál, menntun og félagshreyfingar,greinasafn í ritstjórn Inga Sigurðssonar og Lofts Guttormssonar kom út sem 18. bindi Sagnfræðirannsókna, með útgáfuárið 2003 á titilblaði, 351 bls. löng bók. Vegna tafa var bókin ekki komin út þegar síðasti árfundur var haldinn, og er hún því talin hér. Bókina skrifa sjö höfundar um ólíkar hliðar íslenskrar alþýðumenningar á tímabilinu, um dreifingu ritaðs máls á prenti og handskrifuðu, um alþýðumenntun innan skóla og utan, um félagshreyfingar alþýðu og áhrif útlendra hugmyndastrauma. Bókin var gefin út í samvinnu við samvinnuverkefni sem ritstjórarnir stóðu fyrir, og stóð styrkur sem var veittur til verkefnisins undir ritlaunum, ritstjórn og umbroti bókarinnar.  

Sagnfræði á 20. öld. Frá vísindalegri hlutlægni til póstmódernískrar gagnrýnieftir George G. Inngers kom út sem 37. bindi í Ritsafni Sagnfræðistofnunar og er 198 bls. Páll Björnsson, Eiríkur Kolbeinn Björnsson og Ólafur Rastrick þýddu bókina, og fékk stofnunin styrk úr Þýðingarsjóði til að kosta verk þeirra. Útgáfa bókarinnar varð tilefni þess að Iggers var boðið að halda minningarfyrirlestur Jóns Sigurðssonar.

Fiskurinn sem munkunum þótti bestur. Íslandsskreiðin á framandi slóðum eftir Gísla Gunnarsson kom út á árinu sem 38. bindi í Ritsafni Sagnfræðistofnunar,117 bls. bók. Þar er greint frá sölu og verðlagi á íslenskum fiski í Evrópu á árnýjöld, þegar hann var þekkt gæðavara á meginlandinu.

Hjá Háskólaútgáfu bíður umbrots texti lítillar bókar eftir Bergstein Jónsson,Báran rís og hnígur, um Íslendingafélag í Norður-Dakóta á árunum 1938–77. Ritstjórn annast Gunnar Karlsson. Í Sagnfræðirannsóknum er í undirbúningi útgáfa á bók um sögu verkamanna­félagsins Dagsbrúnar fram til 1930 eftir Þorleif Friðriksson sagnfræðing.

Að frumkvæði Þórs Whitehead voru tekin upp á árinu áform um útgáfu doktorsritgerða starfsmanna stofnunarinnar á ensku. Valur Ingimundarson hefur verið ráðinn til að stýra ritröð með þessu efni, en gert er þó ráð fyrir að einstakir höfundar annist ritstjórnarvinnu hver við sína bók. Áformað er að ritgerð Þórs,Iceland in the Second World War, verði fyrsta bókin í röðinni.

Fulltrúi stúdenta í stjórn Sagnfræðistofnunar, Valur Freyr Steinarsson, hefur undirbúið nýja ritröð með MA-ritgerðum stúdenta, óendurbættum og gefnum út á allra ódýrasta hátt. Áformað er að gefa út eina ritgerð á árinu 2005.

Fleira er á döfinni í útgáfumálum, eins og kom fram í ársskýrslu í fyrra, án þess að það hafi leitt til útgáfu á árinu.

Gestafyrirlestrar

Prófessor Fred E. Woods við Brigham Young University í Bandaríkjunum var á ferð á Íslandi 24. maí – 6. júní. Leitað var til stofnunarinnar um að greiða götu hans og gefa honum kost á að kynna rannsóknir sínar á flutningum íslenskra mormóna til Utah á síðari hluta 19. aldar. Woods hélt fyrirlestur um efnið 27. maí, og nefndist hann Fire on Ice: a sesquicentennial sketch of Icelandic latter-day Saint (Mormon) history.

Minningarfyrirlestur Jóns Sigurðssonar hélt George G. Iggers., professor emeritus frá State University of New York í Buffalo. Kona hans, prófessor Wilma Iggers, kom í fylgd með honum, og varð úr að stofnunin deildi ferðakostnaði hennar með þeim hjónum. Þau komu til landsins um miðjan október. Laugardaginn 16. október hélt Georg minningarfyrirlestur Jóns Sigurðssonar sem hann nefndi Rethinking History in the Face of Today’s Global Challenges. Mánudaginn 18. október hélt Wilma Iggers fyrirlestur, What did it mean to be Jewish in multiethnic prewar Czechoslovakia? Loks hafði Georg málstofu með félagsmönnum Sagnfræðistofnunar og gestum þeirra þriðjudaginn 19. október um efnið How Relevant is Marxism Today for an Understanding of History? Í boði Sagnfræðistofnunar að lokinni málstofunni var Georg Iggers afhent fyrsta eintakið af íslenskri þýðingu bókar sinnar, Sagnfræði á 20. öld.

Samstarfsverkefni og rannsóknarbakhjarl

Eins og kom fram í skýrslu fyrra árs á Sagnfræðistofnun aðild að fjölda rannsóknarverkefna í samstarfi við aðra. Í Reykholtsverkefni er Helgi Þorláksson fulltrúi stofnunarinnar. Saga íslenskrar utanríkisverslunar er sömuleiðis undir stjórn Helga Þorlákssonar. Ennfremur er Helgi fulltrúi stofnunarinnar í undirbúningsnefnd fjögur hundruð ára afmælis Brynjólfs biskups Sveinssonar sem verður fagnað á árinu 2005. Stofnunin hafði á fyrra ári ákveðið að taka þátt í rannsóknarverkefni með Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, Ældre danskere i Island, en því mun ekki hafa miðað langt áleiðis á árinu. Stofnunin er bakhjarl að Mosfellsverkefni um fornleifar og breytinga vegna mannvistar í Mosfellssveit sem prófessor Jesse Byock stýrir. Í ársskýrslu síðasta árs má einnig lesa að stofnunin eigi aðild að norrænu netsamstarfi sem nefnist Det nordiska samarbetets historia: proklamationer, program og praktiker. En ekkert hefur komið inn á borð núverandi stjórnar varðandi það verk.

Í forstöðumannstíð Lofts Guttormssonar var nafn stofnunarinnar lagt við verkefnið Munnleg samtímasaga / rafrænar heimildir. Á árinu 2004 hafði Guðmundur Jónsson frumkvæði að því að Sagnfræðistofunun gengist fyrir skipulegri söfnun munnlegra heimilda, í samvinnu við aðra aðila, og tók að sér að stýra því verki af hálfu stofnunarinnar. Undirbúningsfundur kennara í sagnfræði undir stjórn Guðmundar var haldinn 7. febrúar 2005.

Á árinu fór rektor Kennaraháskóla Íslands þess á leit við stofnunina að hún tilnefndi fulltrúa í ritnefnd yfirlitsritsins Almenningsfræðsla á Íslandi 1880–2007sem Rannsóknarstofnun KHÍ stendur að undir ritstjórn Lofts Guttormssonar. Guðmundur Hálfdanarson tók að sér að annast þetta starf fyrir hönd Sagnfræðistofnunar.

Sögufélag fór þess á leit að Sagnfræðistofnun tilnefndi fulltrúa í undirbúningsnefnd ráðstefnu um sögu Stjórnarráðs Íslands, sem félagið gaf út á árinu 2004. Guðmundur Jónsson tók þetta verk að sér, og var ráðstefnan haldin í Þjóðminjasafninu 1. febrúar síðastliðinn.

Utanríkisráðuneytið vinnur að því í samvinnu við rússnesk stjórnvöld að gefa út rit um samskipti Íslands við Sovétríkin og Rússland. Jón Ólafsson heimspekingur, sem hefur starfað við þetta verk, fór þess á leit við Sagnfræðistofnun að hún stæði á einhvern hátt að þessu verki, og féllst Valur Ingimundarson á að vera fulltrúi stofnunarinnar í því.

Að tilmælum Ólafar Garðarsdóttur sagnfræðings gerðist Sagnfræðistofnun formlegur bakhjarl hennar í Erasmus-verkefninu PHOENIX – European Thematic Network on Health and Social Welfare Policy, sem er stýrt frá háskóla í Évora. En ekki er ætlunin að stofnunin þurfi að hafa nein útgjöld eða fyrirhöfn af verkinu.

Íslenskt söguþing

Á árinu lauk fjárhagsuppgjöri íslensku söguþinganna 1997 og 2002, sem var í umsjá Guðmundar Jónssonar, og var verknúmerum þeirra í bókhaldi Háskólans lokað.

Í samvinnu við stjórnir Sagnfræðingafélags og Sögufélags ákvað stjórn stofnunarinnar að standa að þriðja íslenska söguþinginu á árinu 2006. Már Jónsson hefur gerst fulltrúi stofnunarinnar í undirbúningi söguþingsins, en starfið mun lítt eða ekki farið af stað.

Norrænt sagnfræðiþing

Í samræmi við samþykktir ársfundar í fyrra bauðst stjórn Sagnfræðistofnunar til að gangast fyrir að halda 26. norræna sagnfræðiþingið í Reykjavík sumarið 2007. Forstöðumaður tilkynnti Lars Nilsson, fulltrúa Svía í norrænu samstarfsnefndinni, fyrst um þetta í tölvubréfi 2. mars 2004 og staðfesti boðið síðan, bæði á fundi með nefndinni í Stokkhólmi 5. ágúst og í lokahófi 25. norræna sagnfræðiþingsins þar í borg 8. ágúst.

Til að hefja undirbúning að þinginu réð stofnunin sem framkvæmdastjóra hjónin og sagnfræðingana Einar Hreinsson og Hrefnu Karlsdóttur. Þau komu á stjórnarfund stofnunarinnar 23. nóvember og ræddu undirbúningsvinnuna við stjórn.

Boðað var til fundar í landsnefnd íslenskra sagnfræðinga 2. desember, með fulltrúum Sagnfræðingafélags og Þjóðskjalasafns. Þar var ákveðið að landsnefndin yrði sá aðili sem héldi 26. norræna sagnfræðiþingið og framkvæmdastjórar sagnfræðiþingsins störfuðu í umboði hennar. Þá hafði forstöðumaður Sagnfræðistofnunar verið kosinn formaður landsnefndar (til ársloka 2005) og hinn fulltrúi stofnunarinnar, Már Jónsson, gjaldkeri, þannig  að ábyrgð á undirbúningi þingsins er eftir sem áður í höndum stjórnarmanna Sagnfræðistofnunar, og hvorugur hinna aðilanna að landsnefnd hefur enn fallist á að taka á sig hluta af fjárhagslegri ábyrgð á þinginu.

Fjárhagur

Fjárhagsuppgjör ársins 2004 liggur ekki fyrir enn, og engar upplýsingar hafa borist um stöðu stofnunarinnar hjá Háskólaútgáfunni. En Yfirlit um fjárhag ársins 2004, sem er lagt fram á þessum fundi ásamt ársskýrslunni, bendir til þess að reksturinn sé nokkurn veginn í jafnvægi. Niðurstöðutölur yfirlitsins eru þær að tekjur hafi verið 7.595.000 krónur en útgjöld 7.420.000 krónur. Þar eru nokkrar stærðir mjög óvissar, en reynist fjárhagurinn verulega verri en hér er gert ráð fyrir er tiltölulega auðvelt að laga reksturinn að því á árinu 2005.