Ársskýrsla 2006

Stjórn og starfsmenn 

Ársfundur Sagnfræðistofnunar 2006 var haldinn 17. febrúar 2006. Stjórn stofnunarinnar hafði þá lokið kjörtímabili sínu og sátu í henni Gunnar Karlsson forstöðumaður, Már Jónsson fulltrúi starfsmanna og Valur Freyr Steinarsson fulltrúi stúdenta. Á fundinum var Már kjörinn forstöðumaður til tveggja ára en Valur Ingimundarson fulltrúi starfsmanna og Jóhann Hjalti Þorsteinsson fulltrúi stúdenta. Stjórnin hélt þrjá fundi á árinu en réð ráðum sínum þess á milli í tölvupósti og óformlegum samræðum.

Aðild Sagnfræðistofnunar að Hugvísindastofnun er óbreytt og situr forstöðumaður stjórnarfundi þar. Margrét Guðmundsdóttir hefur verið ráðin til Hugvísindastofnunar og samstarf við hana um fjárreiður Sagnfræðistofnunar og annað lofar góðu. Sagnfræðistofnun mun í framtíðinni greiða eitthvað fyrir þá þjónustu en ekki er frágengið hversu mikið það verður. Hugvísindastofnun veitti Sagnfræðistofnun eina milljón króna af fjárveitingu sinni, en við bættust kr. 563.605 sem mótframlag vegna utanaðkomandi styrkja. Heildarhlutur stofnunarinnar var því kr. 1.563.605.

Sala ljósrita til sagnfræðinema fór fram í Guðnastofu í Árnagarði eins og áður. Um ljósritun námsefnis til kennslu og sölu sáu Kristbjörn H. Björnsson og Andri Steinn Snæbjörnsson. Pixel prentþjónusta annast framkvæmdina. Til tals hefur komið að leggja þessa þjónustu niður. Hún fellur engan veginn að annarri starfsemi stofnunarinnar og vefvinnslukerfi Reiknistofnunar, Ugla, er að mestu tekið við sem miðlari lesefnis á pdf-formi. Ákvörðun verður tekin um framhaldið á næsta starfsári stofnunarinnar.

Sagnfræðinemar sem standa að útgáfu Sagna hafa aðstöðu í Guðnastofu og aðgang að síma. Framkvæmdastjóri norræna sagnfræðingaþingsins í Reykjavík 2007, Einar Hreinsson, hefur starfsaðstöðu í stofunni.

Vefsíðan Söguslóðir var í umsjá Guðmundar Jónssonar eins og áður, en Hugrún Ösp Reynisdóttir og Jóhann Hjalti Þorsteinsson hafa annast daglegan rekstur.

Samkvæmt starfsreglum Sagnfræðistofnunar eiga aðild að henni, auk kennara, styrkþega og sérfræðinga, framhaldsnemar í sagnfræði sem þess óska. Stjórn stofnunarinnar hefur ekki leitað eftir því við framhaldsnema hverjir óski eftir aðild, en þeir fengu boð um ársfund.

Í framhaldi af umræðum sem urðu um framkvæmdastjórn stofnunarinnar á ársfundi 2005 skrifaði forstöðumaður Háskólarektor 23. mars það ár og fór fram á styrk af þróunarfé til að ráða akademískan starfsmann í fulla vinnu í tvö til þrjú ár til að stýra stofnuninni og afla henni verkefna. Erindinu var synjað með bréfi rektors 27. mars 2006.

Jón Sigurður Friðriksson vann á árinu að endurnýjun á vefslóð Sagnfræðistofnunar en lauk því ekki alveg og hefur nú verið samið við Hugvísindastofnun um viðhald og viðbætur.

Þann 7. júní 2006 var undirritaður samstarfssamningur Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns, Sagnfræðistofnunar, Rannsóknarstofu í kvenna- og kynjafræðum og Kennaraháskóla Íslands um Miðstöð munnlegrar sögu, og gerði Guðmundur Jónsson það fyrir hönd stofnunarinnar. Miðstöðin var formlega opnuð snemma árs 2007.

Skipt var um fulltrúa Sagnfræðistofnunar í stjórnarnefnd Þjóðskjalasafns. Sveinbjörn Rafnsson gaf ekki kost á sér til áframhaldandi setu og tók varamaður hans við, Már Jónsson. Varamaður nú, í hans stað, er Guðmundur Hálfdanarson.

Alþýðusamband Íslands fór þess á leit með bréfi 1. desember 2006 að Sagnfræðistofnun skipaði fulltrúa í ritnefnd vegna sögu sambandsins, og tók Guðmundur Jónsson það að sér.

Íslenskt söguþing og norrænt sagnfræðingaþing 

Stofnunin átti aðild að Þriðja íslenska söguþinginu í maímánuði, ásamt Sagnfræðingafélagi Íslands og Sögufélagi. Már Jónsson var fulltrúi stofnunarinnar í undirbúningsnefnd þingsins. Allt nýliðið ár vann Landsnefnd íslenskra sagnfræðinga ötult starf með alltíðum fundum til undirbúnings norræns sagnfræðingaþings í Reykjavík í ágúst 2007. Einar Hreinsson er framkvæmdastjóri þingsins.

Bókasafn 

Vefsíðan Söguslóðir hefur gefið bókaútgefendum kost á að senda stofnuninni nýjar bækur sem verði kynntar á vefsíðunni. Bækurnar renna síðan inn í bókasafn stofnunarinnar í Guðnastofu. Fáeinir útgefendur hafa notað sér þetta tilboð. Undir árslok 2005 kannaði forstöðumaður hvaða bækur væri helst ástæða til að kaupa í Guðnastofu og bækur voru keyptar snemma árs 2006 fyrir kr. 280 þúsund. Engar bækur hafa síðan verið keyptar. Hugrún Ösp Reynisdóttir hefur nú skráð bókakost Sagnfræðistofnunar í forritið Microsoft Excel og geta starfsmenn stofnunarinnar fengið skjalið sent.

Bókaútgáfa 

Engin bók kom út í ritröðum stofnunarinnar á árinu. Til stóð að í Sagnfræðirannsóknum kæmi út bók Þorleifs Friðrikssonar um sögu verkamanna¬félagsins Dagsbrúnar fram til 1930 í samvinnu við arftaka félagsins, Eflingu stéttarfélag. Gunnar Karlsson er ritstjóri. Tafir urðu á verkinu og bókin kemur út á vormisseri 2007. Helgi Þorláksson er nú tekinn við ritröðinni. Ákveðið var á haustmánuðum 2006 að gera tilraun með útgáfu á einni MA-ritgerð, sem yrði óendurbætt og fjölfölduð á sem ódýrastan hátt. Fyrri fulltrúi stúdenta í stjórn Sagnfræðistofnunar, Valur Freyr Steinarsson, tók framkvæmdina að sér og í vikunni kom út ritgerð Hrafnkels Lárussonar, Í óræðri samtíð með óvissa framtíð. Íslensk sveitarblöð og samfélagsbreytingar um aldamótin 1900. Standi bókin undir sér er hugmyndin sú að þetta geti orðið upphaf að nýrri ritröð MA-ritgerða.

Framkvæmdastjóraskipti urðu hjá Háskólaútgáfu á haustmánuðum og tók Sigríður Björnsdóttir við starfinu. Vel hefur síðan gengið að fá upplýsingar um lagerstöðu allra útgáfubóka stofnunarinnar. Mikið er af óseldum bókum og þarf að grípa til róttækra ráðstafana á nýju ári til að minnka lagerinn, því geymslukostnaður er umtalsverður.

Minningarfyrirlestur Jóns Sigurðssonar 

Stofnunin bauð breska sagn- og félagsfræðingnum Liz Stanley, prófessor við háskólann í Edinborg, að halda minningarfyrirlestur Jóns Sigurðssonar. Það gerði hún við opnun Söguþings 18. maí undir heitinu „Through a glass, darkly: Interpretational possibilities and pitfalls in reading the past“. Var gerður góður rómur að máli hennar. Fyrirlesturinn var framlag Sagnfræðistofnunar til Söguþings, svo sem hefð er fyrir. Í haust hefur William Gervase Clarence-Smith, prófessor í hagsögu Asíu og Afríku við School of Oriental and African Studies í London, verið boðið að halda minningarfyrirlesturinn. Hann er einn af ritstjórum tímaritsins Journal of Global History sem hóf göngu sína á vegum London School of Economics í fyrra.

Rannsóknir 

Mesta og helsta starf Sagnfræðistofnunar eru rannsóknir þeirra sem vinna við hana. Frá rannsóknum einstaklinga er aðeins sagt lauslega hér:

Anna Agnarsdóttir vann að útgáfu á The Journals and Letters of Sir Joseph Banks: Iceland and the North Atlantic 1800-1820 og að ritun kafla í sögu íslenskrar utanlandsverslunar, sem og IX. bindis Sögu Íslands. Hún tók þátt í starfi vinnuhópsins Europe and the World sem er hluti af Evrópuverkefninu CLIOHRES.net Network of Excellence, og vann að grein um stöðu Íslands í danska ríkinu.

Eggert Þór Bernharðsson vann einkum að tveimur rannsóknaverkefnum: a) Sagan til fólksins. Margmiðlun og sagnfræði. Kannaðir eru margvíslegir kostir á miðlun sögulegs efnis og mismunandi framsetningu eftir miðlum. Fjallað er um samspil ólíkra miðla og mögulega samtvinnun efnis í margmiðlun. b) Mótun dægurtónlistar á Íslandi 1940–1963. Hugað er að þróun dægurtónlistar frá hernámi Íslands fram að svokölluðu „bítlaæði“ erlendrar tónlistar á þessu tímaskeiði og þar með öflugra erlendra menningaráhrifa á Íslandi.

Gavin Lucas vann að fornleifarannsóknum í Skálholti og birti greinar um þær athuganir, meðal annars í Sögu biskupsstólanna. Hann gaf út tvær greinar um fornleifafræði nútímans og hélt opnunarfyrirlestur á hinni árlegu ráðstefnu Contemporary and Historical Archaeological Theory (CHAT). Auk annarra greina og erinda var hann ritstjóri tímaritsins Archaeologia Islandica.

Gísli Gunnarsson hélt áfram rannsóknum í verslunarsöguverkefni og hélt fyrirlestra bæði á Hugvísindaþingi og Þriðja íslenska söguþinginu.

Guðmundur Hálfdanarson er annar aðalstjórnandi öndvegisnetsins CLIOHRES sem styrkt er af 6. rammaáætlun ESB. Innan verkefnisins starfa 180 fræðimenn og doktorsnemar í 45 evrópskum háskólum. Að auki situr hann í stjórnarnefnd NHIST, sem er evrópskt rannsókarverkefni styrkt af European Science Foundation. Á árinu birti hann tvær greinar í Scandinavian Journal of History og nokkrar greinar í ráðstefnuritum og greinasöfnum. Hann situr í ritstjórn þriggja ritraða innan CLIOHRES, en þar komu út átta bækur á árinu, og situr í ritstjórn Scandinavian Journal of History.

Guðmundur Jónsson tók þátt í norræna verkefninu Small Nations' Trade and Power Politics: The Nordic Interwar Experience, en á vegum þess voru haldnar ráðstefnur í Esbjerg og Helsinki. Guðmundur vann áfram að rannsókn á verslunarsögu 20. aldar og flutti meðal annars fyrirlestur á Hugvísindaþingi um viðhorf Íslendinga til munaðar og nauðsynja eins og þau birtust í deilum um fríverslun 1960-1980. Einnig birti Guðmundur grein í tímaritinu Sögu um endalok dönsku verslunarinnar á Íslandi. Guðmundur vann ásamt hópi fólks að stofnun safns og rannsóknarmiðstöðvar um munnlega sögu.

Gunnar Karlsson varði rannsóknartíma sínum einkum til þess að endurvinna til fræðilegrar útgáfu inngang að riti sem hefur gengið í ljósritum í skorinni með titlinum Drög að fræðilegri námsbók í íslenskri miðaldasögu. Hann var andmælandi við doktorsvörn Kristínar Bjarnadóttur við Hróarskelduháskóla þar sem hún varði ritgerð um sögu stærðfræðikennslu á Íslandi, skrifaði grein um heimildarýni Ara og Snorra til birtingar í þemahefti Ritsins um miðaldafræði, þótt ekki næðist samkomulag um birtingu hennar þar, og tók þátt í málstofu um valdamiðstöðvar á Íslenska söguþinginu. 
Helgi Þorláksson tekur þátt í alþjóðlegri samvinnu um fæðardeilur. Hann tekur sem fyrr þátt í hinu þverfaglega Reykholtsverkefni og vinnur að sögu íslenskrar utanlandsverslunar. Útgáfa er í undirbúningi. Hann flutti ellefu fræðilega fyrirlestra á árinu og birti á prenti sex fræðilegar greinar.

Ingi Sigurðsson vann að rannsóknum á sögu fjölþjóðlegra hugmyndastefna. Hann gaf út bókina Erlendir straumar og íslenzk viðhorf. Áhrif fjölþjóðlegra hugmyndastefna á Íslendinga 1830–1918.

Kristjana Kristinsdóttir stendur að samstarfsverkefni með Dönum, Færeyingum og Grænlendingum um rannsókn á skjalagerð í hjálendum Dana og útgáfu rits um hana. Einnig vinnur hún að rannsókn á stjórnsýslusögu og skjalagerð á 16. og 17. öld.

Már Jónsson hélt áfram útgáfu prestastefnudóma Skálholtsbiskupa og í samvinnu við séra Skúla Ólafsson gaf hann út dóma Jóns Vídalíns í ritröðinni Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar. Hann þýddi bók Patriciu Pires Boulhosa um Gamla sáttmála, hélt erindi um það efni á Söguþingi og skrifaði stuttar greinar til kynningar á efninu. Hann hélt erindi og skrifaði grein um Spánverjavígin 1615.

Orri Vésteinsson hélt meðal annars áfram rannsóknum sínum á landnámi, sögu íslenska sóknakerfisins og stjórnaði uppgröftum í Sveigakoti í Mývatnssveit og á kirkju á Gásum í Eyjafirði.

Steinunn Kristjánsdóttir hélt áfram rannsóknum sínum á miðaldaklaustrinu að Skriðu í Fljótsdal, auk þess að stjórna uppgrefti á rústum þess. Hún birti grein um rannsóknina í Læknablaðinu og flutti um hana fyrirlestur á Íslenska söguþinginu og á alþjóðlegri ráðstefnu á Hólum í Hjaltadal. Steinunn skrifaði einnig inngangsgrein um kynjafornleifafræði í Ólafíu, riti Fornleifafræðingafélags Íslands.

Sveinbjörn Rafnsson hefur árinu unnið að rannsóknum á fornri sagnritun frá miðöldum. Ennfremur birtust eftir hann á annan tug bókfræðilegra greina um íslenskar miðaldaheimildir, þar á meðal viðamiklar greinar um verk Snorra Sturlusonar og Sturlu Þórðarsonar, í hinu alþjóðlega yfirlitsriti Repertorium fontium historiae medii aevi, vol. X/4, sem gefið er út í Róm.

Valur Ingimundarson stundaði rannsóknir á eftirfarandi sviðum: (a) íslenskum utanríkismálum og samskiptum við Bandaríkin; (b) samskiptum Íslands við Evrópu í stjórnmálum og öryggismálum; c) „stjórnmálum minninga“ og stríðsglæpum í seinni heimsstyrjöld, í kalda stríðinu og eftir hrun austurblokkarinnar; (d) „þjóðaruppbyggingu“, alþjóðastofnunum, „friðargæslu“ í Kosovo og Bosníu; e) stjórnmálasamskiptum Evrópusambandsins við „Vestur-Balkanskagann.“ Hann skrifaði nokkrar fræðigreinar/bókarkafla á þessum rannsóknasviðum og vann að að ritstýringu bókar um íslensk utanríkismál. Auk þess hélt hann fyrirlestra um þessi efni á ráðstefnum í London, New York, Dublin, Varsjá og Reykjavík. Loks birtist eftir hann grein í Skírni um samskipti Íslands og Bandaríkjanna eftir að kalda stríðinu lauk auk umfjöllunar um áhrif þjóðernishugmynda og fasisma á Íslandi í ritinu World Fascism.

Þór Whitehead vann við fimmta bindið í ritverkinu Ísland í síðari heimsstyrjöld og lauk við ritgerðina „Hlutleysi Íslands á hverfanda hveli 1918-1945“, sem birtist í Sögu XLIV. 1. (2006). Hann flutti í júní opinberan fyrirlestur í Helmut-Schmidt-Universität, Universität der Bundeswehr, Hamborg, um samskipti Íslendinga og Þjóðverja 1900-1939. Þá sinnti hann öðru rannsóknarefni, innra öryggi Íslands 1939-1976, og birti um það ritgerðina „Smáríki og heimsbyltingin. Um öryggi Íslands á válegum tímum“, í tímaritinu Þjóðmál II. 3. (Haust 2006). Loks vann hann við að undirbúa útgáfu á doktorsritgerð sinni, „Iceland in the Second World War 1939-1946“ (Oxford University, 1978).

Fjárhagur 

Yfirlit um fjárhag ársins 2006 er lagt fram á fundinum ásamt ársskýrslunni. Margrét Guðmundsdóttir, verkefnisstjóri hjá Hugvísindastofnun, lagði mikla vinnu í að koma fjármálum Sagnfræðistofnunar á hreint og tókst það með ágætum. Rekstur stofnunarinnar er í jafnvægi og kostnaður sem hún hefur lagt í vegna norræna sagnfræðingaþingsins mun fást endurgreiddur í formi norrænna og íslenskra styrkja. Fáeinir lausir þræðir sem varða Háskólaútgáfu verða festir á komandi starfsári og ljóst að stofnunin er ekki stórskuldug vegna bókaútgáfu sinnar, eins og óttast mátti um tíma á liðnu starfsári.