Athafnakonur á Íslandi í sögulegu ljósi kyngervis og kynverundar

Rannsóknir sýna að hugtökin „athafnasemi“ og „athafnamennska“  (e. entrepreneurship) hafa menningarlega undirliggjandi karllæg formerki. Konur hafa stundað fyrirtækjarekstur, verslun og viðskipti um langa hríð en sú starfsemi virðist hafa verið falið fyrirbæri í sögunni. Samkvæmt norska sagnfræðingnum Eirinn Larsen á verslunarkonum er athafnasemi (n. entreprenørskap) kvenna mjög lítið rannsökuð  innan norskrar kvenna- og kynjasögu þótt talsverður fjöldi kvenna hafi séð fyrir sér með þessum hætti. Svipað virðist einnig gilda um íslenska kvenna- og kynjasögu og íslenskar sagnfræðirannsóknir almennt.

Nýlegar rannsóknir á athafnasemi beinast m.a. að því að draga viðskipti kvenna fram í dagsljósið með því skoða og endurskoða merkingu hugtaksins „athafnasemi“ og skyldra hugtaka. Sú endurskoðun snýr t.d. að viðteknum hugmyndum um tengslin milli „einkasviðs“ hins persónulega lífs og „opinbers sviðs” verslunar og viðskipta. Breski sagnfræðingurinn Alison C. Kay segir t.a.m. að konur í viðskiptum hafi  „verið faldar á bak við karlmenn“ og karllegar hugmyndir um merkingu hugtaksins „athafnamaður”. Þó hafi þær í raun einnig  verið   faldar á bak við „heimilið“ og þann skilning okkar að opinbera sviðið og einkasviðið séu algerlega aðskilin fyrirbæri.

Í málstofunni verður varpað ljósi á konur í fyrirtækjarekstri á Íslandi frá lokum 19. aldar og fram undir lok 20. aldar út frá nýjum rannsóknum. Spurt verður hvort  misræmi sé milli  hugmynda okkar um hvað „athafnasemi“ merkir og raunverulegrar starfsemi íslenskra kvenna í fyrirtækjarekstri? Í hverju fólst sá rekstur og í hvernig rými fór hann fram? Hvernig opna nýjar hugmyndir um samspil einkasviðsins og opinbera sviðsins fyrir nýja sýn á margbreytileika kvenna í „athafnamennsku“? Hvernig  geta rannsóknir á hinsegin kynverundum  leitt fram nýja þekkingu á athafnasemi kvenna? Hvaða ljósi varpa nýjar hugmyndir um kyn, kynverund og athafnasemi á gerendahæfni íslenskra kvenna?

Málstofustjóri

  • Dr. Gyða Margrét Pétursdóttir, prófessor í kynjafræði

Tengiliður við stjórn Söguþings

  • Dr. Sigríður Matthíasdóttir, sjálfstætt starfandi sagnfræðingur

Fyrirlesarar

  • Dr. Íris Ellenberger, lektor í samfélagsgreinum.  „Hinsegin kynverundir og íslenskar athafnakonur á fyrri hluta 20. aldar“ 
  • Dr. Laufey Axelsdóttir, nýdoktor í kynjafræði og Dr. Þorgerður Einarsdóttir, prófessor í kynjafræði. „„Þetta verður víst aldrei gróðafyrirtæki heldur tilraun...“ Konur sem frumkvöðlar í textílvinnslu á síðari hluta 20. aldar.
  • Dr. Sigríður Matthíasdóttir, sjálfstætt starfandi sagnfræðingur. Athafnakona í þverþjóðlegu rými. Dagbókarfærslur veitinga- og verslunarkonunnar Pálínu Waage á Seyðisfirði í upphafi 20. aldar
 

Útdrættir

„Þetta verður víst aldrei gróðafyrirtæki heldur tilraun...“ Konur sem frumkvöðlar í textílvinnslu á síðari hluta 20. aldar.

Textíll og handverk hafa löngum verið kvennastörf og vinna kvenna og framlag á því sviði verið með margvíslegum hætti. Þar hefur aðgreiningin í einkasvið og opinbert svið verið óljós og jafnvel ekki alltaf átt við. Í gegnum söguna hafa konur séð heimilisfólki sínu fyrir fatnaði með prjóni og saumaskap, þær hafa stundað prjónaskap fyrir verslanir, og unnið við textíl í verksmiðjuvinnu. En konur hafa ekki síður stundað sjálfstæðan atvinnurekstur á þessu sviði. Í erindinu verður gerð grein fyrir tveimur athafnakonum á svið textíls á Íslandi. Önnur er Guðrún Vigfúsdóttir (1921-2015) sem rak vefstofu á Ísafirði og hin er Þórdís Bergsdóttir (1929-2021) sem rak Ullarvinnslu frú Láru á Seyðisfirði. Til að varpa ljósi á framlag þessara kvenna til textíliðnaðarins beitum við fræðilegum sjónarmiðum sem gagnrýna karllæg viðmið um frumkvöðlastarsemi sem jaðarsetja athafnasemi kvenna og framlag þeirra til atvinnusköpunar (Aston & Bishop, 2020; Craig, 2015). Niðurstöður rannsóknarinnar byggja bæði á fyrirliggjandi gögnum eins og fjölmiðlaumfjöllunum, skýrslum og bókum og viðtali við Þórdísi. Rannsóknin sýnir meðal annars að athafnasemi þeirra skapaði aukin atvinnutækifæri handa konum og færði störf kvenna sem unnin voru innan heimilisins út í hið opinbera rými. 

 

Verkefnið er hluti af H2020 CENTRINNO sem styrkt er af Evrópusambandinu 2020-2023 samkvæmt styrktarsamningi nr. 869595

Hinsegin kynverundir og íslenskar athafnakonur á fyrri hluta 20. aldar

Hinseginleiki og samkynhneigð eru í daglegu tali álitin nútímafyrirbæri tengd við þéttbýlismyndun, kynlífsbyltingu og sjálfsmyndarpólitík. Hinsegin kynverundir finnast þó alls staðar, þótt birtingarmyndirnar séu ólíkar eftir stað og tíma. Í upphafi 20. aldar voru borgaralegar konur í þéttbýli algeng birtingarmynd hinseginleikans sem orsakaðist af margvíslegum samverkandi þáttum. Til dæmis fjölgun ógiftra kvenna í þéttbýli, leit kvenhreyfingarinnar að nýjum leiðum til að lifa og elska auk efnahagslegra og samfélagslegra orsaka sem gerði sambúð og náin sambönd milli kvenna að fýsilegum kosti.

Í þessu erindi verður fjallað um athafnasemi kvenna í ljósi framangreindra samfélagsaðstæðna í þéttbýli. Sömu þættir og ýttu undir sambúð kvenna gerði þeim einnig að sjá fyrir sér sjálfar og lifa sjálfstæðu lífi á grunni eigin tekna. Þær tóku sér því ýmislegt fyrir hendur sem flokka má sem athafnasemi, stunduðu rekstur eða ruddu nýjar brautir í fræðslumálum. Athafnasemi og einkalíf sköruðust gjarnan, en nokkur dæmi eru um pör sem ráku bæði heimili og fyrirtæki saman, stundum um áratuga skeið. Í erindinu verður fjallað um þessar hinsegin athafnakonur, greint frá lífi þeirra og starfi og varpað ljósi á ástæður þess að athafnasemi og hinsegin kynverund kvenna eru nátengd fyrirbrigði við upphaf 20. aldar.

Athafnakona í þverþjóðlegu rými. Dagbókarfærslur veitinga- og verslunarkonunnar Pálínu Waage á Seyðisfirði í upphafi 20. Aldar

Í fyrirlestrinum verður sjónum sérstaklega beint að fyrirtækjarekstri veitinga- og verslunarkonunnar Pálínu Waage á Seyðisfirði (1864-1935). En auk sjálfsævisögu þá lét Pálína eftir sig allmargar dagbækur. Dagbækurnar veita á margan hátt góða innsýn í daglegt líf hennar og rekstur. Á sama tíma varpa þær einnig athyglisverðu ljósi á ýmis þemu sem eru ofarlega á baugi í rannsóknum á  athafnakonum (e. female entrepreneurs). Þar má nefna spurninguna um ósýnileika kvenlegra fyrirtækjarekenda en  því hefur t.d. verið haldið fram að fyrirtækjarekstur kvenna hafi í raun verið hulinn bak við menningarbundnar hugmyndir af ýmsu tagi, t.a.m. um „kvenleika“ og „heimili“. Þá hafi fræðileg hugtök á borð við t.d. „einkasvið“ og „opinbert svið“ jafnvel átt ákveðinn þátt í að breiða yfir þessa starfsemi.  

Í fyrirlestrinum verður í fyrsta lagi fjallað um slíkar spurningar. Í öðru lagi verða dagbækur Pálínu nýttar til að varpa ljósi á hana sem athafnakonu. Spurt verður í hverju rekstur hennar fólst í raun og veru? Hvar lá metnaður hennar og hvað fannst henni áhugavert að fást við? Hvert var viðhorf hennar til fjármála? Og ennfremur verða könnuð tengslin milli fyrirtækjareksturs Pálínu annars vegar og bæjarins Seyðisfjarðar hins vegar.  En norskir síldveiðimenn byggðu bæinn upp undir lok 19. aldar og lék hann lykilhlutverk í verslun, viðskiptum og samgöngum, innanlands og við útlönd. Í fyrirlestrinum verður spurt hvaða máli allt þetta skiptir fyrir starf  Pálínu Waage og túlkun á starfsemi hennar?