Býlið, byggðin og búskapurinn: Notagildi landupplýsinga við samanburð landsvæða um 1700

Í Hamri 206, föstudaginn 20.maí kl. 9.00-10.30

Í íslenskum sagnfræðiritum um bændasamfélagið er frekar fátítt að sjá samanburð á búsetuháttum, félagsgerð og efnahag milli landsvæða. Stafræna tæknin og ekki síst landupplýsingatæknin auðvelda mjög slíkan samanburð og bjóða upp á ótal möguleika á að rannsaka samspil samfélags og náttúrulegs umhverfis eftir svæðum og landshlutum. Í rannsóknarverkefninu Undirstöður landbúnaðarsamfélagsins hefur verið búinn til gagnagrunnur um einstaklinga, fjölskyldur og heimili, býli og jarðir á öllu landinu í byrjun 18. aldar þar sem byggt er á jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín og manntali og kvikfjártali 1703. Í grunninum eru upplýsingarnar tengdar og landfræðilega hnitaðar svo úr verður öflugt rannsóknatæki sem gerir okkur kleift að kanna landfræðilegar víddir lifnaðarhátta á þessum tíma. Í málstofunni verða kynntar bráðabirgða-niðurstöður úr þremur efnisþáttum rannsóknarinnar og sjónum beint að landfræðilegum samanburði á búsetu, jörðum, tekjum og efnahag heimila.

Fyrirlestrar

  • Ingibjörg Jónsdóttir. „Búsetulandslag á Íslandi í upphafi 18. aldar“
  • Guðmundur Jónsson. „Jarðaskipan og eignarhald á jörðum á Íslandi um 1700“
  • Óskar Guðlaugsson. „Tekjur og framleiðsla bændaheimila í upphafi 18. aldar“

Málstofustjóri: Guðmundur Jónsson, prófessor í sagnfræði.

Útdrættir

Kortlagning byggðar á Íslandi við upphaf átjándu aldar og tenging við sögulegar heimildir frá þeim tíma býður upp á fjölbreytta greiningu á búsetulandslagi bændasamfélagsins. Þetta er gert með því að tengja ýmsar breytur úr manntali, jarðabók og kvikfjártali við landfræðilega staðsetningu hvers býlis. Í erindinu er fjallað um aðferðir við greiningu á búsetulandslagi og nokkrar af niðurstöðum kynntar. Eftirfarandi spurningum er leitað svara við: Hvar á landinu var byggðin í upphafi átjándu aldar? Hvar voru þéttbýlustu svæðin? Hvar lágu mörk þéttbýlis og dreifbýlis? Hvernig tekur dreifing byggðar mið af landslagi og landgæðum? Í brennidepli er greining á búsvæðum, þ.e. svæðum sem hafa ákveðin efnahagsleg og vistfræðileg sérkenni, s.s. atvinnu, legu og aðgang að náttúrugæðum.

Jarðaskipan á Íslandi var í allföstum skorðum um aldir þótt hjáleigum fjölgaði og fækkaði á víxl eftir efnahag og árferði. Í erindinu er tekin punktstaða á jarðaskipan og eignarhaldi um 1700 og er sérstaklega hugað að samanburði milli landsvæða. Greint er frá fjölda jarða og ólíkum tegundum býla og bústaða, allt frá tómthúsum og hjáleigum til höfuðbóla. Var mikill stærðarmunur á lögbýlum milli héraða? Hvar var umfang hjáleigu- og tómthúsabyggðar mest? Þar sem jörðin var ein aðaluppspretta auðs og velsældar er mikilvægt að vita hvernig  eignaskiptingin var í landinu. Rannsóknin leiðir í ljós hvernig einkaeignin dreifist milli jarðeigenda og hverjir voru ríkustu menn landsins.

Rannsóknir á eignarhaldi jarða á 18. öld hafa sýnt að efnahagsleg misskipting var mikil – flestir bændur voru leiguliðar og stór hluti jarðeigna var í höndum fámennrar yfirstéttar. En hvernig lítur ójöfnuðurinn út ef tekjur bændaheimila eru skoðaðar? Í erindinu eru niðurstöður úr rannsókn höfundar á tekjum og framleiðslu heimila árið 1703 nýttar til að skoða landfræðilegan mun á tekjum og veitt svör við eftirfarandi spurningum: Hversu mikill var ójöfnuðurinn í landinu? Var mikill munur á tekjum eftir sýslum eða landsvæðum? Hversu stór hluti heimila stóð ekki undir eigin framfærslu og hvar var þau helst að finna? Hver var samsetning heimilistekna með tilliti til landbúnaðar og sjávarútvegs og annarra atvinnuvega?