Einkaskjalasöfn – aðgengi, varðveisla og notkun
Einkaskjalasöfn eru mikilvægur heimildaflokkur fyrir sagnfræðinga og þá sem rannsaka söguna. Þau hafa menningarlegt gildi fyrir samfélagið og án þeirra væru heimildir um fyrri tíma fátæklegri. Mikilvægur þáttur í öllum sagnfræðirannsóknum er notkun frumheimilda og eru einkaskjalasöfn einn hluti þeirra. Það er m.a. hlutverk vörsluaðila einkaskjalasafna að kappkosta að varðveittar verði heimildir sem gefa hvað skýrasta mynd af samfélagi fyrri ára og að ólík sjónarmið um hina ýmsu þætti mannlegs samfélags varðveitist og verði aðgengilegar fyrir almenning og fræðimenn. Í þessari málstofu verður varpað ljósi á hvernig er staðið að varðveislu, söfnun og aðgengi að einkaskjalasöfnum hér á landi og hlutverk skjalavörslustofnana í því samhengi skoðað. Þá verður einnig skoðað hvernig einkaskjalasöfn nýtast til rannsókna og á hvaða hátt einkaskjöl geta varpað öðru ljósi á söguna, og stundum nýju ljósi, sem ekki er að finna í örðum heimildaflokkum.
Fyrirlestrar:
- Ólafur Valdimar Ómarsson, skjalavörður í Þjóðskjalasafni Íslands. „Niðurstöður könnunar á varðveislu einkaskjalasafna á Íslandi sem framkvæmd verður í janúar til mars 2021“
- Sólborg Una Pálsdóttir, héraðsskjalavörður Skagfirðinga. „Söfnun einkaskjala í Skagafirði í fortíð, nútíð og framtíð“
- Helga Hlín Bjarnadóttir, skjalavörður í Þjóðskjalasafni. „Rannsókn á einkaskjalasafni Arnfríðar Þorkelsdóttur (1830-1885) lausakonu í Reykjavík“
- Bragi Þorgrímur Ólafsson, fagstjóri handritasafns Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns. „Varðveisla, aðgengi og rannsóknir á einkaskjalasöfnum í handritasafni Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns“
- Guðrún Laufey Guðmundsdóttir, sérfræðingur í handritasafni Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafni. „Eiríkur Hallsson, sálmar, rímur og sögusagnir. Varðveisla handritasafns frá 17. öld“
Útdrættir
„Niðurstöður könnunar á varðveislu einkaskjalasafna á Íslandi sem framkvæmd verður í janúar til mars 2021.“
Í erindinu verður skýrt frá niðurstöðum könnunar um stöðu einkaskjalasafna á Íslandi, varðveislu þeirra og aðgengi að þeim. Könnunin, var lögð fyrir vörsluaðila einkaskjalasafna af ýmsu tagi; skjala- bóka- og minjasöfn, sem og rannsóknastofnanir. Að auki var könnunin lögð fyrir aðila sem mögulega varðveita einkaskjalasöfn, t.d. sýningar og aðrar menningarstofnanir. Árið 2012 voru niðurstöður sambærilegrar könnunar kynntar á Söguþingi. Niðurstöður þessara tveggja kannanna verða bornar saman, og reynt að bera kennsl á þá þróun sem átt hefur sér stað í varðveislu einkaskjalasafna undanfarinn áratug.
„Söfnun einkaskjala í Skagafirði í fortíð, nútíð og framtíð.“
Í fyrirlestrinum verður fjallað um mikilvægi einkaskjala á héraðsskjalasöfnum og hlutverk héraðsskjalasafna í söfnun slíkra gagna. Skoðað verður hvernig Héraðsskjalasafn Skagfirðinga hefur staðið að söfnun einkaskjala í gegnum tíðina, hvort greina megi áherslubreytingar í söfnuninni og þá hvað valdi slíkum breytingum. Starfsmenn Héraðsskjalasafns Skagfirðinga vinna nú að því að kortleggja og flokka einkaskjöl safnsins. Niðurstöðurnar verða notaðar sem undirstaða fyrir aðfangastefnu safnsins að norskri fyrirmynd. Skýrt verður frá þessu verkefni, ávinningi þess og annmörkum. Að lokum verður fjallað um framtíðina og hvaða áskoranir blasa við okkur. Þurfum við að safna einkaskjölum með öðrum hætti þegar öll gögn eru orðin stafræn, „dagbókafærslur” einstaklinga eru í formi augnabliks-myndskota eða sem innlegg á samfélagsmiðlum og fáir hafa áhuga eða aðstöðu til að geyma sín stafrænu gögn til langs tíma? Hvað verður um einkaskjöl framtíðar?
„Rannsókn á einkaskjalasafni Arnfríðar Þorkelsdóttur (1830-1885) lausakonu í Reykjavík.“
Arnfríður Þorkelsdóttir (1830-1885) fæddist í Reykhólasveit en bjó í Reykjavík um miðja öldina. Hún var í samskiptum við fólkið sitt í gegnum bréfaskriftir og eru þessi bréf nú varðveitt á Þjóðskjalasafn. Hér verður reynt að varpa ljósi á líf og störf Arnfríðar eins og hægt er, en Arnfríður er titluð lausakona í heiti skjalasafnsins. Þá verður sagt frá bréfriturum og umfjöllunarefni bréfanna í því skyni að varpa mynd af samfélaginu sem Arnfríður og samferðarmenn hennar bjuggu í.
„Varðveisla, aðgengi og rannsóknir á einkaskjalasöfnum í handritasafni Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns.“
Í handritasafni Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns eru varðveitt um 1.300 einkaskjalasöfn sem hafa borist safninu allt frá miðri nítjándu öld. Í erindinu verður fjallað um eðli þeirra og einkenni, söfnun og varðveislu og nýtingu í rannsóknarskyni. Jafnframt verður greint frá nýjum leiðum til að nálgast safnkostinn með rafrænum hætti.
„Eiríkur Hallsson, sálmar, rímur og sögusagnir. Varðveisla handritasafns frá 17. öld.“
Eiríkur Hallsson var í fremstu röð sálma- og rímnaskálda á 17. öld. Eiríkur fæddist að Höfða á Skagaströnd árið 1614, hann tók við prestembætti af föður sínum og bjó á staðnum til dauðadags 1698, þegar sonur hans hafði tekið við brauðinu. Eiríkur var gáfumaður, fornfróður en þótti harðbýll og féspar. Hann var vinsælt og afkastamikið skáld og mikið hefur varðveist af kveðskap hans í handritum, hvort sem er sálmum, sálmaþýðingum eða Biblíurímum. Eiríkur fékk misjafnt orð ungur og var umdeildur maður. Sögusagnir voru á kreiki varðandi óvænt andlát fyrri konunnar hans, Margréti Jónsdóttur, sem Eiríkur varðist alla ævi, meðal annars með kraftmiklu kvæði sínu Rógsvala.
Í fyrirlestrinum verður fjallað um handritageymd verka Eiríks og þau skoðuð í samhengi við ævi hans, sögusagnir og samfélagslega stöðu.