Frá kynferðislegum útlögum til fyrirmyndarborgara. Tengsl hinsegin kynverunda og þjóðernis á Íslandi 1944–2010

Í Hamri 203, föstudaginn 20. maí kl. 10.45-12.15.

Á Íslandi, líkt og í mörgum öðrum vestrænum löndum, var samkynhneigð oft lýst sem erlendri ógn á 20. öld og henni var þannig haldið fyrir utan sjálfsmynd þjóðarinnar. Þjóðernisorðræða átti því þátt í að jaðarsetja samkynhneigða í samfélaginu. Nýleg rannsókn hefur þó sýnt að á 21. öld er Íslandi gjarnan lýst sem „hinsegin útópíu“. Þannig virðist sem hinsegin fólk, í það minnsta samkynhneigðir, hafi verið innlimaðir í þjóðina. Í þessari málstofu er rannsóknarverkefnið Frá kynferðislegum útlögum til fyrirmyndarborgara. Tengsl hinsegin kynverunda og þjóðernis á Íslandi 1944–2010 kynnt til sögunnar. Það er samstarfsverkefni fjögurra fræðimanna sem skoða samtvinnun hinsegin kynverunda og þjóðernis í opinberri orðræðu og bókmenntum á Íslandi á tímabilinu 1944–2010 út frá kenningaramma hinsegin fræða og sögu kynverundar.

Í verkefninu er fjallað um mismunandi birtingarmyndir hinsegin kynverunda, svo og hvernig þeim var stýrt, í opinberri orðræðu (blöðum, tímaritum, sjónvarpi og orðræðu stjórnmála og læknisfræði) og bókmenntum (skáldsögum, smásögum, ljóðum og leikritum). Um leið kanna rannsakendurnir hvernig þessar birtingarmyndir tengjast þjóðernisorðræðu og hugmyndum um íslenskt þjóðerni. Verkefnið byggir á fræðilegum skrifum um andóf, sjálfsverund og hinsegin gjörningshátt við greiningu á atbeina hinsegin fólks, viðnámsorðræðu og afstöðu hinsegin fólks og félagasamtaka til þjóðernisorðræðu. Hinsegin kynverund í sögu Íslands og íslenskum bókmenntum er skoðuð um leið og viðfangsefnið er sett í norður-evrópskt samhengi. Verkefnið er þannig greining á íslensku þjóðerni frá hinsegin sjónarhorni.

Í málstofunni verður fjallað um nálgun og fræðilegan grunn verkefnisins í heild og þá ólíku verkþætti sem ætlað er að draga upp mynd af tengslum hinsegin kynverunda og þjóðernis á tímabilinu 1944–2010, svo sem rannsóknir á orðræðum um alnæmi á Íslandi á níunda áratug 20. aldar, birtingarmyndir HIV og alnæmis í íslenskum skáldverkum og innlimun hinsegin fólks í meirihlutasamfélagið í gegnum orðræður nýfrjálshyggjunnar.

Fyrirlestrar

  • Íris Ellenberger. „Frá kynferðislegum útlögum til fyrirmyndarborgara. Frá hugmynd til rannsóknar“
  • Hafdís Erla Hafsteinsdóttir. „Hórsótt og hamingjusamir borgarar Orðræður um alnæmi á Íslandi 1989-1994“
  • Ásta Kristín Benediktsdóttir. „Er skáldskapurinn besta sagnfræðin? Mánasteinn, Sjón og hinsegin saga 
  • Þorsteinn Vilhjálmsson. „Miðflóttaafl neyslumenningarinnar: Nýfrjálshyggja, þjóðkirkja og hjónaband samkynhneigðra á 1. áratug 21. aldar“

Málstofustjóri: Erla Hulda Halldórsdóttir

 
 

Útdrættir

Frá kynferðislegum útlögum til fyrirmyndarborgara. Frá hugmynd til rannsóknar 

Rannsóknir á hinsegin sögu á Íslandi eru tiltölulega nýjar af nálinni og hafa yfirleitt verið stundaðar af einyrkjum með mikinn áhuga á efninu en veikt stofnanalegt og fjárhagslegt bakland. Breyting varð á því í ársbyrjun 2020 þegar rannsóknarverkefnið Frá kynferðisútlögum til fyrirmyndarborgara fékk þriggja ára verkefnastyrk frá Rannís. Vinna við verkefnið hófst haustið 2020 og vinna nú fjórir fræðimenn, tveir doktorsnemar, nýdoktor og lektor, að rannsóknum sem varpa margþættu ljósi á tengsl hinsegin kynverunda og íslensks þjóðernis á tímabilinu 1944–2010. Í þessu erindi verður fjallað um verkefnið í stórum dráttum. Greint frá hugmyndinni að baki verkefninu, mótun hennar og loks framkvæmd. Fjallað um markmiðum, uppbyggingu og aðferðafræði auk þess sem komið verður inn á það alþjóðlega samstarf sem felst í verkefninu. Þá verður sagt frá nýnæmi verkefnisins og spáð fyrir um niðurstöður og afrakstur þess. 

Hórsótt og hamingjusamir borgarar. Orðræður um alnæmi á Íslandi 1989-19994. 

HIV-veirusýking er einn skæðasti sjúkdómsfaraldur síðari tíma. Lokastig hennar, sem almennt gengur nú undir nafninu alnæmi, gerði fyrst vart við sig í Bandaríkjunum á áttunda áratugnum og var þá talið áður óþekkt tegund sjálfsofnæmis. Á skömmum tíma breiddist þessi óþekkta ógn út og varð að heimsfaraldri. Í fyrstu virtist sjúkdómurinn helst herja á homma og aðra jaðarhópa og því var ímynd hans í blöðum og almennri umræðu sniðin eftir fordómafullum erkitýpum. Slíkt ýtti undir jaðarsetningu og fordóma gagnvart þeim hópum sem urðu hvað verst úti. Á Íslandi fór sjúkdómurinn að gera vart við sig nokkrum árum seinna. 

Í fyrirlestrinum verða ólíkar orðræður um HIV og alnæmi á Íslandi greindar. Skoðað verður meðal annars hvernig orðræða um kynvillu eða samkynhneigð sem smitandi, erlenda úrkynjun birtist í umræðum um sjúkdóminn, hvernig félagasamtök á borð við Samtökin ´78 brugðust við slíkri umræðu og hvernig hún mótaði baráttu samkynhneigðra og hinsegin fólks fyrir lagalegu og félagslegu jafnrétti. 

Mánasteinn: Drengurinn sem aldrei var til (2013) eftir Sjón er söguleg skáldsaga sem gerist árið 1918 og fjallar, eins og titillinn gefur til kynna, um drenginn Mána Stein Karlsson sem var aldrei til í ýmsum skilningi þess orðalags. Hið augljósa er að hann er skálduð persóna sem ekki er byggð á ævi tiltekins einstaklings en Máni er líka hinsegin og því fulltrúi þjóðfélagshóps sem var ekki til í þeim skilningi að tilvist hans og sögu var lengi vel hafnað eða ýtt til hliðar. Bókin er rituð í minningu frænda Sjóns sem var hommi og lést úr alnæmi snemma á tíunda áratugnum og hún hefur þannig skýrt pólitískt hlutverk: Að vekja athygli á þessum gleymda þjóðfélagshópi og gera tilraun til að fylla í sumar af þeim umfangsmiklu eyðum í mannkynssögunni sem verða til þegar sögu hinsegin fólks er sleppt. Í erindinu verður fjallað um þetta metnaðarfulla og vandasama sögulega verkefni Sjóns og sjónum beint bæði að Mána sjálfum og sögu hans en ekki síður ýmsum brotum úr íslenskri hinsegin sögu sem leynast í bakgrunninum. 

Á 1. áratug 21. aldar var ákveðin deila áberandi íslenskum fjölmiðlum, deilan um hvort og hvernig samkynhneigðir gætu gift sig innan vébanda íslensku Þjóðkirkjunnar. Þeim deilum lauk árið 2010 með setningu einna hjúskaparlaga. Eftir að þau lög tóku gildi fennti hratt yfir deilurnar. Í dag má segja að það ríki skilningsleysi á því af hverju nokkur hafi verið á móti einum hjúskaparlögum sem teljast svo gott sem sjálfsagður hlutur í íslensku samfélagi 12 árum síðar.

 

Í þessum fyrirlestri verður deilan skoðuð í nýju ljósi. Með því að lesa heimildirnar grannt má sjá að deilan snerist um annað og meira en mannréttindi gegn afturhaldi eða frjálslyndi gegn biblíubókstaf. Því verður haldið fram að deilan hafi verið til marks um djúpstæðan ágreining milli ríkis og kirkju og einkum snúist um tvennt: afstöðu til nýfrjálshyggju annarsvegar og spurninguna um hver færi með valdið yfir hjónabandsstofnuninni hinsvegar. Með tapi sínu í þessari deilu missti kirkjan miðlæga stöðu sína í hinu ímyndaða samfélagi íslensku þjóðarinnar, á meðan giftir, samkynhneigðir fyrirmyndarborgarar færðust nær miðju.