Frá trúarbragðaskyldu til trúfrelsis — Nýgerving trúar og kirkju á Íslandi á 19. öld

Í Hamri 202, föstudaginn 20. maí kl. 13.30-15.00.

Löngum voru ríki og kirkja samtengd og stýrðu flestum sviðum mannlífsins ofanfrá og niður. Trúarbragðaskylda var ein af stoðum stjórnskipunarinnar líkt og trúfrelsi er hluti nútímastjórnskipunar. Á einveldistímanum varð danskur konungur höfuð kirkjunnar og einráður um öll málefni trúarbragða samkvæmt gildandi stjórnlögum. Prestar voru einnig opinberir embættismenn í rúm 750 ár og störf þeirra stóðu í beinu samhengi við löggjöf í landinu og voru innt af hendi í umboði veraldlegs yfirvalds.  Prestar tóku til að mynda þátt í að dæma um réttindi manna að minnsta kosti fram á síðari hluta 18. aldar. Af þessum sökum verður kirkjusagan ekki skilin frá stjórnmálasögu landsins fyrr á tímum. Að jafnaði er þó ekki gerð grein fyrir þeim tengslum þegar saga stjórnskipunar er rakin.

Á 19. öld hófust umfangsmiklar breytingar á sviði trúarlífsins í takt við víðtæka nútíma- og lýðræðisvæðingu samfélags og menningar. Þjóðkirkja, trúfrelsi og fjölhyggja leystu trúarbragðaskyldu og ríkisátrúnað af hólmi. Uppbygging kirkjustofnunarinnar tók líka margvíslegum breytingum sem og hlutverk presta sem starfa nú á vegum þjóðkirkju sem að lögum er skilgreind sem trúfélag. Kenningar þýska guðfræðingsins Friedrichs Schleiermachers (1768-1834) höfðu mikil áhrif á þessa þróun í norðanverðri Evrópu og má skoða þjóðkirkju- og trúfrelsisákvæði stjórnarskrár okkar í ljósi þeirra. Þær má einnig greina í verkum áhrifamikilla einstaklinga á sviði íslenskrar kirkju á þessu skeiði.

Í málstofunni verður varpað ljósi á helstu þættina í trúarbragðaskyldu fyrri tíma og stiklað á stóru varðandi þróunina frá ríkisátrúnaði til frelsis og fjölhyggju.

Fyrirlestrar

  • Dr. Lára Magnúsardóttir. „Helstu vörður í þróun trúarbragðaskyldu og kirkju í stjórnmálasögu Íslands“
  • Dr. Skúli S. Ólafsson. „Matthías Jochumsson og únítarisminn. Fyrstu kynni Íslendinga af fjölhyggju?“
  • Hjalti Hugason, prófessor. „Trúfrelsi í framkvæmd 1874–1915. Um viðleitni til að útfæra ákvæði stjórnarskrárinnar 1874 með löggjöf og stjórnvaldsákvörðunum“

Málstofustjóri: Ævar Kjartansson mag. theol.

Útdrættir

Helstu vörður í þróun trúarbragðaskyldu og kirkju í stjórnmálasögu Íslands. 

Trúfrelsi var skilgreinandi hluti nýrrar stjórnskipunar á Íslandi; af því leiðir að andstæða þess var hluti stjórnskipunarinnar sem var fyrir í landinu. 

Fleiri rök eru fyrir því að fella trúmál undir stjórnmálasögu Íslands, einkanlega fyrir 19. öld. Nefna má rekstur opinberrar kirkjustofnunnar um aldaraðir sem hélt úti fleiri embættismönnum um allt land en nokkur önnur stofnun hefur haft yfir að ráða. Umfangsmiklar starfsskyldur, skýrar valdheimildir og dómstólar, sem lengst af störfuðu sjálfstætt samkvæmt sérstökum lögum en var þó samþætt veraldlegu valdi. 

Í fyrirlestrinum verða ræddar heimildir um helstu vörður stjórnmálasögu landsins sem varða trúarbragðaskyldu og stöðu kirkjunnar í stjórnskipun landsins. 

Matthías Jochumsson og únítarisminn. Fyrstu kynni Íslendinga af fjölhyggju? 

Matthías Jochumsson var næmur á þá hugmyndastrauma sem einkenndu samtíma hans. Á mótunarárum sínum hafði hann komist í kynni við áhrifamikla guðfræðinga sem gagnrýndu hefðir og játningar sinna kirkjudeilda. Haft er eftir Matthíasi að þótt Biblían sé stórmerkilegt rit þá eigi skaparinn „aðrar enn þá stærri og betri bækur, sem enn eru látnar mygla á hyllunni, meðan rétttrúnaðarfabrikkurnar berja þessa einu bók inn í fólkið – rétt eins og guð hafi ekkert satt orð talað, nema á milli hennar spjalda.” 

Í andófi sínu gegn ríkjandi trúarhefðum snerist hann m.a. á sveif með únitarisma. Sú trúarstefna hafnar hugmyndinni um heilaga þrenningu, er liggur m.a. til grundvallar guðfræði íslensku kirkjunnar. Einnig hafði róttkæk guðfræði Friedrichs Schleiermachers (1768-1834) mikil áhrif á Matthías. Schleiermacher talaði um að vitundin um Guð sé bundin tilfinningum og samofin mannlegri reynslu, fremur en fastmótuðum játningum. Kirkjan veiti ekki mælikvarða á rétta trú né eigi hún stunda trúboð. Hún eigi þvert á móti að vera vettvangur fyrir þessar sammannlegu kenndir. 

Íslenskt trúarlíf hafði lengst af verið fremur einsleitt en með Matthíasi komu nýjar hugmyndir fram á sjónarsviðið sem túlka má sem einn fyrsta vísi að fjölhyggju hérlendis. Í þessu erindi verður fjallað um merki þessarar guðfræði. Má skoða trúfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar í ljósi þeirra og þar með tilurð þjóðkirkjunnar. 

Trúfrelsi í framkvæmd 1874–1915 

Með stjórnarskránni um innanríkismál Íslendinga frá 1874 var þjóðinni veitt trúfrelsi. Í upphafi var það þó takmarkað og tryggði aðeins trúfélögum þeirra sem trúðu á guð (þ.e. guðstrúarmönnum) rétt til að iðka trú sína í samræmi við eigin sannfæringu. 

Með stjórnarskrárbreytingu 1915 var næsta skref í þróun trúfrelsis stigið þegar ljóst varð að frelsið náði einnig til þess réttar að standa utan allra trúfélaga og afneita með því allri trú. Þá var einnig tekið að huga nákvæmar að rétti þeirra sem nýttu sér þetta frelsi. 

Í fyrirlestrinum verður fengist við þróun trúfrelsis í landinu einkum á tímabilinu 1874–1915. Tímabilið verður þó sett í víðara sögulegt samhengi frá miðri nítjándu öld til fyrstu áratuga 21. aldar eða frumvarps Stjórnlagaráðs — „Nýju stjórnarskrárinnar“. 

Sérstaklega verður leitast við að varpa ljósi á að trúfrelsi komst ekki á í eitt skipti fyrir öll heldur var um hægfara þróun að ræða einkum á nítjandu og tuttugustu öld. Áhersla verður lögð á að kortleggja þróunina á upphafsskeiðinu — 1874–1915 — með dæmum um ýmis konar deilur, núning og átök sem gerðu vart við sig meðan trúfélög, trúarleiðtogar og stjórnvöld voru að fóta sig í þeim nýja veruleika sem stjórnarskráin boðaði. 

Málstofustjóri: Ævar Kjartansson mag. theol.