Handritamálið: bakgrunnur og framtíðarsýn

Í Hamri 206, föstudaginn 20. maí kl. 10.45 til 12.15.

Árið 2021 eru liðin 50 ár frá heimkomu handritanna og lyktum handritamálsins, einu stærsta milliríkjamáli Íslands á tuttugustu öld. Handritamálið var hluti af kröfu um skil handrita og skjala frá Danmörku sem má rekja allt til upphafs nítjándu aldar. Á málstofunni verður fjallað um jarðveg handritamálsins á nítjándu öld, deilur um sendingar á íslenskum handritum og skjölum til útlanda, innbyrðis átök Íslendinga, skil á skjölum úr dönskum söfnun til Íslands árið 1928, þátt handritamálsins í mótun íslensks þjóðernis á tuttugustu öld og horft til framtíðar.

Fyrirlestrar:

  • Bragi Þorgrímur Ólafsson: „Óþjóðlegt hugsunarleysi.“ Handritamál nítjándu aldar
  • Gottskálk Jensson: „Um skiptingu Árnasafns samkvæmt lögum danska þjóðþingsins frá 1965 og möguleikann á endurskoðun þeirrar skiptingar í ljósi núverandi aðstæðna“
  • Guðmundur Hálfdanarson „Hvar eiga handritin heima? Deilur um þjóðlegt tilkall til menningararfs“
  • Njörður Sigurðsson „Danska sendingin 1928, aðdragandi og eftirmálar“

Málstofustjóri: Már Jónsson.

Útdrættir

Handritamálið var meðal helstu utanríkisdeilna Íslendinga á tuttugustu öld. Saga þess er oft rakin í frásögnum af samningaviðræðum Dana og Íslendinga í kjölfar lýðveldisstofnunar 1944 sem ávaxtaðist í handritaskilunum 1971-1997. Málið var þó aðeins hluti af umfangsmikilli umræðu um skil á menningarminjum úr dönskum söfnum, því á fyrri hluta aldarinnar var einnig deilt um skil á skjölum og forngripum til Íslands sem flutt höfðu verið úr landi til Danmerkur í aldanna rás. Jarðvegur þessarar umræðu mótaðist á nítjándu öld, þegar þessir flutningar voru harmaðir í auknum mæli og þær raddir komu fram að fara ætti fram á skil Dana á handritum, skjölum og forngripum til Íslands. Sumir töldu þó að íslenskum handritum væri þrátt fyrir allt best komið í Danmörku þar sem þau nýttust helst til rannsókna. Í þessari umræðu komu því fram ólík sjónarhorn og voru Íslendingar ekki samstíga í þeim efnum. Í erindinu verður fjallað um viðhorf Íslendinga gagnvart flutningi handrita úr landi á nítjándu öld og þeim deilum sem þar komu fram.

Stóra handritamálinu, sem litaði samskipti Íslendinga og Dana allt frá lýðveldisstofnun til loka 20. aldar, lauk sem kunnugt er með tilfærslu mikils fjölda íslenskra handrita frá dönskum söfnum til Íslands. Krafan um afhendingu handritanna var sett fram af íslenskum stjórnvöldum með stuðningi flestra Íslendinga en ákvörðunin var tekin af danska þjóðþinginu með meirihlutastuðningi danskra kjósenda. Í huga margra Íslendinga sem og Dana var um réttlætismál að ræða, leiðréttingu á þeirri óþolandi þverstæðu að Íslendingar, hinir miklu sagnfræðingar Norðurlanda á miðöldum, ættu aðeins fá íslensk handrit í sínum söfnum í samanburði við þann mikla fjölda sem safnast hafði fyrir á Árnasafni og Konunglegu bókhlöðunni í Kaupmannahöfn. Árnanefnd vissi að íslensku handritin á Kaupmannahafnarháskóla voru eign Árnasjóðs sem stofnaður var á 18. öld til eignarhalds og umsýslu með arfi Árna Magnússonar og konu hans. Því lét nefndin sem stýrir eignum sjóðsins á það reyna fyrir hæstarétti Dana hvort sjóðurinn ætti rétt á endurgjaldi fyrir handritin. Niðurstaða réttarins var sú að ekki væri um eiginlegt eignarnám að ræða, sem kallaði á endurgjald, enda yrði Árnasjóður áfram eigandi handritanna þótt sjóðnum yrði skipt í tvær deildir samkvæmt nýju lögunum og Háskóli Íslands myndi framvegis varðveita aðra deildina, þá sem geymdi handrit sem teldust íslenskur menningararfur. Í þeim skilningi voru handritin ekki gjöf Dana til Íslendinga heldur var Háskóli Íslands viðurkenndur að dönskum lögum sem vörsluaðili Árnasjóðs við hlið Kaupmannahafnarháskóla. Í erindinu mun ég einnig velta fyrir mér þeim forsendum sem réðu deildarskiptingu safnsins í lögunum frá 1965 (og í ráðherrabókuninni frá 1986) og spyrja hvort þær forsendur bjóði upp á endurskoðun skiptingarinnar í ljósi núverandi aðstæðna hjá vörsluaðilum safnsins.

Eftir að Íslendingar slitu sambandinu við Dani með stofnun lýðveldis urðu kröfur um endurheimt íslenskra handrita úr dönskum söfnum æ háværari á Íslandi. Í augum Íslendinga var réttur þeirra til þessara gersema ótvíræður enda töldu þeir fornbókmenntirnar mikilvægasta menningararf íslenskrar þjóðar. Málið var þó ekki svo einfalt því að lengi hafði verið deilt um hver ætti menningararfinn sem geymdur var í þessum handritum. Þannig töldu bæði Norðmenn og Danir að ýmislegt sem ritað hafði verið á íslenskt bókfell væri allt eins norskur eða danskur og íslenskur arfur. Í fyrirlestrinum verða helstu atriði þessara deilna skýrð og færð rök fyrir því að við lausn handritadeilunnar hafi Íslendingar í raun gefið eftir og fallist á danskan skilning á þjóðlegri eign handritanna. 

Ísland, eins og margar þjóðir sem lutu valdi annarra ríkja í árhundruð, á sér sögu um skjalakröfur. Þekktasta málið er líklega handritamálið svokallaða á 20. öld. Annað mál, sem færri kannast við en er ekki síður merkilegt, var skjalaskiptasamningur sem gerður var við Dani og hefur verið kallaður á Íslandi Danska sendingin 1928. Í þeirri sendingu voru árið 1928 afhent til Þjóðskjalasafns Íslands skjöl úr Ríkisskjalasafni Danmerkur, Konungsbókhlöðunni, safni Árna Magnússonar og Hæstarétti Danmerkur. Um var að ræða mörg af dýrmætustu skjölum þjóðarinnar og grundvallarheimildir um sögu landsins á fyrri öldum. Skjalakröfur á hendur Dönum, sem leiddu til Dönsku sendingarinnar 1928, voru settar fram með vísan í mikilvægi þess að sögulegar heimildir um Ísland ættu réttilega að vera varðveittar hér á landi. Einnig blandaðist sjálfstæðisbaráttan inn í málið þar sem margir töldu að Ísland sem sjálfstætt ríki ætti rétt á að þessi gögn væru afhent til Íslands. Það að samningaviðræðunum lauk á farsælan hátt, þó 20 ár liðu frá því að þær voru fyrst settar fram og þar til samningar náðust, má m.a. rekja til þess að Danir voru tilbúnir að nálgast málið á samningsgrundvelli. Það er ekki alltaf staðan í sambærilegum málum annarsstaðar í heiminum.