Á heimilinu og í kjörklefanum. Kvennasögur í samhengi atbeina og borgararéttinda

Á undanförnum áratugum hafa fræðimenn lagt aukna áherslu á að skoða að hvaða marki borgararéttindi verða til og mótast utan hefðbundins vettvangs stjórnmálanna. Eins hefur umræðan hverfst um tækifæri ólíkra þjóðfélagshópa til að iðka þessi réttindi. Slík nálgun miðar að því að huga betur að þeim hindrunum sem gerðu það að verkum að stétt, staða, kynþáttur og kyn kjósenda hafði áhrif á möguleika þeirra til að nýta þau réttindi sem þeim höfðu verið fengin með lögum. Um íslensku hliðina á þessari sögu er fjallað í bókinni Konur sem kjósa. Aldarsaga. Í tengslum við ritun bókarinnar var efnt til rannsóknarverkefnisins: „Í kjölfar kosningaréttar. Félags- og menningarsöguleg rannsókn á konum sem pólitískum gerendum 1915–2015“, sem hlaut styrk frá Rannís. Rannsóknirnar sem kynntar eru í málstofunni eru afrakstur rannsóknarverkefnisins. Viðfangsefnin eru ólík en öll eiga það sameiginlegt að þar liggur atbeini kvenna og borgararéttindi til grundvallar: Að hve miklu leyti gátu þær nýtt sér borgararéttindi sín og hvernig voru þau takmörkuð í krafti ríkjandi hugmynda um kyngervi. Við sögu koma konur í óhefðbundnum samböndum þar sem spurt er um valdamynstur stéttar og kyns, spurningin um gerendahæfni kvenna í stjórnmálum og gamlar konur sem eru hvattar til að greiða atkvæði heima hjá sér og loks frelsið sem konur fundu eða áttu að finna með tilkomu pillunnar eftir 1960.

Málstofustjóri

  • Rakel Adolphsdóttir

Tengiliðir við stjórn Söguþings

  • Ragnheiður Kristjánsdóttir, ragnhk@hi.is og Erla Hulda Halldórsdóttir, ehh@hi.is

Fyrirlesarar

  • Erla Hulda Halldórsdóttir og Ragnheiður Kristjánsdóttir, „Ósjálfráðu atkvæðin. Viðhorf til kvenkjósenda og heimakosningarnar 1923 og 1944“ 
  • Kristín Svava Tómasdóttir, „„Jeg þvoði, af því jeg er ekki verslunarmær“. Stétt, kyn og náin sambönd í dagbók Guðlaugar Guðmundsdóttur vinnukonu“ 
  • Ása Ester Sigurðardóttir, „Fagnaðarefni og hættuspil. Fyrstu ár pillunnar á Íslandi“ 
 

Útdrættir

„Ósjálfráðu atkvæðin. Viðhorf til kvenkjósenda og heimakosningarnar 1923 og 1944“ 

Í fyrirlestrinum verður fjallað um heimagreidd atkvæði við alþingiskosningarnar 1923 og lýðveldiskosninguna 1944. Báðar þessar kosningar veita áhugaverða innsýn í þróun lýðræðis á Íslandi en einkum þó tækifæri kvenkjósenda til að nýta nýfengin réttindi. Unnið er út frá kenningum um borgararéttindi sem á undanförnum árum hafa í auknum mæli hverfst um tækifæri ólíkra þjóðfélagshópa til að iðka þessi réttindi. Færð eru rök fyrir því að íslenskum konum hafi ekki verið ætlað hlutverk sem sjálfstæðir pólitískir gerendur eftir að þær fengu kosningarétt og kjörgengi til Alþingis árið 1915. Þær voru boðnar velkomnar í kjósendahópinn svo lengi sem þær hefðu ekki veruleg áhrif á þróun íslenskra stjórnmála. Jafnframt verður fjallað um veika stöðu þeirra kjósenda sem minna máttu sín. Stéttarstaða og leifar af húsbóndavaldi gamla samfélagsins gátu haft afgerandi áhrif á möguleika fólks til að nýta kosningaréttinn.

 

„„Jeg þvoði, af því jeg er ekki verslunarmær“. Stétt, kyn og náin sambönd í dagbók Guðlaugar Guðmundsdóttur vinnukonu“ 

Um aldamótin 1900 réðist Guðlaug Guðmundsdóttir sem vinnukona til Þórunnar Ástríðar Björnsdóttur, ljósmóður í Reykjavík. Þær voru þá báðar á fimmtugsaldri og áttu eftir að búa saman í hálfan fjórða áratug, til dauðadags Þórunnar árið 1935. Heimildir sýna að samband þeirra var náið, jafnvel nánara en búast mætti við af húsmóður og hjúi, en markaðist samt sem áður af ólíkri samfélagsstöðu þeirra. Í erindinu verður rýnt í stöðu Guðlaugar gagnvart Þórunni, heimilislíf og

verkaskiptingu kvennanna tveggja, og aðferðum samtvinnunar beitt til að skoða hvernig valdamynstur stéttar og kyns birtast í dagbók Guðlaugar frá 1928 til 1929. Samband Guðlaugar og Þórunnar verður sett í samhengi við nýlega erlenda sagnaritun um sögu vinnuhjúa á fyrri hluta 20. aldar, þar sem verkalýðssaga mætir áherslu á samskipti og vald innan fjölskyldu og heimilis, og skoðað hvers konar atbeina og tækifæri til að móta líf sitt þessar tvær rosknu konur, vinnukonan og ljósmóðirin, höfðu hvor um sig á árdögum borgararéttinda kvenna á Íslandi.

„Fagnaðarefni og hættuspil. Fyrstu ár pillunnar á Íslandi“

Þegar getnaðarvarnarpillan kom fyrst á markað í Bandaríkjunum árið 1960 tóku margar konur henni fagnandi. Þannig var það einnig þegar hún barst til Íslands. Loks var komin örugg og þægileg getnaðarvörn sem var alfarið í höndum kvenna. En ekki voru allir sammála um ágæti pillunnar. Hún varð fljótlega umdeild, sérstaklega í tilliti til mögulega hættulegra aukaverkana sem henni fylgdu. Í fyrirlestrinum verður sjónum beint að fyrstu árum pillunnar hér á landi, einkum viðtökum hennar og viðhorfum til hennar eins og þau birtast í íslenskum blöðum og tímaritum.